Fara í innihald

Bókmenntir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gamlar bækur í bókasafni Merton College í Oxford í Englandi.

Bókmenntir eru safn texta eða rita, bæði skáldverka og ljóða (fagurbókmennta) og annarra ritverka, svo sem fræðirita. Hugtakið á fyrst og fremst við um ritverk en hefur líka verið notað yfir verk munnlegrar menningar, svo sem þjóðsögur, sönglög og kvæði. Ýmiss konar rit og ritun teljast til bókmennta, til dæmis ljóðlist, leikritun, skáldskapur og fræðiritun.

Bókmenntir geta haft mikið gildi fyrir þau samfélög þar sem þær urðu til. Biblían og Ilíonskviða eru dæmi um merk ritverk, sem eru veigamikill þáttur í bókmenntaarfi þeirra þjóða sem skrifuðu þau, og Íslendingasögurnar, eins og til dæmis Njála, hafa mótað mjög sjálfsmynd Íslendinga í gegnum aldirnar. Heimsbókmenntir eru bókmenntir sem eru þekktar og hafa haft mikil áhrif á menningu víða um heim.

Bókmenntafræði er fræðigrein sem fæst einkum við rannsóknir á bókmenntum, meðal annars með aðferðum bókmenntarýni.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Hernaðarlistin eftir Sun Tzu í prentaðri kínverskri bambusbók frá 18. öld.

Elstu bókmenntir sem þekktar eru koma frá fyrstu menningarsvæðunum sem notuðust við ritmál, Súmer og Egyptalandi. Elsta dæmið um bókmenntaverk er Gilgameskviða sem er talin vera frá því fyrir 2000 f.Kr. Egypska Dauðrabókin er talin vera frá 18. öld f.Kr. þótt hlutar hennar séu hugsanlega mun eldri. Þessar elstu bókmenntir innihalda hluti úr munnlegri geymd sem gætu hafa gengið mann fram af manni um aldir áður en þeir voru skrifaðir niður.

Elstu indversku Vedaritin eru talin vera frá því um 1500 f.Kr. Helgirit hindúa, Purana, og sagnakvæðin Ramayana og Mahabarata eru frá 5. til 3. öld f.Kr. Þessi rit höfðu mikil áhrif á bókmenntir og listir um alla Asíu. Áhrif þessara bókmennta og þeirra trúarbragða sem þau tilheyrðu urðu til þess að sanskrít var notuð sem bókmenntamál í Suður-Asíu og Suðaustur-Asíu öldum saman.

Elstu helgirit gyðinga, bækur Gamla testamentisins, eru talin vera samin á hebresku frá 8. til 5. aldar f.Kr. þótt elstu þekktu handritin séu Dauðahafshandritin, þau elstu frá 2. öld f.Kr. Sjötíumannaþýðingin er þýðing á einum hluta hebresku biblíunnar, Fimmbókaritinu, á koine grísku á 3. og 2. öld f.Kr. Þessi rit höfðu mikil áhrif á miðaldabókmenntir vegna útbreiðslu abrahamískra trúarbragða á síðfornöld. Bækur Nýja testamentisins voru ritaðar á koine grísku á 2. og 3. öld e.Kr.

Þegar talað er um fornaldarbókmenntir er yfirleitt átt við bókmenntir á grísku og latínu sem hafa haft mikil áhrif á vestræna bókmenntahefð. Klassískar grískar bókmenntir telja meðal annars Hómerskviður, ljóð Saffóar og leikrit Æskýlosar, Sófóklesar og Evrípídesar, heimspekirit Platóns og Aristótelesar, sem lagði grundvöllinn að bókmenntafræði með riti sínu Um skáldskaparlistina, sagnfræðirit Heródótosar og Þúkýdídesar og ævisögur Plútarkosar. Klassískar latínubókmenntir telja verk skáldanna Virgils, Hóratíusar, Propertiusar, Ovidiusar og Juvenalis, leikskáldánna Plautusar og Terentiusar, verk sagnaritaranna Sallustiusar, Liviusar og Tacitusar og ritgerðir heimspekinganna Ciceros og Senecu yngri. Líkt og sanskrít var latína helsta bókmenntamál Evrópu öldum saman, löngu eftir að hún hætti að vera móðurmál íbúa Ítalíuskagans og var helsta bókmenntamál Vestur-Evrópu á miðöldum.

