Raymond Poincaré

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Raymond Poincaré
Raymond Poincaré í forsetaembætti.
Forseti Frakklands
Í embætti
18. febrúar 1913 – 18. febrúar 1920
Forsætisráðherra
ForveriArmand Fallières
EftirmaðurPaul Deschanel
Forsætisráðherra Frakklands
Í embætti
21. janúar 1912 – 21. janúar 1913
ForsetiArmand Fallières
ForveriJoseph Caillaux
EftirmaðurAristide Briand
Í embætti
15. janúar 1922 – 8. júní 1924
ForsetiAlexandre Millerand
ForveriAristide Briand
EftirmaðurFrédéric François-Marsal
Í embætti
23. júlí 1926 – 29. júlí 1929
ForsetiGaston Doumergue
ForveriÉdouard Herriot
EftirmaðurAristide Briand
Persónulegar upplýsingar
Fæddur20. ágúst 1860
Bar-le-Duc, Frakklandi
Látinn15. október 1934 (74 ára) París, Frakklandi
StjórnmálaflokkurLýðræðisbandalagið
MakiHenriette Benucci (g. 1904)
TrúarbrögðKaþólskur
HáskóliNantes-háskóli
Parísarháskóli
Undirskrift

Raymond Nicolas Poincaré (20. ágúst 186015. október 1934) var forseti Frakklands á árunum 1913 til 1920 og þrisvar forsætisráðherra Frakklands, á árunum 1912 – 1913, 1922 – 1924 og loks 1926 – 1929. Hann þótti íhaldssamur leiðtogi og beitti sér fyrst og fremst fyrir pólitískum og félagslegum stöðugleika. Sem stofnandi miðhægriflokksins Alliance démocratique (AD) var Poincaré einn mikilvægasti stjórnmálamaður þriðja franska lýðveldisins. Hann var jafnframt einn helsti leiðtogi Frakka í fyrri heimsstyrjöldinni, sem skall á í forsetatíð hans. Hann var alla tíð mjög andsnúinn Þjóðverjum og fór tvisvar í heimsókn til Rússlands til að styrkja bandalag Frakka og Rússa gegn þeim.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Raymond Poincaré fæddist árið 1860 í Bar-de-Duc í Meuse í Frakklandi. Líkt og hjá mörgum í hans kynslóð mótuðust stjórnmálaskoðanir hans mjög af ósigri Frakka gegn Prússum árið 1870; Prússaher hafði reyndar lagt hald á fjölskylduheimili hans á meðan stríðinu stóð.[1] Poincaré var lögfræðimenntaður í París og átti feril bæði í lögfræði og í fjölmiðlum lýðveldissinna.

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Poincaré var árið 1887 kjörinn á þing Meuse-héraðsins. Þegar hann var þrjátíu og sex ára hafði hann þrisvar gegnt ráðherrastöðu: Tvisvar sem menntamálaráðherra og þess á milli sem fjármálaráðherra. Poincaré var fylgjandi veraldlegs valds en greindi sig þó frá hörðustu andstæðingum klerkastéttarinnar. Í Dreyfusardeilunni fetaði Poincaré sig af varkárni en studdi þó að endingu Dreyfusarsinnana; þó frekar af löghlýðni en sannfæringu.

Í janúar árið 1912 varð Poincaré forsætisráðherra og myndaði ríkisstjórn hófsamra lýðveldissinna. Sem ráðherra beitti hann sér fyrir bandalagi við Breta og Rússa gegn Þjóðverjum og fór í opinbera heimsókn til Rússlands þann 12. ágúst 1912 til að styrkja bandalagið.

Eftir að Poincaré steig af ráðherrastól bauð hann sig fram í frönsku forsetakosningunum í janúar 1913. Hann bauð sig fram sjálfstætt eftir að hafa tapað forkosningu lýðveldissinna og vann aðra umferð kosninganna með 482 atkvæði. Hann hlaut talsverða gagnrýni, sér í lagi frá pólitískum andstæðing sínum Georges Clemenceau, fyrir að draga sig ekki til hlés eftir að hafa tapað forkosingunni.[2]

Forsetatíð[breyta | breyta frumkóða]

Poincaré með Maríu Bretlandsdrottningu árið 1914.

