Fara í innihald

Vítissódi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vítissódi
Vítissódasameind

Vítissódi (NaOH), natríumhýdroxíð eða natrínhýdroxíð er jónískt efni myndað úr Na+ og OH-. Það er hvítt, fast efni með bræðslumarkið 318 °C og rammur basi. Suðumark þess er 1390 °C . Vítissódi er auðleystur í vatni en mikil varmamyndun fylgir því að leysa hann upp í vatni. Vítissódi er stundum seldur sem flögur, litlar kúlur eða sem upplausn. Heimsframleiðslan á vítissóda árið 1998 var um 45 milljón tonn.

Vítissódi er afar ætandi og hættulegt efni. Mikilvægt er að geyma efnið í loftþéttu íláti því það binst koltvísýringi úr andrúmsloftinu. Vítissódi leysist upp í vatni en þá losnar mikill hiti. Efnið leysist líka upp í etanóli og metanóli en ekki í eter. Vítissódalausn skilur eftir gula bletti í efnum og á pappír.

Notkun[breyta | breyta frumkóða]

Vítissódi er notaður við vinnslu og sem hráefni í ýmiss konar efnaiðnaði, aðallega sem rammur basi í framleiðslu viðarkvoðu og pappírs, textíls, drykkjarvatns, sápu og þvotta- og hreinsiefna fyrir frárennslisrör. Efnið er notað til að losa stíflur í frárennslisrörum og er þá sturtað í niðurföll. Vítissódi er notaður sem hreinsiefni, t.d. til að hreinsa bjórframleiðslutanka og er algengasta efnið í efnum sem seld eru til að hreinsa bakarofna. Vítissódi er algengasti basinn sem notaður er í efnafræðitilraunum. Efnið er líka notað við framleiðslu á lífdísil. Áður var algengt að nota vítissóda til að ná málningu af tré en vegna umhverfissjónarmiða hefur sú notkun minnkað.

Vítissódi er notaður í fæðuframleiðslu, m.a. við framleiðslu á hinum norska „lutefisk“. Oftast stafar guli liturinn á kínverskum núðlum ekki af því að þær innihaldi egg heldur af því að við framleiðslu þeirra hefur verið notuð upplausn sem inniheldur vítissóda. Vítissódi hefur verið notaður við verkun sviðahausa á Íslandi, til að ná sóti af sviðnum hausum eru þeir settir í vatnslausn með vítissóda. Vítissódi er notaður til að hreinsa ál úr báxíti þannig að úr verði áloxíð, hráefni sem notað er til að framleiða ál í álbræðslum.

Fagstéttir hafa notað vítissóda til að slétta hár en úr þeirri notkun hefur dregið vegna hættu á efnabruna. Vítissódi hefur verið notaður til að leysa upp lífræna vefi dýra. Vítissódi hefur verið notaður til að stjórna sýrustigi við framleiðslu ólöglegra lyfja eins og metamfetamíns.

Gullpeningatilraun[breyta | breyta frumkóða]

Vítissódi gengur í samband við sink og það er hægt að búa til „gullpeninga“ úr koparmynt með því að sjóða hana í vítissódaupplausn sem í er dálítið af sinki, myntin verður þá silfurlituð eftir 45 sekúndur. Ef myntin er síðan sett undir gasloga í nokkrar sekúndur verður hún gullin. Ástæðan fyrir þessu er að sinkduftið leysist upp í vítissóda og býr til Zn(OH)42-. Þegar sink og kopar eru hituð saman verður til látún.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar var „sodium hydroxide“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. júlí 2008.
  • „Hvað nefnist sodium hydroxide (NaOH) á íslensku?“. Vísindavefurinn.