Fara í innihald

Þrjátíu ára stríðið

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá 30 ára stríðið)
Þrjátíu ára stríðið

Málverk af orrustunni við Hvítafjall eftir Peter Snayers.
Dagsetning23. maí 161815. maí 1648 (29 ár, 11 mánuðir, 3 vikur og 1 dagur)
Staðsetning
Mið-Evrópa
Niðurstaða

Vestfalíufriðurinn:

  • Spánverjar viðurkenna sjálfstæði hollenska lýðveldisins
  • Mótmælendatrú útrýmt víða í Habsborgaraveldinu
  • Furstum innan Heilaga rómverska ríkisins leyft að velja á milli lúterstrúar, kaþólskrar trúar og kalvínisma í ríkum sínum
  • Hollendingar viðurkenna spænsk yfirráð í Suður-Hollandi og Lúxemborg
Stríðsaðilar

Bandalag ríkja gegn Habsborgurum:
Konungsríkið Bæheimur
Kjörfurstadæmið Pfalz
Hertogadæmið Savoja
Transylvanía

Fáni Hollands Hollenska lýðveldið
Fáni Danmerkur Danmörk-Noregur (1625–29)
Fáni Englands England
Fáni Skotlands Skotland
Hesse-Kassel
Fáni Svíþjóðar Svíþjóð
Saxland
Brandenborg-Prússland
Brúnsvík-Lüneburg
Frakkland

Habsborgaraveldið og bandamenn þess:
Heilaga rómverska ríkið
Spánn

Ungverjaland
Fáni Danmerkur Danmörk-Noregur (1643–45)
Pólland
Leiðtogar
Friðrik 5.
Fáni Svíþjóðar Gústaf 2. Adólf
Fáni Svíþjóðar Axel Oxenstierna
Fáni Svíþjóðar Karl 10. Gústaf
Loðvík 13.
Anna af Austurríki
Richelieu kardináli
Mazarin kardináli
Fáni Hollands Mórits af Nassá
Fáni Danmerkur Kristján 4.
Fáni EnglandsFáni Skotlands Jakob 1. og 6.
Fáni EnglandsFáni Skotlands Karl 1.
Matthías
Ferdinand 2.
Ferdinand 3.
Albrecht von Wallenstein
Johan Tzerclaes Tilly
Gottfried Heinrich greifi af Pappenheim
Filippus 3.
Filippus 4.
Sigmundur 3.
Fjöldi hermanna
149.000 Svíar (1632)
135.000 Danir (1625)
120.000 Frakkar (1635)
77.000 Hollendingar (1629)
6.000 Transylvaníumenn
60.000 Tyrkir
Rúmlega 150.000 keisarahermenn (1635)
Allt að 300.000 Spánverjar
Um 20.000 ungverskir og króatískir riddarar
Mannfall og tjón
110.000 Svíar
50.000–60.000 Hollendingar
300.000 Frakkar
118.000 keisarahermenn
Alls um 8.000.000 manns látnir, þar af ~94% þegnar keisaradæmisins.

Þrjátíu ára stríðið var röð styrjalda sem átti sér stað í Þýskalandi á árunum 1618 til 1648. Öll helstu stórveldi Evrópu drógust inn í átökin. Lengi vel var stríðsins minnst sem skæðustu styrjaldar sem Evrópa hafði háð fram til Napóleonsstyrjaldanna. Herfarir hluteigandi og plágur sem þeim fylgdu lögðu mörg héruð Þýskalands því sem næst í auðn.


Aðdragandi

[breyta | breyta frumkóða]
Ferdinand 2. keisari hins Heilaga rómverska ríkis.

Augsborgarfriðurinn (1555) staðfesti að þýsku furstarnir (225 að tölu) gætu valið héruðum sínum trú (lútherstrú eða kaþólska trú) samkvæmt skilyrðinu cuius regio, eius religio í Hinu heilaga rómverska keisaradæmi sem náði á þeim tíma yfir Þýskaland, Austurríki, Ungverjaland og Bæheim. Keisarinn var kosinn til ævilangrar setu af sjö kjörfurstum sem voru greifinn í Pfalz, hertoginn af Saxlandi, markgreifinn af Brandenburg og konungurinn í Bæheimi, auk erkibiskupanna í Mainz, Trier og Köln. Keisaradæmið var í reynd orðið erfðaveldi Habsborgara sem fylgdi hertogadæminu í Austurríki. Hertoginn af Austurríki var auk þess venjulega einnig konungur Ungverjalands og Bæheims, en þar með hafði hann eitt atkvæði við kjör nýs keisara.