Klassískar kínverskar bókmenntir eru rit á klassískri kínversku frá því fyrir tíma Qin-veldisins sem hófst árið 256 f.Kr. Þær telja meðal annars helstu verk konfúsíusisma og taóisma (til dæmis Bókina um veginn), Hernaðarlistina eftir Sun Tzu sem er að uppruna frá 6. öld f.Kr. og verk sagnaritaranna Zuo Qiuming og Sima Qian.

Klassískar japanskar bókmenntir eru frá Heiantímabilinu (794−1185). Frá þeim tíma eru Saga Genji eftir Murasaki Shikibu, kvæðasafnið Kokin Wakashū og sagnasöfnin Makura no Sōshi og Konjaku Monogatarishū. Nō-leikhúsið þróaðist stuttu síðar. Á sama tíma hófst gullöld bókmennta á arabísku og persnesku, bæði málin rituð með arabísku letri. Þúsund og ein nótt er sagnasafn sem fyrst var tekið saman á 8. eða 9. öld, hugsanlega sem þýðing á persnesku riti eða ritum. Frá þessum tíma eru kvæði Ferdowsis, stærðfræðirit Al-Khwarizmis, heimspekirit Avicenna og Averróes og Rubáiyát eftir Omar Khayyam. Eftir að Mongólar lögðu Bagdad undir sig 1258 og gullöld Íslam lauk hnignaði arabískum bókmenntum og persneska tók yfir sem bókmenntamál. Ferðasaga Ibn Battuta var skrifuð í Marokkó á arabísku á 14. öld.

Endurreisnin hófst á Ítalíu á 14. öld. Þekktustu verkin frá þeim tíma eru Hinn guðdómlegi gleðileikur eftir Dante Alighieri og Tídægra eftir Giovanni Boccaccio, bæði rituð á ítölsku í stað latínu. Petrarca er oft talinn upphafsmaður húmanismans en flest verka hans eru rituð á latínu. Furstinn eftir Niccolò Machiavelli er frá 16. öld.

Prentun á pappír hófst í Kína á 6. öld en elstu heimildir um prentletur eru frá 10. öld. Frá Kína breiddist prentlistin út með búddismanum um Asíu og þaðan til Evrópu. Evrópubúar fundu síðan upp prentvélina um 1436 sem skapaði forsendur fyrir fjöldaframleiðslu bókmennta og hafði mikil áhrif bæði á form þeirra og innihald. Án prentverksins er nær óhugsandi að siðbreytingin gæti hafa átt sér stað á 16. öld. Á þeim tíma náðu guðfræðirit eftir siðbótarmenn á borð við Martein Lúther,  Philipp Melanchthon og Jóhann Kalvín mikilli útbreiðslu í Evrópu. Krossgangan eftir John Bunyan og kvæðið Paradísarmissir eftir John Milton voru samin á tímum trúarlegs umróts í Englandi á 17. öld.

Á 16. og 17. öld stóð leiklist með miklum blóma í Vestur-Evrópu með verkum leikskálda á borð við William Shakespeare, Moliére, Jean Racine og fleiri. Á 18. öld tók prósaleikhús við af hefðbundnu leikhúsi (með texta í bundnu máli) á sama tíma og óperan og óperettan, ásamt öðrum tegundum af sungnum sviðsverkum nutu mikilla vinsælda. Á 17. öld hófst líka blómaskeið skáldsögunnar í Evrópu með verkum á borð við Don Kíkóta eftir Miguel de Cervantes og Róbinson Krúsó eftir Daniel Defoe.

