Mainz
Mainz | |
---|---|
Sambandsland | Rínarland-Pfalz |
Flatarmál | |
• Samtals | 97,76 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 89 m |
Mannfjöldi (2023) | |
• Samtals | 223.318 |
Vefsíða | www.mainz.de |
Mainz (eða Meginsborg) er höfuðborg þýska sambandslandsins Rínarland-Pfalz og er jafnframt stærsta borg sambandslandsins með tæpa 220 þúsund íbúa (2019). Mainz er háskólaborg, biskupsetur og aðsetur ýmissa sjónvarpsstöðva.
Lega
[breyta | breyta frumkóða]Mainz liggur við Rínarfljót austast í sambandslandinu, gegnt Wiesbaden í Hessen. Næstu borgir (fyrir utan Wiesbaden) eru Frankfurt am Main til norðausturs (25 km), Mannheim til suðurs (50 km) og Koblenz til norðvesturs (50 km).
Skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Skjaldarmerki Mainz eru tvö hvít hljól á rauðum grunni. Hjólin eru tengd með hvítum krossi. Hjólin komu fyrst fram um 1300, núverandi merki hefur verið óbreytt frá 1915. Tilurð hjólanna er ekki óyggjandi. Talið er að þau eigi uppruna sinn með biskupum kirkjunnar, enda var það talið merki heilags Marteins, sem er verndardýrlingur borgarinnar.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Heitið hefur breyst mjög mikið frá fyrstu tíð. Borgin hét upphaflega Mogontiacum á tímum Rómverja, sem er dregið af keltneska goðinu Mogon. Á 6. öld hét hún Moguntia, á 7. öld Magancia, við lok miðalda Maginze og Menze og þá kom einnig fyrst fram heitið Maintz, en einnig Menz og Maynz.[1]
Í hinum forna íslenska leiðarvísi pílagríma til Rómar, er borgin kölluð Meginsborg og í Mírmanns sögu er hún nefnd Meginza.
Saga Mainz
[breyta | breyta frumkóða]Rómverjar
[breyta | breyta frumkóða]Mainz var upphaflega rómversk herstöð. Hún var stofnuð 13 eða 12 f.Kr. af Drúsusi eldri, sem var herstjóri, stjórnmálamaður og stjúpsonur Ágústusar keisara. Úr herstöðinni varð borgin Mogontiacum, sem er með elstu borgum í Þýskalandi. Ein heimild nefnir árið 38 f.Kr. sem stofnár herstöðvarinnar og er það í dag viðurkennt sem stofnár borgarinnar Mainz. Borgin var landamæraborg í jaðri Rómaveldis við Rín, en á eystri bakkanum bjuggu germanir. Mainz var mikilvægasta herstöð við landamærin og 89 e.Kr. varð hún höfuðborg skattlandsins Germania Superior. Mainz átti eftir að halda status sinn sem höfuðborg fram til dagsins í dag, með nokkrum hléum. Á 4. öld réðust alemannar nokkrum sinnum á borgina. 357 náðu þeir henni á sitt vald, þar til Júlíanus (síðar keisari Rómaveldis) náði að frelsa hana tveimur árum seinna. Árið 368 var borgin orðin kristin en frá því ári eru elstu heimildir um biskupssetur þar. 407 fóru vandalir yfir Rínarfljót og eyddu borginni. Rómverjar bjuggu þó þar áfram allt til seinni hluta 5. aldar, er frankar og aðrir germanskir þjóðflokkar hröktu þá þaðan.
