Fara í innihald

Jawaharlal Nehru

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jawaharlal Nehru
Nehru árið 1946.
Forsætisráðherra Indlands
Í embætti
2. september 1946 – 27. maí 1964
ÞjóðhöfðingiGeorg 6. (1946-1950)
ForsetiRajendra Prasad
Sarvepalli Radhakrishnan
LandstjóriMountbatten lávarður (1947)
C. Rajagopalachari (1948-1950)
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurGulzari Lal Nanda
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. nóvember 1889
Allahabad
Látinn27. maí 1964 (74 ára) Nýju Delí, Indlandi
ÞjóðerniIndverskur
StjórnmálaflokkurIndverski þjóðarráðsflokkurinn
MakiKamala Nehru (d. 1936)
BörnIndira Gandhi
HáskóliTrinity-háskóli, Cambridge
Undirskrift

Jawaharlal Nehru (14. nóvember 188927. maí 1964) var mikilvægur pólítískur leiðtogi indverska þjóðarráðsins (Indian National Congress), mikilvægur aðili í sjálfstæðisbaráttu Indlands og bæði fyrsti forsætisráðherra hins sjálfstæða Indlands og líka sá sem hefur þjónað lengst. Hann varð leiðtogi indversku sjálfstæðishreyfingarinnar sem stuðningsmaður Mohandas Gandhi og réð Indlandi frá sjálfstæði þess árið 1947 til dauðadags árið 1964. Hann er talinn hönnuður Indlands sem nútímaríkis. Hann var einnig kallaður Pandit Nehru vegna uppruna síns í kasmírska Pandit-samfélaginu og mörg indversk börn kölluðu hann Chacha Nehru, bókstaflega „Nehru frænda“ á hindí.[1][2]

Nehru útskrifaðist úr lögfræðinámi úr Trinity-háskóla í Cambridge. Þegar hann sneri aftur til Indlands gerðist hann meðlimur í hæstarétti Allahabad og sneri sér brátt að stjórnmálum í stað lögmennsku. Nehru hafði verið þjóðernissinnaður frá táningsárum og kleif brátt valdastiga indverskra stjórnmála sem slíkur í umróti annars áratugsins. Hann varð einn helsti leiðtogi vinstrimanna í inverska þjóðarráðinu á þriðja áratugnum og brátt alls ráðsins með þöglum stuðningi læriföður síns, Gandhi. Sem forseti þjóðarráðsins árið 1929 kallaði Nehru eftir fullu sjálfstæði Indlands frá Bretlandi og kom af stað greinilegu skrefi alls ráðsins til vinstri.

Nehru og þjóðarráðið réðu lögum og lofum í indverskum stjórnmálum á fjórða áratugnum á leið landsins til fullveldis. Ósk hans um veraldlegt þjóðríki fékk eins konar viðurkenningu þegar ráðið hlaut stórsigur gegn hinu aðskilnaðarsinnaða Múslimabandalagi í sveitastjórnarkosningum árið 1937 og myndaði stjórn í ýmsum fylkjum. Mörgum þessara afreka var hins vegar snúið við þegar Bretar handtóku flesta leiðtoga ráðsins árið 1942. Nehru hafði þá stutt kröfu Gandhi um tafarlaust sjálfstæði með nokkrum trega því hann hafði viljað aðstoða Breta á meðan seinni heimstyrjöldinni stæði. Þegar Nehru var sleppt úr fangelsi hafði stjórnmálasvið Indlands breyst mjög og Múslimabandalagið undir stjórn Muhammad Ali Jinnah var nú voldugasti stjórnmálaflokkur Indlands. Nehru og Jinnah tókst ekki að komast að samkomulagi um sameiginlega stjórn og því var vegurinn ruddur fyrir skiptingu Indlands og Pakistan við sjálfstæði árið 1947.

Þjóðarráðið kaus Nehru í embætti fyrsta forsætisráðherra sjálfstæðs Indlands, en í raun hafði verið ljóst að Nehru yrði fyrir valinu frá árinu 1941 þegar Gandhi útnefndi Nehru sem eftirmann sinn. Sem forsætisráðherra vann Nehru að því að gera hugsjón sína um Indland að veruleika. Stjórnarskrá Indlands var viðurkennd árið 1950 og Nehru kom af stað metnaðarfullum efnahags-, samfélags- og stjórnmálaumbótum. Hann stýrði umbreytingu Indlands úr nýlendu í lýðveldi og þróun lýðræðislegs fjölflokkakerfis. Í utanríkismálum varð hann einn leiðtogi Samtaka hlutlausra ríkja og gerði Indland að helsta veldi Suður-Asíu.

Undir stjórn Nehru varð indverska þjóðarráðið að þungavigtinni í ríkis- og fylkisstjórnmálum Indlands og vann sigra í kosningum árin 1951, 1957 og 1962. Nehru var ávallt vinsæll meðal Indverja þrátt fyrir pólitísk vandamál síðustu stjórnarár hans og fyrir ósigur Indverja í stríði við Kína árið 1962. Afmælisdegi hans er fagnað í Indlandi sem Bal Diwas eða „barnadegi“.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Indian National Congress“. inc.in. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2016. Sótt 5. ágúst 2017.
  2. „Nation pays tribute to Pandit Jawaharlal Nehru on his 124th birth anniversary | Latest News & Updates at Daily News & Analysis“. dna (bandarísk enska). 14. nóvember 2013. Sótt 18. maí 2017.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forsætisráðherra Indlands
(15. ágúst 194727. maí 1964)
Eftirmaður:
Gulzari Lal Nanda


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.