Fara í innihald

Florence Nightingale

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Florence Nightingale
Florence Nightingale um 1850
Fædd12. maí 1820
Flórens á Ítalíu
Dáin13. ágúst 1910 (90 ára).
Park Lane í London í Englandi.
StörfHjúkrunarkona, tölfræðingur og rithöfundur.
Þekkt fyrirStörf á sviði hjúkrunar og velferðarmála.
TrúKaþólsk
ForeldrarWilliam Edward & Frances Fanny Smith
Undirskrift

Florence Nightingale (12. maí 1820–13. ágúst 1910), einnig þekkt sem „konan með lampann“, var bresk hjúkrunarkona, rithöfundur og tölfræðingur. Hún linaði þjáningar sjúkra og særðra hermanna í Krímstríðinu og hlaut sitt fræga viðurnefni „konan með lampann“ þá vegna venju sinnar að ganga á milli manna að næturlagi með lampa í hönd til að hjúkra þeim.

Framlag hennar til heilbrigðismála markaði tímamót í sögunni. Hún jók virðingu hjúkrunarkvenna og kom á fót fullnægjandi menntunarkerfi fyrir þær. Hún stofnaði árið 1860 fyrsta eiginlega hjúkrunarskóla í heimi við St. Thomas-sjúkrahúsið í London. Hún kom þess að auki til leiðar að aðbúnaður á sjúkrahúsum stórbatnaði, skipulag þeirra varð skilvirkara og hreinlæti jókst til muna. Hún var brautryðjandi í nútíma hjúkrun og notkun tölfræðilegra aðferða við úrvinnslu sjúkragagna. Það var fyrir hennar tilstuðlan að farið var að senda flokk hjúkrunarkvenna með breska hernum í styrjaldir.

Alþjóðlegi hjúkrunarfræðidagurinn er haldinn á afmælisdegi hennar ár hvert. Árið 2010 var Florence Nightingale minnst með alþjóðlegu ári og Sameinuðu þjóðirnar helguðu áratuginn 2011 til 2020 heilbrigði um allan heim.

Uppvaxtarárin

[breyta | breyta frumkóða]
Florence Nightingale, í kringum 1858

Florence fæddist 12. maí árið 1820 í Flórens. Foreldrar hennar, William Edward og Frances Fanney Smith voru mjög efnað yfirstéttarfólk og vel tengd inn í bresku ríkisstjórnina. Þau lögðu land undir fót eftir að þau höfðu verið gefin saman og eignuðust tvær dætur á þeim þremur árum sem þau voru búsett á Ítalíu. Dætur þeirra voru nefndar eftir borgunum þar sem þær fæddust en eldri dóttir þeirra fæddist í borginni Napólí árið 1819 og fékk nafnið Parhenope sem er gríska heitið yfir borgina. Þegar fjölskyldan sneri aftur til Englands settust þau að í Lea Hurst í Derbyshire en fluttu seinna til Embley Park í Hampshire á Suður-Englandi.[1]

Florence og systir hennar hlutu afbragðs menntun frá föður sínum eins og stúlkum úr yfirstétt sæmdi, enda var hann vel menntaður maður. Þær lærðu meðal annars frönsku, grísku, ítölsku, latínu, heimspeki, náttúrufræði, stærðfræði og sögu. Einnig kom til þeirra kennslukona sem kenndi þeim bæði tónlist og teikningu.[1]

Þrátt fyrir munaðinn sem ríkti á uppvaxtarárum Florence þá dreymdi hana um annað líferni. Þegar hún var aðeins sautján ára gömul þá fannst henni líkt og Guð hefði talað til hennar og úthlutað henni verkefni í lífinu við að þjóna sér. Í mörg ár velktist hún í vafa um hvernig þessu verkefni væri háttað en hún tók köllunina jafnframt mjög alvarlega. Með tímanum fór þó að þróast með henni sterk hvöt til að hjúkra. Staðreyndin var sú að það var henni nánast sjúkleg svölun að sauma saman rifnar brúður systur sinnar og hana dreymdi um að vaka yfir sjúkum og hjálpa fátækum. Hugur hennar var yfirfullur af hugarórum um að breyta heimili sínu í sjúkrahús þar sem hún væri yfirhjúkrunarkona.[2][3]

