Norðurlandskjördæmi eystra
Norðurlandskjördæmi eystra, náði frá Ólafsfirði í vestri til Langaness í austri. Í kjördæminu voru Eyjafjarðarsýsla, Suður-Þingeyjarsýsla og Norður-Þingeyjarsýsla. Frá 1987 til 1995 voru sjö þingmenn í kjördæminu en annars sex. Í 40 ár, frá 1959 til 1999 hafði Framsóknarflokkurinn 1. þingmann kjördæmisins. Lengi vel hafði Sjálfstæðisflokkurinn 2. þingmann kjördæmisins, að árunum 1979-1983 og 1999-2003 slepptum þegar Framsóknarflokkurinn hlaut 2. þingmann kjördæmisins, í fyrra skiptið hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 3. þingmanninn og í seinna skiptið þann fyrsta. 1987 buðu Samtök um jafnrétti og félagshyggju, einungis fram í Norðurlandskjördæmi eystra og fengu einn mann kjörinn á þing.
Við breytingu á kjördæmaskipan árið 1999 voru Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandskjördæmi sameinuð í eitt Norðausturkjördæmi, utan hvað Siglufjörður varð hluti Norðausturkjördæmis, en hafði áður verið í Norðurlandskjördæmi vestra, og Austur-Skaftafellssýsla, sem verið hafði hluti af Austurlandskjördæmi, varð hluti af Suðurkjördæmi.
Ráðherrar af Norðurlandi eystra
[breyta | breyta frumkóða]Magnús Jónsson, Björn Jónsson, Bragi Sigurjónsson, Ingvar Gíslason, Guðmundur Bjarnason, Steingrímur J. Sigfússon, Halldór Blöndal, Valgerður Sverrisdóttir og Tómas Ingi Olrich voru einnig ráðherrar hluta þess tíma sem þau sátu á þingi fyrir kjördæmið.