Fara í innihald

Marie François Sadi Carnot

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Marie François Sadi Carnot
Forseti Frakklands
Í embætti
3. desember 1887 – 25. júní 1894
ForsætisráðherraMaurice Rouvier
Pierre Tirard
Charles Floquet
Charles de Freycinet
Émile Loubet
Alexandre Ribot
Charles Dupuy
Jean Casimir-Perier
ForveriJules Grévy
EftirmaðurJean Casimir-Perier
Persónulegar upplýsingar
Fæddur11. ágúst 1837
Limoges, Frakklandi
Látinn25. júní 1894 (56 ára) Lyon, Frakklandi
DánarorsökMyrtur
StjórnmálaflokkurHófsamir lýðveldissinnar
MakiCécile Carnot
TrúarbrögðKaþólskur
ForeldrarHyppolite Carnot (faðir)
HáskóliÉcole polytechnique
École nationale des ponts et chaussées
StarfVerkfræðingur

Marie François Sadi Carnot (11. ágúst 1837 – 25. júní 1894), yfirleitt kallaður Sadi Carnot, var franskur stjórnmálamaður og forseti Frakklands frá 3. desember 1887 þar til hann var myrtur árið 1894.

Carnot var sonur stjórnmálamannsins og rithöfundarins Hyppolite Carnot og sonarsonur Lazare Carnot, sem hafði verið áhrifamaður í frönsku byltingunni og innanríkisráðherra Frakklands í „hundrað daga stjórn“ Napóleons árið 1815. Hann var jafnframt bróðursonur stærðfræðingsins og nafna síns Nicolas Léonard Sadi Carnot. Carnot forseti gekk í fjöllistaskóla sem ungur maður og vann síðar meir við brúagerð og vegagerð. Hann varð héraðsstjóri í Signu-fylki árið 1871 og þingmaður fyrir Côte-d'Or árið 1876. Carnot var kjörinn forseti Frakklands í desember árið 1887 eftir að Jules Grévy forseti sagði af sér vegna hneykslismála.[1] Sadi Carnot var kunnur fyrir heiðarleika og naut stuðnings Georges Clemenceau og ýmissa annarra franskra mektarmanna til embættisins. Hann hlaut kjör með 616 atkvæðum af 827.

Carnot tók við embætti á viðkvæmum tíma þar sem hershöfðinginn Georges Ernest Boulanger talaði opinskátt gegn franska lýðveldinu og virtist líklegur til að láta reyna á valdarán til að koma á einræðisstjórn. Carnot birtist alþýðunni við vandlega valin tilefni til þess að auka traust á forsetaembættinu og lýðveldinu. Árið 1889 var Boulanger loks rekinn í útlegð og Carnot var falið að birtast sem þjóðhöfðingi á hundrað ára afmæli frönsku byltingarinnar og á heimssýningunni í París árið 1889.[2] Carnot styrkti jafnframt bandalag Frakka við Rússa og var gerður að riddara í reglu heilags Andrésar af Alexander 3. Rússakeisara.

Morðið á Sadi Carnot

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 24. júní árið 1894 sótti Carnot forseti iðnaðarsýningu í Lyon. Hann var á leið í leikhús í vagni sínum þegar maður hljóp upp að vagni hans með blómvönd í hendi. Þegar Carnot teygði sig fram til að taka við blómvendinum stökk ítalski anarkistinn Sante Geronimo Caserio upp á vagn hans og stakk rýtingi í brjóst forsetans. Carnot lét líf sitt stuttu eftir miðnætti um kvöldið.[3] Sadi Carnot var Frökkum mikill harmadauði enda hafði hann verið vinsæll forseti. Ríkisstjórnir annarra þjóða vottuðu einnig samúð sína og Þjóðverjar létu jafnvel úr haldi franska hershöfðingja sem höfðu verið handteknir sem njósnarar til að sýna samúð.[4]

Morðinginn Caesario var tekinn af lífi undir fallöxi þann 16. ágúst.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Carnot, forseti Frakklands“, Fjallkonan, 2. aukablað (11.02.1890), bls. 7.
  2. Ory, Pascal (1989). l'Expo Universelle. Brussels: Editions Complexe.
  3. Útlendar frjettir frá Frakklandi“, Ísafold, 44. tölublað (18.07.1894), bls. 173.
  4. Frá útlöndum“, Stefnir, 15. tölublað (02.08.1894), bls. 59.


Fyrirrennari
Jules Grévy
Forseti Frakklands
18871894
Eftirmaður
Jean Casimir-Perier