Fara í innihald

Írak

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jomhūrī-ye Īrāq)
Lýðveldið Írak
جمهورية العراق
Jumhūriyyat ul-ʿIrāq
Jomhūrī-ye Īrāt
Fáni Íraks Skjaldarmerki Íraks
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
„الله أكبر“
(Guð er mestur)
Þjóðsöngur:
Mawtini
Staðsetning Íraks
Höfuðborg Bagdad
Opinbert tungumál arabíska, kúrdíska
Stjórnarfar Þingræði

Forseti Abdul Latif Rashid
Forsætisráðherra Mohammed Shia' Al Sudani
Sjálfstæði
 • Konungsríki 3. október 1932 
 • Lýðveldi 14. júlí 1958 
 • Núverandi stjórnarskrá 15. október 2005 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
58. sæti
438.317 km²
4,62
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
36. sæti
40.222.503
82,7/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 413,316 millj. dala (46. sæti)
 • Á mann 10.175 dalir (111. sæti)
VÞL (2019) 0.674 (123. sæti)
Gjaldmiðill íraskur dínar (IQD)
Tímabelti UTC+3
Þjóðarlén .iq
Landsnúmer +964

Írak (arabíska: العراق‎‎ al-‘Irāq; kúrdíska: عێراق‎ Eraq) er land í Mið-Austurlöndum sem nær yfir það svæði sem áður var kallað Mesópótamía, á milli ánna Efrat og Tígris og suðurhluta Kúrdistan. Það á landamæri að Kúveit og Sádí-Arabíu í suðri, Jórdaníu í vestri, Sýrlandi í norðvestri, Tyrklandi í norðri og Íran í austri. Höfuðborg og stærsta borg landsins er Bagdad. Helstu þjóðarbrot sem búa í landinu eru Arabar og Kúrdar, en auk þeirra búa þar Assýríumenn, Túrkmenar, Sjabakar, Jasídar, Armenar, Mandear, Sjerkesar og Kavlijar. Um 95% íbúa landsins eru múslimar en hluti íbúa aðhyllist önnur trúarbrögð eins og kristni, Jarsanisma, Jasídatrú og Mandeisma. Opinber tungumál Íraks eru arabíska og kúrdíska.

Írak á 58 km langa strandlengju við Persaflóa, hjá Umm Qasr. Landið nær yfir vatnasvið Efrat og Tígris, norðvesturenda Sagrosfjalla og austurhluta sýrlensku eyðimerkurinnar. Stærstu ár landsins eru Efrat og Tígris sem renna saman í Shatt al-Arab sem rennur í Persaflóa. Vegna ánna er mikið ræktarland í Írak.

Landið milli ánna Efrat og Tígris var í fornöld kallað Mesópótamía. Það er stærstur hluti frjósama hálfmánans og er talið með vöggum siðmenningar. Það var á þessu svæði sem notkun ritmáls með rituðum lögum, og borgarlíf með skipulögðu stjórnarfari hófust. Nafnið Írak er dregið af fornaldarborginni Úrúk í Súmer. Mikill fjöldi menningarsamfélaga kom upp á þessu svæði í fornöld, eins og Akkad, Súmer, Assýría og Babýlon. Mesópótamía var auk þess á ýmsum tímum hluti af stærri heimsveldum eins og Medaveldi, Selevkídaríkinu, Parþaveldi, Sassanídaríkinu, Rómaveldi, kalífadæmum Rasíduna, Úmajada og Abbasída, Mongólaveldinu, Safavídaríkinu, ríki Afsjarída og að lokum Tyrkjaveldi.

Þegar Tyrkjaveldi var skipt upp eftir fyrri heimsstyrjöld ákvarðaði Þjóðabandalagið núverandi landamæri Íraks Á millistríðsárunum var Írak í umsjá Bretlands í umboði Þjóðabandalagsins. Konungsríki var komið á fót árið 1921 og það hlaut sjálfstæði 3. október 1932. Árið 1958 var konunginum steypt af stóli og lýðveldi stofnað. Ba'ath-flokkurinn ríkti í Írak frá 1968 til 2003. Á árunum 1980-88 geisaði stríð á milli Íraks og Írans. Persaflóastríðið var háð 1991 eftir að Írak hafði ráðist á Kúveit. Í kjölfar innrásarinnar í mars 2003, sem Bandaríkjamenn og Bretar leiddu, hrökkluðust Ba'ath-flokkurinn og leiðtogi hans Saddam Hussein frá völdum og fjölflokkakerfi var tekið upp. Bandaríkjamenn drógu herlið sitt frá Írak árið 2011 en Írakskreppan hélt áfram og blandaðist inn í borgarastyrjöldina í Sýrlandi.

Nafnið Írak kemur úr arabísku, العراق al-ʿIrāq, og hefur verið notað frá því fyrir 6. öld. Ýmsar kenningar eru til um uppruna þess. Hugsanlega er það dregið af nafni borgarinnar Úrúk (Erek í Biblíunni) sem er akkadísk útgáfa á heiti súmersku borgarinnar Urug, sem er dregið af súmerska orðinu yfir „borg“ (UR). Arabísk alþýðuskýring á heitinu er að það merki „með djúpar rætur, vel vökvuð, frjósöm“.

Á miðöldum var til hérað sem nefndist ʿIrāq ʿArabī („arabíska Írak“) í Neðri-Mesópótamíu og ʿIrāq ʿajamī („erlenda Írak“) þar sem nú eru vestur- og miðhluti Íran. Heitið náði yfir sléttuna sunnan við Hamrinfjöll en ekki nyrstu og vestustu hluta þess sem í dag nefnist Írak.

