Fara í innihald

Krefeld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krefeld
Skjaldarmerki Krefeld
Staðsetning Krefeld
SambandslandNorðurrín-Vestfalía
Flatarmál
 • Samtals137,75 km2
Hæð yfir sjávarmáli
38 m
Mannfjöldi
 • Samtals227.000 (2.019)
 • Þéttleiki1.612/km2
Vefsíðawww.krefeld.de
Dúkkubrunnurinn í miðborginni

Krefeld er borg í Ruhr-héraðinu í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 227 þúsund íbúa (2019). Hér var upphaflega um tvær borgir að ræða, Krefeld og Uerdingen, en þær voru sameinaðar 1929.

Krefeld liggur við Rínarfljót og er stærsta borg Ruhr-héraðsins vestan við Rín. Hollensku landamærin eru aðeins 15 km til vesturs. Næstu stærri borgir eru Duisburg til norðausturs (10 km), Düsseldorf til suðausturs (15 km), Mönchengladbach til suðvesturs (15 km) og Venlo í Hollandi til vesturs (20 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Krefeld er tvískiptur skjöldur. Til vinstri er biskup sem heldur á höfði sínu, bakgrunnurinn er gulur. Lítið gult og svart skjaldarmerki vísar til þess að borgin tilheyrði áður greifadæminu Moers. Til hægri eru tveir gullnir lyklar, tveir svartir krossar og blár og rauður litur. Biskupinn er heilagur Díonýsíus sem var hálshöggvinn í París og er verndardýrlingur frankalands. Lyklarnir eru borgarlyklar Krefeld og Uerdingen, en þessar borgir voru sameinaðar 1929.

Krefeld hét upphaflega Krinvelde, eða Krähenfelde eins og sagt mun vera í dag. Það merkir krákuvöllur (Krähe = kráka, -feld = völlur). Uerdingen hét upphaflega Urðingi. Það hljómar íslenskt, en merking er óviss. Helst að það hafi eitthvað með urð að gera.[1]

Saga Krefelds

[breyta | breyta frumkóða]

Rómverjar reistu hervirki á staðnum og kölluðu Gelduba. Ekki er vitað hve lengi Rómverjar voru þar, en heitið er enn til sem borgarhverfið Gellep. 1105 kemur Krefeld fyrst við skjöl og var þá lítill bær. Karl IV keisari veitti Krefeld borgarréttindi 1373. Hún kemur lítið við sögu næstu aldir.

Silkihúsin voru í senn íbúðarhús og vinnuhús

1560 urðu siðaskiptin í borginni, en kaþólikkar fá þó að vera í borginni áfram. Í Kölnarstríðinu 1584 sóttu bærískar hersveitir gegn borgum lúterstrúarmanna í Rínarlandi. Í stríðinu var Krefeld lögð í rúst þar sem hún var að mestu lútersk. Borgin lá í rústum í hartnær tvo áratugi. 1598 eignuðust Hollendingar borgina, sem endurreistu hana og lýstu hana hlutlausa. Hlutleysi þetta varaði í gegnum sjálfstæðisstíð Hollendinga, 30 ára stríðið og aldirnar þar á eftir. Sökum hlutleysisins flúðu margir mennonítar og endurskírendur til borgarinnar, enda voru þeir ofsóttir víða annars staðar. 1656 stofnuðu mennonítar vefnaðarverksmiðjuna von der Leyen, sem varð slíkur efnahagslegur ábati fyrir borgina að hún fékk auknefnið Silkiborgin. Á meðan streymdu fleiri ofsóttir trúarhópar til Krefeld, fleiri en borgin gat tekið á móti. Því tóku 13 fjölskyldur (mennonítar og kvekarar) til bragðs að flytja til Ameríku 1683 og stofnuðu þar bæinn Germantown í Pennsylvaníu. Þetta voru fyrstu Ameríkuferðir frá Þýskalandi. Germantown er í dag borgarhverfi í Philadelphiu. 1702 lést Vilhjálmur III af Óraníu og komst borgin þá í eigu Prússlands. Krefeld var þá orðin ein mesta vefnaðarborg ríkisins.