Helstu höfundar upplýsingatímans á 18. öld voru VoltaireDenis DiderotJean-Jacques RousseauDavid HumeAdam Smith og Immanuel Kant sem rituðu um heimspeki, stjórnmál, uppeldi, sagnfræði, hagfræði og raunvísindi. Ein þekktasta skáldsaga þess tíma er Ferðir Gúllívers eftir Jonathan Swift. Undir lok aldarinnar kom rómantíska stefnan fram í Þýskalandi með höfundum á borð við Johann Wolfgang von Goethe og Friedrich Schiller og þýska hughyggjan í heimspeki Georg Wilhelm Friedrich Hegel. Í Skotlandi skrifaði Walter Scott skáldsögur í anda þjóðernisstefnu og í Englandi samdi Jane Austen raunsæislegar sögur. Aðrir þekktir höfundar á ensku frá þessum tíma eru Brontë-systur, John Keats, Byron lávarður og Mary Shelley. Um sama leyti hóf Alexandre Dumas eldri feril sinn sem leikskáld og rithöfundur í Frakklandi. Victor Hugo í Frakklandi og Charles Dickens í Englandi rituðu skáldsögur sem einkenndust af samfélagslegri ádeilu. Danska gullöldin með heimspekiritum Søren Kierkegaard og ævintýrum H.C. Andersen stóð yfir á fyrri helmingi 19. aldar. Á síðari helmingi 19. aldar tók raunsæið við sem ríkjandi stefna í bókmenntum með höfundum á borð við Honoré de Balzac og Lev Tolstoj.

Á 18. og 19. öld þróaðist hugverkaréttur í vestrænni löggjöf og höfundaréttur varð tekjulind fyrir borgaralega rithöfunda á Vesturlöndum, samhliða ritlaunakerfinu sem fyrir var. Evrópskir rithöfundar á þessum tíma áttu því meiri möguleika en fyrirrennarar þeirra til að lifa á list sinni. Undir lok 19. aldar var Bernarsáttmáli til verndar bókmenntum og listaverkum sem tryggði gagnkvæman höfundarétt milli landa undirritaður.

Listaverk í Berlín.

Seint á 19. öld kom módernisminn fram sem hreyfing í bókmenntum. Helstu fyrirrennarar módernismans voru Fjodor Dostojevskíj, Charles Baudelaire, Arthur Rimbaud, Marcel Proust og Walt Whitman. Meðal helstu rithöfunda módernismans voru Ezra Pound, T. S. Eliot, James Joyce, Guillaume Apollinaire, Franz Kafka og Karel Čapek. Ýmsar framúrstefnuhreyfingar komu fram í listum á fyrri hluta 20. aldar eins og fútúrismi, dadaismi, imagismi, vortisismi, kúbismi og súrrealismi. Þessar framúrstefnuhreyfingar einkenndust meðal annars af tilraunum með tungumálið, notkun bullmáls, afnámi greinarmerkja og endurtekningum. Pólitísk ádeila var áberandi í verkum framúrstefnuhöfunda eins og Bertolt Brecht. Eftir Seinni heimsstyrjöldina varð tilvistarstefna vinsæl með verkum frönsku rithöfundanna Jean-Paul Sartre og Albert Camus. Leikhús fáránleikans kom fram í París á 6. áratugnum á sama tíma og leikarar í Bandaríkjunum tileinkuðu sér Stanislavskíjaðferðina til að ná fram aukinni einlægni. Í Bandaríkjunum nutu raunsæjar skáldsögur John Steinbeck og Ernest Hemingway mikilla vinsælda á eftirstríðsárunum.

Meðal rithöfunda sem hafa verið kenndir við póstmódernisma á síðari hluta 20. aldar eru John Irving, Milan Kundera, Murakami Haruki og Kurt Vonnegut. Í Bandaríkjunum kom Bítkynslóðin fram á 6. áratugnum með verkum ljóðskáldanna Alan Ginsberg, Jack Kerouac og William S. Burroughs. Á 7. áratugnum kom töfraraunsæið fram í suðuramerískum bókmenntum með verkum höfunda á borð við Jorge Luis Borges og Gabriel García Márquez. Á 7. áratugnum urðu femínískar bókmenntir eins og Þjóðsagan um konuna eftir Betty Friedan, Ég veit af hverju fuglinn í búrinu syngur eftir Maya Angelou og Kvengeldingurinn eftir Germaine Greer áberandi sem hluti af jafnréttisbaráttunni.

