Fara í innihald

Biel/Bienne

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Biel/Bienne
Fáni Biel/Bienne
Skjaldarmerki Biel/Bienne
Biel/Bienne er staðsett í Sviss
Biel/Bienne
Biel/Bienne
Hnit: 47°08′N 7°15′A / 47.133°N 7.250°A / 47.133; 7.250
Land Sviss
KantónaBern
Flatarmál
 • Samtals21,21 km2
Hæð yfir sjávarmáli
437 m
Mannfjöldi
 (31. desember 2018)
 • Samtals55.159
 • Þéttleiki2.600/km2
TímabeltiUTC+1 (CET)
 • SumartímiUTC+2 (CEST)
Póstnúmer
2500–2510
Vefsíðabiel-bienne.ch

Biel/Bienne (þýska: Biel, franska: Bienne) er svissnesk borg í kantónunni Bern. Hún er stærsta tvítyngda borgin í Sviss. Íbúar eru 50 þúsund.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Biel liggur við norðurenda Bielersee, við rætur Júrafjalla, vestarlega í Sviss. Næstu borgir eru Neuchatel til suðvesturs (25 km), Bern til suðausturs (35 km), Basel til norðurs (90 km) og Lausanne til suðurs (100 km). Frönsku landamærin eru steinsnar til vesturs.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Borgin er nefnd eftir rómversk/keltnesk goðinu Belenus. Elsta heiti sem varðveist hefur er „apud belnam“ frá 1142. Biel gæti hins vegar einnig staðið fyrir germanska orðinu Beil, sem merkir öxi. Það var því tekið upp sem skjaldarmerki borgarinnar. Á þýsku heitir borgin Biel, á frönsku Bienne. Síðan 2005 er formlegur ritháttur borgarinnar Biel/Bienne.

Tungumál[breyta | breyta frumkóða]

Biel/Bienne er tvítyngd borg

Biel er tvítyngd borg. Af íbúum tala 55% þýsku og 28% frönsku. Afgangurinn eru útlendingar. Bæði tungumálin eru opinber tungumál borgarinnar og eru jafnrétthá. Þó er ekki þar með sagt að allir íbúar séu tvítyngdir. Hins vegar eru allar götumerkingar á báðum tungumálum, öll gögn frá borgarskrifstofum og dómshúsum eru á báðum málum, sem og merkingar fyrir almenningssamgöngur. Í kvikmyndahúsum eru bíómyndir ávallt sýndar með upprunalega máli myndarinnar, en fyrir neðan er texti bæði á þýsku og frönsku. Stórmyndir eru hins vegar oft með aukasýningar sýndar með öðrum hvorum texta fyrir hverja sýningu. Þetta gefur borginni sérstakan sjarma, ekki síst þegar samtöl á götum úti eru þannig að ein manneskja tala frönsku og hin svarar á þýsku, og báðir skilja.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Fornleifafræðingar hafa fundið merki um byggð á staðnum frá tímum Rómverja en lítið er vitað um hana. Biel/Bienne myndaðist ekki sem borg fyrr en á 13. öld, hún hlaut borgarréttindi 1275. Biskuparnir í Basel voru með sterk ítök þar. Snemma gerði borgin þó bandalag við aðrar nálægar borgir, svo sem Solothurn, Bern og Fribourg. Brátt hurfu áhrif biskupanna en tengslin við Bern urðu sterkari. Bern gekk í svissneska sambandið þegar árið 1353 en Biel/Bienne hikaði þó enn. Hún gekk ekki í svissneska sambandið fyrr en 1478. Árið 1528 gengu siðaskiptin í garð í borginni. Árið 1798 hertóku Frakkar borgina og innlimuðu hana Frakklandi. Eftir fall Napoleons 1815 úrskurðaði Vínarfundurinn að borgin skyldi tilheyra kantónunni Bern.

Í upphafi 20. aldar stækkaði Biel/Bienne verulega við samruna við nokkra bæi. Árið 1964 náði íbúafjöldi borgarinnar hámarki með 64 þúsund en hefur dalað síðan.

Við undirbúning stofnunar kantónunnar Júra 1979 var Biel/Bienne boðið að verða höfuðborg nýju kantónunnar en boðinu var hafnað, enda kusu íbúarnir áframhaldandi veru í kantónunni Bern. Á síðustu árum er verkefni í gangi að stækka Júra, þannig að Biel/Bienne myndi verða hluti af henni, en verkefnið er enn sem komið er skammt á veg komið.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Einn af mörgum brunnum borgarinnar

Langvinsælasta íþróttagrein borgarinnar er íshokkí. Félagið EHC Biel er þrefaldur svissneskur meistari.

Í Biel/Bienne fer fram elsta 100 km hlaup heims, en það hóf göngu sína 1958. Hlaup fer árlega fram í júní og eru þátttakendur nokkur þúsund hvaðanæva að úr heiminum.

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Biel var að hluta reist á vatni, þ.e. nyrsta hluta Bielersee. Fyrr á öldum voru síki og skurðir um alla borgina en nú er búið að loka þeim flestum. Þó eru enn mörg húsanna á stultum neðanjarðar, enda flýtur enn mikið vatn undir borginni.

72 brunnar eru í borginni, þeir elstu í miðborginni. Íbúar urðu að sækja sér vatn úr þessum brunnum allt fram á 20. öld. Tvær stórar kirkjur eru í borginni. Stadtkirche þjónar þýskumælandi fólki en Église Pasquart þeim frönskumælandi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]