Forsetatíð Poincaré markaðist af fyrri heimsstyrjöldinni, sem byrjaði árið eftir að hann settist á forsetastól. Í aðdraganda stríðsins, stuttu eftir morðið á Franz Ferdinand erkihertoga í Sarajevó, fór Poincaré aftur í opinbera heimsókn til Rússa til að leggja áherslu á áframhaldandi bandalag þjóðanna ef til stríðs kæmi.[3] Deilt er um þátt Poincaré í að eggja Rússa til stríðs gegn Þjóðverjum. Samkvæmt endurminningum Maurice Paléologue, þá sendiherra Frakka í Pétursborg, jók heimsókn Poincaré mjög stríðsvilja í hirð Nikulásar Rússakeisara og vakti keisarann sjálfan til umhugsunar um hve alvarleg staðan var orðin á alþjóðasenunni[4]. Joseph Caillaux, eftirmaður Poincaré sem forsætisráðherra, hélt því fram að Poncaré hefði gefið í skyn að „ef Þjóðverjar [byrjuðu] ekki átök [kynnum við] vel að neyða þá til þess.[5]

Þó hefur verið bent á að þegar Poincaré var í Pétursborg hafi enn ekki verið ljóst að Austurríkismenn myndu nota morðið á erkihertoganum sem átyllu til stríðs við Serba[6], og að hann hafi ekki frétt af úrslitakostum Austurríkismanna til Serba fyrr en hann kom aftur til Parísar þann 30. júlí 1914[7]. Þá hafi hann gert allt mögulegt til að koma í veg fyrir að til stríðs kæmi og með milligöngu René Viviani forsætisráðherra sent Nikulási símskeyti þar sem hann hvatti keisarann til að forðast allar hernaðaraðgerðir sem kynnu að gefa Þjóðverjum afsökun til að skerast í leikinn. Hvað sem því leið skipaði Poincaré að lokum Frakkaher að vígbúast á 10 km línu við landamæri Frakklands og Þýskalands eftir afar niðrandi úrslitakosti sem Þjóðverjar settu Frökkum þess efnis að þeir skyldu halda sig utan við stríð milli þeirra og Rússa og jafnvel gefa þýska hernum afnot af frönskum virkjum í Verdun og Somme. Poincaré neitaði því að vígbúnaðurinn jafngilti stríðsyfirlýsingu og hélt því fram að hún væri aðallega diplómatísks eðlis, til að veita Rússum og Bretum fullvissu um stuðning Frakka.

Svo fór að Þjóðverjar lýstu Frökkum stríð á hendur þann 3. ágúst 1914. Poincaré flutti ræðu fyrir franska þinginu þar sem hann tilkynnti að „í komandi stríði [yrði] Frakkland varið með dáð og dug af öllum sonum sínum, hverra helga samkennd verður ekki brotin af óvininum[8].“

Vegna hlutverks síns í byrjun styrjaldarinnar var Poincaré stundum uppnefndur „Poincaré la Guerre“ (Stríðs-Poincaré) af andstæðingum sínum seinna á forseta- og forsætisráðherratíð sinni.

Stríðið og friðarsamningarnir[breyta | breyta frumkóða]

Poincaré ásamt Woodrow Wilson Bandaríkjaforseta.

Í lok ársins 1917 gaf Poincaré hatrömmum andstæðing sínum, Georges Clemenceau, umboð til stjórnarmyndunar. Poincaré og Clemenceau höfðu lengi eldað grátt silfur saman en Poincaré sá þó og dáðist að festu og hörku í fari Clemenceau. Eftir að Clemenceau settist á ráðherrastól var Poincaré að mestu ýtt út af valdasviði styrjaldarinnar.