Eftir því sem árin liðu fór að örla á eirðarleysi og óhamingju hjá Florence. Foreldrar hennar voru gáttaðir á hátterni dóttur sinnar og skildu ekki hvað amaði að. Það kom þá líkt og þruma úr heiðskíru lofti þegar Florence óskaði eftir að komast í nokkra mánuði í starfsnám sem hjúkrunarkona á sjúkrahúsinu í Salsbury. Þar ætlaði hún að stofna mótmælenda nunnureglu, sem yrði án skuldbindinga og einungis fyrir menntaðar konur. Hugmyndin féll í grýttan farveg meðal foreldra hennar. Almenningsálit á hjúkrunarkonum á þessum tíma ekki hátt. Hjúkrunarkonur voru álitnar sóðalegar, skítugar og drykkfelldar og alræmdar fyrir ósiðlegt líferni sitt.[4]

Florence gleymdi þó ekki köllun sinni þrátt fyrir boð og bönn fjölskyldu sinnar. Hún lifði á ytra yfirborði lífi óhófssamrar ungrar stúlku en þjáðist fyrir það af samviskubiti og vanlíðan. Hún notfærði sér þó tímann vel og var dugleg að safna að sér þekkingu og reynslu á sviði hjúkrunarmála. Hún missti aldrei sjónar á takmarki sínu og las í laumi allar athugasemdir læknanefnda, rit heilbrigðisstjórnarinnar og skýrslur frá sjúkrahúsum og fátækrarheimilum. Hún sló heldur ekki slöku við á ferðum sínum erlendis með fjölskyldu sinni og náði að kynna sér hvert einasta meiriháttar sjúkrahús í Evrópu á þessum tíma. Hún grandskoðaði einnig fátækrarheimilin og náði að starfa nokkrar vikur sem „miskunnsöm systir“ í París og að dvelja í fáeina daga í Klausturskóla í Róm án vitneskju fjölskyldu sinnar. Það urðu svo örlagarík tímamót í lífi hennar þegar móðir hennar og systir fóru til Karlsbad og hún laumaðist til heilsuhælis í Kaisersweirth og dvaldi þar í rúma þrjá mánuði og lærði hjúkrun. Sú reynsla sem hún öðlaðist þar í Þýskalandi aðeins tuttugu og fimm ára gömul lagði grundvöllinn að framtíðarstarfi hennar sem hjúkrunarkona og þar með grundvöllinn að framtíðarstarfi komandi hjúkrunarkvenna í heiminum.[5]

Þegar Florence varð þrjátíu og þriggja ára gömul var sem foreldrar hennar gerðu sér grein fyrir vanmætti sínum gagnvart starfsvali dóttur sinnar og álitu hana loks nógu gamla og duglega til þess að fá vilja sínum framgengt. Hún fékk þá starf sem forstöðukona fyrir líknarstofnun í Harley Street. En þar starfaði hún í eitt ár.[6]

Konan með lampann (Krímstríðið)

[breyta | breyta frumkóða]
Florence Nightingale á ferð með lampann.
Stofa á spítalanum í Scutari þar sem Florence starfaði

Þegar Krímsstríðið braust út árið 1853 var Florence þrjátíu og fjögurra ára gömul. Florence var fyllilega reiðubúin að vinna það starf sem henni var falið í stríðinu. Það var sem hún hafði undirbúið sig ómeðvitað fyrir þetta starf árum saman.[7]

Bretar, Frakkar og Tyrkir áttu í stríði við Rússa. Bretar höfðu verið kokhraustir eftir sigurinn við Waterloo árið 1815, en nú fjörutíu árum síðar voru þeir engan veginn tilbúnir undir stríðsátök. Bardaginn fór fram á Krímsskaga Rússlandsmegin við Svartahaf. Leiðin sem þurfti að ferja særða hermenn um var fimm hundruð kílómetrar, frá vígvellinum við Sevastopol og yfir Svartahaf til Scutari, hverfis í Konstantínópel. Tyrkir höfðu þá byggt þriggja hæða herskála þar í Scutari sem Bretar fengu til umráða sem sjúkrahús. Allar birgðir og útbúnaður var þar af skornum skammti og gat sjúkrahúsið þess vegna ekki þjónað þeim fjölda sem þurfti. Á leiðinni til Konstantínópel fóru þeir landveginn til Varna við Svartahaf í Búlgaríu en á leiðinni kom upp kólerufaraldur sem átti eftir að fylgja hernum og veikja hann illilega. Þegar herinn fór frá Varna yfir til Konstantínópel voru ekki til nógu margir bátar til að ferja bæði birgðir og hermenn og því var gripið til þess ráðs að skilja öll eldurnaráhöld, matvæli, meðul, rúm, sjúkragögn og tjöld eftir. Þessi ákvörðun átti skiljanlega eftir að koma sér mjög illa.[8]