Bókmenntaform[breyta | breyta frumkóða]

Bókmenntir koma fyrir í fjölbreyttum myndum og hefð er fyrir því að greina ólík form framsetningar í nokkra flokka. Algengt er að gera greinarmun á framsetningu í bundnu og óbundnu máli. Eins er algengt að gera greinarmun á skáldskap og bókmenntum sem setja fram sannverðugar upplýsingar. Þá er oft gerður greinarmunur á bókmenntum sem settar eru fram í rituðu máli annars vegar og munnlega hins vegar. Lengst af í vestrænni bókmenntahefð var sett samasemmerki milli bundins máls og fagurbókmennta. Í samtímanum er þessu hins vegar öfugt farið: framsetning í bundnu máli telst fremur til undantekninga nema í ljóðlist.

Bundið mál[breyta | breyta frumkóða]

Óbundið mál[breyta | breyta frumkóða]

Bókmenntagreinar[breyta | breyta frumkóða]

Bókmenntum er gjarnan skipt í bókmenntagreinar, gjarnan með tilvísun til bókmenntaforms enda voru margar bókmenntagreinar löngum taldar eiga að vera í einu formi eða öðru; en einnig tekur skipting mið af efnistökum, frásagnarhætti, tón og jafnvel lengd.[1] Í ritinu Um skáldskaparlistina flokkaði Aristóteles skáldskap í leikverk (harmleiki, gamanleiki og satýrleika), ljóð eða lýrískan kveðskap, söguljóð og lofkvæði. Allar þessar bókmenntagreinar voru á þeim tíma aðeins til í bundnu máli. En aðrar greinar bókmennta voru til í óbundnu máli, svo sem sagnaritun, lofræður, heimspeki og ýmiss konar fræðirit.

Tengsl ákveðinna bókmenntagreina við bókmenntaform eru ekki lengur jafn sterk og þau voru í fornöld. Til dæmis eru leikverk nútímans gjarnan í óbundnu máli. Bókmenntagreinum ætti þó ekki að rugla saman við bókmenntaform (til dæmis ljóð og myndasaga) eða aldursflokka (til dæmis unglingabókmenntir og barnabókmenntir). Dæmi um bókmenntagreinar eru háðsádeila, hjarðkvæði, stofudrama, vísindaskáldskapur og sálmur.

Leikrit[breyta | breyta frumkóða]

Ljóð[breyta | breyta frumkóða]

Ritgerðir[breyta | breyta frumkóða]

Skáldsögur[breyta | breyta frumkóða]

Smásögur[breyta | breyta frumkóða]

Bókmenntastefnur[breyta | breyta frumkóða]

Myndljóð eftir Guillaume Apollinaire sem bjó til orðið súrrealismi.

Bókmenntastefnur eru fagurfræðilegar stefnur, viðhorf til formlegra einkenna bókmennta og ákveðinna bókmenntagreina, sem þykja einkenna bókmenntir tiltekins tímabils eða hóps skálda og rithöfunda; eða jafnvel stefna sem höfundar lýsa sjálfir yfir að þeir fylgi. Bókmenntastefnur geta þannig verið komnar til löngu síðar en þær bókmenntir sem þær lýsa en líka verið samdar áður en nokkrar bókmenntir eru orðnar til sem fylgja þeim, eins og þegar þær eru búnar til með stefnuyfirlýsingu. Bókmenntastefnur eru einkum notaðar til að lýsa bókmenntum frá nýöld. Dæmi um bókmenntastefnur eru rómantíska stefnan, félagslegt raunsæi, módernismi, súrrealismi og dadaismi.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sjá Jakob Benediktsson (1989), s.v. bókmenntagreinar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Jakob Benediktsson, Hugtök og heiti í bókmenntafræði, 2. útg. (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Mál & menning, 1989 [1983]).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.