Osnabrück

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Osnabrück
Skjaldarmerki Osnabrück
Staðsetning Osnabrück
SambandslandNeðra-Saxland
Flatarmál
 • Samtals119,8 km2
Hæð yfir sjávarmáli
63 m
Mannfjöldi
 • Samtals165.000 (2.019)
 • Þéttleiki1.305/km2
Vefsíðawww.osnabrueck.de
Aðalmarkaðstorgið í Osnabrück. Til vinstri sér í gamla ráðhúsið.

Osnabrück er þriðja stærsta borgin í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi með 165 þúsund íbúa (2019). Borgin var stofnuð af Karlamagnúsi. Í Osnabrück og Münster voru friðarsamningarnir í Vestfalíu gerðir 1648 en þeir mörkuðu endalok 30 ára stríðsins.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Osnabrück er vestarlega í Neðra-Saxlandi, rétt austan við hollensku landamærin. Næstu borgir eru Bielefeld til suðausturs (40 km), Münster til suðvesturs (40 km) og Bremen til norðausturs (70 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Osnabrück sýnir gamalt vagnhjól á hvítum grunni. Merki þetta kom fram á mynt þegar á 13. öld. Þá var það stundum rautt og stundum svart. Fyrrum var mynd af Pétri postula við hliðina á hjólinu en hann var tekinn burt á síðari tímum.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Heitið Osnabrück var Asnabruggi og Osenbruggi á 12. öld. Talið er að það myndaðist af gömlu orðunum í lágþýsku Ossen, sem merkir uxi, og Brügge, sem merkir brú. Heiti borgarinnar er því Uxabrú.[1]

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Árið 780 stofnaði Karlamagnús biskupssetur á staðnum og upp frá því myndaðist byggðakjarninn sem í dag er Osnabrück. Heimildir geta þess að Karlamagnús hafi einnig stofnað skóla þar 804. Ef rétt er, þá er hann með allra elstu skólum í norðurhluta Evrópu. Á síðari árum hafa fræðimenn þó haft efasemdir um tilurði heimildanna en þær gætu verið falsaðar. Að öðru leyti kom borgin lítið við sögu næstu aldir.

Galdrafár og 30 ára stríðið[breyta | breyta frumkóða]

Samningafundur við lok 30 ára stríðsins. Mynd eftir Gerard Terborch.

