Opinn aðgangur

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
9-mínútna kynningarmyndskeið um Opinn aðgang.

Opinn aðgangur (e. open access) er ókeypis aðgangur á netinu að heildartexta á niðurstöðum vísindalegra rannsókna. Aðallega er talað um opinn aðgang í tengslum við útgáfu ritrýndra vísindagreina. Efni í opnum aðgangi má því lesa, afrita og miðla áfram með litlum eða engum takmörkunum öðrum en höfundarréttarlegum.

Til eru tvær meginleiðir að opnum aðgangi: safnvistun og opin útgáfa. Helsti munurinn á opinni útgáfu og eigin safnvistun er að í opinni útgáfu eru greinarnar oftast ritrýndar.[1] Þekktar menntastofnanir eins og Harvardháskóli[2] og MIT hafa sett sér stefnu um opinn aðgang.[3]

Röksemdir[breyta | breyta frumkóða]

Merki fyrir opinn aðgang var upphaflega hannað af stofnuninni Public Library of Science.

Hröð tækniþróun undanfarinna ára og áratuga á sviði upplýsingatækni hefur gert upplýsingamiðlun margfalt auðveldari, hraðari og ódýrari en þekktist fyrir tíma internetsins. Þessar framfarir gera opinn aðgang mögulegan. Það er að segja, engir tæknilegir annmarkar eru því til fyrirstöðu að dreifa fræðiefni með opnum hætti.

Helsta röksemdin að baki opins aðgangs að niðurstöðum rannsókna sem unnar eru af opinberum menntastofnunum er að rekstur þeirra, þar með taldar launagreiðslur til vísindamannsins, sé greiddur með skattfé almennra borgara. Því sé það óeðlilegt að afraksturinn sé afhentur þriðja aðila eða útgefanda sem svo rukki gjald fyrir aðgang.[4] Til þess að bæta gráu ofan á svart hafa áskriftargjöld hækkað mikið á síðustu árum og jafnvel áratugum þannig að talað er um ritraðakrísu (e. serials crisis).

Margar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna að fræðiefni í opnum aðgangi sé lesið af fleirum og að fleiri vitni í greinar í opnum aðgangi.[5] John Houghton, prófessor við Victoriaháskóla í Ástralíu, komst t.d. að þeirri niðurstöðu í rannsókn á útgáfumálum í Bretlandi, Hollandi og Danmörku að það væri hagkvæmt að auka opinn aðgang að vísindagreinum.[6]

Aðferðir[breyta | breyta frumkóða]

Talað er um að tvær leiðir standi til boða við miðlun fræðiefnis í opnum aðgangi.

Safnvistun[breyta | breyta frumkóða]

Eigin safnvistun, einnig kölluð „græna leiðin“[7], felur í sér að höfundur gerir efni sitt aðgengilegt á netinu, venjulega með því að koma því fyrir á varðveislusafni tiltekinnar stofnunar, eins og t.d. háskólabókasafns, eða með því að senda hana í miðlægt varðveislusafn á viðkomandi fræðasviði, t.d. PubMed fyrir greinar í læknisfræði[8] eða arXiv fyrir eðlisfræði,[9] burt séð frá því hvort hann gefur grein sína út í hefðbundnu tímariti eða ekki. Í slíkum söfnum er oft að finna fjölbreytt efni, drög að vísindagreinum, kennsluefni, gögn í gagnagrunnum eða á skrám, og jafnvel hljóð eða myndbandsskrár.[1]

Opin útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Opin útgáfa, einnig kölluð „gullna leiðin“[10] felur í sér að höfundur gefur greinina út í tímariti í opnum aðgangi sem gerir allar greinar sem það gefur út strax aðgengilegar í opnum aðgangi á netinu.

Um 10% af um 25.000 ritrýndum tímaritum á skrá eru gefin út í opnum aðgangi.[11] Af þeim 10.000 ritrýndu tímaritum sem eru í skrá EPrints yfir útgáfustefnu tímarita eru 90% fylgjandi safnvistun í varðveislusöfnum.[12] 62% styðja safnvistun á ritrýndu eintaki (eftir prentun) en 29% styðja safnvistun fyrir prentun. Í rannsókn sem gerð var árið 2009 var áætlað að 20,4% af ritrýndum fræðigreinum væru í opnum aðgangi.[13]

Þróun erlendis[breyta | breyta frumkóða]

Bókasöfn og bókasafnsfræðingar hafa leikið lykilhlutverki í hreyfingunni í kringum opinn aðgang með því að benda á hækkun áskriftargjalda (ritraðarkrísan). Samtök rannsóknarbókasafna í Bandaríkjunum (e. The Association of Research Libraries) stofnuðu samstarfsnetið SPARC (e. Scholarly Publishing and Academic Resources Coalition) árið 1997 sem átti að leita lausna við vandanum um aðgangi að fræðiefni.

