Alsírstríðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alsírstríðið
ثورة التحرير الجزائرية
Guerre d'Algérie
Hluti af kalda stríðinu og afnýlendun Afríku

Myndir frá stríði Frakka í Alsír
Dagsetning1. nóvember 1954 – 19. mars 1962
(7 ár, 4 mánuðir, 2 vikur og 4 dagar)
Staðsetning
Niðurstaða

Alsírskur sigur

Breyting á
yfirráðasvæði
Sjálfstæði Alsír frá Frakklandi
Stríðsaðilar
  • FAF
    (1960–61)
  • OAS
    (1961–62)
Leiðtogar
Fjöldi hermanna
300.000 staðfestir
40.000 borgaralegir stuðningsmenn
  • 470.000 hermenn (mesti fjöldinn sem franski herinn viðhélt frá 1956 til 1962)[1] eða 700.000 menn[12] (óvíst er hvort síðari talningin telur með Harka eða ekki)
    90.000[13][14] til 180.000 Harkar[15] (Alsíringar sem börðust í varaliði Frakka)
    1,5 milljónir manna herkvaddir[16]
3.000 (OAS)
Mannfall og tjón
  • 140.000[17] til 152.863[18][19] FLN-liðar drepnir (þ. á m. 12.000 í hreinsunum innan samtakanna[20] og 4.300 Alsíringar úr FLN og MNA drepnir í Frakklandi sjálfu)
  • Óþekktur fjöldi særðra
  • 25.600[20]: 538  til 30.000[21] franskir hermenn drepnir
  • 65.000 særðir[22]
  • 50.000 Harkar drepnir eða týndir[23][24]
  • 6.000 evrópskir óbreyttir borgarar drepnir
  • 100 drepnir
  • 2.000 fangelsaðir
  • 4 teknir af lífi
    • 250.000–300.000 (þ. á m. 55.000[25] til 250.000[26][27] óbreyttir borgarar) Dauðsfall Alsíringa (talning Frakka)

    ~1.500.000 Alsíringar látnir (mat alsírskra sagnfræðinga)[28]
    ~1.000.000 Alsíringar látnir (viðmið Horne)[20]
    ~400.000 dauðsföll alls (viðmið franskra sagnfræðinga)[28]


    • 1 milljón Evrópubúa flúnir[29]
    • 200.000 Gyðingar flúnir[30]
    • 8.000 þorp lögð í rúst
    • Rúmlega 2 milljónir Alsíringa hraktar á vergang[31][32]

    Alsírstríðið, einnig kallað alsírska sjálfstæðisstríðið eða alsírska byltingin (arabíska: الثورة الجزائرية; berbíska: Tagrawla Tadzayrit; franska: Guerre d'Algérie eða Révolution algérienne) var stríð á milli Frakklands og alsírsku Þjóðfrelsisfylkingarinnar (franska: Front de Libération Nationale eða FLN) sem háð var frá 1954 til 1962.

    Stríðið leiddi til þess að Alsír hlaut sjálfstæði frá Frakklandi. Stríðið einkenndist af beitingu skæruhernaðar og af útbreiddri notkun pyntinga hjá báðum stríðsaðilum.[33][34] Stríðið var aðallega háð í Alsír, sem þá var undir frönskum yfirráðum.

    Undir lok stríðsins var Frakkland á barmi herforingjabyltingar. Alsírstríðið leiddi til þess að fjórða franska lýðveldið hrundi og stjórnarskrá Frakklands var endurrituð.[35]

    Aðdragandi og orsakir[breyta | breyta frumkóða]

    Landvinningar Frakka í Alsír[breyta | breyta frumkóða]

    Þar til snemma á nítjándu öld var Alsír, eða Ríkisstjóradæmið Algeirsborg, hluti af Tyrkjaveldi. Landinu var stjórnað af landstjórum sem báru titilinn dey. Íbúarnir voru aðallega Arabar og Berbar en ýmis önnur þjóðarbrot bjuggu í ættbálkasamfélögum í landinu og á Saharasvæðinu. Eftir frönsku byltingunna hafði franska lýðveldið keypt korn frá Alsír að andvirði átta milljóna franka. Frakkar áttu að endurgreiða kaupin síðar en þetta var aldrei gert.[36]

    Árið 1827 bauð dey Alsír franska sendiherranum að greiða hluta af skuldinni. Fundur þeirra leiddi til átaka þar sem alsírski deyinn sló franska sendiherrann utan undir með flugnaspaða. Frakkar urðu æfir og settu hafnarbann á alsírsku borgina Algeirsborg. Sagnfræðingar eru þó á einu máli um að flugnaspaðaatvikið hafi verið tylliástæða.[37]

