Bonn
Bonn | |
---|---|
Sambandsland | Norðurrín-Vestfalía |
Flatarmál | |
• Samtals | 141,06 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 60 m |
Mannfjöldi | |
• Samtals | 327 þús (2.018) |
• Þéttleiki | 2.207/km2 |
Vefsíða | www.bonn.de |
Bonn er borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 327 þúsund íbúa (2018). Borgin var höfuðborg Vestur-Þýskalands frá 1949 að sameiningu Þýskalands árið 1990, er Berlín tók við því hlutverki á ný. Hún er hluti af Rín-Ruhr-stórborgarsvæðinu.
Lega
[breyta | breyta frumkóða]Bonn liggur við Rínarfljót, langt sunnan við Ruhr-héraðið. Næstu borgir eru Köln til norðurs (20 km), Aachen til vesturs (50 km) og Koblenz til suðausturs (60 km).
Skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Skjaldarmerki Bonn er tvískipt. Fyrir neðan er gullið ljón á rauðum fleti. Fyrir ofan er svartur kross á hvítum fleti. Krossinn er tákn fyrir kjörbiskupana í Köln sem áttu sér aðsetur í Bonn. Ljónið er gamalt tákn fyrir dómsstig borgarinnar.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Borgin hét Castra Bonensia á tímum Rómverja. Það heiti er ekki að fullu skírt. Talið er að það komi úr keltnesku. Ef til vill er nafnið dregið af keltneska orðinu bona, sem merkir virki. Eftir það breyttist nafnið í Bunna, síðan Bonna og loks Bonn.[1]
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Upphaf
[breyta | breyta frumkóða]Upphaf Bonn má rekja til germansks þorps sem stóð við bakka Rínarfljóts. Um 11. f.Kr. reistu Rómverjar hervirki nálægt þorpinu og kölluðu Castra Bonensia. Í virkinu voru nokkur þúsund hermenn og virtust þeir hafa lifað í sátt og samlyndi við germani. Rómverjar yfirgáfu svæðið ekki fyrr en á miðri 4. öld e.Kr. Eftir það bjuggu germanir einir á svæðinu. Bærinn mun hafa staðið þar áfram. Elstu leifar kristinnar kirkju finnast frá miðri 6. öld. 1244 voru miklir borgarmúrar reistir umhverfis Bonn og má ætla að þá hafi hún hlotið borgarréttindi í þýska ríkinu.
Borg kjörfursta
[breyta | breyta frumkóða]1288 ákvað kjörfurstinn í Köln (þ.e. biskupinn þar í borg) að gera Bonn að öðru aðsetri sínu, en aðeins eru um 20 km milli þessara borga. Siðaskiptin fóru aldrei fram í Bonn. Kaþólska kirkjan hélst sterk, enda í föstum höndum kjörbiskupanna í Köln. 1587 var kjörbiskupinn Gebhard frá Waldburg leystur af með skömm þar sem hann hafði meðtekið lúterstrú. Til að hefna sín réðist hann með her manna á Bonn og lagði hana í rúst. Borgin var endurreist og var þá einnig reistur kastali mikill fyrir kjörfurstann, sem ýmist sat í Köln eða Bonn. Í 30 ára stríðinu reyndist ekki unnt að hertaka Bonn, sökum góðra borgarmúra. En herir frá Hollandi, Svíþjóð og öðrum svæðum þýska ríkisins voru oftar en ekki í nánd og eyðilögðu nærsveitir. En í 9 ára stríðinu sátu Frakkar um borgina og skutu á hana með fallbyssum í fleiri mánuði, uns borgarbúar gáfust upp. Frakkar héldu borginni ekki nema í skamman tíma. 1703 var enn setið um borgina í spænska erfðastríðinu. Enn voru það Frakkar sem skutu á borgina en innan hennar voru keisaraher og Hollendingar sem reyndu að verjast. Borgin féll eftir nokkra mánuði en Frakkar héldu á brott skömmu seinna.
