Fara í innihald

Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna
Stofnun1945
ForstöðumaðurJean-Pierre Lacroix
Starfsfólk81.820
Vefsíðapeacekeeping.un.org

Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna starfa á vegum friðargæsludeildar Sameinuðu þjóðanna sem „sérstakt og gagnvirkt verkfæri sem stofnunin hefur þróað til þess að hjálpa stríðshrjáðum löndum að skapa skilyrðin fyrir varanlegum friði“.[1]

Friðargæsluliðar hafa eftirlit með friðarferlum á svæðum þar sem stríð hafa verið háð og aðstoða fyrrum stríðsaðilum við að framkvæma friðarsamninga sem hafa verið undirritaðir. Aðstoð af þessu tagi getur verið margbreytileg og felst meðal annars í því að auka traust, skipuleggja valddreifingu, hjálpa til við framkvæmd kosninga, styrkja löggæslu og stuðla að efnahags- og samfélagsþróun. Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna (sem gjarnan eru kallaðir bláhjálmar vegna blárra höfuðfata sinna[2][3]) geta því bæði verið hermenn, lögreglumenn og borgaralegir embættismenn.

Samkvæmt VII. kafla stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna getur Öryggisráðið tekið ákvörðun um að grípa til sameiginlegra hernaðaraðgerða „til þess að varðveita eða eða koma á aftur heimsfriði og öryggi“.[4] Alþjóðasamfélagið lítur því yfirleitt til Öryggisráðsins til þess að heimila friðargæsluaðgerðir í samræmi við stofnsáttmálann.[5]

Flestar slíkar friðargæsluaðgerðir fara fram á vegum Sameinuðu þjóðanna sjálfra og friðargæslusveitirnar lúta þá stjórn stofnunarinnar. Í þessum tilvikum eru friðargæsluliðarnir þó enn meðlimir í herjum aðildarríkjanna en ekki hermenn í sérstökum alþjóðaher Sameinuðu þjóðanna, þar sem enginn slíkur her er fyrir hendi. Í tilvikum þar sem bein afskipti Sameinuðu þjóðanna eru ekki talin ákjósanleg eða viðeigandi heimilar Öryggisráðið stundum samtökum eins og Atlantshafsbandalaginu,[5] Efnahagsbandalagi Vestur-Afríkuríkja eða bandalögum viljugra ríkja að sjá um friðargæsluaðgerðir.

Núverandi formaður friðargæsludeildar Sameinuðu þjóðanna er Jean-Pierre Lacroix. Hann tók við af aðstoðaraðalritaranum Hervé Ladsous þann 1. apríl árið 2017. Æðsta regluverk friðargæsludeilarinnar, „Friðargæsluaðgerðir Sameinuðu þjóðanna: Meginreglur og leiðbeiningar“, var gefið út árið 2008.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. United Nations Peacekeeping
  2. Þorsteinn O. Thorarensen (11. janúar 1963). „Bláhjálmarnir sækja fram“. Vísir. Sótt 12. mars 2020.
  3. Kristján G. Arngrímsson (18. júlí 1993). „Efasemdir um alheimslöggu“. Morgunblaðið. Sótt 12. mars 2020.
  4. „Sáttmáli hinna Sameinuðu þjóða og Samþykktir milliríkjadómsins“. Stjórnarráðið. Sótt 12. mars 2020.
  5. 5,0 5,1 Nau, Henry (2015). Perspectives on International Relations. Washington DC: CQ Press. bls. 252. ISBN 978-1-4522-4148-7.
  6. „DPKO Capstone Doctrine“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 19. ágúst 2008. Sótt 12. mars 2020.
  Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.