    Frakkar lögðu Alsír undir sig fremur auðveldlega. Franskir hermenn lögðu af stað frá Toulon þann 25. maí 1830, gengu á land í Alsír þann 14. júní og þann 5. júlí hafði varnarlið Algeirsborgar gefist upp. Frönsku hermennirnir drápu óbreytta borgara, létu greipar sópa um borgina og lögðu moskur og grafreiti í rúst.[38] Árið 1834 var deynum steypt af stóli og Alsír varð frönsk nýlenda. Árið 1848 limaði Frakkland landsvæðið inn í heimsveldi sitt og skipti því í þrjú héruð: Alger, Oran og Constantine.[36][39] Frakkar áttu von á því að hægt væri að friðþægja landið á stuttum tíma en Alsíringar veittu harða mótspyrnu sem var ekki kveðin niður þar til árið 1857.[40] Franska var jafnframt gerð að opinberu tungumáli í landinu.

    Margir Frakkar og aðrir Evrópubúar fluttu til Alsír á næstu áratugum. Frakkar sem fæddust í Alsír voru kallaðir pieds-noirs (bókstaflega „svartfætlingar“) og sýndu frumbyggjunum oft mikla grimmd. Margir innfæddir Alsíringar voru drepnir eða hraktir á vergang. Bandaríska sagnfræðingnum Jennifer Sessions telst svo til að á fyrstu 25 árum franskrar nýlendustjórnar í Alsír (1830-1855) hafi íbúafjöldi innfæddra Alsíringa lækkað úr rúmum fjórum milljónum í um 2,3 milljónir.[41]

    Alsírsk þjóðernishyggja[breyta | breyta frumkóða]

    Fyrstu ummerkin um þjóðernishyggju í Alsír birtust með uppreisn alsírska höfðingjans Abd el-Kaders gegn frönsku nýlendustjórninni á fjórða áratugi nítjándu aldar. Þótt frelsisbarátta Abd-el-Kaders hafi misheppnast er gjarnan litið á hana sem fyrsta skrefið í mótun alsírskrar þjóðernisímyndar.[42]

    Þetta voru þó ekki endalok alsírskrar andspyrnu gegn frönskum yfirráðum og vopnaðar uppreisnir brutust ítrekað út á 19. öld. Kabýlar í fjallahéruðunum austan við Algeirsborg börðust til dæmis í orrustunni við Icheridden árið 1857 og gerðu aðra uppreisn árið 1871, eftir að Frakkar höfðu tapað í stríðinu gegn Prússlandi. Uppreisnir brutust út gegn Frökkum í bæjunum Touggourt og Ouargla um svipað leyti.[43]

    Snemma á 20. öld börðust Alsíringar aftur fyrir jafnrétti og afnámi sérstakra stjórnsýsluheimilda stjórnvalda yfir múslimum. Alsírsk þjóðernishyggja færðist í aukana vegna starfsemi fjögurra hópa.

    1. Sá fyrsti var hópurinn Ungir Alsíringar (Jeunesse Algérienne), sem var stofnaður árið 1907, og taldi til sín menntamenn sem höfðu gengið í skóla í Frakklandi, meðal annars Khalid ibn Hashim og Ferhat Abbas. Þeir vildu stuðla að pólitískri, lagalegri, félagslegri og efnahagslegri aðlögun Alsíringa að Frakklandi með því að öðlast franskan ríkisborgararétt en viðhalda persónulegri stöðu sinni sem múslimar. Í Alsír fór ríkisborgararéttur eftir sénatus-consulte-lögum frá 1865, sem kvað á um að Alsíringar væru franskir en ekki ríkisborgarar Frakklands. Til að gerast ríkisborgarar urðu þeir að afsala sér borgaralegri stöðu sem múslimar. Blum-Viollette-frumvarpið árið 1936 átti að gera litlum hópi Alsíringa kleift að öðlast franskan ríkisborgararétt án þess að afsala sér borgaralegri stöðu sem múslimar, en hörð andstaða Evrópubúa í Alsír leiddi til þess að frumvarpið var aldrei samþykkt.[44][45] Ungir Alsíringar gáfu út fjölda fréttablaða og tímarita, meðal annars L'Islam, sem var kallað „lýðræðislegur uppruni alsírsku múslimanna“, og El-Hack.[46]
    2. Annar hópurinn taldi til sín múslimska kennara og nemendur sem stofnuðu Samtök alsírska múslimskra Úlama (Association des Oulémas Musulmans Algériens; AUMA) árið 1931. Þeir voru undir áhrifum frá egypsku umbótasinnunum Muhammad 'Abduh og Muhammad Rashid Rida. Þeir lögðu áherslu á arabískan og múslimskan uppruna landsins og töluðu fyrir íslamskri hreinsun í Alsír og afturhvarfi til Kóransins og súnna. Kjörorð stofnandans Ben Badis voru „íslam er trú okkar, arabíska tunga okkar og Alsír land okkar“.[47][48]
    3. Þriðji hópurinn var róttækari og rak uppruna sinn til Parísar. Upphaf hans var meðal norður-afrískra og annarra innflytjenda í Frakklandi á þriðja áratugnum sem lutu forystu Ahmed Messali Hadj. Hann skipulagði Norður-afrísku stjörnuna (Étoile Nord-Africain) og, þegar hún var bönnuð árið 1937, Alsírska þjóðarflokkinn (Parti du peuple algérien; PPA). Hann hvatti til uppreisnar gegn frönskum nýlenduyfirráðum og algers sjálfstæðis Alsír. PPA lagði grunninn að nútímalegri þjóðernishyggju í Alsír.[47]
    4. Kommúnistar voru annar hópur, en Alsírski kommúnistaflokkurinn var stofnaður árið 1935. Lítið var hins vegar um stéttvitund þar sem meðlimir hópsins voru aðallega Evrópumenn. Hópurinn gegndi því litlu pólitísku hlutverki í sjálfstæðisbaráttunni.[49]