Ástandið varð vægast sagt skelfilegt. Engin gögn voru tiltæk til að hlúa að særðum hermönnum hvorki spelkur, sárabindi, morfínklóróform. Aflimanir voru framkvæmdar án deyfingar við viðbjóðslegar aðstæður og jafnvel án allrar lýsingar um miðjar nætur. En versta vandamálið sem lá við voru óhreinindin. Særðir og kólerusjúkir hermenn voru látnir liggja saman og engin tilraun gerð til að aðskilja þá. Hermenn lágu í sínum eigin saur, enda hirti enginn um að þvo þeim og þegar að einn hermaður lést var þeim næsta einfaldlega plantað í grútskítugt og útsaurugt bæli hans.[9]

Þegar fréttir af atburðunum bárust til Bretlands heimtaði almenningur að eitthvað yrði gert í málunum. Ríkjandi hermálaráðherra Bretlands Sir Sidney Herbert ritaði sendiherra Bretlands í Konstantínópel samtímis og skipaði honum að kaupa allt sem þurfti og senda í snatri til Scutari. En hann lét ekki þar við sitja, Sir Sidney Herbert bað þá Florence Nightingale um að fara til Scutari á kostnað ríkisins með fjörutíu hjúkrunarkonur með sér og stjórna þar hjúkrun hermannanna. Florence var skipuð yfir hjúkrunardeild kvenna innan breska hersins og forstöðumaður breska sjúkrahússins í Tyrklandi. Ferðin hófst 21.október 1854 og í hana fóru þrjátíu og átta hjúkrunarkonu auk Florence. Þær komu til Scutari 5. nóvember sama ár og þá var ástandið mjög slæmt en átti þó eftir að versna til muna.[10]

Í baráttu sinni í Scutari mætti Florence ómældri mótstöðu, enda voru læknar breska hersins í Scutari lítt vel við þessa konu, og auk þess var hún inn undir hjá bresku ríkisstjórninni sem fór illa í þá. En Florence lét sig ekki, þó henni væri bannað að hjúkra hermönnunum. Þá beindi hún starfi sínu að því sem hún gat fengið breytt og með atorku og útsjónarsemi sinni gjörbreytti hún aðstæðum hermannanna. Hún hafði nóg af peningum milli handanna og öll völd sem þurfti til að eyða þeim. Hún sá til þess að nóg væri af mat og öðrum birgðum og útvegaði auk þess fatnað, eldhúsáhöld og annan nauðsynlegan húsbúnað. Hún réði til sín tvo hundruð verkamenn til að gera við ónýta sjúkrahúsálmu og leigði auk þess annað húsnæði þar sem hún starfrækti þvottahús fyrir sjúkrahúsið. Þar með sá hún til þess að hermennirnir bjuggu við allt annað stig hreinlætis en áður og fengu nú reglulega og vel að borða. Auk þessa alls afrekaði hún að að hjúkra þeim særðu hvert kvöld og var hún vön að labba um stofur hermannanna með lampann sinn og fékk þannig viðurnefnið sitt fræga „konan með lampann“.[11]

Florence stundaði einnig heildræna hjúkrun í Scutari sem fól í sér að hún sinnti líka andlegum og félagslegum þörfum hermannanna. Hún skrifaði bréf til fjölskyldna þeirra, kom upp lesstofum og pantaði bækur og sýndi þeim hlýju. Hún vann hugi og hjarta hermannanna og kölluðu þeir hana „konuna með lampann.“ Hróður hennar barst til Bretlands og þar var stofnaður sjóður í hennar nafni til að styrkja menntun hjúkrunarkvenna.

Eftir sex mánaða starf hafði dánartala lækkað úr fjörtíu og tveimur af hundraði niður í tvo af hundraði sem var mjög mikið afrek og ekki leið á löngu þar til Florence tók algjörlega við rekstri sjúkrahússins.

Florence Nightingale hélt svo heim á leið í ágúst 1856 eftir vel heppnað starf og varð þjóðarhetja Breta. Krímsstríðinu lauk með friðarsamingi milli Breta, Frakka, Tyrkja og Rússa. Florence hafði náð að ljúka verkefni sínu með miklum sóma og þrátt fyrir erfiðleikana þá missti hún aldrei sjónar á markmiði sínu.[12]

Löngum hefur verið fullyrt að dánartíðni hermanna á sjúkrahúsinu í Scutari hafi snarlækkað við komu Florence en umdeilt er hvort það hafi verið henni að þakka eða af öðrum örsökum. Breska stjórnin hafði sent á vettvang rannsóknarnefnd, sem lét meðal annars hreinsa frárennslislagnir og bæta loftræstingu sem hafði óneitanlega áhrif. Sjálf hafði Florence talið að léleg næring og ofþreyta hermannanna væru helstu ástæðurnar fyrir hárri dánartíðni en það var ekki fyrr en hún kom heim og fór að skoða gögn sem safnað hafði verið saman sem hún áttaði sig til fulls á mikilvægi hreinlætis og aðbúnaðar.

