Skriðdreki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kanadísk áhöfn Sherman-skriðdreka 1944.

Skriðdreki er brynvarið og vopnað ökutæki á skriðbeltum sem notað er í hernaði, herlöggæslu eða friðargæslu.

Fyrsti skriðdrekinn var smíðaður í Bretlandi en fljótlega fylgdu Frakkar á eftir. Aukin notkun skriðdreka í fyrri heimsstyrjöld gerði það að verkum að skotgrafahernaður varð fljótt úreltur, þar sem skriðdrekar gátu auðveldlega ekið yfir skotgrafir og brotst gegnum víglínuna. Upphaflega var skriðdrekum ætlað það hlutverk að styðja við fótgöngulið, en í seinni heimsstyrjöld voru myndaðar sérstakar bryndeildir, sem fóru með skiðdreka í fararbroddi við árásir, sbr. leifturstríð.

Inngangur[breyta | breyta frumkóða]

Flestir skriðdrekar eru knúnir áfram af díselvélum og með stóra rafmagnsmótora til að snúa skotturni o.fl. Áhöfn skriðdreka eru 3 til 4 menn: foringi, skytta, hleðslumaður (nema ef sjálfhleðslubúnaður er til staðar) og ekill.

Skriðdrekar ráðast oftast á óvin með beinni árás framan frá, en þar sem snúa má skotturni 360° þá geta þeir einnig skotið til hliðar og fyrir aftan skriðdrekann. Í skriðdrekaorrustu hefur sá oftast betur sem nær að skjóta fyrsta skotinu, þ.a. að miklu skiptir að áhöfnin vinni hratt og fumlaust. Foringinn situr efst í skotturninum og reynir að finna skotmark og skipar skyttunni að skjóta á það. Ekki síður er mikilvægt að dyljast og því reynir ekillinn að aka eftir landslagi og ekur jafnvel í var á meðan hleðslumaður hleður aðalbyssuna.

Samkvæmt hefð er skriðdrekum skipt í þrjá þyngdraflokka: létta, miðlungs og þunga. Við hönnun nútímaskriðdreka er reynt að sameina kosti allra þyngdraflokka og kallast þeir þá orrustuskriðdrekar (e. main battle tanks) og geta verið allt að 65 tonn að þyngd.

Hönnun[breyta | breyta frumkóða]

Þrjú atriði skipta máli við hönnun skriðdreka: skotgeta, hreyfanleiki og brynvörn. Við hönnun skriðdreka er reynt að ná málamiðlun milli allra þriggja þátta, því t.d. er ekki unnt að auka skotgetu né brynvörn að öðru óbreyttu án þess að það komi niður á hreyfanleika.

Skotgeta[breyta | breyta frumkóða]

Allir skriðdrekar eru búnir einni aðalbyssu, sem yfirleitt hvílir á hreyfanlegum turni ofan á skriðdrekanum. Þessar byssur eru með þeim hlaupvíðustu sem notaðar eru í hernaði, aðeins fáeinar stórskotaliðs fallbyssur eru stærri. Einnig eru margir skriðdrekar búnir minni vélbyssum til að granda óbrynvörðum farartækjum og til sjálfsvarnar.

Hreyfanleiki[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir mikla þyngd er skriðdreki tiltölulega lipurt farartæki og er hannaður til að aka yfir flestar gerðir landslags, en mýri og skógur eru torfær skriðdrekum. Hreyfanleiki skiðdreka nýtast best á opnum og tiltölulega sléttum svæðum, en verulega dregur úr hreyfanleika og virkni skriðdreka í borgarumhverfi.

Skriðdrekar eru mjög orkufrekir og eru því ofast flutti á vígvöll með öðrum faratækjum, t.d. lest eða flutningabíl.

