Þriðja franska lýðveldið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Franska lýðveldið
République française
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Liberté, égalité, fraternité
(„Frelsi, jafnrétti, bræðralag“)
Þjóðsöngur:
La Marseillaise
Höfuðborg París
Opinbert tungumál Franska
Stjórnarfar þingræði

Forseti
 -1871 til 1873
 -1932 til 1940

Adolphe Thiers (fyrstur)
Albert Lebrun (síðastur)
'
 • Stofnun 4. september 1870 
 • Upplausn 10. júlí 1940 
Flatarmál
 • Samtals

13.500.000[1] km²
Mannfjöldi
 • Samtals (1938)
 • Þéttleiki byggðar

150.000.000[2]
11,1/km²
Gjaldmiðill Franskur franki

Þriðja franska lýðveldið (La Troisième République á frönsku) var stjórnarfyrirkomulag Frakklands frá 1870, þegar síðara franska keisaradæmið leið undir lok, til ársins 1940, þegar Frakkland beið ósigur gegn Þýskalandi nasismans og Vichy-stjórnin var stofnuð í Frakklandi.

Fyrstu ár þriðja lýðveldisins einkenndust af stjórnmálaóreiðu vegna fransk-prússneska stríðsins árin 1870–71, sem lýðveldið háði áfram eftir að Napóleon III keisara var steypt af stóli. Prússar tóku harkalega á Frökkum eftir stríðið og höfðu af þeim héröðin Alsace og Lorraine. Auk þess urðu fyrstu valdsmenn lýðveldisins að kljást við samfélagsóeirðir og að sigra Parísarkommúnuna. Fyrstu ríkisstjórnir lýðveldisins höfðu hug á að endurreisa franska konungdæmið en ágreiningur um það hvernig staðið yrði að slíkri endurreisn og um það hver skyldi settur á konungsstól leiddu til þess að slíkum áætlunum var frestað. Þannig varð þriðja lýðveldið, sem átti í upphafi aðeins að vera bráðabirgðastjórn, varanlegt stjórnskipulag Frakklands.

Stjórnarskipulag þriðja lýðveldisins var lögfest með stjórnarskrárlögum árið 1875. Það samanstóð af tveimur þingdeildum sem fóru með löggjafarvald og forseta sem gerðist þjóðhöfðingi. Ágreiningur um endurreisn konungdæmisins settu svip sinn á embættistíðir fyrstu tveggja forsetanna, Adolphe Thiers og Patrice de Mac Mahon, en aukinn stuðningur við lýðveldisstjórn meðal Frakka og embættistíðir margra lýðveldissinna á forsetastól á níunda áratugnum gerði brátt út af við allar áætlanir um endurreist franskt konungdæmi.

Í kapphlaupinu um Afríku í lok 19. aldar lagði þriðja lýðveldið hald á ýmsar nýlendur, þar á meðal franska Indókína, franska Madagaskar, frönsku Pólýnesíu og frönsku Vestur-Afríku. Veigamesta stjórnmálaaflið í Frakklandi í byrjun tuttugustu aldar var Lýðræðisbandalagið (Alliance démocratique), sem átti í upphafi að vera miðvinstriflokkur en varð smám saman að miðhægriflokki. Tímabilið frá byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar fram á fjórða áratuginn einkenndist af hatrömmum pólitískum ágreiningi milli Lýðræðisbandalagsins og Róttækra sósíalista. Ríkisstjórnin hrundi snemma í seinni heimsstyrjöldinni eftir að Þjóðverjar hertóku Frakkland. Í stað hennar voru settar á fót andspyrnuríkisstjórn Charles de Gaulle (Frjálst Frakkland; la France libre) og Vichy-stjórn Philippe Pétain (l'État français).

Adolphe Thiers kallaði lýðveldishyggjuna á áttunda áratug 19. aldar „það stjórnarfyrirkomulag sem sundrar Frakklandi síst“. Þó voru stjórnmál þriðja lýðveldisins langt því frá að vera laus við hatramman ágreining. Til vinstri stóðu umbótasinnar sem sóru sig í ætt við frönsku byltinguna. Til hægri stóðu íhaldsmenn sem sóttu stuðning til bændastéttarinnar, til kirkjunnar og til hersins.[3] Þrátt fyrir djúpstæðan klofning meðal franskra kjósenda entist þriðja lýðveldið í sjötíu ár og er enn langlífasta franska stjórnarfyrirkomulagið frá hruni franska konungdæmisins árið 1789.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Robert Aldrich, Greater France: A History of French Overseas Expansion (1996) p 304
  2. Herbert Ingram Priestley, France overseas: a study of modern imperialism (1938) pp 440–41.
  3. Larkin, Maurice (2002), Religion, Politics and Preferment in France since 1890: La Belle Epoque and its Legacy. Cambridge University Press. bls: 3.