Fara í innihald

Guðríður Símonardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðríður Símonardóttir (159818. desember 1682) (Tyrkja-Gudda) var húsmóðir í Vestmannaeyjum sem var gift Eyjólfi Sólmundarsyni (eða Sölmundarsyni) (d. 1636), sem líklega hefur verið sjómaður þar. Árið 1627 komu svokallaðir Tyrkir og rændu í Vestmannaeyjum og víðar, meðal annars í Grindavík og á Djúpavogi. „Tyrkirnir“ voru sjóræningjar frá Alsír og voru að líkindum allra þjóða kvikindi, en rán þetta er alltaf kallað Tyrkjaránið í Íslandssögunni. Rændu þeir bæði fólki og fé og var Guðríður ásamt Sölmundi, syni sínum, í hópi þeirra sem rænt var.

Ambátt í Alsír

[breyta | breyta frumkóða]

Guðríður var ánauðug í tæpan áratug í Alsír. Þá keypti konungur Danmerkur nokkra Íslendinga lausa úr „barbaríinu“ og var Guðríður þeirra á meðal, en Sölmundur sonur hennar varð þar eftir og hafði tekið Múhameðstrú. Þessi hópur var sendur til Kaupmannahafnar og fékk þar uppfræðslu í kristnum fræðum og upprifjun á móðurmáli sínu veturinn 1636 til 1637. Þá kennslu annaðist Hafnarstúdentinn Hallgrímur Pétursson, sem þá var á síðasta námsári sínu í Frúarskóla í Kaupmannahöfn. Felldu þau hugi saman og fór Hallgrímur með henni til Íslands og yfirgaf skólann án þess að ljúka prófi.

Húsfreyja á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu árin var Guðríður húsfreyja í Bolafæti í Njarðvík, en það var tómthúshjáleiga frá Ytri-Njarðvík. Þar bjó þá Grímur Bergsson, sem talið er að hafi reynst þeim hjónakornum vel. Eyjólfur, elsta barn þeirra hjóna er að líkindum fæddur í Bolafæti. Árið 1644 varð Hallgrímur prestur á Hvalsnesi og var þá Guðríður orðin prestsfrú þar. Þar eignuðust þau Steinunni, sem Hallgrímur orti mjög innilegt kvæði eftir, er þau misstu hana unga. Ennfremur hjó hann út legstein hennar, sem nú er geymdur í Hvalsneskirkju. Þarna var Guðríður til 1651, en það ár fluttust þau að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og bjuggu þar í allmörg ár. Síðustu ár Hallgríms bjuggu þau á Kalastöðum og á Ferstiklu og þar dó Hallgrímur úr holdsveiki árið 1674.

Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur kom út árið 2001 og er þar rakinn ferill hennar í formi sögulegrar skáldsögu.

  • Páll Eggert Ólason, Íslenskar æviskrár (Reykjavík, 1952).
  • Magnús Jónsson, Hallgrímur Pétursson, ævi hans og starf (Reykjavík, 1947).