Miðaldir
[breyta | breyta frumkóða]Á tímum franka var Mainz enn mikilvægt biskupssetur. Á miðri 8. öld sendi Bonifatíus biskup kristniboða til Austur-Evrópu og til saxa. Eftirmaður hans varð Lúllus, en á hans tíma varð Mainz að erkibiskupssetri. Karlamagnús átti víða aðsetur. Eitt þeirra var ekki langt frá Mainz, en víst er að Karlamagnús hélt þing í Mainz og það gerðu eftirmenn hans einnig allt til Friðriks Barbarossa. Þegar frankaríkinu mikla var skipt í þrennt með Verdun-samningnum árið 843, lenti Mainz fyrst í miðríkinu, Lóþaringíu, en seinna í austurríkinu, sem var þýska ríkið. Þá varð Mainz orðið stærsta biskupssetur norðan Alpa. Biskuparnir þar urðu þá að kjörfurstum og ríkiskönslurum, og hélst þessi skipan allt til 1803. Þar með var Mainz orðin höfuðborg á ný. Erkibiskupinn hverju sinni varð jafnframt að staðgengli páfa norðan Alpa. Síðla á 9. öld varð Willigis erkibiskup einnig að ríkisstjóra fyrir hinn ómynduga keisara Otto III. Það með varð Willigis að einum voldugasta fursta Evrópu á sínum tíma. Skattpeningar streymdu til Mainz, sem upplifði mikið blómaskeið. 1184 bauð Friðrik Barbarossa keisari til veislu í Mainz, sem talin er mesta veisla miðalda. Tilefnið var að synir hans, Hinrik og Friðrik, voru slegnir til riddara. Nær allir furstar ríkisins voru viðstaddir, sem og 40 þús riddarar. Strax í kjölfar hennar fór hann þaðan í krossferð til landsins helga en drukknaði í þeirri ferð. Fjórir konungar þýska ríkisins voru krýndir í Mainz. Sá síðasti var Friðrik II árið 1218. Á konungslausa tímanum á miðri 13. öld stofnuðu borgirnar Mainz og Worms friðarbandalag gegn stríðandi fylkingum í ríkinu. Bandalag þetta kallaðist Rínarbandalagið (Rheinischer Städtebund) og gengu ýmsar borgir í bandalagið, allt 59 borgir.
Síðmiðaldir
[breyta | breyta frumkóða]Einn merkasti atburður borgarinnar Mainz átti sér stað 1450 en þá smíðaði Jóhannes Gutenberg prentvél með lausstafaprenti fyrstur manna. Prentvél þessi olli byltingu í bóka- og bæklingagerð um allan heim. Fimm árum síðar prentaði Gutenberg fyrstur manna Biblíuna með slíkri prentun. Ellefu eintök eru enn til af Gutenbergbiblíunni. 1459 varð Diether von Isenburg valinn erkibiskup og kjörfursti í Mainz. Hann fjandskapaðist hins vegar við bæði keisara og páfa á árunum á eftir. Páfi setti Diether af og valdi nýjan erkibiskup. En borgarbúar stóðu með biskupi sínum og meinuðu nýja biskupinum inngöngu. Nýi biskupinn, Adolf, náði að hertaka borgina 1462 og afnam öll réttindi borgarbúa. 1477 var háskólinn í borginni stofnaður og var hann starfræktur til 1823. Árið 1946 var hann endurstofnaður og heitir Johannes Gutenberg-Universität í dag.
Siðaskiptin
[breyta | breyta frumkóða]Í upphafi 16. aldar varð Albrecht nýr erkibiskup í Mainz. Hann var samtímis með háar stöður annars staðar í ríkinu og varð því að greiða páfagarði háar summur til að viðhalda embætti sínu í Mainz. Þessir aurar komu ekki síst af sölu aflátsbréfa en í Mainz starfaði Jóhann Tetzel, frægasti aflátssali ríkisins, af miklum eldmóði. Þetta leiddi meðal annars til þess að Marteinn Lúther hóf mótmæli sín, sem leiddu til siðaskiptanna. Í fyrstu var Albrecht biskup frekar hlynntur nýju trúnni, þar sem hann hafði orðið fyrir áhrifum húmanisma. En síðar ákvað hann að halda fast við kaþólska trú, enda hefði hann misst kjörfurstaembætti sitt og biskupsstólinn með nýju trúnni. Öll yfirstjórn borgarinnar viðhélst kaþólsk. 1552 réðist siðaskiptaher á ýmsar borgir í héraðinu. Þegar hann nálgaðist Mainz, flúði biskup og borgarstjórnin og stóð borgin varnarlaus eftir. Herinn tók borgina, rændi og ruplaði og eyðilagði margar byggingar. 1555 varð Daníel Brendel nýr erkibiskup. Hann bauð jesúítum til borgarinnar og hóf endurreisn kaþólsku kirkjunnar þar í borg. Þar með lauk tilraunum lúterstrúarmanna til að festa rætur í borginni. Fyrsti lúterski söfnuðurinn í Mainz var ekki stofnaður fyrr en 1802.