Siðaskiptin í Osnabrück fóru formlega fram 1543, sem er tiltölulega seint miðað við aðrar borgir. Hins vegar var kaþólska kirkjan ekki rekin úr borginni og sumar kirkjur fengu að vera kaþólskar áfram, sem einnig er mjög óvenjulegt. Svo virðist sem siðaskiptin hafi ekki haft eins mikinn óróa í för með sér og var í öðrum borgum. Borgarráðið var skipað mönnum sem bæði voru lúterstrúar og kaþólskrar trúar. Á hinn bóginn voru galdraofsóknir mjög áberandi í Osnabrück. Þær náðu hámarki 1582 en á því ári voru alls 163 persónur brenndar fyrir galdra, allt konur. 1632 var háskóli stofnaður í borginni en sænskur her leysti hann upp á ný aðeins ári seinna. Þá geysaði 30 ára stríðið. Svíar stöldruðu þó stutt við í Osnabrück og kom borgin ekki meira við sögu í stríðinu sjálfu. En sökum þess hve umburðarlyndi borgarbúa var mikið gagnvart trúmálum var borgin kosin sem vettvangur friðarsamningana sem bundu enda á 30 ára stríðið. Samningar þessir eru kenndir við Vestfalíu (þýska: Westfälischer Friede), enda voru þeir ekki bara gerðir í Osnabrück, heldur einnig í borginni Münster. Friðarsamningar þessir bundu meðal annars enda á sjálfstæðisbaráttu Niðurlendinga, ný landamæri og yfirráð voru sköpuð í Evrópu, svissneska sambandið var alþjóðlega viðurkennt og ríkjaskipun Evrópu voru endurskipuð en þau héldust í aðalatriðum allt til Napoleonsstríðanna. Viðræður og samningsgerðin tók langan tíma, eða frá 1643-1848, og voru fulltrúar frá öllum viðkomandi ríkjum og héruðum mættir. Fulltrúar Svía voru Johann Adler Salvius og Johan Oxenstierna (sonur ríkiskanslarans Axels Oxenstierna). Samtímis friðarsamningunum sóttist Osnabrück eftir að verða að fríborg í ríkinu en borgarráð fékk því ekki framgengt. Hins vegar var ákveðið að biskupsstóllinn skyldi vera skipaður lúterskum og kaþólskum biskupi til skiptis en það mun vera einsdæmi í sögu ríkisins.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Á Napoleontímanum var Osnabrück nokkrum sinnum skipað í hin og þessi ríki. 1803 hertók franskur her borgina og leysti biskupsstólinn upp. Borgin varð þá hluti af kjörfurstadæminu Hannover (sem seinna varð að konungsríki). 1806 náðu prússar að taka borgina til skamms tíma og innlima hana. 1807 réðu Frakkar aftur í héraðinu og settu borgina í nýstofnað konungsríki Vestfalíu, en 1810 innlimuðu Frakkar borgina, sem þá varð frönsk. Vínarfundurinn úrskurðaði 1815 að borgin skyldi tilheyra konungsríki Hannover. 400 hermenn úr borginni tóku þátt í orrustunni við Waterloo og börðust gegn Napoleon. 1866 hertóku prússar konungsríkið Hannover og varð Osnabrück þá prússnesk á ný. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir 79 loftárásum alls frá árinu 1942. 65% borgarinnar eyðilagðist, þar af nær öll miðborgin. Bretar hertóku borgina í stríðslok, enda var hún á hernámssvæði þeirra. Hugmyndir voru uppi um að Holland innlimaði borgina eftir stríð, en þær hugmyndir náðu ekki fram að ganga. Síðustu Bretarnir yfirgáfu borgina ekki fyrr en 2009.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Osnabrück viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Ráðhúsið í Osnabrück er einkennisbygging borgarinnar
  • Ráðhúsið er einkennisbygging borgarinnar. Það var vígt 1512 eftir 25 ára byggingartíma og er í síðgotneskum stíl. Það var í þessu húsi, ásamt ráðhúsinu í Münster, sem friðarsamningar eftir 30 ára stríðið fóru fram 1643-1648. Í aðalsalnum hanga 42 málverk af evrópskum þjóðhöfðingjum þessa tíma. Þar er einnig að finna afrit af samningsskjalinu.
  • Kastalinn í Osnabrück er fyrrum aðsetur biskupanna þar í borg. Hann var reistur 1667-1673 í borginni, en fyrir þann tíma sátu biskuparnir í kastala langt fyrir utan borgina. 1727 lést Georg I Englandskonungur i þessum kastala, en hann var frá Hannover. Eftir það stóð kastalinn lengi auður og byrjaði að grotna niður. En á tímum Napoleons var hann notaður fyrir stjórnarskrifstofur. 1938 fékk hin alræmda lögregla nasista, Gestapo, aðstöðu í kastalanum. Í kjallaranum var komið fyrir yfirheyrslu- og pyntingarstofum. Kastalinn nær gjöreyðilagðist í loftárásum seinna stríðsins. Í dag er kastalinn háskólabygging.
  • Dómkirkjan er helguð heilögum Pétri. Fyrsta kirkjan var vígð árið 785, en hún var brennd niður af normönnum. Núverandi bygging var smíðuð 1218-1277 í síðrómönskum stíl. Upphaflega voru tveir turnar á dómkirkjunni, en annar þeirra var rifinn niður og breiður gotneskur turn settur á í staðinn. Það gefur kirkjunni afar undarlegt útlit.
  • Maríukirkjan var upphaflega reist á 10. eða 11. öld, þó að einhver kirkja mun hafa staðið áður á sama stað. Kirkjan var stækkuð nokkru sinnum, t.d. á 13. öld og 15. öld. Turninn er 79 metra hár og er útsýnispallur á honum. Innan í kirkjunni eru nokkrir grafsteinar sem hluti af gólfinu.
  • Heger Tor er heiti á hliði sem reist var 1817, þ.e. tveimur árum eftir að borgarmúrarnir voru rifnir niður. Hliðið var aldrei hluti af múrunum, heldur minnismerki um þá hermenn frá Osnabrück sem féllu í orrustunni við Waterloo 1815. Uppi á hliðinu er útsýnispallur opinn fyrir almenning.

Myndasafn[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 207.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Osnabrück“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.