Fara í innihald

Bonnie og Clyde

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bonnie og Clyde í mars árið 1933 á ljósmynd sem lögreglan fann á felustað þeirra í Jospin, Missouri.

Bonnie Elizabeth Parker (1. október 1910 – 23. maí 1934) og Clyde Chestnut Barrow, öðru nafni Clyde Champion Barrow[1] (24. mars 1909 – 23. maí 1934) voru bandarískir glæpamenn sem ferðuðust um miðhluta Bandaríkjanna ásamt glæpaflokk sínum á tíma kreppunnar miklu, rændu fólk og drápu það þegar þau voru króuð af. Glæpir þeirra gerðu parið alræmt meðal bandarísks almennings á árunum 1931 til 1935. Nú til dags er þeirra minnst fyrir bankarán þeirra en parið rændi aðallega litlar verslanir og afskekktar bensínstöðvar. Talið er að glæpagengið hafi drepið a.m.k. níu lögreglumenn og nokkra almenna borgara. Að lokum leiddu lögreglumenn parið í gildru og skutu það til bana í Sailes, Bienville Parish í Louisiana. Orðspor þeirra fór á flug í bandarískri dægurmenningu eftir að kvikmynd um þau kom út í leikstjórn Arthur Penn árið 1967.[2] Í dag er algengt að elskendum sem lifa glæpalífi saman sé líkt við Bonnie og Clyde.

Jafnvel á meðan þau lifðu var orðspor þeirra mjög ólíkt veruleikanum sem þau lifðu á faraldsfæti, sérstaklega í tilfelli Bonnie Parker. Hún var viðstödd yfir hundrað glæpaverknaða á þeim tveimur árum sem hún var kærasta Barrow[3] en hún var ekkert í líkingu við persónuna sem fjölmiðlar og tímarit gerðu hana að í umfjöllun sinni: Að kaldrifjuðu morðkvendi sem keðjureykti vindla og var ávallt með vélbyssu við höndina. W. D. Jones, einn meðlimur glæpaflokksins, bar vitni um að hann hefði aldrei séð hana skjóta á lögreglumann[4][5] og frægð hennar fyrir vindlareykingar spratt af gamansamri, uppstilltri ljósmynd af henni sem fannst á yfirgefnum felustað gengisins. Parker var keðjureykingakona en hún reykti aðeins Camel-vindlinga en ekki vindla.[6]

Samkvæmt sagnfræðingnum Jeff Guinn leiddu ljósmyndirnar sem fundust á felustað glæpaflokksins til þess að almenningur dró upp glansmynd af Bonnie og Clyde. Í ritum sínum færir hann rök fyrir því að ljósmyndirnar hafi gert þau að „stjörnum“ glæpaheimsins og vakið samúð og spennu almennings ekki síst vegna þess að augljóst þótti að þau ættu í kynferðislegu sambandi utan hjónabands. [7]

Bonnie Parker

[breyta | breyta frumkóða]
Gamansöm og uppstillt ljósmynd sem tekin var af Bonnie Parker á felustað Barrowgengisins. Þessi mynd varð grunnurinn að ímynd Bonnie í bandarískum fjölmiðlum.

Bonnie Elizabeth Parker fæddist í Rowena í Texas, önnur þriggja barna. Faðir hennar, Charles Robert Parker (1884 – 1914) var múrsmiður sem dó þegar Bonnie var fjögurra ára. [8] Móðir hennar, Emma (Krause) Parker (1885–1944) flutti með fjölskyldu sinni til foreldrahúsa í Cement City, iðnaðarúthverfi sem gengur nú undir nafninu Vestur-Dallas, og vann þar sem saumakona.[9] Á fullorðinsárum tjáði Bonnie sig gjarnan með því að yrkja ljóð.[10][11].

