Fara í innihald

Édouard Daladier

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Édouard Daladier
Forsætisráðherra Frakklands
Í embætti
31. janúar 1933 – 26. október 1933
ForsetiAlbert Lebrun
ForveriJoseph Paul-Boncour
EftirmaðurAlbert Sarraut
Í embætti
30. janúar 1934 – 9. febrúar 1934
ForsetiAlbert Lebrun
ForveriCamille Chautemps
EftirmaðurGaston Doumergue
Í embætti
10. apríl 1938 – 21. mars 1940
ForsetiAlbert Lebrun
ForveriLéon Blum
EftirmaðurPaul Reynaud
Persónulegar upplýsingar
Fæddur18. júní 1884
Carpentras, Vaucluse, Frakklandi
Látinn10. október 1970 (86 ára) París, Frakklandi
ÞjóðerniFranskur
StjórnmálaflokkurRóttæki flokkurinn (Parti radical)
MakiMadeleine Laffont (g. 1917; d. 1932); Jeanne Boucoiran (g. 1951)
BörnJean, Pierre, Marie
HáskóliCollège-lycée Ampère
StarfSagnfræðikennari, stjórnmálamaður

Édouard Daladier (18. júní 1884 – 10. október 1970) var franskur stjórnmálamaður úr Róttæka flokknum (Parti radical) sem var forsætisráðherra Frakklands í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar. Ásamt Neville Chamberlain, forsætisráðherra Bretlands, var Daladier einn hönnuða Münchenarsamningsins við Þýskaland nasismans árið 1938. Í sáttmálanum var reynt að afstýra stríði með því að leyfa Þjóðverjum að innlima þýskumælandi hluta Tékkóslóvakíu. Samningurinn frestaði seinni heimsstyrjöldinni aðeins um eitt ár og Daladier lýsti yfir stríði gegn Þýskalandi fyrir hönd Frakklands þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland árið 1939.

Daladier var stundum kallaður „nautið frá Vaucluse“ vegna útlits síns og skapgerðar.[1] Chamberlain uppnefndi hann aftur á móti „nautið með snigilshornin“.[2]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Daladier fæddist í bænum Carpentres í Suður-Frakklandi árið 1884. Faðir hans var bakarameistari[1] en þar sem eldri bróðir Daladiers erfði brauðbúð föður þeirra flutti Daladier til Parísar. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út gerðist Daladier liðþjálfi á vesturvígstöðvunum og hafði hlotið yfirforingjatign við lok stríðsins.[1] Eftir lok stríðsins gekk Daladier á franska þingið fyrir heimakjördæmi sitt.

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Sem áhrifamaður innan Róttæka flokksins var Daladier oft á öndverðum meiði við Édouard Herriot, sem hafði verið sagnfræðikennari Daladiers í menntaskóla. Daladier varð þó nýlendumálaráðherra í ríkisstjórn Herriots árið 1924. Hann varð síðar hermálaráðherra í ríkisstjórn Pauls Painlevé og menntamálaráðherra í ríkisstjórn Aristide Briand.[1] Daladier var kjörinn formaður Róttæka flokksins árið 1927.

Daladier hóf útgáfu blaðsins La République árið 1929 og birti þar árið 1930 grein þar sem hann lagði til að Frakkland sýndi Þýskalandi meiri skilning og notaði auð sinn til að hjálpa Þjóðverjum að byggja upp efnahag sinn.[1] Þessi grein vakti mikla athygli þar sem hatur gegn Þjóðverjum var mjög rótgróið í Frakklandi vegna styrjalda landanna síðastliðna öld.

Daladier varð forsætisráðherra árið 1933 og gegndi jafnframt embætti hermálaráðherra. Daladier lagðist gegn tillögum franska hersins um að koma í veg fyrir að Þýskaland gæti endurvígbúist eftir valdatöku Adolfs Hitler sama ár.[1] Daladier neyddist til að segja af sér sem forsætisráðherra eftir að hann reyndi að krefjast lækkunar á launum allra ríkisembættismanna til að koma ríkisfjármálum Frakklands í lag en varð aftur forsætisráðherra aðeins fáeinum mánuðum síðar eftir að upp komst um fjármálahneyksli í ríkisstjórn eftirmanns hans.[1] Önnur ríkisstjórn Daladiers entist aðeins í rúma viku en hrundi í kjölfar árásar öfgahægrimanna á franska þinghúsið þann 6. febrúar. Daladier beitti valdi til þess að kveða niður óeirðirnar en í átökunum létust 30 og um 2000 særðust.[1] Eftir mannfallið neyddist Daladier til að segja af sér þrátt fyrir traustsyfirlýsingu þingsins.