Brynvörn[breyta | breyta frumkóða]

Brynvörn skriðdreka er gerð úr stál-, ál- og keramikplötum og hún á verka þannig að skeyti kastist af brynvörninni frá skriðdrekanum eða að hlífa áhöfn, vopnabúnaði og drifbúnaði frá sprengivirkni skeytanna og sprengibrotum. Brynvörnin er þykkust framan á skriðdrekanum og á skotturni, en þynnst að ofanverðu og aftan. Hægt er að auka virkni brynvarnar með því að halla henni eða með því að hafa hana sprengivirka, en þá springur sprengiefni í brynvörninni sem á að gera óvinaskeytið hættulaust.

T-72 skriðdreki þakinn plötum með sprengivirkri brynvörn

Torsæi[breyta | breyta frumkóða]

Torsæi er mikilvægur eiginleiki skriðdreka, eins og allra vígtóla, sem fæst með því að gera þá lága og hljóðláta og mála í felulitum. Reyksprengjur eru notaðar til að mynda reykvegg framan við skriðdreka til að hylja hann fyrir andstæðingi og eins er mögulegt að mynda þykkan og ógegnsæan reykjarmökk úr útblæstri með því að ýra dísilolíu í hann.

Vopnabúnaður[breyta | breyta frumkóða]

Hásprengifimt skriðdrekaskot. Sjá má koparhólk innan í sprengjunni, sem við sprengingu þrýstist saman og bráðnar og myndar þannig mjóan geisla af bráðnum málmi sem bræðir gat á brynvörn.
Hraðfara fleyskot, þar sem greinilega má sjá fleyginn

Skriðdrekaskot eru hönnuð til að granda aðallega öðrum skriðdrekum og skiptast í tvo meginflokka, hásprengifim skot og hraðfara fleygskot. Háprengifim skot eru tiltölulega hægfara og vinna á brynvörn með því að sprengja sprengihleðslu utan á koparkeilu fremst í skotinu, sem við sprenginguna þjappast saman og myndar mjóan geisla af bráðnum málmi sem bræðir gat á brynvörnina. Hraðfara fleygskot þeyta hvössum fleyg úr þungmálmi (yfirleitt úrani) á miklum hraða sem brýst í gegnum brynvörnina. Einnig eru til skot sem sameina báða eignileikana.

Til eru sérstaka skriðdrekabyssur og eldflaugabyssur sem geta grandað skiðdrekum. Mörg önnur vopn vinna á þeim, s.s. jarðsprengjur, vegsprengjur og flugskeyti, sem eiga það flest sameiginlegt að vinna á brynvörninni þar sem hún er þynnst, þ.a. ofan og neðan frá og að aftan. Slík vopn verða stöðugt fullkomnari þ.a. framtíð orrustuskriðdreka er ótrygg. Helstu veikleikar skriðdreka eru hversu þungir þeir eru og dýrir í rekstri, þörf fyrir sérþjálfað áhöfn og viðhaldslið og möguleiki að vinna á þeim með mun ódýrari og einfaldari vopnum. Ólkílegt er að hannaðir verði þyngri skriðdrekar en núverandi orrustuskriðdrekar, þ.a. þróun næstu ára miðar að því að gera þá léttari, betur brynvarða og torséðari í ratsjám (Stealth-tækni) og finna nýja orkugjafa til að knýja þá áfram.

Uppbygging[breyta | breyta frumkóða]

1. Belti, 2. Fallbyssa, 3. Bretti, 4. Reyksprengjuverplar, 5. Turn, 6. Grill, 7. Stjórnturn með sjónpípu, 8. Vélbyssa samása fallbyssu, 9. Skrokkur, 10. Stafnvélbyssa

Helstu orrustuskriðdrekar[breyta | breyta frumkóða]

  • Abrams (bandarískir)
  • Ariete (ítalskir)
  • Challenger (breskir)
  • Type-90 (japanskir)
  • Type-99 (kínverskir)
  • Leclerc (franskir)
  • Leopard (þýskir)
  • Merkava (ísraelskir)
  • Olifant (s-afrískir)
  • T-72/90 (rússneskir)
  • T-84 Oplot (úkraínskir)