Fara í innihald

Galíleótunglin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samsett mynd sem sýnir stærðarsamanburð á Galíleótunglunum fjórum og Júpíter. Efst má sjá Íó og þar fyrir neðan Evrópu, Ganýmedes og Kallistó.

Galíleótunglin eru fjögur tungl Júpíters sem Galíleó Galílei fann í janúar árið 1610. Þau eru stærst hinna mörgu tungla Júpíters og nefnd eftir elskhugum Seifs: Íó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó. Þau eru meðal stærstu hluta sólkerfisins, að undanskyldri sólinni og reikistjörnunum átta, með stærri radíus en nokkur dvergreikistjarnanna.

Tunglin fjögur voru fyrst fundin á milli 1609 og 1610 eftir að Galíleó hafði gert endurbætur á sjónauka sínum sem gerðu honum kleyft að sjá himintunglin skýrar en nokkur hafði gert áður. Uppgötvanir Galíleós sýndu fram á mikilvægi stjörnukíkisins sem verkfæri stjörnufræðinga með því að sanna það að úti í geim væru hlutir sem ekki væri hægt að greina með berum augum. Enn fremur var óhrekjanleg uppgötvun hans, á himintunglum á braut um eitthvað annað en jörðina, kveikjan að tortryggni í garð jarðmiðjukenningarinnar sem þá var við lýði.