30 ára stríðið
[breyta | breyta frumkóða]Í upphafi stríðsins kom Mainz ekkert við sögu. Í borginni voru menn uppteknir við að reisa fagrar og glæsilegar byggingar en einnig að víggirða borgina. 1630 hófu Svíar þátttöku í stríðinu og voru þeir komnir til Mainz í október 1631. Erkibiskupinn flúði til Kölnar. Svíar hófu umsvifalaust umsátur um borgina, sem gafst upp eftir nokkurt samningsþóf. Svíar tóku því Mainz bardagalaust og gengu fylktu liði inn í borgina 23. desember 1631. Svíar létu borgarbúa í friði og leyfðu borgarráði að sitja áfram. Þeir kröfðust hins vegar gríðarlegs lausnargjalds og létu flytja ýmis menningarverðmæti til Svíþjóðar, svo sem bækur úr bókasafninu. Gústaf Adolf kom á trúfrelsi í borginni en flestir íbúar kusu að vera kaþólskir áfram. Gústaf lést 1632 og Svíar töpuðu í stórorrustunni við Nördlingen tveimur árum síðar. Í kjölfarið yfirgáfu Svíar Mainz. Síðustu sænsku hermennirnir yfirgáfu borgina 9. janúar 1636. Árið 1666 geysaði skæð pest í borginni. 1688 réðust Frakkar á Mainz í 9 ára stríðinu með 20 þús manns. Aðeins 800 hermenn voru til varnar og gáfust þeir umsvifalaust upp. Frakkar hertóku borgina í október og héldu henni í rúma átta mánuði, þar til keisaraher frelsaði hana.
Franski tíminn
[breyta | breyta frumkóða]Eftir frönsku byltinguna 1789 fór fram furstaþing í Mainz 1792 þar sem ráðgast var um að binda enda á byltinguna og hóta Frökkum. Franz II keisari sagði Frakklandi stríð á hendur. En Frakkar tóku Loðvík XVI af lífi og réðust inn í þýska ríkið. Í október náði byltingarherinn til Mainz. Biskupinn flúði, ásamt fjórðungi borgarbúa, aðallega heldra fólki. Borgarráð ákvað að gefast upp fyrir Frökkum, áður en þeir hæfu skothríð á borgina. Því hertóku Frakkar borgina bardagalaust en Mainz var fyrsta þýska stórborgin sem Frakkar náðu á sitt vald í stríðinu. Margir litu á innrásarliðið sem frelsara, þar sem Frakkar skildu biskupsdæmið að frá veraldlegri stjórnun. Ári síðar leyfðu þeir lýðræðislegar kosningar en í þeim var ákveðið að gera Mainz að lýðveldi. Það var stofnað 17. mars og var fyrsta lýðveldið á þýskri grundu í sögunni. En það stóð stutt yfir. Strax í apríl kom prússneskur her á vettvang og hóf umsátur um borgina. Prússar voru með 32 þúsund manna lið en í borginni voru rúmlega 20 þúsund Frakkar. Þegar Austurríkismenn komu með 11 þúsund manna lið skömmu síðar, hófst mikil skothríð á Mainz. Þjóðskáldið Goethe var einn sjónarvotta og bjó til ritaða heimild um atburðina (Die Belagerung von Mainz). 23. júlí gáfust Frakkar upp. Prússar réðu eftir það í borginni og leystu hið unga lýðveldi upp. 1797 voru Frakkar aftur á ferðinni og hertóku borgina bardagalaust. Þetta markaði endalok Mainz sem furstadæmi og höfuðborg (í bili). Biskupinn missti varanlega öll völd sín. 1803 lögðu Frakkar kirkjuvaldið endanlega niður en það hafði ríkt í borginni í rúm 1000 ár. Napoleon sjálfur var tíður gestur í Mainz. Hann lét umbreyta ásýnd borgarinnar, lét rífa margar byggingar og kirkjur, og breikka götur. Eftir hrakfarir hans í Rússlandi hófu Frakkar að draga sig til baka. Síðustu frönsku hermennirnir yfirgáfu Mainz 4. maí 1814. En sökum þess að ekki var komist að samkomulagi um það hver átti að ráða í héraðinu var ákveðið að Mainz skyldi lúta sameiginlegri stjórn þýskra fursta. 1816 var borgin svo innlimuð Hessen. Þessi ráðahagur hélst allt til 1918.
