Fara í innihald

Gröf á Höfðaströnd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Grafarkirkja

Gröf er innsti bær á Höfðaströnd við austanverðan Skagafjörð. Þar fæddist Hallgrímur Pétursson sálmaskáld árið 1614. Á 17. öld fékk Gröf það hlutverk að vera aðsetur biskupsekkna og ein þeirra sem þar bjuggu lengst var Ragnheiður Jónsdóttir, ekkja Gísla biskups Þorlákssonar. Gísli maður hennar, sem dó 1684, mun hafa látið reisa kirkjuna eða bænhúsið sem enn stendur í Gröf eða endurbyggja hana úr eldra guðshúsi, en í Gröf hafði verið bænhús í kaþólskum sið og áfram eftir siðaskipti.

Grafarkirkja er með minnstu guðshúsum og er elsta kirkja landsins að stofni til og jafnframt eina stafkirkjan. Guðmundur smiður Guðmundsson í Bjarnastaðahlíð í Vesturdal, helsti smiður Skagfirðinga á 17. öld, sem gerði skírnarfontinn í Hóladómkirkju, er talinn hafa skreytt kirkjuna og hugsanlega einnig smíðað hana. Kirkjan var lögð niður með konungsbréfi 1765 eins og margar aðrar kirkjur og síðan lengi notuð sem skemma. Hún komst í umsjá Þjóðminjasafnsins 1939 og gerð upp um 1950 en þá reyndist viðurinn svo fúinn að honum var öllum skipt út og nýjar fjalir sniðnar og útskornar nákvæmlega eftir þeim gömlu. Hún var endurvígð 1953. Kirkjugarðurinn var um sama leyti endurhlaðinn eftir veggjaleifum sem enn mótaði fyrir og er hann hringlaga. Klukknaportið er nýtt en smíðað í stíl við kirkjuna.