    Þjóðfrelsisfylkingin (Front de libération nationale; FLN), sem var stofnuð árið 1954, tók við af Alsírska þjóðarflokknum. Hún kom sér fljótt upp hernaðarvæng, Þjóðfrelsishernum (Armée de libération nationale; ALN) og hvatti alla Alsíringa til að gera uppreisn og berjast fyrir frelsi sínu. Árið 1957 voru meðlimir ALN orðnir allt að 40.000. Sumir voru frá landinu og aðrir voru staðsettir í Marokkó og Túnis. Bylting þeirra var þá hafin.[49][50]

    Fjöldamorðin í Sétif og Guelma[breyta | breyta frumkóða]

    Þann 8. maí 1945, stuttu eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, skipulögðu alsírskir borgarar mótmæli þar sem þeir kröfðust sjálstæðis. Mótmælin snerust brátt upp í blóðbað. Mótmælendurnir drápu rúmlega 100 evrópska landnema. Franski herinn drap um 6.000 til 50.000 Alsíringa (talningar eru mjög á reiki).[51] John P. Entelis taldist svo til að um 15.000 alsírskir borgarar hafi verið drepnir þegar herinn bældi niður óeirðirnar.[49]

    Áhrif franskrar nýlendustefnu á Alsír[breyta | breyta frumkóða]

    Frönsk nýlendustefna hafði afar neikvæð áhrif á líf Alsíringa. Á tíma fyrri heimsstyrjaldarinnar nam fjöldi landnema frá Frakklandi og öðrum Evrópuríkjum, aðallega Ítalíu, Spáni og Möltu, um 800.000 manns. Fjöldi innfæddra íbúa nam um 4,5 til 5 milljónum. Um helmingur evrópsku landnemanna voru launþegar úr verkalýðsstéttinni. Þeir bjuggu almennt við verri lífsskilyrði en íbúar í Frakklandi sjálfu en mun betri en innfæddir Alsíringar.[52] Franskir landnemar eignuðu sér sex milljónir ekra, sem var um 40% alls ræktarlands og 98% af frjósamasta landi í Alsír.[53] Evrópumenn stjórnuðu jafnframt nánast öllum innviðum, iðnaði og verslun landsins og höfðu tögl og hagldir á ríkisstjórn, dómkerfi og menntakerfi landsins. Franska stjórnin hafði skapað lénskerfi þar sem nokkur þúsund Evrópumanna réðu yfir milljónum Alsíringa.[54]

    Aðeins evrópsku landnemarnir og lítill forréttindahópur Alsíringa höfðu franskan ríkisborgararétt. Flestir Alsíringar voru franskir þegnar en ekki franskir ríkisborgarar og höfðu því lítið um það að segja hvernig landinu þeirra var stýrt. Lagabálkurinn Code de l'indigénat (lögbók um stöðu frumbyggja), sem var saminn eftir landvinninga Frakka árið 1881 og var í gildi til ársins 1944, skyldaði Alsíringa til að greiða sérstaka skatta. Alsíringar guldu ekki aðeins efnahagslegt tjón, heldur mennta- og menningarlegt. Ríkisstjórnin tók yfir trúarlegar stofnanir, úthlutaði þeim fjárhagsáætlunum og skipaði imama þeirra sjálf. Frakkar eyðilögðu jafnframt menntakerfið í Alsír. Fyrir yfirtöku Frakka hafði læsi meðal Alsíringa verið útbreiddara en í Frakklandi en árið 1954 gekk aðeins fjórðungur alsírskra barna í skóla.[52]

    Gangur stríðsins (1954-1962)[breyta | breyta frumkóða]

    Upphaf átaka[breyta | breyta frumkóða]

    Franskir hermenn í Alsír árið 1957.

