Fara í innihald

Auguste Beernaert

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Auguste Beernaert
Forsætisráðherra Belgíu
Í embætti
26. október 1884 – 26. mars 1894
ÞjóðhöfðingiLeópold 2.
ForveriJules Malou
EftirmaðurJules de Burlet
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. júlí 1829
Ostend, Hollandi (nú Belgíu)
Látinn6. október 1912 (83 ára) Lucerne, Sviss
ÞjóðerniBelgískur
StjórnmálaflokkurKaþólski flokkurinn
MakiMathilde Borel (1851-1922)
HáskóliKaþólski háskólinn í Leuven
Háskólinn í Heidelberg
StarfLögfræðingur, stjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1909)

Auguste Marie François Beernaert (26. júlí 1829 – 6. október 1912) var belgískur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Belgíu frá 1884 til 1894. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1909 fyrir störf sín með Fasta gerðardómnum í Haag.

Auguste Beernaert fæddist í Ostend, sem var þá hluti af Hollandi, árið 1829. Hann gekk í lagadeild Kaþólska háskólans í Leuven þegar hann var 17 ára. Hann lauk laganámi fimm árum síðar með hæstu einkunn.[1] Eftir nám fékk Beernaert jafnframt styrk til að heimsækja aðra evrópska háskóla og bera saman kennsluhætti þeirra. Í 175 bls. ritgerð sinni gagnrýndi Beernaert miðstýringu franskra háskóla á tíma síðara franska keisaraveldisins en hrósaði þýskum háskólum fyrir sjálfstæða starfsemi þeirra.[2]

Að loknu námi hóf Beernaert lögmannsferil og sérhæfði sig í skattarétti. Hann starfaði meðal annars sem ráðgjafi belgíska bankans Société générale de Belgique og prinsins Filippusar.[2] Árið 1859 var Beernaert útnefndur lögmaður við áfrjýjunardómstól belgíska hæstaréttarins. Hann var jafnframt ráðinn af meðlimur Orléans-ættarinnar til að hafa auga með fjárhagsmunum þeirra í tengsl við frjálslynda brusselska dagblaðið L'Étoile belge.[2]

Beernaert var kjörinn á neðri deild belgíska þingsins árið 1873 og varð ráðherra opinberra framkvæmda í ríkisstjórn Jules Malou. Í því embætti stórbætti hann járnbrauta-, skurða- og vegakerfi landsins. Meðal annars lét hann reisa konunglega listasafnið, gróðurhúsið í Brussel og stórsýnagógu borgarinnar og hélt áfram byggingu á dómshöll Brusselborgar.[3] Beernaert tók við sem forsætisráðherra efti að Malou sagði af sér árið 1884.

Sem forsætisráðherra lék Beernaert lykilhlutverk í því að Kongó varð belgískt yfirráðasvæði. Í mars árið 1885 fól Leópold 2. Belgíukonungur Beernaert að flytja frumvarp á belgíska þinginu sem heimilaði honum að gerast þjóðhöfðingi Fríríkisins Kongó. Beernaert talaði fyrir frumvarpinu á þinginu og lagði áherslu á að kongóska fríríkið myndi vera sjálfstætt ríki sem yrði með öllu aðskilið Belgíu.[4] Árið 1890 skrifaði Beernaert undir samning við Fríríkið Kongó um 25 milljóna franka vaxtalaust lán sem greitt yrði á tíu ára tímabili. Að tíu árum liðnum skyldi Belgía annaðhvort fá að innheimta lánið í einu lagi eða innlima nýlenduna. Á sama tíma opinberaði Beernaert bréf frá Leópold 2. þar sem konungurinn lýsti yfir að hann myndi arfleiða Belgíu að kongóska fríríkinu í erfðaskrá sinni.[5]

Frá árinu 1890 vann Beernaert að því að útvíkka kosningarétt í Belgíu og sóttist eftir því að kerfi hlutfallskosninga yrði innleitt í landinu. Árið 1892 náði Beernaert fram stjórnarskrárbreytingum sem lögðu grunninn að útvíkkun kosningaréttarins en frumvarp hans um kerfi hlutfallskosninga var hins vegar fellt með miklum meirihluta, meðal annars af flokksfélögum hans sjálfs. Vegna andstöðu úr eigin flokki sagði Beernaert af sér þann 16. mars árið 1894. Konungurinn reyndi að telja hann á að sitja áfram og sagt er að hann hafi brostið í grát þegar Beernaert sagði af sér.[6]

Eftir forsætisráðherratíð Beernaerts var hann fulltrúi Belga á friðarráðstefnunum í Haag árin 1899 og 1907. Hann vann einnig til friðarverðlauna Nóbels (ásamt Paul Henri Balluet d'Estournelles de Constant) árið 1909 fyrir störf sín hjá Fasta gerðardómnum. Hann var kjörinn forseti dómaranefndar gerðardómsins sem fór með dómsmál indverska sjálfstæðissinnans Vinayak Damodar Savarkar árið 1911. Árið 1912 var Beernaert lagður inn á spítala í Lucerne og lést þar úr lungnabólgu.

  • C. Carton de Wiart, Beernaert et son temps, La Renaissance du Livre (Brussel), 1945.
  • Edouard Van der Smissen, Léopold II et Beernaert, d'après leur correspondance inédite de 1884 à 1894, Goemaere (Brussel), 1920 (2. bindi).

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jean Bartelous, Nos Premiers Ministres, de Léopold Ier à Albert Ier, 1983, Bruxelles, éd. J. M. Collet, bls. 171.
  2. 2,0 2,1 2,2 Jean Bartelous, op. cit., bls. 172.
  3. Jean Bartelous, op. cit., bls. 174-175.
  4. Jean Bartelous, op. cit., bls. 187-188.
  5. Jean Bartelous, op. cit., bls. 190.
  6. Jean Bartelous, op. cit., bls. 205-209.


Fyrirrennari:
Jules Malou
Forsætisráðherra Belgíu
(26. október 188426. mars 1894)
Eftirmaður:
Jules de Burlet