Í kringum árið 1615 var ljóst að til átaka myndi koma í Evrópu. Spánn stefndi að því leynt og ljóst að leggja undir sig Holland sem gert hafði uppreisn gegn Spáni 1561 og lýst yfir sjálfstæði árið 1581 með fulltingi Breta. Spænsku Niðurlönd voru enn undir leppstjórn Spánar, þar sem Habsborgarar voru við völd, og gerður hafði verið vopnahléssamningur árið 1609 sem átti að gilda til 1621. Til þess að koma her og hergögnum frá Spáni til Spænsku Niðurlanda þurftu Spánverjar að geta ferðast eftir Rínarfljóti, en þar var fyrir þeim kjörfurstinn í Pfalz sem var kalvínisti. Ljóst var að bæði Frakkar og Bretar myndu gera það sem þeir gætu til að standa gegn fyrirætlunum Spánverja. Það bjuggust því allir við að styrjöld hæfist árið 1621 og að hún myndi eiga sér stað í Niðurlöndum og við Rínarfljót. Raunin varð hins vegar allt önnur.

Uppreisnin í Bæheimi (1618-1625)

[breyta | breyta frumkóða]
Vetrarkonungurinn Friðrik V

Matthías keisari og konungur Bæheims, sem verið hafði umburðarlyndur gagnvart framsókn mótmælendatrúar, tilnefndi árið 1617 Ferdinand af Styrju sem eftirmann sinn í embætti. Ferdinand þótti óbilgjarn kaþólikki og hafði bælt niður mótmælendur í hertogadæmi sínu. Í Bæheimi voru á þessum tíma margir kalvínistar auk hússíta og útrakista sem voru umbótahreyfingar innan kaþólsku kirkjunnar en litnar hornauga af henni. Þótt Habsborgarar hefðu ríkt sem konungar í Bæheimi óslitið frá 1526 var konungurinn samt kosinn af háaðlinum. Þegar Ferdinand sendi tvo sendimenn til Prag árið 1618 til að undirbúa kjör sitt, var þeim hent út um glugga á konungshöllinni af mótmælendum. Þeir lentu að vísu mjúklega í heyi (eða skít, í sumum heimildum). Aðallinn kaus svo Friðrik V, kjörfursta í Pfalz, sem konung yfir Bæheimi.

Bæheimska uppreisnin breiddist út til nærliggjandi héraða, Slésíu, Mæri og Lausitz og furstinn í Transylvaníu, Bethlen Gábor réðist inn í Ungverjaland til stuðnings mótmælendum. Í Bæheimi flýðu kaþólikkar til borgarinnar Pilsen og bjuggust til varnar. Hershöfðinginn Ernst von Mansfeld tók borgina 21. nóvember 1618. Mansfeld hafði verið sendur til aðstoðar uppreisnarmönnum af hertoganum af Savoja sem einnig óttaðist innrás Spánverja.

Orrustan við Hvítafjall

Friðrik var greifi af Pfalz og kalvínisti og því álitinn sjálfsagður útvörður mótmælenda á Rínarfljóti gegn yfirvofandi innrás Spánverja. Auk þess þótti ljóst að Ferdinand myndi ekki sætta sig við að missa konungdóm í Bæheimi. En þótt Friðrik væri lattur til þess, hélt hann engu að síður til Prag til að taka við konungdómi um haustið 1619. Hann ríkti sem konungur um veturinn 1619-1620 (hann var síðar kallaður „vetrarkonungurinn“) en krýning hans fór fram haustið eftir. Í millitíðinni hafði Ferdinand verið kosinn keisari, eftir málamyndamótmæli frá fulltrúa Pfalz, og gert bandalag við hinn kaþólska Maximilian I af Bæjaralandi. Með blessun hins lútherska Jóhanns Georgs af Saxlandi, sendu þeir saman herlið til Bæheims undir stjórn Tillys hershöfðingja. Mansfeld var sigraður í orrustu við Sablat og hvarf af vettvangi með leifar liðs síns. Herir keisarans unnu síðan endanlegan sigur yfir uppreisnarmönnum í orrustunni við Hvítufjöll 8. nóvember 1620, einungis tveimur mánuðum eftir krýningu Friðriks. Friðrik þurfti að flýja í útlegð og eyddi næstu árum í að afla stuðnings við kröfu sína um konungdóm í Bæheimi. Í Bæheimi fóru fram svo umfangsmiklar trúarhreinsanir að mótmælendaaðallinn hvarf algerlega og Bæheimur varð rómversk-kaþólskur eftir. Lönd mótmælendafursta voru tekin og seld kaþólskum aðalsmönnum eins og Albrecht von Wallenstein. Her Tillys hélt áfram herför sinni til Pfalz og lagði Rínarhéruðin undir sig með stuðningi Spánverja 1623. Maximilian af Bæjaralandi var gerður að kjörfursta sama ár.