    Þann 1. nóvember 1954 hóf FLN baráttu fyrir sjálfstæði Alsír og lýsti yfir stríði gegn Frakklandi. Vopnaðir alsírskir hermenn gerðu uppreisn á nokkrum stöðum og nutu stuðnings egypska forsetans Gamals Abdel Nasser, sem talaði fyrir arabískri þjóðernishyggju og afnýlendun um alla Afríku.[55][56]

    Í upphafi einkenndist stríðið aðallega af skæruhernaði þar sem alsírskir skæruliðar gerðu árásir á franska landnema. FLN hvatti múslima í Alsír til að fylkjast saman og taka þátt í þjóðarbaráttu fyrir endurreisn fullvalda alsírsks lýðræðisríkis sem skyldi byggjast á meginreglum íslamstrúar, enda nægði sjálfstæðið eitt ekki. Franski innanríkisráðherrann François Mitterrand, svaraði því að „Einu samningaræðurnar sem [kæmu] til greina [væru] stríð“.[57] Í fyrstu gerðu Alsíringar mest árásir á háttsetta hermenn en í ágúst 1955 fór FLN einnig að gera árásir á almenna borgara. Þetta hófst með morðum samtakanna á 123 fransk-alsírskum borgurum og limlestingu á líkum þeirra í Philippeville þann 20. ágúst 1955, auk þess sem 50 múslimar létust.[58][59][60] FLN átti jafnframt í borgarastríði innanlands gegn Alsírsku þjóðarhreyfingunni (Mouvement national algérien; MNA), sem Messali Hadj hafði stofnað. MNA aðhylltist einnig vopnaða byltingu og algert sjálfstæði en FLN tókst að mestu að ryðja burt MNA í Alsír. Eftirlifandi stuðningsmenn MNA voru aðallega Alsíringar búsettir í Frakklandi. Bardagar á milli samtakanna voru einnig háðir í Frakklandi sjálfu og voru kallaðir „kaffihúsastríðin“ þar sem stuðningsmenn FLN og MNA réðust hver á annan á frönskum kaffihúsum og veitingastöðum. Um 5.000 manns létust í þessum átökum.[61] Franskir hermenn hefndu sín eftir orrustuna um Philippeville og drápu 1.270 (samkvæmt Frökkum) til 12.000 (samkvæmt Alsíringum) alsírska múslima. Eftir árásina fjölguðu Frakkar hermönnum sínum upp í 250.000.[58]

    Strax og Túnis og Marokkó hlutu sjálfstæði frá Frakklandi í mars 1956 fóru bæði ríkin að styðja alsírska uppreisnarmenn í baráttunni gegn Frakklandi. Þau afhentu fulltrúum FLN vegabréf svo þeir gætu ferðast erlendis til að skipuleggja vopnakaup. Egyptaland og önnur Arabaríki í Miðausturlöndum studdu Alsíringa einnig. Einn yfirlýstur tilgangur með stofnun Arababandalagsins árið 1945 hafði verið sá að gera sjálfstæðum Arabaríkjum kleift að hjálpa öðrum Arabaþjóðum að öðlast sjálfstæði.[62]

    Orrustan um Algeirsborg[breyta | breyta frumkóða]

    Á meðan fór FLN að gera árásir á þéttbýli og stærri borgir til að vekja athygli á baráttu sinni. Þann 30. september 1956 hafði orrustan um Algeirsborg hafist. Þrjár konur á mála hjá FLN komu sprengjum fyrir á almenningsstöðum í Algeirsborg, þar á meðal á endastöð Air France og á vinsælum bar fyrir svartfætlinga.[63] Alsírskir þjóðernissinnar frömdu bæði sprengjuárásir og háðu skæruhernað og Frakkar svöruðu aðgerðum þeirra með því að pynta og myrða alsírska fanga.