Daladier varð árið 1936 hermálaráðherra í ríkisstjórn Léons Blum og stóð fyrir sameiningu franskra landvarna undir eina yfirstjórn.[1] Daladier tók við af Blum sem forsætisráðherra þann 10. apríl 1938. Meðal þess sem Daladier tók sér fyrir hendur á þriðju ráðherratíð sinni var lenging frönsku vinnuvikunnar úr 40 klukkustundum í 45 klukkustundir.[3] Daladier lét þau orð falla að „Frakkland [hefði] ekki efni á því að hafa tvo sunnudaga í sömu vikunni“.[1]

Münchenarsamningurinn og seinni heimsstyrjöldin[breyta | breyta frumkóða]

Daladier (í miðjunni) kveður Joachim von Ribbentrop í München árið 1938.

Það afdrifamesta sem kom fyrir á síðustu ráðherratíð Daladiers var samning Münchenarsamningsins við Þýskaland nasismans. Frakkar og Bretar leyfðu þar Þjóðverjum að innlima þýskumælandi héröð í Tékkóslóvakíu í stað þess að fara í stríð til að vernda fullveldi ríkisins. Daladier var á móti því að semja við Hitler en lét til leiðast eftir átölur Neville Chamberlain, auk þess sem margir Frakkar óttuðust að stríð á borð við fyrri heimsstyrjöldina myndi annars brjótast út. Ólíkt Chamberlain gerði Daladier sér engar grillur um að Hitler myndi halda friðinn til lengdar og varaði Breta við því að takmark Hitlers væri að ná „yfirráðum yfir heimsálfunni sem láta metnað Napóleons blikna í samanburði“.[4]

Daladier að óvörum voru viðbrögðin við Münchenarsamningnum mjög jákvæð í Frakklandi. Þegar Daladier sneri heim frá München var honum tekið fagnandi af miklum mannfjölda og er þá sagt að hann hafi muldrað: „Hvílík fífl. Ef þau bara vissu!“[5] (Ah, les cons. S'ils savaient!) Í endurminningum sínum komst Daladier svo að orði að hann hefði búist við því að mannfjöldinn myndi kasta í hann tómötum en þess í stað hafi hann kastað blómum.

Líkt og Daladier hafði spáð entist friðurinn ekki til lengdar. Daladier lýsti þann 3. september 1939 yfir stríði gegn Þýskalandi eftir að nasistar réðust inn í Pólland. Daladier var forsætisráðherra Frakklands á fyrstu mánuðum heimsstyrjaldarinnar en hann neyddist til að segja af sér í mars árið 1940 vegna innrásar Sovétmanna í Finnland. Eftir að Þjóðverjar hertóku Frakkland flúði Daladier til Marokkó í von um að Frakkar myndu berjast áfram úr frönsku nýlendunum en eftir stofnun Vichy-stjórnarinnar var hann handtekinn og dæmdur fyrir landráð. Daladier dvaldi í fangelsinu Fort du Portalet í Pýreneafjöllum til ársins 1943[6] en var þá fluttur til Buchenwald-fangabúðanna í Þýskalandi. Hann var síðar fluttur til Itter-kastalans í Norður-Týrólahéraði og dvaldi þar í fangavist þar til bandamenn frelsuðu hann árið 1945.

Ferill eftir stríðið[breyta | breyta frumkóða]

Daladier hélt áfram stjórnmálaferli sínum eftir heimsstyrjöldina og sat á franska þinginu fyrir Vaucluse-kjördæmi frá 1946 til 1958. Frá 1953 til 1958 var hann einnig borgarstjóri Avignon. Hann sagði af sér sem borgarstjóri og settist í helgan stein eftir að hafa dottið út af þingi í kosningum árið 1958.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 „Edouard Daladier“. Vísir. 11. desember 1938. Sótt 5. júní 2018.
  2. „Hors Série 1940 : La débâcle et le désespoir“, Le Monde,‎ maí-júní 2010, bls. 23.
  3. „Daladier ætlar að afnema 40 stunda vinnuvikuna“. Alþýðublaðið. 14. nóvember 1938. Sótt 5. júní 2018.
  4. Shirer, William. The Collapse of the Third Republic: An Inquiry into the Fall of France in 1940, 1969, Da Capo Press, bls. 339–340.
  5. Jean-Paul Sartre, Le Sursis.
  6. „Fort du Portalet Office de tourisme Vallée d'Aspe tourisme Parc National Pyrénées séjours balades randonnées“. www.tourisme-aspe.com.


Fyrirrennari:
Joseph Paul-Boncour
Forsætisráðherra Frakklands
(31. janúar 193326. október 1933)
Eftirmaður:
Albert Sarraut
Fyrirrennari:
Camille Chautemps
Forsætisráðherra Frakklands
(30. janúar 19349. febrúar 1934)
Eftirmaður:
Gaston Doumergue
Fyrirrennari:
Léon Blum
Forsætisráðherra Frakklands
(10. apríl 193821. mars 1940)
Eftirmaður:
Paul Reynaud