Stutt ævintýri Danakonungs (1625-1629)

[breyta | breyta frumkóða]
Kristján IV Danakonungur

Kristján IV hafði árið 1613 unnið sigur gegn Gustav Adolf II Svíakonungi í Kalmarófriðnum. Eftir orrustuna við Hvítufjöll hafði hann náð að nýta sér ótta mótmælenda til að tryggja syni sínum erkibiskupsstól í Bremen-Verden og neytt Hamborg til að samþykkja dönsk yfirráð yfir Holtsetalandi. Á þessum tíma var Gustav Adolf upptekinn í átökum við frænda sinn Sigmund Vasa III konung Póllands. Kristján IV ætlaði sér að tryggja dönsk áhrif í héruðunum við Saxelfi og einnig tryggja að Gustav tæki ekki frumkvæðið sem verndari mótmælenda í Þýskalandi.

Albrecht von Wallenstein

Þann 5. maí 1625 réðist Kristján IV inn í Þýskaland með 15-20.000 manna herlið og fjárstuðning frá Frökkum. Mansfeld, sem þá hélt sig í Hollandi, hélt liði sínu til stuðnings Kristjáni. En Wallenstein, sem hafði hagnast verulega á hreinsununum í Bæheimi, bauð keisaranum þjónustu sína og hélt gegn Mansfeld með um 50.000 manna liðssafnað og gjörsigraði hann við Dessau 25. apríl 1625. Þann 27. ágúst 1626 tapaði Kristján svo orrustu gegn Tilly við Lutter am Barenberg, missti meginhluta riddaraliðs síns, þar á meðal Enevold Kruse sem hafði verið hirðstjóri á Íslandi, og flýði undan herjum keisarans til Sjálands. Wallenstein rak flóttann og hertók Jótland en komst ekki yfir á eyjarnar þar sem hann hafði engan flota. Þess í stað settist hann um Stralsund (Strælu) sem hefði gefið honum aðstöðu til að koma upp flota á Eystrasalti. 1. janúar 1628 gerði Kristján bandalag við Svía og sameinuðum flota Svía og Dana tókst að aflétta umsátrinu. Í maí 1629 náði Kristján að semja frið við keisarann í Lübeck án þess að láta eftir lönd og dró sig endanlega út úr stríðinu í Þýskalandi.

Eftir þessa sigra gaf keisarinn út fyrirmæli 1629 um að þau lönd sem höfðu verið kaþólsk við Ágsborgarfriðinn 1555 en höfðu síðar gerst mótmælendatrúar, skyldu nú verða kaþólsk biskupsdæmi á ný og að kaþólska kirkjan fengi aftur lönd sem furstarnir höfðu gert upptæk á þessum tíma. Þessi skipun varð til þess að stríðið hélt áfram, þar sem hún þýddi að margir mótmælendafurstar hefðu misst umtalsverðan hluta af löndum sínum.

Sænsk íhlutun (1630-1635)

[breyta | breyta frumkóða]
Gustav Adolf II konungur Svía
Tilly hershöfðingi

Árið 1630 sagði keisarinn Wallenstein upp störfum sem hershöfðingja. Wallenstein réði þá yfir her sem taldi fleiri en 100.000 manns, sem var stærri her en nokkur hafði áður safnað saman, þótt stór hluti hans hafi vafalaust verið flóttafólk frá stöðum sem Wallenstein hafði sjálfur lagt í rúst með hernum. Ferdinand óaði við því veldi sem hershöfðinginn hafði komið sér upp og kærði sig ekki um að hann færi út í uppbyggingu flota á Eystrasalti, eins og hann hefur líklega ætlað sér. Niðurstaða þessa var að Wallenstein lét Tilly eftir stjórn hersins og sneri aftur til landa sinna í norðurhluta Bæheims, sem hann kallaði Friedland.