Iðnbylting
[breyta | breyta frumkóða]1848 brutust út óeirðir í borginni, er borgarbúar kröfðust meira frelsis, ritfrelsis, trúfrelsis og þings. Prússneskur her bældi óeirðirnar niður. Í kjölfarið féll borgin í lágdeyðu, sem gerði það að verkum að iðnbyltingin hófst mjög seint þar. Það var ekki fyrr en 1853 að Mainz fékk járnbrautartengingu og skánaði ástandið þá töluvert. Innan við tíu ár voru verksmiðjur orðnar 164 í borginni. 18. nóvember 1857 átti sér stað stórslys er Marteinsturninn, sem notaður var sem púðurturn og skotfærageymslu, sprakk í loft upp. Á augabragði eyðilögðust 57 byggingar næst turninum og aðrar 60 stórskemmdust. Höggbylgjan braut rúður víða í borginni, þar á meðal í dómkirkjunni. Hundruðir hermanna létu lífið, ásamt tugum borgarbúa. Þegar Prússar sigruðu Frakka í fransk-þýska stríðinu, var Alsace og Lorraine (Elsass og Lothringen) innlimað Prússlandi. Metz varð því að nýrri landamæraborg og var herstöðin í Mainz var þá lögð niður. Á 9. áratug 19. aldar voru borgarmúrarnir loks rifnir til að skapa byggingarpláss. Borgin hóf að þenjast út og náði íbúatalan 100 þúsund árið 1908. Á þessum tíma var gasstöð tekin í notkun, ný brú var reist yfir Rín, skipahöfn var lögð og rafmagn varð almennt notað. Hins vegar náði þungaiðnaður aldrei fótfestu í Mainz.
20. öldin
[breyta | breyta frumkóða]9. mars 1918 varð Mainz fyrir loftárásum í heimstyrjöldinni fyrri. Í nóvember lauk stríðinu og 8. desember hertóku Frakkar borgina enn einu sinnni. Þeir héldu borginni í tólf ár og yfirgáfu hana ekki fyrr en 1930. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir loftárásum á ný. Þær verstu áttu sér stað 27. febrúar 1945. Þá vörpuðu breskar flugvélar rúmlega 500 þús sprengjum yfir borgina. Árásin stóð aðeins í korter en borgin varð að einu stóru eldhafi. 60% af borginni var eyðilagður, þar af 80% af miðborginni. 22. mars hertóku Bandaríkjamenn borgina átakalaust, en hún var í franska hernámssvæðinu. Rín var landamærin að bandaríska hernámssvæðinu. Því missti Mainz nær allt landssvæði sitt fyrir austan Rín, sem innlimuð voru Wiesbaden. Frakkar lýstu Mainz höfuðborg hins franska Rínarlands, en sökum eyðileggingar þar voru skrifstofur settar upp í Koblenz í staðin. Það var ekki fyrr en 1950 að Mainz tók við hlutverki sínu sem höfuðborg Rínarlands-Pfalz. 1962 hélt borgin upp á 2000 ára tilveru sína. Ýmsir þjóðhöfðingar hafa sótt borgina heim. 1978 var Elísabet II þar, 1980 Jóhannes Páll II páfi, 2000 Jacques Chirac Frakklandsforseti og 2005 George W. Bush Bandaríkjaforseti.
Íþróttir
[breyta | breyta frumkóða]Íþróttafélagið Mainzer Turnverein er næstelsta íþróttafélag Þýskalands sem enn er starfandi. Það var stofnað 1817 og keppir í ýmsum íþróttagreinum.
Í hafnabolta er félagið Mainz Athletics meðal bestu félaga í greininni. Það er iðulega með í úrslitakeppninni og það varð þýskur meistari 2007.
Aðalknattspurnufélag borgarinnar er 1. FSV Mainz 05 sem komst í fyrsta sinn í 1. Bundesliguna árið 2004. Það hefur ekki unnið neina stóra titla.
Árlega fer fram Maraþonhlaup í Mainz, kallað Gutenberg-Marathon. Til hlaupsins var stofnað árið 2000, á nokkurn veginn 600. afmælisdegi Jóhannesar Gutenbergs. Hlaupið fer iðulega fram í maí.
Viðburðir
[breyta | breyta frumkóða]- Mainzer Fastnacht er stærsta karnevalshátíð Þýskalands og ein sú elsta. Elstu heimildir um Fastnacht (föstunótt) eru frá 13.öld og átti að koma í veg fyrir að fólk æti á sig gat daginn fyrir föstuvikuna fyrir páska. En við lok miðalda breyttist þetta í áthátíð og í dag er hér um eina mesta skrúðhátíð Þýskalands að ræða. Hátíðin hefst 11. nóvember og stendur yfir í nokkra mánuði. Hún er gjarnan kölluð fimmta árstíðin.
