Fara í innihald

Münster

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Münster
Skjaldarmerki Münster
Staðsetning Münster
SambandslandNorðurrín-Vestfalía
Flatarmál
 • Samtals303,28 km2
Hæð yfir sjávarmáli
60 m
Mannfjöldi
 • Samtals315.000 (2.019)
 • Þéttleiki988/km2
Vefsíðawww.muenster.de

Münster er borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalía með 315 þúsund íbúa (2019). Münster var vettvangur friðarsamninganna í Vestfalíu (ásamt Osnabrück), en þeir mörkuðu endalok 30 ára stríðsins.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Loftmynd af Münster

Münster liggur norðvestarlega í Þýskalandi, nokkuð fyrir norðaustan Ruhr-héraðið og um 40 km fyrir austan hollensku landamærin. Næstu stærri borgir eru Dortmund til suðurs (40 km), Bielefeld til austurs (40 km), Osnabrück til norðvesturs (40 km) og Enschede í Hollandi til norðvesturs (50 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Münster samanstendur af þremur láréttum röndum, gulri, rauðri og hvítri. Litirnir eru upprunnir frá fyrri öldum, allt frá 14. eða 13. öld.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Borgin Münster er nefnd eftir klaustrinu á staðnum, en það hét Monasterium á latínu. Þannig hét bærinn fyrst 1068 en breyttist svo í Monestere, Munstre og loks Münster.[1]

Saga Münster[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Hansasteinn frá Lübeck

793 stofnaði Liudger frá Fríslandi klaustur á þessum stað eftir áeggjan Karlamagnúsar. Þetta ár er opinbert stofnár borgarinnar Münster. 805 er Liudger gerður að biskupi í bænum og Münster gerð að opinberri borg (civitas), þó án raunverulegra borgarréttinda. Liudger varð síðar dýrlingur. Ósætti varð milli keisara og páfa í staðarmálum á 12. öld. Keisarinn var Lóþar III á þeim tíma og réðist hann á litlu borgina Münster 1121 og brenndi hana til kaldra kola. Borgin var byggð upp aftur og hlaut loks almenn borgarréttindi 1170. Árið 1197 brann borgin aftur niður í stórbruna. Um miðja 13. öld gekk Münster í borgabandalag á svæðinu ásamt borgum eins og Dortmund, Minden, Osnabrück og Soest. Bandalag þetta átti að gæta hagsmuna þessara borga á tímabili þegar keisarinn var víðs fjarri eða vanmegna. Sömu borgir gengu seinna í Hansasambandið. Í Münster eru enn til steinar í miðborginni, innan í látúnshringjum, frá öllum þýskum Hansaborgum.

Kirkjustríðið í Münster[breyta | breyta frumkóða]

1450 lést biskupinn í Münster, Hinrik II. Komu þá fram tveir kandídatar sem óskuðu eftir því við erkibiskupinn í Köln, sem einnig var kjörfursti, að verða vígðir biskup. Erkibiskup valdi bróður sinn, Walram frá Moers. Hinn kandídatinn, Eiríkur frá Hoya, var ósáttur við þessa frændsemi og gerði uppreisn gegn nýja biskupinum. Þessi órói var svo mikill í borginni að farið var með málið til páfa, sem þá var Nikulás V. Hann staðfesti val Walrams. Nú safnaði Eiríkur liði og sagði nýja biskupinum stríð á hendur. Það kom til bardaga og náði Eiríkur að taka borgina Münster. Páfi bannfærði því alla borgina og stóð bannið í nokkur ár, allt þar til Walram lést 1456. Stigu þá enn fram tveir kandídatar sem tilvonandi biskup í Münster. Annar þeirra var Eiríkur. En nú valdi erkibiskupinn í Köln hvorugan, heldur þriðja aðilann. Um þetta náðist sátt og komst þá aftur friður í Münster.