12. janúar 1628 hafði sænska þingið gefið konunginum, Gustav Adolf II, heimild til að taka þátt í styrjöldinni í Þýskalandi. 1629 gerði hann vopnahlé við Pólverja og sá sér leik á borði að stíga fram á völlinn sem verndari mótmælenda í Þýskalandi, niðurlægja í leiðinni Kristján IV og tryggja sér fótfestu í Pommern. Auk þess reri Richelieu kardináli að því öllum árum að fá hann til að ráðast inn í Þýskaland til að draga úr veldi Habsborgara, sem nú virtust ósigrandi, bæði í Þýskalandi og á Spáni. Frakkar hétu Svíum háum upphæðum í stríðsstyrk í þessum tilgangi.

Þann 25. júní 1630 sté Gustav Adolf á land á Rügen (Ré) með mikið lið vaskra og vel þjálfaðra hermanna, riddara og skyttna. Gustav var fljótur að tryggja sér bandalag við kjörfurstana í Saxlandi og Brandenburg og sjá til þess að peningar héldu áfram að streyma frá Frakklandi. Hann mætti her Tillys við Breitenfeld 17. september 1631 og hafði afgerandi sigur þótt saxneskir bandamenn hans flýðu af hólmi í miðri orrustu. Ári síðar mætti hann Tilly aftur við Lech-fljótið þar sem Tilly féll 30. apríl 1632.

Gustav Adolf var þekktur fyrir að skipa her sínum þannig að skytturnar voru innanum riddaraliðið og skutu með fram eða yfir hestana. Einnig hafði hann þjálfað skyttur sínar til að stilla sér upp í raðir þannig að þeir fremstu fóru aftast til að hlaða þegar þeir voru búnir að hleypa af, en heildin skaut viðstöðulaust. Gustav Adolf notaði aðra nýjung sem voru léttar leðurfallbyssur sem reyndust illa þegar á hólminn var komið. Með þessum tækninýjungum náði konungur undraverðum árangri í fyrstu átökunum, en andstæðingar hans lærðu fljótt og brátt náði blönduð skipan riddaraliðs og skyttna miklum vinsældum í báðum herjum, ef því varð við komið. Einkum byggði Svíakonungur þó á því að hersveitir hans voru ferskar, vel þjálfaðar og agaðar. Með tímanum varð her hans þó brátt mjög blandaður málaliðum og flóttafólki sem börðust fyrir ránsfeng eins og aðrir herir. Eftir því sem á leið fækkaði í úrvalssveitunum og orðstír Svía fór hratt versnandi.

Fall Gustavs Adolfs við Lützen 1632

Um þetta leyti virtist Gustav Adolf vera ósigrandi og keisarinn sá sér þann einn kost að kalla aftur á Wallenstein. Þá um vorið náði Wallenstein að safna miklu liði á fáum vikum og fór gegn her Svía, sem þá höfðu með góðum árangri hertekið mikið svæði í norðurhluta Bæjaralands þangað sem styrjöldin hafði ekki fyrr náð. Wallenstein og Gustav mættust við Lützen nálægt Leipzig. Svíar héldu orrustuvellinum, en konungur féll. Harmi slegnir Svíarnir ákváðu að reka ekki flóttann til að eyða óvinahernum, eins og hefði verið ráðlegt. Axel Oxenstjerna tók við stjórn hersins, og Kristín, dóttir konungs, tók við stjórn Svíþjóðar. Keisaraherinn náði að safnast saman á ný og tveimur árum síðar gerðu þeir út um frekari íhlutun Svía í orrustunni við Nördlingen 5. september 1634 undir stjórn Ferdinands kardinála sonar Spánarkonungs og Ferdinands konungs Ungverjalands elsta sonar keisarans. Fyrr um árið (25. febrúar 1634) hafði Wallenstein verið myrtur að ósk keisarans, grunaður um landráð vegna tilrauna hans til að semja um frið milli fylkinganna.