Fyrstu opnu fræðiritin sem voru bundin við netið (sem seinna voru nefnd í opnum aðgangi) komu fram á seinni hluta níunda áratugarins. Meðal þeirra voru Bryn Mawr Classical Review,[14] Postmodern Culture[15] and Psycoloquy.[16]

Tíundi áratugurinn[breyta | breyta frumkóða]

Graf sem sýnir þróun útgefinna greina í opnum aðgangi 1993-2009.

Fyrsta varðveislusafnið fyrir fræðigreinar var arXiv.org, sem var stofnað árið 1991 af Paul Ginsparg. Upprunalega átti það að vera vettvangur til birtingar á rannsóknum í vinnslu (s.k. preprint). Skráning þeirra sömu og senda inn efnið er orðið venju á sviði eðlisfræði í kjölfarið. Þessi áhersla á opinn aðgang er sérstaklega áberandi á sviði öreindafræði.[17] Í dag er efni sem tilheyrir fjölda fræðigreina á arXiv, þar með talið tölvunarfræði, stærðfræði, líffræði, fjármálaverkfræði og tölfræði. Stærstu útgefendur á sviði eðlisfræði, American Physical Society and Institute of Physics Publishing, segja birtingu á arXiv ekki hafa áhrif á fræðirit sín.[18]

Undir lok tíunda áratugarins var búið að stofna PubMed, bókasafnsskrá Heilbrigðisvísindabókasafns Bandaríkjanna (e. National Library of Medicine), sem var höfð opin og jókst notkun upplýsinga úr gagnagrunninum hröðum skrefum. Margir fræðimenn höfðu þá þegar vanist því að deila vinnu sinni í gegnum FTP-þjóna. Fræðitímaritið The Journal of Medical Internet Research (JMIR), eitt fyrsta fræðitímaritið á sviði læknavísinda í opnum aðgangi var stofnað 1998 og fyrsta tölublað þess kom út 1999.

Árið 1999 var átaksverkefnið Opin varðveislusöfn (e. Open Archives Initiative) stofnað sem lagði grunn að OAI-PMH (e. Open Archives Initiative Protocol for Metadata Harvesting) samskiptareglunum milli rafrænna varðveislusafna. Með því var stigið stórt skref í átt að stöðlun á varðveislusöfnun. Útgáfa 2 af OAI-PMH-samskiptareglunum var síðast uppfærð árið 2008.

21. öldin[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta alþjóðlega yfirlýsingin sem vakti mikla athygli var Búdapest-yfirlýsingin sem var gefin út í febrúar 2002. Yfirlýsingin taldi rúmlega 1.100 orð og var undirrituð af 16 fræðimönnum víðsvegar að.[19] Þetta var gert fyrir tilstilli meðal annars milljarðamæringsins George Soros sem lagði til fjármagn í gegnum samtök sín Open Society Institute. Þar var í fyrsta sinn mælt með tveimur leiðum: gullnu og grænu leiðinni við birtingu í opnum aðgangi. Í kjölfarið fylgdi Berlínaryfirlýsingin í október 2003.[20] Í henni var skilgreining á fræðiefni til opins aðgangs víkkuð út til þess að ná til rannsóknarniðurstaðna, gagna og lýsigagna, stafrænt endurgerðs efnis og margmiðlunarefnis.