    Frá 1957 til 1960 reyndu Frakkar að taka á skæruliðunum með því að ráðast á þorp, varpa á þau sprengjum eða brenna þau ef þá grunaði að skæruliðar héldu þar til. Rúmlega 800 þorp, sértaklega í fjallahéruðum landsins, voru alfarið lögð í rúst.[64] Íbúarnir voru fluttir úr þorpunum og þeim komið fyrir í búðum á flatlendi, þar sem erfitt var fyrir þá að endurbyggja fyrra efnahags- og samfélagskerfi sitt. Þessar aðgerðir voru liður í áætlun Frakka til að berjast gegn skæruliðum FLN. Þær leiddu til þess að meira en 2,5 milljónir Alsíringa voru hraktar frá heimilum sínum.[65]

    Svokallaðir harkar (heitið er dregið úr alsírsk-arabíska orðinu harki, sem merkir dáti) voru innfæddir alsírskir múslimar sem börðust með Frökkum á nýlendutímanum. Hugtakið fór einnig að taka til innfæddra Alsíringa sem studdu áframhaldandi samband Alsír og Frakklands. Samkvæmt frönskum skjalasöfnum börðust um 200.000 alsírskir múslimar með franska hernum á tíma Alsírstríðsins.[66] Frakkar réðu og þjálfuðu harka í svipuðum skæruhernaði og FLN beitti.

    Sprengja OAS springur í Bab El Oued í Algeirsborg 1. janúar 1962.

    Mikilvægur vendipunktur í gangi stríðsins var kjör Charles de Gaulle til forseta fimmta franska lýðveldisins árið 1958. De Gaulle vildi semja um lok stríðsins. Í maí 1961 hófust fyrstu samningaviðræður franska hersins og FLN í Évian. Í upphafi gengu viðræðurnar vel. Í Évian-samningnum þann 18. mars 1962 sömdu samningsaðilar um vopnahlé, lausn fanga og viðurkenningu á fullveldi og sjálfstæði Alsír.

    Þetta þýddi þó ekki að stríðinu væri strax lokið. Frá mars til júní 1962 frömdu franskir svartfætlingar úr Leynisamtökum hersins (fr. Organisation armée secrète; OAS) fjölda hryðjuverkaárása bæði í Alsír og í Frakklandi. Hryðjuverkamenn úr röðum OAS gerðu sprengjuárásir á skóla, brenndu bókasöfn, kveiktu í olíulindum og gasleiðslum og drápu fólk. Í júní sömdu FLN og OAS loks um vopnahlé. Í apríl var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla í Frakklandi þar sem rúmlega 90 prósent kusu að viðurkenna sjálfstæði Alsír. Loks leiddi aukinn þrýstingur frá Sameinuðu þjóðunum til þess að Frakkland undir stjórn de Gaulle lýsti yfir sjálfstæði Alsír þann 3. júlí 1962. Alsír hlaut formlega sjálfstæði þann 5. júlí.[67]

    Afleiðingar Alsírstríðsins[breyta | breyta frumkóða]

    Strax eftir sjálfstæði Alsír hófust miklir fólksflutningar. Um 650.000 manns fluttu frá Alsír, flestir til Frakklands. Á um fjórum mánuðum var heildarfjöldi flóttafólks farinn fram úr fjölda fólks sem hafði flutt milli landana síðustu fimm árin. Þessi skyndilegi flóttamannastraumur var á tímabilinu á milli Évian-samningsins og fyrstu mánaðanna eftir sjálfstæði Alsír.[68]

    Ein ástæðan fyrir fólksflóttanum var sú að eftir stríðið hefndi FLN sín á gömlum andstæðingum sínum. Harkar urðu sér í lagi illa fyrir barðinu. Friðarsamningarnir vernduðu þá ekki fyrir reiði samlanda sinna, sem litu á þá sem svikara. Af um fjórðungi af milljón þeirra sem unnu fyrir Frakka tókst færri en 15.000 að flýja frá Alsír. Talningar á Alsíringum sem voru drepnir í kjölfarið ná frá um 30.000 upp í 150.000.[69]

    Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

    1. 1,0 1,1 Windrow, Martin; Chappell, Mike (1997). The Algerian War 1954–62. Osprey Publishing. bls. 11. ISBN 9781855326583.
    2. Introduction to Comparative Politics, by Mark Kesselman, Joel Krieger, William Joseph, page 108
    3. Alexander Cooley, Hendrik Spruyt. Contracting States: Sovereign Transfers in International Relations. Bls. 63.
    4. George Bernard Noble. Christian A. Herter: The American Secretaries of State and Their Diplomacy. Page 155.
    5. Robert J. C. Young (12. október 2016). Postcolonialism: An Historical Introduction. Wiley. bls. 300. ISBN 978-1-118-89685-3. „the French lost their Algerian empire in military and political defeat by the FLN, just as they lost their empire in China in defeat by Giap and Ho Chi Minh.“
    6. R. Aldrich (10. desember 2004). Vestiges of Colonial Empire in France. Palgrave Macmillan UK. bls. 156. ISBN 978-0-230-00552-5. „For the [French] nation as a whole, commemoration of the Franco-Algerian War is complicated since it ended in defeat (politically, if not strictly militarily) rather than victory.“
    7. Alec G. Hargreaves (2005). Memory, Empire, and Postcolonialism: Legacies of French Colonialism. Lexington Books. bls. 1. ISBN 978-0-7391-0821-5. „The death knell of the French empire was sounded by the bitterly fought Algerian war of independence, which ended in 1962.“
    8. "The French defeat in the war effectively signaled the end of the French Empire". Jo McCormack (2010). Collective Memory: France and the Algerian War (1954–1962).
    9. Paul Allatson; Jo McCormack (2008). Exile Cultures, Misplaced Identities. Rodopi. bls. 117. ISBN 978-90-420-2406-9. „The Algerian War came to an end in 1962, and with it closed some 130 years of French colonial presence in Algeria (and North Africa). With this outcome, the French Empire, celebrated in pomp in Paris in the Exposition coloniale of 1931 ... received its decisive death blow.“
    10. Yves Beigbeder (2006). Judging War Crimes And Torture: French Justice And International Criminal Tribunals And Commissions (1940–2005). Martinus Nijhoff Publishers. bls. 35. ISBN 978-90-04-15329-5. „The independence of Algeria in 1962, after a long and bitter war, marked the end of the French Empire.“
    11. France's Colonial Legacies: Memory, Identity and Narrative. University of Wales Press. 15. október 2013. bls. 111. ISBN 978-1-78316-585-8. „The difficult relationship which France has with the period of history dominated by the Algerian war has been well documented. The reluctance, which ended only in 1999, to acknowledge 'les évenements' as a war, the shame over the fate of the harki detachments, the amnesty covering many of the deeds committed during the war and the humiliation of a colonial defeat which marked the end of the French empire are just some of the reasons why France has preferred to look towards a Eurocentric future, rather than confront the painful aspects of its colonial past.“
    12. Ottaway, David; Ottaway, Marina (25. mars 2022). Algeria: The Politics of a Socialist Revolution (enska). Univ of California Press. ISBN 978-0-520-35711-2.
    13. Stora, Benjamin (2004). Algeria 1830-2000: A Short History. bls. 101. ISBN 0-8014-8916-4.
    14. General Faivre, Les combatants musulmans de la guerre d'Algérie, L'Harmattan, 1995, p.125
    15. Major Gregory D. Peterson, The French Experience in Algeria, 1954–62: Blueprint for U.S. Operations in Iraq, p.33
    16. „Algérie : Une guerre d'appelés“. Le Figaro. 19. mars 2012.
    17. Travis, Hannibal (2013). Genocide, Ethnonationalism, and the United Nations: Exploring the Causes of Mass Killing Since 1945. Routledge. bls. 137.
    18. Martin S. Alexander; Martin Evans; J. F. V. Keiger (2002). „The 'War without a Name', the French Army and the Algerians: Recovering Experiences, Images and Testimonies“. Algerian War and the French Army, 1954-62: Experiences, Images, Testimonies (PDF). Palgrave Macmillan. bls. 6. ISBN 978-0333774564. „The Algerian Ministry of War Veterans gives the figure of 152,863 FLN killed.“
    19. Katherine Draper (2013). „Why a War Without a Name May Need One: Policy-Based Application of International Humanitarian Law in the Algerian War“ (PDF). Texas International Law Journal. 48 (3): 576. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 7. nóvember 2016. „The Algerian Ministry of War Veterans calculates 152,863 Front de Libération Nationale (FLN) deaths (French sources), and although the death toll among Algerian civilians may never be accurately known estimate of 1,500,000 to 2,000,000 were killed.“
    20. 20,0 20,1 20,2 Horne, Alistair (1978). A Savage War of Peace: Algeria 1954–1962. New York Review of Books. bls. 358. ISBN 9781590172186.
    21. „Déclaration de M. Emmanuel Macron, président de la République, sur le 60ème anniversaire des accords d'Évian et la guerre d'Algérie, à Paris le 19 mars 2022“.
    22. Stapleton, T.J. (2013). A Military History of Africa. ABC-CLIO. bls. 1–272. ISBN 9780313395703. Sótt 13. janúar 2017.
    23. Encyclopedia of Violence, Peace and Conflict: Po – Z, index. 3, Academic Press, 1999 (ISBN 9780122270109, lire en ligne [archive]), p. 86.
    24. Crandall, R., America's Dirty Wars: Irregular Warfare from 1776 to the War on Terror, Cambridge University Press, 2014 (ISBN 9781139915823, lire en ligne [archive]), p. 184.
    25. From „Algeria: War of independence“. Mass Atrocity Endings.:

      He also argues that the least controversial of all the numbers put forward by various groups are those concerning the French soldiers, where government numbers are largely accepted as sound. Most controversial are the numbers of civilians killed. On this subject, he turns to the work of Meynier, who, citing French army documents (not the official number) posits the range of 55,000–60,000 deaths. Meynier further argues that the best number to capture the harkis deaths is 30,000. If we add to this, the number of European civilians, which government figures posit as 2,788.

