Würzburg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Würzburg Lega Würzburg í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Bæjaraland
Flatarmál: 87,63 km²
Mannfjöldi: 128.000 (2019)
Þéttleiki byggðar: 1423/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 177 m
Vefsíða: www.wuerzburg.de
Kastalavirkið Marienberg

Würzburg er fjórða stærsta borg Bæjaralands í Þýskalandi með 128 þúsund íbúa (2019). Borgin er helst þekkt fyrir hinn mikla kastala biskupanna, en biskuparnir í borginni voru furstar. Biskupahöllin þar er á heimsminjaskrá UNESCO. Würzburg er einnig þekkt vínræktarsvæði. Þar í borg uppgötvaði Conrad Röntgen geislana sem eftir hann eru nefndir.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Würzburg liggur við ána Main norðvestarlega í Bæjaralandi, í héraðinu Unterfranken og örstutt frá norðausturhorni Baden-Württemberg. Næstu borgir eru Frankfurt am Main til norðvesturs (120 km), Nürnberg til suðausturs (115 km) og Stuttgart til suðvesturs (140 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Würzburg er gult og rautt flagg á svörtum skildi. Flaggið kemur fyrst fyrir síðla á 16. öld og er líkt flaggi hertogadæmisins Franken, nema hvað litirnir eru öðruvísi. Til samans mynda litirnir sömu liti og fáni Þýskalands í dag (svart, rautt, gult).

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Kiljanskirkjan í Würzburg var dómkirkja furstabiskupanna

Ekki er einhlíta ljóst hvaðan heitið er dregið. Þó er álitið að heitið Würzburg sé dregið af würz, sem merkir krydd. Þar sem kastalavirkið fyrir ofan borgina er elsta mannvirki borgarinnar, er talið að þar hafi áður fyrr verið nóg til af kryddi. Heitið er ef til vill uppnefni eða gæluheiti í upphafi, sem hafi svo haldist við.

Saga Würzburg[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Mjög litlar upplýsingar eru til um tilurð Würzburg. Þar var kastalavirki á 7. öld, þar sem hertogar í Frankaríkinu sátu. Virkið er staðsett nálægt vaði yfir ána Main. Seint á þeirri öld voru írsku kristniboðarnir Kiljan, Kolonat og Totnan á svæðinu. Würzburg sem bær kemur hins vegar fyrst við skjöl árið 704. Bærinn mun hafa dafnað vel, því 741 eða 742 var biskupsstóll stofnaður í borginni.

Furstabiskupar[breyta | breyta frumkóða]

Würzburg 1650. Mynd eftir Matthäus Merian.