Siðaskipti[breyta | breyta frumkóða]

Búrin utan á Lambertikirkjunni hanga þar enn til sýnis

1529 hóf predikarinn Bernd Rothmann að kenna lúterstrú í borginni. Þrátt fyrir bann hélt hann áfram og ákvað borgarráðið að leyfa honum að predika áfram. Biskupinn lést stuttu síðar og nýi biskupinn var talsvert opnari fyrir nýja siðnum. 1533 lýsti hann yfir trúfrelsi í borginni en þá hafði Rothmann snúið sér til endurskírendakirkjunnar, sem var öllu strangari en lúterstrú. Í janúar fluttu mýmargir meðlimir þessarar kirkju frá Hollandi til Münster og með aðstoð Rothmanns var öll borgin í þeirra höndum. Biskupinn var hrakinn burt. Hann safnaði hins vegar liði og reyndi að setjast um borgina til að þvinga borgarráðið til að framselja yfirmenn endurskírenda. En í kosningum í febrúar 1534 sigruðu endurskírendur og tóku nú öll völd í borginni. Þeir sem ekki tilheyrðu þessari kirkju voru nú þvingaðir til skírnar. Auk þess gengu endurskírendur í allar kaþólskar kirkjur og eyðilögðu listaverk, ölturu og annað. Einnig stóðu þeir fyrir bókabrennu. Leiðtogi þeirra, Hollendingurinn Jan van Leyden, lét krýna sig til konungs og kallaði borgina Münster hina nýju Jerúsalem. Hins vegar hófst hungursneyð, þar sem biskupinn sat enn um borgina og skar á alla matvælaflutninga. Þann 24. júní 1535 féll borgin með svikráðum, er einn borgarbúa opnaði eitt borgarhliðið og hersveitir biskupsins ruddust inn. Þeir eirðu engum en frömdu þar fjöldamorð á endurskírendum. Leiðtogar þeirra voru handteknir og settir í dýflissu. Í janúar á næsta ári voru þeir pyntaðir á aðaltorgi borgarinnar og drepnir. Lík þeirra voru sett í járnbúr og hengd til sýnis á Lambertikirkjuna. Búrin hanga enn á kirkjunni í dag. Biskupinn tók úr gildi öll réttindi sem borgin hafði áunnið sér í gegnum aldirnar og var nú sjálfur einráður þar. Það tók hálfa öld að fylla í skörð þeirra sem létust í trúaróróanum en meðan þeir stóðu yfir fækkaði íbúum úr tólf þúsund niður í fjögur þúsund. Þeir voru flestir lúterstrúar.

Münster 1570. Mynd eftir Hermann tom Ring.

Friðarsamningarnir í Vestfalíu[breyta | breyta frumkóða]

Fulltrúar Spánverja og Hollendinga í friðarsamningunum í Münster

Tvisvar í 30 ára stríðinu var setið um Münster, 1633 og 1634. Í bæði skiptin var hér um her frá Hessen að ræða, þrátt fyrir að Münster hafði lýst yfir hlutleysi í stríðinu. En sökum þess hve varnarvirkin voru góð, stóðst hún öll áhlaup. Borgin kom ekki meira við sögu í stríðinu sjálfu. Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að borgin var valin sem vettvangur fyrir friðarsamningana til að binda enda á stríðið. Það voru Svíar sem stungu upp á Münster og samþykkti keisarinn það. Samningarnir fóru einnig fram í borginni Osnabrück, en þar sátu lúterstrúarmenn, enda var borgin á áhrifasvæði Svía. Eftir að borgarráð og borgarbúar voru spurðir um málið, var einróma samþykkt að opna borgarhliðin og hleypa fulltrúum stríðandi fylkinga inn. Samningarnir hófust 1643 og stóðu með hléum í fimm ár. Í Münster hittust meðal annars fulltrúar Spánar og Hollands. Með samkomulagi þeirra var endir bundinn á tilkalli Spánverja á Niðurlönd og voru Niðurlönd þar formlega viðurkennd sem sjálfstætt ríki (þau klofnuðu ekki í Holland og Belgíu fyrr en á 19. öld). Aðrir friðarsamningar voru undirritaðir í Münster með aðilum þýska ríkisins, Svíum og Frökkum. Samningarnir fóru fram í ráðhúsinu og kallast salurinn Friðarsalur eftir þann tíma.

