Cottbus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Cottbus Lega Cottbus í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Brandenborg
Flatarmál: 165,15 km²
Mannfjöldi: 99.700 (2019)
Þéttleiki byggðar: 603/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 75 m
Vefsíða: www.cottbus.de

Cottbus er næststærsta borgin í þýska sambandslandinu Brandenborg með 100 þúsund íbúa (2019). Borgin er stjórnmálalegur og menningarlegur höfuðstaður slavneskra sorba í Þýskalandi.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Cottbus liggur við ána Spree suðaustast í Brandenborg, aðeins steinsnar fyrir vestan pólsku landamærunum. Næstu borgir eru Berlín til norðvesturs (70 km), Frankfurt an der Oder til norðurs (50 km) og Dresden til suðvesturs (60 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Miðborg Cottbus

Skjaldarmerki Cottbus er rautt borgarvirki á hvítum grunni og skjöldur með rauðum krabba. Ekki er ljóst nákvæmlega hvað krabbinn á að sýna en hann var merki ráðamanna í Cottbus áður fyrr. Líklega stendur hann fyrir vernd (brynjan og klærnar).

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Borgin hét upphaflega Chotibuz og er nefnd eftir slavneska mannanafninu Chotebud. [1] Miklar vangaveltur eru uppi um rithátt heitisins. Margir vilja meina að skrifa ætti Cottbus með K-i en borgin sjálf heldur fast við ritháttinn með C-i.

Saga Cottbus[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Konur klæddar í þjóðbúningum sorba

1156 kom borgin fyrst við skjöl en þar kemur fram að markgreifinn Konrad von Meissen ætlaði að setjast að í slavavirkinu Chotibuz. 1199 eignuðust frankar borgina, en á næstu öldum skipti borgin oft um eigendur (ættir eins og Askanier, Wettiner Wittelsbach, Luxemburger). 1429 sátu hússítar frá Bæheimi um Cottbus, en borgin stóðst öll áhlaup. 1445 flúðu síðustu herrar borgarinnar til Friðriks II kjörfursta í Brandenborg, sem þar með eignast borgina. Hún verður hluti af kjörfurstadæminu Brandenborg/Prússland. Ekki voru þó allir sáttir við þann ráðahag. 1461 sat Zdenko frá Sternberg um Cottbus til að ná henni á sitt vald. Kjörfurstinn Friðrik II fór því á stúfana með her og sigraði Zdenko í harðri orrustu, þar sem báðir aðilar misstu marga menn. 1468 sló eldingu niður í borginni sem nær gjöreyðilagðist í miklum bruna. 1479 eyddi stórbruni borginni aftur.

Eyðilegging 30 ára stríðsins[breyta | breyta frumkóða]

1537 urðu siðaskipti í borginni. 1600 eyddi stórbruni nær allri borginni aftur. Bruninn eyðilagði ekki aðeins íbúðarhús, heldur allar kirkjur, ráðhúsið, skólann, kastalann og sjúkrahúsið. Aðeins níu minni hús stóðu heil eftir. Í kjölfarið gaf kjörfurstinn borgarbúum ókeypis byggingarefni og skattfríðindi næstu fimm árin fyrir að endurreisa borgina. Borgin mátti þola miklar hörmungar í 30 ára stríðinu. Wallenstein tók borgina 1626 og lét borgarbúa fæða her sinn. En 1631 hertók kaþólski hershöfðinginn Goetze borgina og rændi hana og ruplaði, og á endanum drap hann nær alla íbúa. Næstu fjögur árin komu ýmsir aðrir herir á svæðið og ollu enn meiri skaða. Í stríðslok voru aðeins um 700 manns eftir í borginni. Aðeins 23 árum seinna eyddi næsti stórbruni nær allri borginni.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Spremberg-turninn

1807 varð Cottbus hluti af konungsríkinu Saxlandi. En 1813, eftir mislukkaða herferð Napoleons til Rússlands, hertók Blücher hershöfðingi borgina aftur og innlimaði hana Prússlandi. Vínarfundurinn 1815 staðfesti að Cottbus skyldi áfram vera hluti af Prússlandi. 1866 fékk borgin járnbrautartengingu við Berlín. Í heimstyrjöldinni fyrri voru tvennar fangabúðir settar upp fyrir utan borgina. Í einum þeirra voru 10 þúsund rússneskir fangar. Cottbus varð að herstöð og þar var herflugvöllur lagður. 1932 kom Hitler til borgarinnar og hélt þrumandi ræðu á leikvanginum. 40 þúsund manns hlýddu hugfangnir á. Í heimstyrjöldinni síðari voru verksmiðjur í borginni látnar framleiða vopn. Því varð borgin fyrir miklum loftárásum. 1944 og 1945 voru loftárásir nær daglegt brauð. Um 60% borgarinnar eyðilagðist. Í apríl 1945 hertók rússneski herinn borgina eftir mikla bardaga. Af 55 þúsund íbúum í stríðsbyrjun voru aðeins 3.000 eftir í stríðslok. Cottbus varð hluti af rússneska hernámssvæðinu og tilheyrði því Alþýðulýðveldi Þýskalands við stofnun þess 1949. Árið 1976 náði íbúafjöldinn 100 þúsund og Cottbus varð stórborg. 1991 var tækniháskóli stofnaður í borginni.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Þekktasta íþróttafélag borgarinnar er Energie Cottbus. Knattspyrnulið karla náði þeim áfanga að komast í fyrstu Bundesliguna vorið 1999 og aftur 2003.

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Þjóðleikhúsið
  • Spremberg-turninn er einkennisbygging borgarinnar. Hann var hluti af gömlu borgarmúrunum og er elstu hlutar hans eru frá 13. öld. Napoleon lét rífa stóran hluta turnsins 1810-11. En 1824-25 var hann endurbyggður og til þess notað grjót frá nágrannaturni sem var rifinn. Samskeytin sjást afar vel. 1847 var gert gat í honum fyrir gangandi vegfarendur. Hann er opinn almenningi og er hægt að labba upp að innan upp í útsýnispalla í 28 metra hæð.
  • Þjóðleikhúsið er eina leikhúsið í Brandenborg sem er á vegum ríkisins. Það var reist í júgendstíl og vígt 1908 og var Minna von Barnhelm eftir Lessing fyrsta leikritið sem sýnt var. Í leikhúsinu fara fram leiksýningar, óperur, tónleikar og ballett.

Myndasafn[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 74.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]