Fara í innihald

Annað franska lýðveldið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Franska lýðveldið
République française
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Liberté, égalité, fraternité (Franska)
Frelsi, jafnrétti, bræðralag
Þjóðsöngur:
Le Chant des Girondins
Höfuðborg París
Opinbert tungumál Franska
Stjórnarfar

Forseti Louis-Napoléon Bonaparte (1848–1852)
'
 • Stofnun 4. nóvember 1848 
 • Upplausn 2. desember 1852 
Flatarmál
 • Samtals

300.000 km²
Gjaldmiðill Franskur franki

Annað franska lýðveldið (Deuxième République á frönsku) var lýðveldisríki sem var til í Frakklandi frá 24. febrúar 1848 til 2. desember 1852. Lýðveldið kom í stað júlíríkisins eftir febrúarbyltinguna 1848 og á eftir því kom síðara keisaradæmið.

Annað franska lýðveldið sker sig úr hópi annarra stjórna sem stofnaðar hafa verið í Frakklandi vegna þess hve stutt það entist og vegna þess að það var síðasta franska stjórnin sem var sett á fót í kjölfar byltingar. Jafnframt var annað lýðveldið fyrsta franska ríkið þar sem allir karlar höfðu kosningarétt og það ríki sem batt enda á þrælahald í frönsku nýlendunum fyrir fullt og allt. Eftir stutta bráðabirgðastjórn sem kom á stöðugleika og kom til móts við byltingarmenn vann nýja stjórnin bug á sósíalistum og setti lýðveldinu nýja stjórnarskrá.

Louis-Napoléon Bonaparte var forseti annars lýðveldisins frá desember 1848, en hann hafði áður unnið kosningasigur sem frambjóðandi Regluflokksins (parti de l'Ordre). Næstu árin bar stjórn Frakklands merki um íhaldssemi, t.d. með setningu Falloux-laganna svokölluðu sem gáfu kaþólsku kirkjunni aukið vægi í franska menntakerfinu og með takmörkun á almennum kosningarétti til að hafa hemil á vinstrihreyfingum. Stjórnmálaskoðanir Bonaparte urðu æ ólíkari stjórnmálaflokknum sem hafði fært honum völdin og fóru frekar að líkjast bónapartisma í anda frænda forsetans, Napóleons keisara. Regluflokkurinn batt vonir sínar við það að í kosningunum 1852 myndu flokksmenn bjóða fram annan frambjóðanda sem yrði konungssinnaður.

Stjórnarskráin meinaði Bonaparte að bjóða sig fram til annars kjörtímabils og tilraunir hans til að koma á stjórnarskrárbreytingu báru ekki erindi sem erfiði. Því framdi hann valdarán þann 2. desember 1851 og kom á gerræðislegu stjórnarkerfi sem var síðar staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu. Næsta ár lýsti Bonaparte sig keisara undir nafninu Napóleon III. og batt þar með enda á annað lýðveldið. Minningin um endalok annars lýðveldisins var lengi mjög sterk innan frönsku stjórnmálastéttarinnar, sem í meira en öld eftir þetta kom í veg fyrir að forseti Frakklands yrði kjörinn í almennum kosningum.