Fleiri stríð[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir það að vera vettvangur friðarsamningana í 30 ára stríðinu fékk Münster fjölda réttinda og fríðinda. Hún varð því að nokkurs konar fríborg í ríkinu, biskupinum til mikils ama, sem sjálfur áskildi sér rétt til að stjórna borginni. 1657 gerði biskupinn von Galen umsátur um Münster til að þvinga hana til hlýðni. Borgin stóðst hins vegar áhlaup hans en skemmdir urðu miklar af völdum fallbyssuskothríðar. Van Galen fékk við það uppnefnið fallbyssubiskupinn. 1660 gerði van Galen annað umsátur um Münster og tókst að þessu sinni að vinna borgina, eftir að hann lét stífla farveg árinnar Aa, sem við það myndaði flóð inni í borginni. Í 7 ára stríðinu stóð borgin með Maríu Teresu frá Austurríki. Fyrir vikið var ráðist á borgina 1759 og féll hún eftir mikla fallbyssuskothríð. Þá voru allir borgarmúrar rifnir.

Prússar[breyta | breyta frumkóða]

1802 eignuðust prússar borgina Münster. Þann 3. ágúst hertók Blücher herforingi borgina og lagði biskupsdæmið niður. En prússar lentu upp á kant við Napoleon. 1806 hröktu Frakkar prússa burt og hertóku Münster. Hún var innlimuð Frakklandi 1811. Eftir ósigur Napoleons í Rússlandi hurfu Frakkar úr héraðinu og prússar náðu borginni aftur á sitt vald. Vínarfundurinn staðfesti 1815 að borgin yrði prússnesk áfram. Þegar borgin fékk járnbrautartengingu 1848 hófst iðnbyltingin. 1899 var höfnin tekin í notkun í skipaskurðinum Dortmund-Ems-Kanal. Íbúafjöldinn jókst til muna og fór yfir 100 þús 1915. Árið 1902 var háskólinn í borginni stofnaður. Borgin kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni fyrri en í lok hennar var Prússland lagt niður.

20. öldin[breyta | breyta frumkóða]

Miðborg Münster var í rúst við lok heimstyrjaldarinnar síðari

Íbúar Münster tóku nasismanum seint og illa. Flokkurinn átti ekki upp á pallborðið hjá almenningi. 1932 var nær öll forusta þjóðarflokks Hitlers stödd í Münster, þar á meðal Hitler sjálfur. Hann hélt ræðu fyrir framan tíu þúsund manns í samkomusal en fyrir ári hafði borgarráð bannað nasistum aðgang að þessum sama sal. Heimsókn þessi gjörbreytti myndinni og voru nasistar með öll yfirráð í borginni stuttu síðar. Borgin varð að nokkurs konar lögregluríki. Lögreglufylki voru notuð til að senda gyðinga burt og einnig voru fylkin send til Austur-Evrópu þar sem nasistar höfðu áhrif. Biskupinn í borginni, Clemens August greifi af Galen predikaði gegn nasismanum. Vegna vasklegrar baráttu hans gegn nasismanum fékk hann viðurnefnið Ljónið frá Münster. Eftir stríð var hann gerður að kardinála. Árið 2005 var hann lýstur helgur. Münster varð fyrir töluverðum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. Um 91% miðborgarinnar eyðilagðist. Þann 2. apríl 1945 hertóku bandarískar og breskar herdeildir borgina bardagalaust. Münster var á hernámssvæði Breta en var sett í nýstofnað sambandsland Norðurrín-Vestfalíu 1946. Við endurreisn borgarinnar óskuðu borgarbúar eftir því að byggja miðborgina upp eins hún var áður, án nýtískulegra byggina, og var það gert. 1972 fór í borginni fram fyrsta ganga samkynhneigðra í Þýskalandi. Síðan þá hefur Münster verið mikilvægasti vettvangur samkynhneigðra í Þýskalandi, á eftir Berlín. 1987 sótti Jóhannes Páll II páfi borgina heim, en hann er fyrsti og eini páfinn sem sótt hefur borgina heim. 2002 fór fram fjölmennasti atburður borgarinnar er Münster var áfangastaður í hjólreiðakeppninni Giro d'Italia. 200 þúsund manns sóttu þann atburð.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Kvennaliðið USC Münster í blaki er margfaldur þýskur meistari og er þekkt lið í Evrópu.

