Pforzheim

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Pforzheim Lega Pforzheim í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Baden-Württemberg
Flatarmál: 98,03 km²
Mannfjöldi: 126.000 (2019)
Þéttleiki byggðar: 1201/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 261 m
Vefsíða: www.pforzheim.de
Miðborgin í Pforzheim

Pforzheim er borg í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi. Íbúar eru tæplega 126 þúsund (2019). Borgin er þekkt fyrir skartgripa- og úrsmíði.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Pforzheim stendur við norðurjaðar Svartaskógs við ána Enz. Næstu borgir eru Karlsruhe fyrir norðvestan (20 km) og Stuttgart fyrir suðaustan (30 km).

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Heitið er dregið af latneska orðinu portus, sem merkir höfn en Rómverjar stofnuðu bæinn í upphafi. Líklegt er að heitið hafi verið lengra á tímum Rómverja.

Saga Pforzheim[breyta | breyta frumkóða]

Pforzheim 1643. Mynd eftir Matthäus Merian.

Miðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Rómverjar settust hér að á 1. öld e.Kr. og stunduðu siglingar á ánum Enz, Nagold og Würm. Í upphafi mun bærinn hafa verið lítill en á 3. öld var hann í örum vexti. Ókláraðar byggingar leiða líkum að því að alemannar hafi ráðist á bæinn um miðja 3. öld og hrakið Rómverja burt. Heitið Pforzheim kemur fyrst við skjöl 1067 en þá sótti keisarinn Hinrik IV bæinn heim. 1220 verður bærinn aðsetur markgreifans Ernst af Baden. Eftirmaður hans hélt veglega giftingarveislu í bænum, þegar hann gekk að eiga Katrínu frá Austurríki, systur Friðrik III keisara. Síðla á 15. öld var stofnaður latínuskóli í borginni en þaðan brautskráðust siðaskiptamenn eins Philipp Melanchton og Johannes Reuchlin.

Stríðstímar[breyta | breyta frumkóða]

30 ára stríðið hafði að mestu lítil áhrif á Pforzheim, en árið 1645, aðeins þremur árum áður en því lauk, kom keisaraher frá Bæjaralandi og sat um borgina. Borgin mátti sín lítils og því hertóku bæjarar hana, rændu hana og brenndu. Við uppbygginguna var öllum víggirðinum sleppt. Borgin hafðí lítið gildi næstu aldirnra. Í erfðastríðinu í Pfalz komu franskar hersveitir þrisvar til Pforzheim og brenndu hana til kaldra kola. Fyrst 1688, síðan tvisvar ári síðar. Í öll skiptin var Mélac hershöfðingi á ferðinni. 1691 og 92 rændu Frakkar borgina á nýjan leik.

Síðustu aldir[breyta | breyta frumkóða]

Benzinn sem fór í fyrstu langferð sögunnar

Árið 1767 hófst skartgripa- og úrsmíði og varð borginni mikil lyftistöng. Um 1800 var Pforzheim fyrsta iðnaðarborgin í Baden, en þá voru þar starfrækt 900 smáfyrirtæki. Í borginni var þá ein fremsta skartgripaframleiðsla heims. Árið 1836 fékk borgin járnbrautartengingu. Það þýddi endalok kænusiglinga þar en þær höfðu staðið yfir í mörg hundruð ár. Árið 1888 smíðaði Carl Benz bifreið í borginni Mannheim. Seinna á árinu tók eiginkona hans, Bertha, bifreiðina traustataki og keyrði henni alla leið til Pforzheim ásamt sonum sínum. Þetta reyndist vera fyrsta langferð bifreiðar í sögunni. Til minningar um þennan atburð var síðar reistur minnisvarði í Pforzheim. Í heimstyrjöldinni síðari voru settar upp stórar hergagnaverksmiðjur í borginni. Að minnsta kosti 10 þúsund borgarbúar störfuðu þar og þótti samt ekki nóg. Því varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum bandamanna í febrúar 1945. Nær öll borgin var gjöreydd og biðu tæplega 18 þús manns bana. Talið er að um 98% miðborgarinnar eyddust í þessari einu árás. Þetta var þriðji mesti mannsskaði stríðsins í loftárásum á Þýskaland (á eftir Hamborg og Dresden). Frakkar hertóku borgina í stríðslok en skiluðu henni til Bandaríkjamanna, þar sem hún var á þeirra hernámssvæði. Árið 1974 fór íbúatala borgarinnar yfir 100 þúsund.

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Litlar sem engar eldri byggingar eru til í Pforzheim sökum mikilla loftárása 1945. Helst er að nefna Mikjálskirkjuna (St. Michael) sem reist var 1219-1270 og stækkkuð tvisvar síðar. Í kirkjunni er grafhvelfing þar sem markgreifarnir frá Baden-Durlach liggja fram til 1860. Kirkjan stórskemmdist í loftárásunum 1945 og var lagfærð og tekin í notkun aftur 1957.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]