Seinni tímar
[breyta | breyta frumkóða]1786 stofnaði kjörfurstinn Maximilian Franz háskóla í borginni, sem var skammlífur. Aðeins átta árum síðar hertóku Frakkar Bonn og lokuðu háskólanum á ný. 1801 var Bonn innlimuð Frakklandi. Eftir fall Napoleons úrskurðaði Vínarfundurinn að Bonn skyldi verða prússnesk. 1818 var háskólinn stofnaður á ný en hét nú Friedrich-Wilhelms-Universität til heiðurs konungi Prússlands. Háskólinn mótaði borgina mjög næstu misseri en Bonn var að öðru leyti eingöngu jaðarborg í Prússlandi. Í heimstyrjöldinni síðari slapp Bonn í fyrstu við loftárásir. En frá og með haustinu 1944 til vors 1945 varð borgin fyrir nokkrum loftárásum og eyðilagðist um 30% hennar. Bandamenn hertóku borgina 9. mars 1945 bardagalaust og var hún í breska hernámssvæðinu. Strax ári síðar klufu Bretar Rínarlandið í tvö lönd. Bonn varð þá að hluta Norðurrín-Vestfalíu. 1949 var sambandslýðveldi Þýskalands stofnað. Bonn sótti um þann heiður að verða höfuðborg þessa nýja lands (Vestur-Þýskalands), ásamt borgum eins og Frankfurt, Kassel og Stuttgart. Eftir að síðarnefndu tveimur borgum var hafnað, varð Bonn fyrir valinu, þar sem hún var töluvert minna skemmd en Frankfurt. Bonn varð því höfuðborg Vestur-Þýskalands í rúm 40 ár en 1991 var ákveðið að flytja höfuðborgina aftur til Berlínar eftir sameiningu Þýskalands. Ferlið tók átta ár. Forsetinn flutti til Berlínar 1994, sambandsráðið 1996 og síðan þingið 1999. Árið 2006 fluttu mörg aðildarfélög Sameinuðu þjóðanna í tóm ráðuneytishúsin.
Viðburðir
[breyta | breyta frumkóða]Beethovenfest Bonn er heiti á tónlistarhátíð í Bonn helguð Ludwig van Beethoven, frægasta barni borgarinnar. Hátíðin fer fram árlega í september og stendur yfir í 3-4 vikur. Á þessum tíma fara um 70 tónleikar á ýmsum stöðum í borginni og koma ýmsar hljómsveitir og tónlistarmenn fram. Samfara þessu fer fram hæfileikakeppni fyrir unga píanóleikara úr öllum heiminum sem kallast Beethoven Competition.
Klangwelle Bonn er heiti á ljósahátíð í borginni. Hér er um litaðar vatnssúlur að ræða, en vatnið er dælt með 45 pumpum í um 800 slöngum. Vatnið framleiðir litamyndir sem eru allt að 30 metra háar. Myndirnar fá aukna dýpt með ljóskösturum, ekki ólíkt lasersýningu. Þessu samfara er spiluð tónlist, bæði klassísk og popptónlist. Hátíð þessi fer fram í nokkur kvöld í september og október og sækja um 100 þúsund manns hátíðina heim.
Karneval fer fram í Bonn, eins og í flestum öðrum borgum við Rín. Skrúðhátíðin hefst ávallt þann 11.11. (11. nóvember), kl. 11.11. Hér er um skrúðgöngur að ræða með skrúðvagna og skrúðklæði. Auk þess er hátíðin einnig haldin innandyra.
Frægustu börn borgarinnar
[breyta | breyta frumkóða]- (1770) Ludwig van Beethoven tónskáld
Byggingar og kennileiti
[breyta | breyta frumkóða]- Marteinskirkjan er kaþólska höfuðkirkjan í borginni og eitt af einkennistáknum hennar. Hún var reist á 11. öld eftir að eldri kirkja var rifin á sama stað. Turninn er 92 metra hár. Í þessari kirkju var Karl IV krýndur sem konungur þýska ríkisins 1346, en seinna varð hann keisari. Í kirkjunni er einnig grafhvelfing. Þar liggja nokkrir kjörbiskupar frá Köln. Kirkjan skemmdist töluvert í loftárásum seinna stríðsins.
- Gamla ráðhúsið við markaðstorgið var reist 1737-38 af kjörfursta þessa tíma, Michel Leveilly. Því var hins vegar ekki fullkomlega lokið fyrr en 1780. Í loftárásum 1944 skemmdist húsið töluvert. Viðgerðum lauk 1950. Eftir að Bonn varð að höfuðborg Vestur-Þýskalands, var ráðhúsið oft notað fyrir heimsóknir þjóðhöfðingja. Þarna hélt Theodor Heuss upp á sigur sinn sem fyrsta forseta landsins 1949, þarna var Charles de Gaulle 1962, John F. Kennedy 1963 og Mikhaíl Gorbatsjev 1989. Árið 1973 réðust þýskir kommúnistar inn í húsið og skemmdu ýmislegt. 1978 flutti borgarstjórnin í annað og nýrra hús, en það er enn notað í viðhafnarskyni.
- Kurfürstliches Schloss var kastali og aðsetur kjörfurstanna í Bonn í nokkur hundruð ár. Kastalinn var reistur 1697-1705 en áður hafði staðið þar kastali sem eyðilagðist í hernaði. 1777 brann kastalinn allur að innan. Viðgerðir drógust á langinn og lauk ekki fyrr en 1926. Árið 1944 eyðilagðist hann aftur í loftárásum og var endurreistur til 1951. Hann háskólabygging í dag.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 60.