- Johannisnacht er heiti á hátíð sem er tengd Jóhannesi Gutenberg. Hún fer fram í júní og eru þá haldnir miklir bókamarkaðir, sýningar á prentiðju og fagurskrift. Nýútskrifaðir prentarar fá eldskírn. Í lokin eru útitónleikar, þar sem spiluð er dægurtónlist, popp og þungarokk. Hátín endar með flugeldasýningu.
- Weinmarkt er heiti á þriðju stórhátíð borgarinnar Mainz. Hér er um vínhátíð að ræða, sem hófst formlega 1932. Markmiðið var að laða ferðamenn til borgarinnar. Mainz er með mestu vínborgum Þýskalands og með hátíðinni var bæði hægt að selja vín í stórum stíl og laða að ferðamenn. Hátíðin er haldin mánaðamót ágúst-september.
Vinabæir
[breyta | breyta frumkóða]Mainz viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:
|
Frægustu börn borgarinnar
[breyta | breyta frumkóða]- (um 1397) Jóhannes Gutenberg prentari og uppfinningamaður lausstafaprentvélarinnar
Heiðursborgarar
[breyta | breyta frumkóða]Úrval þekktra heiðursborgara í Mainz:
- Bertel Thorvaldsen (1835) íslensk-danskur myndhöggvari
- Adolf Hitler (1933) kanslari og einvaldur þriðja ríkisins (ógilt árið 2002)
- Marc Chagall (1981) fransk-rússneskur málari
Byggingar og kennileiti
[breyta | breyta frumkóða]- Dómkirkjan í Mainz er keisarakirkja og var fyrst reist síðla á 10. öld að tilstuðlan biskupanna í borginni. Í kirkjunni hafa fjórir þýskir konungar verið krýndir. Í kirkjunni eru tvær grafhvelfingar og hvíla þar allmargir biskupar sem þjónað hafa í borginni.
- Osteiner Hof er stjórnarbygging sem reist var 1747-52 af Ostein-ættinni. Frakkar tóku bygginguna traustataki á byltingartímanum og síðan hefur byggingin verið þjóðareign. Það var á svölum þessa hús sem borgarbúum var tilkynnt um að stórstyrjöld væri hafin 1914. Húsið brann út í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari, en franska hernámsliðið lét gera það upp 1947/48. Í dag er húsið notað fyrir yfirmenn hersins á svæðinu. Árlega er karneval í Mainz opnað með ræðu á svölum hússins, 11.11. kl. 11.11.
- Járnturninn (Eisenturm) er varðturn og hlið úr gamla borgarmúrnum. Hann var reistur í upphafi 13. aldar og bætt við hann á 15. öld. Turninn dregur heiti sitt af gömlum markaði við hlið hans sem hét Eisenmarkt (járnmarkaður). Í loftárásum seinna stríðsins skemmdist hann mjög og var endurreistur á 7. áratugnum. Í honum eru listastofur og sýningarsalir í dag.
- Timburturninn (Holzturm) er sömuleiðis gamall varðturn og hlið úr borgarmúrnum. Hann var reistur í upphafi 15. aldar og þjónaði einnig sem fangelsi. Turninn skemmdist mjög í loftárásum seinna stríðsins og var endurreistur 1961 í tilefni af 2000 ára afmæli borgarinnar. Í turninum eru hin ýmsu félög með aðstöðu í dag. Nafn sitt dregur turninn af gömlum timburlager sem var við hliðina á honum áður fyrr.
- Dativius-Victor-boginn er gamall rómverskur bogi og minnisvarði. Hann var reistur á miðri 3. öld e.Kr. af sonum hundraðshöfðingjans Dativius Victor honum til heiðurs, en einnig til heiðurs keisara og guðsins Júpíters. Boginn er 6,5 metra hár og var notaður sem inngangur að súlnagöngum miklum sem nú eru horfin. Boginn hvarf undir gamla borgarmúrnum á miðöldum og kom ekki í ljós fyrr en 1900 þegar hlutar hans voru rifnir. Var þá boginn í nokkrum pörtum, en hann var ekki settur saman fyrr en 1978-81 og reistur þar sem hann stendur nú.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 177.