      Meynier's work cited was: Meynier, Gilbert. „Histoire intérieure du FLN. 1954–1962“.

    26. Rummel, Rudolph J. „STATISTICS OF DEMOCIDE Chapter 14 THE HORDE OF CENTI-KILO MURDERERS Estimates, Calculations, And Sources“. Table 14.1 B; row 664.
    27. Rummel, Rudolph J. „STATISTICS OF DEMOCIDE Chapter 14 THE HORDE OF CENTI-KILO MURDERERS Estimates, Calculations, And Sources“. Table 14.1 B; row 694.
    28. 28,0 28,1 „France remembers the Algerian War, 50 years on“. 16. mars 2012.
    29. Cutts, M.; Office of the United Nations High Commissioner for Refugees (2000). The State of the World's Refugees, 2000: Fifty Years of Humanitarian Action. Oxford University Press. bls. 38. ISBN 9780199241040. Sótt 13. janúar 2017. Referring to Evans, Martin. 2012. Algeria: France's Undeclared War. New York: Oxford University Press.
    30. Hobson, Faure L. (2009). „The Migration of Jews from Algeria to France: An Opportunity for French Jews to Recover Their Independence in the Face of American Judaism in Postwar France?“. Archives Juives. 42 (2): 67–81. doi:10.3917/aj.422.0067.
    31. SACRISTE Fabien, « Les « regroupements » de la guerre d’Algérie, des « villages stratégiques » ? », Critique internationale, 2018/2 (N° 79), p. 25-43. DOI : 10.3917/crii.079.0025. URL : https://www.cairn.info/revue-critique-internationale-2018-2-page-25.htm
    32. „Algeria – The Revolution and Social Change“. countrystudies.us. Sótt 13. janúar 2017.
    33. Keith Brannum, University of North Carolina Asheville, The Victory Without Laurels: The French Military Tragedy in Algeria(1954–1962) [1] Geymt 26 október 2014 í Wayback Machine
    34. Irwin M. Wall, France, the United States, and the Algerian War, pp, 68–69. [2]
    35. Windrow, Martin (1997). The Algerian War 1954-62. Great Britain: Osprey. bls. 3. ISBN 978-1-4728-0449-5.
    36. 36,0 36,1 Choi, Sung (2017). „French Algeria, 1830-1962“. The Routledge Handbook of the History of Settler Colonialism. Routledge Handbooks.
    37. Horne, Alistair (1977). A Savage War of Peace: Algeria 1954-1962. New York: New York Review Books. bls. 44.
    38. Kaddache, Mahfoud (2000). L'Algerie des Algeriens - De la prehistoire a 1954. Algiers: Edif. bls. 571–574. ISBN 978-2-84272-166-4.
    39. Entelis, John P. (1980). Comparative Politics of North Africa: Algeria, Morocco, and Tunisia. Syracuse, New York: Syracuse University Press. bls. 18–19. ISBN 978-0-8156-2214-7.
    40. Aoudjit, Abdelkader (2010). The Algerian Novel and Colonial Discourse: Witnessing to a Différend. New York: Peter Lang Publishing. bls. 164–165.
    41. Sessions, Jennifer E. (2011). By Sword and Plow: France and the Conquest of Algeria. Ithaca and London: Cornell University Press. bls. 162. ISBN 978-0-8014-4975-8.
    42. Entelis, John P. (1980). Comparative Politics of North Africa: Algeria, Morocco and Tunisia. Syracuse, New York: Syracuse University Press. bls. 39–40. ISBN 978-0-8156-2214-7.
    43. Aoudjit, Abdelkader (2010). The Algerian Novel and Colonial Discourse: Witnessing to a Différend. New York: Peter Lang Publishing. bls. 166.
    44. Lawrence, Adria K. (2013), „Indigènes into Frenchmen? Seeking Political Equality in Morocco and Algeria*“, Imperial Rule and the Politics of Nationalism, Cambridge: Cambridge University Press, bls. 74–75, doi:10.1017/cbo9781139583732.003, ISBN 978-1-139-58373-2, sótt 5. maí 2022
    45. Ruedy, John (2005). Modern Algeria : The Origins and Development of a Nation. Bloomington: Indiana University Press. bls. 75–76. ISBN 978-0-253-34624-7.
    46. Ruedy, John (2005). Modern Algeria: The Origins and Development of a Nation. Bloomington: Indiana University Press. bls. 107.