Í Münster fer fram eitt af stóru maraþonhlaupum Þýskalands með um 3000 þátttakendum. Hlaupið fer fram aðra helgi í september.

Síðan 1981 hefur HM í hlaupabrettum farið fram árlega í Münster, en keppnin er kölluð Münster Monster Mastership.

Árlega fer fram hestamótið Turnier der Sieger, en það er skipulagt af elsta hestaíþróttafélagi Þýskalands. Í borginni fer gjarnan fram þýska bikarkeppnin í hestaíþróttum, síðast 2010.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Eurocityfest er heiti á útitónleika sem fram fara á nokkrum sviðum í miðborginni. Þar troða tugir hljómsveita upp. Samfara því fara fram Vainstream Rockfest tónleikar, þar sem boðið er upp á metal, pönk og hardcore-pönk.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Münster viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Stadthausturm
Lambertikirkjan
Pálskirkjan
  • Ráðhúsið er eitt fegursta hús borgarinnar og var reist í kringum 1250. Húsið varð víðfrægt fyrir friðarsamninga 30 ára stríðsins 1645-48 en skipst var á undirrituðum plöggum í friðarsalnum í kjallara hússins, þar sem einnig fór fram hátíð af því tilefni.
  • Lambertikirkjan er sögufræg kirkja í borginni. Byrjað var að reisa hana 1375 af kaupmönnum borgarinnar til mótvægis við Pálskirkjuna (dómkirkjuna) sem kaþólski biskupinn réði. Lambertikirkjan varð víðfræg í siðaskiptunum er nokkrir leiðtogar hollenskra endurskírenda voru settir í búr og hengdir upp utan á kirkjuna árið 1536. Búrin eru enn á sínum stað og minna á þann atburð. Á kvöldin eru veik ljós látin skína á búrin eins og sálir þessa manna væru enn svífandi þar. Turn kirkjunnar var endurnýjarður á 1888-89, þar sem hann hafði hallast aðeins of mikið til vesturs. Hann er 99 metra hár. Í loftárásum skemmdist kirkjan dálítið, en minna en nálæg hús. Viðgerðum lauk 1959.
  • Pálskirkjan er kaþólska dómkirkjan í Münster og er ein af einkennisbyggingum borgarinnar. Hún var reist 1225-1264 í gotneskum stíl. Kirkjan þjónaði biskupum borgarinnar og var það biskupinn Gerhard von der Mark sem vígði hana. Þetta er reyndar þriðja kirkjan sem stendur á þessum stað. Þegar endurskírendur ríktu í borginni 1534-35 stormuðu þeir inn í dómkirkjuna og eyðilögðu öll málverk og höggmyndir. Meira að segja stjörnuúrið þar var eyðilagt. Í loftárásum seinna stríðsins brann kirkjan nær öll, þannig að einungis útveggir stóðu uppi. Hins vegar var búið að bjarga innviðinu eftir því sem við mátti. Viðgerðum lauk 1956. Stjörnuúrið, sem búið að fjarlægja, var einnig sett aftur í kirkjuna eftir viðgerðir.
  • Stadthausturm er gamall turn og síðustu leifar úr gamalli byggingu sem kallaðist Stadthaus. Byggingin hafði verið reist 1902-07. En húsið gjöreyðilagðist í loftárásum seinna stríðsins, þannig að eftir stóð bara þessi forláta turn. Efst í turninum eru bjöllur og hringja þær daglega þrisvar sinnum.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 190.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]