Orðið Sawad („svart land“) var líka notað snemma á miðöldum yfir frjósama flóðsléttu Tígris og Efrat til aðgreiningar frá arabísku eyðimörkinni. Á arabísku merkir عراق „faldur“, „strönd“, „bakki“ eða „brún“ og var því í alþýðuskýringum túlkað sem „brekka“ eða „hamar“ með vísun í suðurbrún Efri-Mesópótamíu eða al-Jazira sem myndar norðurmörk al-Iraq arabi.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Cheekha Dar er hæsti tindur Íraks.

Írak liggur milli 29. og 38. breiddargráðu norður og 29. og 49. lengdargráðu austur (lítill hluti liggur vestan við 39. gráðu). Landið er 437.072 ferkílómetrar að stærð, sambærilegt við Kaliforníu og aðeins stærra en Paragvæ.

Írak á 58 km langa strönd að norðurhluta Persaflóa. Landið er á vatnasviði Tígris og Efrat sem renna í suðurátt eftir landinu endilöngu og saman í ána Shatt al-Arab sem síðan rennur stutta leið út í Persaflóa. Það nær yfir norðvesturenda Sagrosfjalla og austurhluta Sýrlensku eyðimerkurinnar.

Við árnar tvær eru frjósamar ársléttur, þar sem árnar bera fram 60 milljón rúmmetra af seti á ári að árósunum. Klettóttar eyðimerkur þekja um 40% landsins. Suðurhlutinn er að mestu mýrlendur og rakur, við ströndina og meðfram Shatt al-Arab. Margar af þessum mýrum voru þurrkaðar upp á 10. áratug 20. aldar, en hafa síðar verið endurheimtar. Önnur 30% eru fjöll þar sem vetur eru kaldir. Norðurhluti landsins er að mestu fjalllendi. Hæsti tindurinn er í 3.611 metra hæð og þekktur sem Cheekah Dar („svarta tjaldið“).

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýsluskipting

[breyta | breyta frumkóða]

Írak er skipt í 19 landstjóraumdæmi eða héruð (arabíska: muhafadhat, kúrdíska: Pârizgah). Landstjóraumdæmin skiptast svo í umdæmi (gadhas) sem aftur skiptast í undirumdæmi (nawāḥī). Íraska Kúrdistan er eina viðurkennda sjálfstjórnarhéraðið með eigin héraðsstjórn og því sem næst opinberan her (Peshmerga).

Langflestir íbúar Íraks tala arabísku en um 10-15% íbúa tala kúrdísku, um 5% tala nýarameísk mál eða túrkmensku. Önnur mál sem minnihlutahópar tala eru mandeíska, góraníska, armenska, sirkasíska og persneska. Arabíska, kúrdíska, persneska og túrkmenska eru skrifuð með einhverju afbrigði arabísks leturs, arameíska með sýrlensku letri og armenska með armensku letri.

Fyrir innrás Breta og Bandaríkjamanna í Írak árið 2003 var arabíska eina opinbera tungumál landsins. Með nýrri stjórnarskrá árið 2004 urðu bæði arabíska og kúrdíska opinber tungumál en nýarameísk mál og túrkmenska eru viðurkennd staðbundin mál. Hvert hérað eða umdæmi getur auk þess skilgreint önnur tungumál sem opinber tungumál ef meirihluti íbúa samþykkir það í almennri atkvæðagreiðslu.

Trúarbrögð

[breyta | breyta frumkóða]
Moska Alís í Nadjaf.

Mikill meirihluti íbúa Íraks, eða um 95%, aðhyllast Íslam. Aðeins 5% íbúa aðhyllast önnur trúarbrögð (aðallega kristnir Assýríumenn). Múslimar aðhyllast ýmist sjía íslam eða súnní íslam. Samkvæmt mati CIA Factbook eru sjíamúslimar 65% og súnnítar 35% en samkvæmt mati Pew Research Center frá 2011 eru sjíamúslimar 51% og súnnítar 42% en 5% telja sig „bara múslima“.

Súnnítar í Írak kvarta yfir mismunun af hálfu stjórnvalda en stjórn Nouri al-Maliki hefur neitað því. Kristnir menn hafa búið á svæðinu í yfir 2000 ár og margir þeirra eru afkomendur hinna fornu Assýríumanna. Þeir voru rúmlega 1,8 milljónir eða 8% íbúa árið 1987.

Flestir kristnir Írakar tala nýarameísk mál og tilheyra Kaldeakirkjunni, Assýrísku austurkirkjunni, Assýrísku hvítasunnukirkjunni og Sýrlensku rétttrúnaðarkirkjunni. Meira en helmingur kristinna íbúa Íraks hefur flúið til nágrannalandanna frá upphafi styrjaldanna og stór hluti þeirra ekki snúið aftur þótt einhverjir hafi flust til landsvæðis hinnar fornu Assýríu þar sem nú er sjálfstjórnarhérað Kúrda.

Auk múslima og kristinna eru í Írak litlir hópar Mandea, Sjabaka, Jarsana og Jasída. Írakskir gyðingar sem voru um 150.000 árið 1941 hafa nær allir flutt burt.

Tveir af helgustu stöðum sjíamúslima eru í Írak: grafhvelfing Alís í Nadjaf og heilaga borgin Karbala.

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.