Á öðru ári sínu í gagnfræðiskóla hitti Parker Roy Thornton. Þau hættu bæði í skólanum og giftust þann 25. september 1926, sex dögum fyrir sextánda afmælisdaginn hennar.[12] Hjónaband þeirra einkenndist af stöðugri fjarveru Thornton og kasti hans við lögin og entist ekki lengi. Leiðir þeirra skildu í janúar árið 1929 og þau hittust aldrei aftur. Þau voru þó aldrei lögskilin og Bonnie var enn með giftingarhring frá Thornton á baugfingri þegar hún lést.[13] Thornton var enn í fangelsi þegar hann heyrði af andláti hennar og sagði um það: „Ég er feginn að þetta endaði þannig hjá þeim. Það er miklu betra en að láta ná sér.“[14]

Árið 1929, eftir að hjónabandið rann út í sandinn, bjó Parker með móður sinni og vann sem gengilbeina í Dallas. Í dagbók sem hún hélt í stuttan tíma snemma þetta ár skrifaði Parker um einmanaleika sinn, óþolinmæði með að búa í landsbyggð Dallas, og dálæti hennar á hljóðkvikmyndum.[15]

Clyde Barrow

[breyta | breyta frumkóða]
Clyde Barrow árið 1927, sautján ára að aldri.

Clyde Chestnut Barrow fæddist inn í fátæka landbúnaðarfjölskyldu í Ellishéraði í Texas.[16] Hann var sá fimmti af sjö börnum Henry Basil Barrow (1874 – 1957) og Cumie Talitha Walker (1874 – 1942). Fjölskyldan flutti til Dallas snemma á þriðja áratugnum í miðri flutningaöldu fátækra landyrkjenda til úthverfis Vestur-Dallas. Barrowfjölskyldan bjó undir vagninum sínum fyrstu mánuðina í Vestur-Dallas. Þegar Henry, faðir Clyde, nurlaði loks nógu saman til að kaupa tjald taldist það mikið skref upp á við fyrir fjölskylduna.[17]

Clyde var handtekinn í fyrsta sinn árið 1926 eftir að hafa flúið af hólmi þegar lögreglan tók hann til tals vegna bíls sem hann hafði leigt en ekki skilað á tilsettum tíma. Önnur handtaka hans, ásamt Buck bróður sínum, kom litlu seinna og stafaði af því að hann hafði undir höndunum stolna alikalkúna. Clyde gegndi ýmsum lögmætum störfum frá árinu 1927 til 1929 en vann einnig við að brjóta upp peningaskápa, ræna verslanir og stela bílum. Eftir að hafa verið margoft handtekinn á þessu tímabili var hann loks sendur á fangabýlið Eastham í apríl 1930. Í fangelsinu notaði Barrow blýpípu til að mölva höfuðkúpu annars fanga, Ed Crowder, sem hafði ítrekað beitt hann kynferðislegu ofbeldi.[18] Þetta var fyrsta morð Clyde Barrow en annar fangi sem afplánaði lífstíðardóm tók á sig sökina.[19] Barrow fékk annan fanga til að höggva af honum tvær tær til þess að hann yrði ekki látinn vinna erfiðisvinnu nauðugur í fangelsinu. Barrow átti eftir að haltra það sem eftir var ævinnar vegna támissisins.[19] Án þess að hann vissi af því hafði móðir hans þá samið um að hann yrði látinn laus, og var hann frjáls sinna ferða aðeins sex dögum síðar.[19]

Barrow var látinn laus þann 2. febrúar 1932. Systir hans, Marie, sagði um hann: „Eitthvað hörmulegt hlýtur að hafa hent hann í fangelsinu því hann var ekki sama manneskjan þegar hann kom út.“[20] Annar fangi í fangelsinu sagðist hafa séð Clyde „breytast úr skóladreng í skellinöðru.“[21] Á ferli sínum eftir fangavistina einbeitti Barrow sér að smærri skotmörkum eins og að ræna matvöruverslanir og bensínstöðvar. Glæpaflokkur hans rændi um tíu banka en miklu fleiri smáverslanir. Samkvæmt John Neal Phillips var lífsmarkmið Barrow ekki að fá frægð og frama fyrir ránin heldur að hefna sín á fangelsakerfi Texas vegna ofbeldisins sem hann mátti þola sem fangi.[22]

Fyrstu kynni

[breyta | breyta frumkóða]

Nokkrar sögur fara af fyrstu kynnum Bonnie og Clyde. Sú trúverðugasta er á þá leið að Bonnie Parker hafi hitt Clyde Barrow þann 5. janúar árið 1930 heima hjá vinkonu Clyde, Clarence Clay, í nágrenni Vestur-Dallas. Parker var þá atvinnulaus og bjó hjá vinkonu sinni til að hlúa að henni á meðan hún var handleggsbrotin. Barrow leit við á meðan Parker var í eldhúsinu að búa til heitt súkkulaði.[23]