Á síðustu vikum stríðsins sammældust þeir Philippe Pétain um að réttast væri að hrekja her Þjóðverja innst inn í Þýskaland áður en samið yrði um vopnahlé.[9] Úr því varð ekki og að endingu var samið um frið árið 1918 án þess að neinn hluti landsins væri hernuminn. Við gerð Versalasamningsins kallaði Poincaré eftir því að Rínarlandið yrði hernumið af Bandamönnum til þess að skapa frekari vörn milli Frakklands og Þýskalands. Ferdinand Foch hvatti Poincaré til þess að notfæra sér stjórnarskrárbundin völd sín til að taka við viðræðustólnum af Clemenceau af ótta við að Clemenceau gengi ekki nógu hart fram og myndi ekki ná að tryggja öryggi Frakklands.[10] Þetta gerði Poincaré ekki og var nærri því búinn að segja af sér sem forseti þegar Clemenceau fékk samþykki ríkisstjórnarinnar fyrir sínum friðarskilmálum.[11]

Eftir stríðið[breyta | breyta frumkóða]

Forsetatíð Poincaré lauk árið 1920 og tveimur árum síðar varð hann aftur forsætisráðherra. Ríkisstjórn Poincaré þótti enn taka harða línu gagnvart Þjóðverjum og gekk hörkulega eftir því að Þjóðverjar borguðu stríðsskaðabæturnar sem samið hafði verið um. Áróðursherferðir Þjóðverja og Sovétmanna sem kenndu Frakklandi og Rússlandi, og þá sér í lagi Poincaré og Nikulási keisara, um heimsstyrjöldina, voru Poincaré þyrnir í augum.[12]

Eftir að Frökkum mistókst að fá aðstoð Breta við að innheimta stríðsskaðabætur frá Þjóðverjum ákvað Poincaré þann 11. janúar 1923 að hertaka Ruhr-hérað í Þýskalandi til að knýja fram borgun. Deilt er um hvort hernámið hafi átt þátt í mikilli verðbólgu í þýska efnahagnum á þriðja áratugnum og uppgang nasismans. Hernámið entist til ársins 1925. Frökkum tókst með hernáminu að knýja fram greiðslu en glötuðu hins vegar mikilli samúð á alþjóðavísu með þessum verknaði.

Poincaré lést í París árið 1934.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

 • Raymond Poincaré – Iðunn : nýr flokkur, 1.-2. Tölublað (01.07.1917), Bls. 48-62

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Rémy Porte, « Raymond Poincaré, le président de la Grande Guerre », Nouvelle Revue d'Histoire, n°88 de janvier-février 2017, bls. 44-46
 2. Michel Winock, Clemenceau, éd. Perrin, 2007, bls. 388.
 3. Sean McMeekin, The Russian Origins of the First World War, Harvard University Press, 2011, bls. 85.
 4. Maurice Paléologue, Revue des Deux Mondes, 1. bindi, 1921.
 5. « Raymond Poincaré : ancien chasseur à pied, mais à cheval sur les principes » Geymt 17 nóvember 2015 í Wayback Machine. Geymt.
 6. Fromkin, David Europe's Last Summer: Who Started the Great War in 1914?, New York: Alfred Knopf, 2004 bls. 264.
 7. Fromkin, David Europe's Last Summer: Who Started the Great War in 1914?, New York: Alfred Knopf, 2004 bls. 233.
 8. Smith, Leonard; Audoin-Rouzeau, Steéphane, & Becker, Annette France and the Great War, 1914-1918, Cambridge: Cambridge University Press, 2003 bls. 27.
 9. Margaret MacMillan, Peacemakers. The Paris Conference of 1919 and Its Attempt to End War (John Murray, 2003), bls. 42.
 10. MacMillan, bls. 212.
 11. MacMillan, bls. 214.
 12. Mombauer, Annika The Origins of the First World War, London: Pearson, 2002 bls. 200.


Fyrirrennari:
Joseph Caillaux
Forsætisráðherra Frakklands
(21. janúar 191221. janúar 1913)
Eftirmaður:
Aristide Briand
Fyrirrennari:
Armand Fallières
Forseti Frakklands
(18. febrúar 191318. febrúar 1920)
Eftirmaður:
Paul Deschanel
Fyrirrennari:
Aristide Briand
Forsætisráðherra Frakklands
(15. janúar 19228. júní 1924)
Eftirmaður:
Frédéric François-Marsal
Fyrirrennari:
Édouard Herriot
Forsætisráðherra Frakklands
(23. júlí 192629. júlí 1929)
Eftirmaður:
Aristide Briand