„Sænska tímabilinu“ svokallaða lauk með því að þýsku furstarnir gerðu með sér friðarsamning í Prag í maí árið 1635. Samningurinn fól í sér að eignir kaþólsku kirkjunnar frá því fyrir Ágsborgarfriðinn yrðu ekki endurheimtar, að þýsku furstadæminn skyldu ekki halda sérstaka heri, að þýsku furstunum væri bannað að mynda bandalög sín á milli og að kalvínismi væri löglegur. Með þessu var bundinn endir á bandalög furstanna við Svía, og keisaradæmið gat virst sameinað við bak Ferdinands. Samningurinn dugði samt ekki til að stöðva átökin í Þýskalandi.

Lokakafli átakanna (1636-1648)

[breyta | breyta frumkóða]
Orrustan við Rocroi 1643

Með friðarsamningunum í Prag var staða sænska hersins, undir stjórn Johans Banér, orðin nokkuð vafasöm. Oxenstjerna tók því þá ákvörðun að kalla Frakka til stuðnings. Richelieu hafði enn miklar áhyggjur af styrk Habsborgara og átti frumkvæði að bandalagi milli Svía, Hollendinga og Frakka. Á móti sendi Spánn herlið inn í Frakkland og Þýskaland. Her Spánar var almennt talinn sá sterkasti í Evrópu á þeim tíma, enda stærsti atvinnuher sem til var. Í fyrstu náðu Spánverjar góðum árangri gegn óöguðum frönskum aðalsmönnum. Spænski herinn sótti inn í Frakkland og nálgaðist París en 1638 tókst Bernard af Saxe-Weimar að hrekja Spánverja burt og valda þeim þungum búsifjum í röð orrusta sem þó náðu ekki að gera út um stríðið.

Richelieu kardínáli lést árið 1642 og ári síðar tók Mazarin kardínáli við sem ráðsmaður hins barnunga Loðvíks XIV þegar hann tók við völdum 14. maí 1643. Fimm dögum síðar unnu Frakkar frægan sigur á Spánverjum í orrustunni við Rocroi. Mazarin hóf að reyna að koma á friði, enda ljóst að Þýskaland var rústir einar og Spánn yrði þess seint umkominn að hertaka Holland.

Við lát Banérs 1641 varð Lennart Torstenson yfirhershöfðingi sænska hersins í Þýskalandi. 1642 hóf hann herför um Brandenburg, Slesíu og Mæri og gjörsigraði her keisarans við Breitenfeld 23. október 1642. 1643 var hann skyndilega kallaður til að gera innrás í Danmörku Kristjáns IV í stríði sem kallað hefur verið Torstensonófriðurinn en ári síðar réðist hann aftur inn í Þýskaland og vann sigra á her keisarans sem virtist alveg heillum horfinn.

14. mars 1647 gerðu Frakkar, Svíar, Bæjaraland og Köln með sér vopnahlé. Um haustið braut Maximilian vopnahléð og endurnýjaði bandalag sitt við keisarann. Sameinaðir herir Frakka og Svía réðust þá inn í Bæjaraland 1648 og sigruðu her keisarans. Friðarviðræður undir stjórn Mazarins fylgdu í kjölfarið.

Friðarsamningarnir í Vestfalíu

[breyta | breyta frumkóða]
Undirritun friðarsamninganna í Vestfalíu 1648

Friðarsamningar voru gerðir milli stríðandi fylkinga í borgunum Münster og Osnabrück í Vestfalíu. Borgirnar voru tvær þar sem leiðtogar mótmælenda og kaþólikka neituðu að hittast. Samningurinn sem batt enda á stríð Spánar og Hollands var undirritaður 30. janúar, en sá sem tók til Frakka, Svía og keisaradæmisins þann 24. október. Skilyrði samningsins voru að miklu leyti runnin undan rifjum Mazarins kardínála og tóku fullt tillit til landakrafna Frakka og Svía. Helstu atriði samninganna voru:

Mazarin kardínáli
  • Friðarsamningarnir frá Prag og Ágsborg urðu hluti af samningnum.
  • Sviss og Holland voru viðurkennd sem sjálfstæð ríki.
  • Frakkland fékk héraðið Elsass utan Strassborg og Mülhausen, auk biskupsdæmanna Metz og Tourdun og eitt atkvæði við kjör keisara.
  • Svíþjóð fékk Vestur-Pommern og biskupsdæmin Bremen og Stettin og eitt atkvæði við kjör keisara.
  • Bæjaraland fékk atkvæði við kjör keisara.
  • Þýsku furstadæmin (um 360 að tölu) fengu rétt til að reka sjálfstæða utanríkisstefnu, en máttu ekki fara í stríð við keisaradæmið.
  • Bannað var að kjósa eftirmann keisarans meðan hann var á lífi.
  • Pfalz var skipt milli sonar Friðriks V, Karls Loðvíks, og Maximilians I af Bæjaralandi.

