Fara í innihald

Orléans-ætt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Orléans-hertogaættarinnar.

Fjórða Orléans-ættin, yfirleitt einfaldlega kölluð Orléans-ætt í daglegu tali, er yngri ættkvísl af Búrbónaætt sem stofnuð var af Filippusi hertoga af Orléans á 17. öld.

Filippus var yngri sonur Loðvíks 13. og bróðir Loðvíks 14. Frakkakonungs. Hann hlaut titilinn hertogi af Anjou í vöggugjöf en hlaut síðar einnig hertogatign af Orléans árið 1661 eftir dauða Gastons hertoga af Orléans. Ólíkt Gaston, sem hafði sjálfur hlotið hertogatign yfir Orléans við fæðingu að gjöf frá föður sínum, Hinrik 4. Frakkakonungi, tókst Filippusi að festa ætt sína í sessi sem hertogaætt Orléans. Hann eignaðist sex börn með tveimur konum; Henríettu af Englandi og Karlottu Elísabetu af Bæjaralandi.

Aðeins einn sona Filippusar, Filippus 2., náði lögaldri og erfði því alla titla föður síns eftir dauða hans þann 9. júní 1701. Filippus var ríkisstjóri fyrir frænda sinn, Loðvík 15. Frakklandskonung, frá árinu 1715 þar til konungurinn náði lögaldri árið 1723. Filippus þessi var afi Loðvíks Filippusar, sem varð konungur Frakka í kjölfar júlíbyltingarinnar árið 1830.

Loðvík Filippusi var steypt af stóli í byltingu árið 1848. Hann var síðasti konungurinn sem hefur ríkt yfir Frakklandi. Enn þann dag í dag styðja sumir franskir einveldissinnar tilkall Orléans-ættar til frönsku krúnunnar í stað tilkalls aðalgreinar Búrbónaættar.