Paul Doumer
Paul Doumer | |
---|---|
Forseti Frakklands | |
Í embætti 13. júní 1931 – 7. maí 1932 | |
Forsætisráðherra | Pierre Laval André Tardieu |
Forveri | Gaston Doumergue |
Eftirmaður | Albert Lebrun |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 22. mars 1857 Aurillac, Frakklandi |
Látinn | 7. maí 1932 (75 ára) París, Frakklandi |
Dánarorsök | Myrtur |
Stjórnmálaflokkur | Róttæki flokkurinn |
Maki | Blanche Richel (1878-1932) |
Trúarbrögð | Kaþólskur |
Börn | 8 |
Háskóli | Parísarháskóli |
Paul Doumer (22. mars 1857 – 7. maí 1932) var franskur stjórnmálamaður og forseti Frakklands frá árinu 1931 þar til hann var myrtur næsta ár. Doumer var meðlimur í Róttæka flokknum (Parti radical) og hafði verið fjármálaráðherra Frakklands í þrígang, forseti franska þingsins og landstjóri franska Indókína.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Sem landstjóri franska Indókína frá 1897 til 1902 hafði Doumer þótt sýna mikla harðýðgi.[1] Þegar Doumer tók við landstjóraembættinu var franska nýlendan rekin með miklum fjárhagshalla. Til þess að rétta úr kútnum setti hann skatta á ópíum, vín og salt. Innfæddir sem höfðu ekki efni á að borga þessa skatta misstu oft hús sín og urðu dagverkamenn. Doumer gerði franska Indókína að markaði fyrir franskar vörur og arðbærar fjárfestingar fyrir franska athafnamenn.[2] Alræðislegt stjórnarfar Doumers og stirt samband Frakka við Kína í kjölfar boxarauppreisnarinnar leiddi til þess að hann var kallaður heim til Frakklands árið 1902.
Doumer, sem þá var forseti franska þingsins, var kjörinn forseti Frakklands árið 1931. Hann hafði áður boðið sig fram til forseta árið 1906 en beðið ósigur fyrir Armand Fallières. Doumer leitaðist við því að vera ópólitískur forseti sem gæti verið siðferðisleg fyrirmynd alþýðunnar.
Þegar Doumer opnaði flugvélasýningu í Seine-et-Oise þann 2. apríl 1932 þótti honum mikið koma til þess hve mikið var lagt í öryggisgæsluna og sagði við einn ráðherra sinna: „Á mínum aldri væru það nú líka meiri endalokin að vera myrtur.“
Morðið á Paul Doumer
[breyta | breyta frumkóða]Þann 6. maí 1932 fór Doumer forseti á Salomon de Rothschild-hótelið til að opna sýningu tileinkaða rithöfundum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Forsetinn heilsaði þar nokkrum rithöfundunum og keypti nokkrar bækur til að gefa konu sinni. Á meðan Doumer spjallaði við rithöfundinn Claude Farrère hæfðu hann skyldilega tvær byssukúlur. Sá sem skaut á hann var rússneskur fasisti að nafni Paul Gorgulov sem vildi hefna sín á frönsku ríkisstjórninni fyrir að gera ekki nóg til að koma frá stjórn bolsévika í Rússlandi.[3] Eftir að hafa slegist við Farrère og skotið tveimur kúlum í viðbót var Gorgulov handsamaður af öryggisvörðum og svo handtekinn.[4] Doumer var fluttur á sjúkrahús en ekki tókst að bjarga honum og hann lést úr sárum sínum daginn eftir.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Andri Ísaksson (1. apríl 1967). „Víetnam og frönsk viðhorf“. Alþýðublaðið. bls. 8.
- ↑ Ladenburg, Thomas. „The French in Indochina“ (PDF). digitalhistory.uh.edu. University of Houston. Sótt 11. september 2015.
- ↑ „Forseti Frakka myrtur“. Heimskringla. 11. maí 1932. bls. 1.
- ↑ Arnaud Folch, Guillaume Perrault, Les Présidents de la République pour les Nuls, Editions Générales First, 2011.
Fyrirrennari Gaston Doumergue |
Forseti Frakklands 13. júní 1931 — 7. maí 1932 |
Eftirmaður Albert Lebrun |