Samtök tækniháskóla í Finnlandi hafa mótað með sér stefnu um opinn aðgang að öllum lokaritgerðum nema og rannsóknum starfsmanna.[21] Árið 2010 opnaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í samvinnu við fjölda evrópskra háskóla varðveislusafnið OpenAIRE.[22] Í júní 2012 kom út hin svonefnda Finch-skýrsla á vegum breskra yfirvalda um það hvernig mætti auka aðgengi að rannsóknarniðurstöðum. Í henni var komist að þeirri niðurstöðu að leggja ætti áherslu á opinn aðgang, sérstaklega í þeim tilvikum þar sem rannsóknir væru fjármagnaðar af skattfé og að þróunin í átt að opnum aðgang væri umfangsmikið breytingaskeið sem Bretland ætti að taka opnum örmum.[23] Aðeins þremur dögum eftir birtingu Finch-skýrslunnar samþykkti Vísinda- og tækniráð Danmerkur að skilyrða fjárveitingar til vísindarannsókna við að niðurstöðurnar yrðu birtar í opnum aðgangi.[24] Í júlí sama ár beindi framkvæmdastjórn ESB því til aðildarríkja sinna að setja sér stefnu um opinn aðgang.[25] Styrkir næsta rannsóknarverkefnis ESB, Horizon 2020, sem hleypt verður af stokkunum 2014, verða skilyrtir við birtingu rannsóknarniðurstaðna í opnum aðgangi. Í skýrslu sem Þjóðbókasafn Bretlands og SAGE útgáfufyrirtækið unnu í sameiningu um þýðingu opins aðgangs fyrir rannsóknarbókasöfn var áætlað að hlutfall fræðigreina í opnum aðgangi myndi hækka í 15-50% á næsta áratug.[26] Í Svíþjóð er rætt um að árið 2013 verði ef til vill árið sem hætt verði að spyrja hvers vegna taka ætti upp stefnu um opinn aðgang og þess í stað byrjað að velta því fyrir sér hvernig megi framkvæma hana.[27]

Aaron Swartz-málið[breyta | breyta frumkóða]

Aaron Swartz við mótmæli vegna PIPA-löggjafarinnar í Bandaríkjunum.

Í byrjun árs 2013 fyrirfór 26 ára gamall maður sér, Aaron Swartz að nafni. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann þegar áorkað ýmsu á sviði tölvutækni og bættu aðgengi að upplýsingum. tveimur árum fyrr hafði hann verið handtekinn og ákærður fyrir stórtækan þjófnað og innbrot í tölvur. Glæpurinn sem hann var kærður fyrir var að sækja um 4,8 milljónir skráa (~70 gígabæti) í gegnum tölvukerfi MIT-háskólans í Bandaríkjunum.

Það er út af fyrir sig ekki glæpur að sækja mikið magn af skjölum í gegnum tölvunet. En Swartz var frægur fyrir starf sitt á sviði tölvutækni og þekktur fyrir róttæka afstöðu varðandi opinn aðgang. Sumarið 2008 hafði hann skrifað stefnuyfirlýsingu sem hann nefndi „Guerilla Open access Manifesto“ og hefst með orðunum „information is power. But like all power, there are those who want to keep it for themselves.“ Í niðurlaginu segir: „We need to download scientific journals and upload them to file sharing networks. We need to fight for guerilla Open access. With enough of us, around the world, we‘ll not just send a strong message opposing the privatization of knowledge — we‘ll make it a thing of the past. Will you join us?[28]

Ríkissaksóknari Bandaríkjanna, Carmen M. Ortiz ákvað að lögsækja Swartz fyrir glæpi sem hefðu getað þýtt 35 ára fangelsisdóm að viðbættum þremur árum í stofufangelsi og sekt upp á 1 milljón dali. Þessi aðgerð bandaríska ríkissaksóknarans er forvirk þar sem að fórnarlamb meints glæps, JSTOR, ákvað að lögsækja ekki. Glæpurinn var heldur ekki skeður, Swartz hafði ekki dreift gögnunum en hafði lýst yfir ásetningi um að gera það. Í kjölfarið var ríkissaksóknarinn harðlega gagnrýndur fyrir að hafa gengið fram með offorsi.[29] Ákvörðun MIT um að halda málaferlunum áfram var einnig harðlega gagnrýnd og leiddi til sérstakrar skýrslu um aðkomu MIT.[30]

Opinn aðgangur á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Vorið 2006 stofnaði Landspítali Íslands Hirsluna, „rafrænt varðveislusafn sem er sérhannað til að vista, varðveita og miðla því vísinda- og fræðsluefni sem starfsmenn spítalans hafa gefið út samhliða vinnu sinni eða námi við spítalann.“[31] Á sama ári hóf Háskólinn á Akureyri útgáfu veftímaritsins Nordicum-Mediterraneum í opnum aðgangi.[32] Ári seinna hóf Háskólinn á Bifröst að gefa út Bifröst Journal of Social Science á ensku.[33] Veftímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla sem hefur komið út frá 2005 á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála hjá Háskóla Íslands er í opnum aðgangi.[34]

Í stefnu Háskóla Íslands fyrir árin 2011-2016 kemur fram að móta eigi stefnu um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum og lokaverkefnum.[35] Í febrúar 2014 samþykkti háskólaráð Háskóla Íslands formlega stefnu um opinn aðgang.[36] Skemman.is er rafrænt varðveislusafn Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Bifröst, Háskólans í Reykjavík, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Listaháskóla Íslands sem geymir lokaverkefni nemenda og rannsóknarrit kennara og fræðimanna. Sumt af því efni er í opnum aðgangi en Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn sem rekur vefinn styður opinn aðgang.[37]

Í lok árs 2012 voru lög nr. 149/2012 um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003 sett, en í þeim sagði:

Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr sjóðum er falla undir lög þessi, skulu birtar í opnum aðgangi og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið. Styrkþegar skulu í öllum ritsmíðum sínum um niðurstöður rannsókna geta um þátt sjóðanna í viðkomandi verki.
 