Würzburg var oft sótt heim af keisurum þýska ríkisins. 1127 fóru fyrstu burtreiðar ríksisins fram í borginni. 1156 hélt keisarinn Friðrik Barbarossa upp á brúðkaup sitt með Beatrix frá Búrgúnd í borginni, en hún var dóttir Rainalds III og höfuðerfingi Búrgúnds (Franch-Comté í Frakklandi í dag). 1168 hélt Friðrik keisari ríkisþing í borginni. Þá veitti hann biskupnum Herold furstaembættið og veitt honum Würzburg að léni. Síðan þá hefur borgin meira eða minna verið undir stjórn furstabiskupa. 1402 stofnaði biskupinn Jóhann frá Egloffstein háskóla í borginni, en háskólinn í Würzburg er sá fimmti elsti í þýska ríkinu. Þegar bændauppreisnin mikla náði hámarki snemma á 16. öld, réðist bændaher á kastalavirkið við Würzburg (1525). Þeir náðu hins vegar ekki að komast inn fyrir varnarmúrana. Biskupinn hótaði að tortíma borginni. Einn þekktasti myndhöggvari Þýskalands, Tilman Riemenschneider, sem var borgarstjóri í Würzburg til fjögurra ára, gekk til liðs við bændurna. En allt kom fyrir ekki. Furstaherinn kom aðvífandi og það dró til orrustu, en í henni voru bændur gjörsigraðir. 8000 bændur týndu lífi á þessum degi. Riemenschneider var fangelsaður og pyntaður. 30 ára stríðið geysaði [1618]-1648. Lengi vel fór stríðið framhjá borginni. En biskuparnir kenndu nornum um hildarleikinn mikla og hófust þá grimmilegustu nornaveiðar þýska ríkisins. Á árunum 1626-1630 voru 200 meintar nornir brenndar á báli í borginni einni saman, en 900 í biskupadæminu öllu. Slíkar tölur finnast varla úr öðrum þýskum borgum. Brennurnar fóru fram á torginu fyrir framan Maríukirkjuna. Á 8. áratug 20. aldar fundust merki um miklar brennur á torginu þegar verið var að grafa fyrir bílakjallara. Ummerkin voru þá orðin 300 ára gömul. 1631 hættu allar brennur snögglega. Þá stóð sænskur her við borgardyrnar. Gústaf Adolf II Svíakonungur hertók borgina í október það ár. Í hartnær þrjú ár sátu Svíar þar og létu borgarbúa og nærsveitamenn skaffa sér vistir. Svíar yfirgáfu héraðið 1634. Síðasta nornabrennan í borginni fór fram 1749.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Á Napoleonstímanum var furstabiskupadæmið lagt niður. Würzburg var innlimuð í Bæjaralandi 1803. Þar var München höfuðborg, en konungarnir notuðu Würzburg sem dvalarstað og sátu gjarnan í biskupahöllinni. Iðnbyltingin kom seint til borgarinnar. Þar var lítill iðnaður. Seint á 19. öld bjó eðlisfræðingurinn Conrad Röntgen í borginni, en 1895 uppgötvaði hann samnefnda geisla í húsi sínu í miðborginni. Fyrir þá uppgötvun verður hann fyrsti maðurinn til að hljóta Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1901. Borgin varð að stórborg 1933 þegar íbúafjöldinn fór yfir 100 þús. Á tímum nasista voru útrýmingarbúðirnar Flossenbürg starfræktaðar við borgarmörkin. Würzburg varð fyrir loftárásum aðeins einu sinni, 16. mars 1945. Þá gerðu breskar flugvélar skæðar árásir á borgina í aðeins 17 mínútur. Samt sem áður urðu skemmdirnar gífurlegar. Um 90% miðborgarinnar þurrkaðist út. Eftir stríð var borgin hreinsuð. Ónýt hús voru rifin og götur lagfærðar. Allir múrsteinar og annað sem hrunið hafði á göturna var sett í pramma og því siglt í burtu. Öllum sem misst höfðu íbúðir sínar var meinað að koma aftur til borgarinnar. Þannig fór íbúatalan í upphafi stríðs 1939 úr 107 þús niður í 53 þús í stríðslok 1945. Würzburg var á bandaríska hernámssvæðinu. Þar var einnig bandarísk herstöð. Síðustu hermennirnir fóru ekki þaðan fyrr en 2006.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Dirk Nowitzki í NBA-deildinni er frá Würzburg

Í Würzburg er stærsta starfandi sundfélag Evrópu, SV Würzburg 05, sem fimm sinnum hefur orðið þýskur meistari í sundbolta.

Körfuboltafélag borgarinnar var árum saman í toppbaráttu í fyrstu deild í Þýskalandi. Þar ólst þýski landsliðsmaðurinn Dirk Nowitzki upp, en síðan 1998 spilar hann í NBA-deildinni í Bandaríkjunum. 2005 varð félagið hins vegar gjaldþrota.

Knattspyrnufélögin Würzburger FV og Würzburger Kickers leika í neðri deildum Bundesligunnar.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

  • Africa-Festival er heiti á hátíð eða sýningu sem tengist menningu og tónlist frá Afríku. Verkefni þetta var sett á laggirnar 1989 til að kynna og auka afríska menningu í Þýskalandi og í borginni. Hátíðin fer ætíð fram síðustu helgi í maí og er mest sótta hátíð sinnar tegundar í Evrópu.

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Residenz var aðsetur biskupanna í Würzburg
  • Kastalavirkið Marienberg er elsta mannvirki borgarinnar og stendur á hæð við ána Main. Það var aðsetur greifanna áður, en síðar sátu þar furstabiskuparnir.
  • Residenz er heiti á höll biskupana sem þeir reistu sér sem aðsetur síðla á 18. öld. Höllin er á heimsminjaskrá UNESCO.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]