Fara í innihald

John Raleigh Mott

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá John Mott)
John Raleigh Mott
Mott í kringum 1946.
Fæddur25. maí 1865
Dáinn31. janúar 1955 (89 ára)
ÞjóðerniBandarískur
MenntunCornell-háskóli
StörfAðgerðasinni
TrúMeþódismi
MakiLeila Ada White (g. 1891)
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1946)

John Raleigh Mott (25. maí 1865 – 31. janúar 1955) var bandarískur trúboði sem var lengi leiðtogi Kristilegs félags ungra manna (KFUM) og Kristilegs heimssambands stúdenta. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1946 fyrir að stofna og styrkja alþjóðlegar stúdentahreyfingar kristinna mótmælenda sem töluðu fyrir friði. Hann deildi verðlaununum með Emily Greene Balch. Mott var aðalritari Kristilegs heimssambands stúdenta frá 1895 til 1920. Hann lék lykilhlutverk í stofnun Heimskirkjuráðsins árið 1948 og var kjörinn heiðursforseti þess til lífstíðar.

Mott fæddist í Livingstone-setri í Sullivan-sýslu þann 25. maí árið 1865.[1] Fjölskylda hans flutti til Postville í Iowa í september sama ár.[2] Hann gekk í Háskólann í Efri-Iowa, þar sem hann nam sagnfræði og vann verðlaun í rökræðukeppnum. Hann flutti yfir í Cornell-háskóla og útskrifaðist þaðan með B.A.-gráðu árið 1888. Mott var undir áhrifum frá Arthur Tappan Pierson, einum hvatamanninum að baki sjálfboðahreyfingar stúdenta í erlendum trúboðum, sem var stofnuð árið 1886. Mott kvæntist Leilu Ödu White (1866-1952) árið 1891 og eignaðist með henni tvo syni og tvær dætur.

Árið 1910 sótti Mott heimsráðstefnu trúboða, sem var mikilvægur áfangi í nútímasögu trúboða af mótmælendatrú. Árið 1912 var Mott og kollega hans boðið ókeypis far með farþegaskipinu RMS Titanic en þeir afþökkuðu boðið og ferðuðust með fábrotnara skipi, SS Lapland. Þegar félagarnir fréttu síðar af því að Titanic hefði farist litu þeir á hvern annan og sögðu: „Drottinn hlýtur að hafa fleiri verkefni fyrir okkur.“[3]

Mott ferðaðist um Evrópu og kynnti samkirkjufræði og ferðaðist síðan til Asíu. Frá október 1912 til maí 1913 hélt hann 18 ráðstefnur, meðal annars í Seylon, Indlandi, Búrma, Malaja, Kína, Kóreu og Japan.[4] Hann vann einnig með Robert Hallowell Gardiner III til að viðhalda sambandi við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna og Tíkon erkibiskup í Moskvu eftir rússnesku byltinguna.

Frá 1920 til 1928 var Mott formaður Kristilegs heimssambands stúdenta. Vegna starfa hans í trúboðsstörfum, samkirkjustefnu og friðarstörfum telja sumir sagnfræðingar Mott „víðförlasta og traustverðugasta kristnileiðtoga síns tíma“.[5]

Skjalasafn Motts er varðveitt í skólabókasafni guðfræðideildar Yale-háskóla.[6]

Mott er heiðraður með dýrlingadegi þann 3. október í dýrlingadagatali biskupakirkjunnar í Bandaríkjunum.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „John R. Mott“. Ljósberinn. 19. desember 1925. Sótt 1. apríl 2020.
  2. „John R. Mott“. Kristilegt stúdentablað. 1. desember 1960. Sótt 1. apríl 2020.
  3. Greg Daugherty (mars 2012). „Seven Famous People Who Missed the Titanic“. Smithsonian Magazine. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. október 2013. Sótt 1. apríl 2020.
  4. A History of the Ecumenical Movement 1517-1848, 2d edition, p. 364
  5. Cracknell & White, 243
  6. Yale University Divinity School Library. hdl.handle.net