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 „Open Access Overview - Focusing on open access to peer-reviewed research articles and their preprints“. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. maí 2007. Sótt 9. mars 2011.
 2. Office for Scholarly Communication
 3. „MIT Faculty Open Access Policy“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. febrúar 2011. Sótt 9. mars 2011.
 4. The Alliance for Taxpayer Access
 5. Open access, readership, citations: a randomized controlled trial of scientific journal publishing
  Open access publishing, article downloads, and citations: randomised controlled trial
  The effect of open access and downloads ('hits') on citation impact: a bibliography of studies
  Self-Selected or Mandated, Open Access Increases Citation Impact for Higher Quality Research Geymt 21 febrúar 2020 í Wayback Machine
 6. Open Access – What are the economic benefits? A comparison of the United Kingdom, Netherlands and Denmark
 7. Stevan Harnad; og fleiri (2004). „The Access/Impact Problem and the Green and Gold Roads to Open Access“. Serials Review, vol. 30, issue 4.; Budapest Open Access Initiative Geymt 20 ágúst 2008 í Wayback Machine
 8. PubMed home
 9. arXiv.org e-Print archive
 10. Stevan Harnad, op cit.
 11. ulrichsweb.com(TM) - The Global Source for Periodicals
 12. „EPrints: Journal Policies - Summary Statistics So Far“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. nóvember 2011. Sótt 28. febrúar 2008.
 13. Open Access to the Scientific Journal Literature: Situation 2009
 14. "The Bryn Mawr Classical Review". Bryn Mawr Classical Review.
 15. Project MUSE – Postmodern Culture. Muse.jhu.edu.
 16. "HyperPsycoloquy" Geymt 29 október 2013 í Wayback Machine. Psycprints.ecs.soton.ac.uk.
 17. Till, James E., 2001. "Predecessors of preprint servers". Arxiv.org, 4. febrúar 2001.
 18. Swan, Alma. 2005. "Open access self-archiving: an Introduction". Eprints.ecs.soton.ac.uk.
 19. Budapest Open Access Initiative
  Budapest Open Access Initiative, FAQ Geymt 3 júlí 2006 í Wayback Machine
 20. Berlínaryfirlýsingin
 21. „Theseus.fi - Electronic Library of the Universities of Applied Sciences - Universities of Applied Sciences Open Access Statement“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. febrúar 2011. Sótt 11. mars 2011.
 22. OpenAIRE - Open Access Infrastructure Research for Europe
 23. Accessibility, sustainability, excellence: how to expand access to research publications.
 24. Open Access-politik for offentlige forskningsråd og fonde
 25. Towards better access to scientific information: Boosting the benefits of public investments in research
 26. „Moving towards an open access future: the role of academic libraries“. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. nóvember 2012. Sótt 14. nóvember 2013.
 27. Open Access in Sweden - going from why to how[óvirkur tengill]
 28. Full text of "Guerilla Open Access Manifesto"
 29. Aaron Swartz Prosecutor Carmen Ortiz Admonished In 2004 For Aggressive Tactic
  U.S. attorney: Criticism of Aaron Swartz prosecution is 'unfair'
 30. Report to the President: MIT and the Prosecution of Aaron Swartz
 31. Spurningar og svör - Hirsla, varðveislusafn LSH Geymt 27 ágúst 2014 í Wayback Machine
  Hirsla – varðveislusafn LSH Geymt 4 apríl 2016 í Wayback Machine
 32. Nordicum-Mediterraneum
 33. „Bifröst Journal of Social Science“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2011. Sótt 10. mars 2011.
 34. Stjórnmál og stjórnsýsla
 35. „Stefna Háskóla Íslands 2011–2016“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. febrúar 2012. Sótt 6. febrúar 2012.
 36. „Stefna um opinn aðgang“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. ágúst 2014. Sótt 20. mars 2014.
 37. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn - Stefna Geymt 3 ágúst 2012 í Wayback Machine;Um vefinn | Skemman

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Íslenskt efni[breyta | breyta frumkóða]

Greinar[breyta | breyta frumkóða]