Í stjórnmálasögu er gjarnan (með nokkurri sögulegri ónákvæmni) talað um ríkjakerfi Evrópu sem byggir á sjálfsákvörðunarréttinum og samskiptum milli sjálfstæðra ríkja sem „Vestfalíukerfið“. Vestfalíufriðurinn festi vissulega í sessi mörk ríkja sem við þekkjum í dag og fól í sér viðurkenningu á sjálfstæði Hollands og Sviss og gerði að Hið heilaga rómverska keisaradæmi varð vart meira en nafnið eitt, en hugmyndir þess tíma eru engu að síður langt frá þeim þjóðríkishugmyndum sem síðar komu fram. Vestfalíufriðurinn gekk fyrst og fremst út á samskipti milli voldugra ættarvelda sem einokuðu stjórnmálalífið á 17. öld. Engu að síður er þrjátíu ára stríðið (ásamt einveldishugmyndum) eitt af þeim skrefum sem stigin voru á þessum tíma í átt til þjóðríkja 19. og 20. aldar. Með friðarsamningunum hefst tímabil alþjóðasamskipta og utanríkisstefnu í Evrópu.

Eyðilegging stríðsins

[breyta | breyta frumkóða]
Bóndi biður hermann griða

Þýsku héruðin urðu mjög misilla úti í styrjöldinni. Sum, eins og Hamborg, náðu að styrkja stöðu sína og sluppu við öll átökin, en önnur misstu allt að helming íbúa sinna. Taka verður tillit til þess að í Þrjátíu ára stríðinu notuðu stríðandi fylkingar markvisst prentaða áróðursbæklinga til að útmála mannvonsku andstæðingsins og eymd fórnarlambanna. Því verður að taka t.d. tölum um mannfall með nokkrum fyrirvara. Engu að síður er ljóst að ástandið á stöðum eins og Pommern, Würzburg og Pfalz, Brandenburg, Bæjaralandi og Bæheimi, var skelfilegt eftir stríðið, og fólksfækkun af völdum stríðsins meiri en helmingur allra íbúa.

Umsátrið um Magdeburg 1631

Beinn orsakavaldur fólksfækkunar voru herfarir hershöfðingjanna fram og aftur um sömu héruðin með heri sem sumir voru illa launaðir málaliðaherir sem börðust fyrir ránsfeng. Venjan var þegar stríðsaðilar urðu uppiskroppa með fé til að greiða hermönnunum, þá gáfu þeir leyfi til að taka ránsfeng í bæjum og borgum sem fyrir þeim urðu. Þetta gat leitt til öldu ofbeldis, nauðgana og morða, þegar hermennirnir fóru hömlulaust að reyna að kreista þau verðmæti sem þeir gátu út úr borgurum og bændalýð. Til er áhrifamikil lýsing á eyðingunni í Magdeburg þegar borgin féll fyrir her Tillys og Pappenheims 20. maí 1631. Af 20.000 manna íbúafjölda borgarinnar voru 400 eftir og borgin brunnin til grunna, eftir að herirnir höfðu farið um hana ránshendi stjórnlaust.

Óbeinir orsakavaldar voru hungursneyðir og sjúkdómar. Herfarirnar leiddu til þess að uppskeran eyðilagðist og búfénaði var slátrað fyrir hermennina. Þannig urðu mörg sveitahéruð illa úti og fólkið lagðist í flakk og bættist jafnvel í raðir hersins sem hafði eyðilagt fyrir því lifibrauðið þegar hann færði sig yfir í næsta hérað. Herirnir voru þannig samasafn eiginlegra hermanna, málaliða og manna sem neyddir höfðu verið í herinn, hestasveina og þvottakvenna, gamalmenna og barna. Við þetta mynduðust svo kjöraðstæður fyrir útbreiðslu sjúkdóma eins og taugaveiki, iðrakreppu og kýlapest.