Í 7 ára stríðinu átti sér stað orrusta við borgarhlið Krefeld 23. júní 1758. Þar voru samankomnir her frá Prússlandi, undir stjórn Ferdinands von Braunschweig, og her frá Frakklandi. Frakkar voru langtum fjölmennari, voru með 47 þús manns. Prússar voru aðeins með 32 þús manns, en þrátt fyrir það sigruðu prússar og hröktu Frakka á brott. Þegar Friðrik II konungur Prússlands sótti Krefeld heim 1763 voru helmingur vinnufærra manna starfandi í vefnaðarfyrirtæki von der Leyen. Nær allur útflutningur vefnaðarvörunnar fór til Ameríku og Rússlands. Vefstólarnir voru um 700 talsins. Konungur var svo hrifinn af iðninni, að hann fyrirskipaði bann við að kalla íbúa borgarinnar til herþjónustu. 1792 hertók franskur byltingarher borgina, sem var innlimuð Frakklandi tveimur árum síðar. Napoleon sjálfur sótti borgina heim 1804. Eftir fall hans varð Krefeld prússnesk á ný.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]
Krefeld 1856

Iðnbyltingin hófst fyrir alvöru með tilkomu járnbrautarinnar 1849. Vilhjálmur I konungur Prússlands sótti borgina heim 1863. Borgarbúar sýndu honum fádæma ókurteisi með því að hylla hann ekki, heldur sitja heima. Sjö árum síðar átti að reisa minnisvarða um konung. Vilhjálmur hafði þá ekki gleymt ókurteisi borgarbúa og krafðist þess að styttan af sér sneri baki í borgina. Styttan sjálf er ekki til lengur. Hún var brædd fyrir hergagnaiðnaðinn í heimstyrjöldinni síðari. Í heimstyrjöldinni fyrri voru ungir menn kallaðir í herinn. Herþjónustubannið hafði verið tekið úr gildi 1794. Eftir tapið í stríðinu hertóku Belgar borgina og héldu henni í tíu ár. 1929 voru borgirnar Krefeld og Uerdingen sameinaðar í eina stórborg. Í heimstyrjöldinni síðari varð Krefeld fyrir nokkrum loftárásum, en skemmdir urðu tiltölulega minni en í öðrum borgum. Þann 3. mars 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina en hún varð hluti af breska hernámssvæðinu. Í dag er Krefeld enn mikil iðnaðarborg. Þar er meðal annars stórfyrirtækið Bayer með efnaiðnað og stáliðnaðarfyrirtækið Thyssen. 1983 sótti George Bush eldri Krefeld heim, en hann var þá varaforseti Bandaríkjanna. Mikil mótmæli brutust út í borginni og fóru fram götubardagar milli lögreglu og 20 þúsund mótmælenda þar.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]
Tískusýning

Stærsta útitískusýning heims fer árlega fram í Krefeld í september. Við það tækifæri er gjörvallri miðborginni breytt og fara tískusýningar fram á sex stórum sýningarpöllum. Yfir miðborginni er hengdur 10 km langur silkihiminn sem ferðamenn ganga undir og leiðir þá að pöllunum. Á pöllunum sýna rúmlega 100 módel það nýjasta í fatatískunni. Samfara þessu eru verðlaunin Gullna silkislaufan veitt fyrirtæki eða einstaklingi sem skarað hefur framúr í framleiðslu á tískufatnaði, hugmyndaauðgi eða markaðssetningu. Um hálf milljón manna sækir sýninguna heim árlega.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Íshokkí er ein vinsælasta íþróttagrein borgarinnar. Félagið Krefelder Pinguine leikur í 1. deild og varð þýskur meistari 2003.

Hokkílið borgarinnar, Crefelder Hockey und Tennis Club, er eitt af toppliðum í þýsku hokkídeildinni. Liðið varð þýskur meistari 2006 og innanhúshokkímeistari 2007.

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er KFC Uerdingen (sem hét Bayer Uerdingen fram til 1995). Liðið varð bikarmeistari 1985 (sigraði Bayern München í úrslitaleik) og komst í undanúrslit Evrópukeppni bikarhafa árið eftir (tapaði þá fyrir Atlético Madrid). Liðið leikur í neðri deildum í dag. Tveir Íslendingar hafa leikið með liðinu: Atli Eðvaldsson og Lárus Guðmundsson, báðir 1985-88.

Krefeld viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Burg Linn
  • Burg Linn er fornt kastalavirki frá 12. öld. Við hliðina á því er veiðikastali frá barokk-tímabilinu á 18. öld. Það var kjörfurstinn Clemens August sem lét reisa hann. Bæði húsin eru safn í dag, sögusafn og hljóðfærasafn.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 157.