    47. 47,0 47,1 Entelis, John P. Entelis (1980). Comparative Politics of North Africa: Algeria, Morocco, and Tunisia. Syracuse, New York: Syracuse University Press. bls. 41. ISBN 978-0-8156-2214-7.
    48. Lawrence, Adria K. (2013), „Indigènes into Frenchmen? Seeking Political Equality in Morocco and Algeria*“, Imperial Rule and the Politics of Nationalism, Cambridge: Cambridge University Press, bls. 79, doi:10.1017/cbo9781139583732.003, ISBN 978-1-139-58373-2, sótt 5. maí 2022
    49. 49,0 49,1 49,2 Entelis, John P. (1980). Comparative Politics of North Africa. Syracuse, New York: Syracuse University Press. bls. 43–44. ISBN 978-0-8156-2214-7.
    50. Aoudjit, Abdelkader (2010). The Algerian Novel and Colonial Discourse: Witnessing to a Différend. New York: Peter Long Publishing. bls. 174.
    51. Horne, Alistair (1977). A Savage War of Peace: Algeria 1954-1962. New York: New York Review Books. bls. 25–26.
    52. 52,0 52,1 Aoudjit, Abdelkader (2010). The Algerian Novel and Colonial Discourse: Witnessing to a Différend. New York: Peter Lang Publishing. bls. 166–167.
    53. Stora, Benjamin (2001). Algeria 1830-1962: A short history. Ithaca, New York: Cornell University Press. bls. 6–7. ISBN 978-0-8014-3715-1.
    54. Stora, Benjamin (2001). Algeria, 1830-1962: A short history. Ithaca, New York: Cornell University Press. bls. 24. ISBN 978-0-8014-3715-1.
    55. Adi, Hakim; Sherwood, Marika (2003). Pan-African History: Political figures from Africa and the Diaspora since 1787. London and New-York: Routledge. bls. 140.
    56. Paul, Christopher; Clarke, Colin P.; Grill, Beth; Dunigan, Molly (2013). „Algerian Independence, 1954–1962 Case Outcome: COIN Loss“. Paths to Victory: Detailed Insurgency Case Studies. RAND Corporation. bls. 77–78.
    57. Robinson, Adam (2002). „An Own Goal in Algeria“. The Terror on the Pitch: How Bin Laden Targeted Beckham and the England Football Team. Mainstream Publishing. ISBN 978-1-84018-613-0.
    58. 58,0 58,1 Horne, Alistair (1977). A Savage War of Peace: Algeria 1954-1962. New-York: New York Review Books. bls. 154. ISBN 978-0-14-005137-7.
    59. McDougall, James (2017). A History of Algeria. Cambridge: Cambridge University Press. bls. 201–202. ISBN 978-0-521-61730-7.
    60. Ruedy, John (2005). Modern Algeria: The Origins and Development of a Nation. Bloomington: Indiana University Press. bls. 163. ISBN 978-0-253-34624-7.
    61. Falola, Toyin; Roberts, Kevin D., ritstjórar (2008). The Atlantic World, 1450-2000. Bloomington: Indiana University Press. bls. 264–265.
    62. Fraleigh, Arnold (27. apríl 1967). „The Algerian War of Independence“. Proceedings of the American Society of International Law at Its Annual Meeting (1921-1969). 61: 7–8. JSTOR 25657708.
    63. Horne, Alistair (1977). A Savage War of Peace: Algeria 1954-1962. New-York: New York Review Books. bls. 230.
    64. Aoudjit, Abdelkader (2010). The Algerian Novel and Colonial Discourse: Witnessing to a Différend. New York: Peter Lang Publishing. bls. 179.
    65. Sacriste, Fabien (2018). „Les "regroupements" de la guerre d'Algérie, des "villages stratégiques"?“. Critique Internationale. 79 (2): 25–26. doi:10.3917/crii.079.0025 – gegnum Cairn.info.
    66. „Les sources relatives aux Harkis : introduction générale“. FranceArchives. 31. mars 2022. Sótt 17. maí 2022.
    67. Aoudjit, Abdelkader (2010). The Algerian Novel and Colonial Discourse: Witnessing to a Différend. New York: Peter Lang Publishing. bls. 180–185.
    68. Moumen, Abderrahmen (2010). „De l'Algérie à la France: Les conditions de départ et d'accueil des rapatriés, pieds-noirs et harkis en 1962“. Matériaux pour l'histoire de notre temps. 99 (3): 60. doi:10.3917/mate.099.0060 – gegnum Cairn.info.
    69. Horne, Alistair (2006). A Savage War of Peace: Algeria 1954-1962. New York: New York Review Books. bls. 675–676.