Þegar þau hittust féllu þau umsvifalaust hvert fyrir öðru. Flestir sagnfræðingar telja að Parker hafi gengið í glæpagengi Barrow vegna þess að hún var ástfangin. Hún var trygg fylgiskona hans það sem eftir var glæpaferils hans. Þau áttu von á því að þau myndu deyja langt fyrir aldur fram og biðu þess saman.[24]

Sagnfræðilegt mat

[breyta | breyta frumkóða]

Í gegn um árin hafa fjölmargir menningarsagnfræðingar greint það hvernig minningin um Bonnie og Clyde höfðar til almenningsins. E.R. Milner, sagnfræðingur, rithöfundur og sérfræðingur í tímabili Bonnie og Clyde, hefur sett dálæti almennings á tvíeykinu, bæði á kreppuárunum og í seinni tíð, í sagnfræðilegt og menningarlegt samhengi. Samkvæmt Milner samsama þeir sem upplifa sig sem „utangarðsmenn eða andstæðinga standandi kerfa“ sig Bonnie og Clyde og líta á þau sem byltingarmenn gegn þjóðfélagskerfi sem gerði sér ekki annt um þau.

Fjárhagur þjóðarinnar dalaði einfaldlega um 38 prósent,“ segir Milner, höfundur The Lives and Times of Bonnie and Clyde. „Mjóslegnir og ringlaðir menn ráfuðu um göturnar í leit að atvinnu ... skömmtunarraðir og fátækraeldhús voru troðfull. (Á landsbyggðinni) var lagt eignarhald á meira en 38 prósent landeigna bænda og á sama tíma skall hryllilegt þurrkatímabil yfir slétturnar miklu. Þegar Bonnie og Clyde urðu fræg fannst mörgum að stóriðja og embættismenn hefðu misnotað kapítalíska kerfið ... en þarna voru Bonnie og Clyde að slá til baka.“[25]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „FBI — Bonnie and Clyde“. FBI.
  2. Toplin, Robert B. History by Hollywood: The Use and Abuse of the American Past (Urbana, IL: University of Illinois, 1996.)
  3. Phillips, John Neal (2002). Running with Bonnie & Clyde: The Ten Fast Years of Ralph Fults. Norman, OK: University of Oklahoma Press.
  4. Jones deposition, November 18, 1933. FBI file 26-4114, Section Sub A Geymt 12 júní 2009 í Wayback Machine, pp. 59–62. FBI Records and Information Geymt 31 maí 2015 í Wayback Machine
  5. Jones, W.D. "Riding with Bonnie and Clyde", Playboy, November 1968. Reprinted at Cinetropic.com.
  6. Parker, Emma Krause; Nell Barrow Cowan and Jan I. Fortune (1968). The True Story of Bonnie and Clyde. New York: New American Library.
  7. Guinn, Jeff (9. mars 2010). Go Down Together: The True, Untold Story of Bonnie and Clyde. Simon & Schuster. bls. 174–176. Sótt 22. nóvember 2013.
  8. Phillips, bls. xxxv; Guinn, bls. 45
  9. Guinn, bls. 46
  10. „The Story of Suicide Sal - Bonnie Parker 1932“. cinetropic.com.
  11. „The Story of Bonnie and Clyde“. cinetropic.com.
  12. Phillips, bls. xxxvi; Guinn, bls. 76
  13. Parker, Cowan og Fortune, bls. 56
  14. "Bonnie & Roy." Bonnie and Clyde's Texas Hideout. Sótt 8. júlí, 2017.
  15. Parker, Cowan og Fortune, bls. 55–57
  16. Barrow og Phillips, bls. xxxv.
  17. Guinn, bls. 20.
  18. Guinn, bls. 76.
  19. 19,0 19,1 19,2 Bonnie and Clyde (1. hluti), American Experience, PBS, 16. janúar 2016, 24. þáttaröð, 4. þáttur
  20. Phillips, Running, bls. 324n9
  21. Phillips, Running, bls. 53.
  22. Phillips, John Neal. "Bonnie & Clyde's Revenge on Eastham" Geymt 13 nóvember 2011 í Wayback Machine, Historynet.com, upprunalega birt í American History Geymt 2 maí 2010 í Wayback Machine, October 2000.
  23. Parker, Cowan og Fortune, bls. 80
  24. Guinn, bls. 81
  25. Milner, E.R. The Lives and Times of Bonnie and Clyde. Southern Illinois University Press, 2003. Birt 1996.