Eftir heimkomuna

[breyta | breyta frumkóða]
Stytta til minningar Florence Nightingale sem stendur í Waterloo Place, London

Eftir að Florence lauk störfum í Krímsstríðinu var henni þó ekki allri lokið. Hún hóf baráttu sína fyrir umbætum á sviðum heilbrigðismála í Bretlandi, og auk þess vildi hún að hjúkrunarmál og rekstur sjúkrahússa innan hersins yrðu tekin í gegn.[13]

Florence veiktist alvarlega í Krím 1855 og árið eftir að hún kom heim aftur og varð þá vart hugað líf. Hún lifði þó í fimmtíu og fimm ár til viðbótar en þessi sjúkdómur sem líklegast er talið að hafi verið öldusótt, varð henni sú blessun að með honum varð hún laus undan kvöðum samfélagsins um að gifta sig. Hún gat þess í stað einbeitt sér að hennar helstu hugðarefnum.[14]

Þá var oft á tíðum leitað til Florence í sambandi við uppbyggingu sjúkrahúsa, enda hafði hún náð upp sérlegri leikni við að sjá fyrir sér þá samræmdu starfsemi sem þarf að ná til að rekstur sjúkrahúss gangi upp. Florence var heilluð af tölfræði og vann hörðum höndum við að útbúa staðlaða lista yfir sjúkdóma, svo hægt væri að fylgjast með bæði útbreiðslu þeirra og árangri lækninga. Árið 1860 var svo leitaði sérstaklega til hennar þegar stóð til að stækka eða flytja St. Thomas sjúkrahúsið í London en hún stórbætti allan aðbúnað og skipulag sjúkrahússins. Hún stundaði þess að auki ritstörf og skyldi eftir sig mörg þekkt ritverk um hjúkrun og heilbrigðismál.[15]

Hún starfrækti Training School for Nurses þann 9.júlí 1860, þar sem hún ætlaði að þjálfa konur til hjúkrunarstarfa sem síðan myndu kenna áfram við skólann. Hún stofnaði einnig Training School for Housewifes sem átti að kenna konum að taka á móti börnum í heimahúsum en þá var þeirri vitneskju mjög ábótavant og mikið þarfaþing í samfélaginu. Skólinn starfar enn og heitir nú Florence Nightingale School of Nursing and Midwifery. Árið 1869 stofnaði Florence í Bretlandi, ásamt Elísabetu Blackwell (1821–1910) fyrsta kvennlækninum í Bandaríkjunum, Women‘s Medical College.[16]

Florence kom aldrei fram opinberlega eftir heimkomu sína frá Krím. Hún lifði í hálfgerðri einangrun og var rúmföst síðustu fjörtíu og fimm árin. Florence hlaut orðuna „Royal Red Cross“ árið 1883 og auk þess heiðruð með „Order of Merit“ árið 1907. Florence varð níutíu ára gömul og lést í svefni 13. ágúst 1910. Breska stjórnin bauð henni legstað í Westminster Abbey en ættingjar Florence höfnuðu boðinu.[17]

Gröf Florence Nightingale við St.Margarets kirkju í East Wellow.

Frægasta ritverk Florence er án efa Notes on nursing — what it is and what it is not sem kom fyrst út árið 1859. Sama ár gaf hún þess að auki út bókina Notes on Hospitals. Árið 1852 skrifaði hún bókina Cassandra en gaf hana ekki út. Þar setti hún illilega út á iðjuleysi kvenna sinnar kynslóðar og skeytingarleysi þeirra á umbótum samfélagsins. Árið 1859 gaf hún svo út Suggestions for tought. Auk þessa verka skrifaði hún linnulaust um hjúkrun og stóð í bréfaskriftum við margt fólk til að reyna að bæta úr heilbrigðismálum heimsins.[18]

Kvenréttindabarátta

[breyta | breyta frumkóða]

Florence lagði sitt á vogarskálar kvenréttindabaráttu með því að rísa upp á móti ríkjandi viðhorfum í þjóðfélaginu um að hlutverk kvenna væri að giftast, stofna heimili og eiga börn. Hún fylgdi þeirri löngun sinni að mennta sig og starfa við það sem hugur hennar stefni til þrátt fyrir að oft væri á brattann að sækja.

Tölfræði

[breyta | breyta frumkóða]
"Skýringarmynd af dánarorsökum hersins fyrir austan" eftir Florence Nightingale.

Florence hafði mikla hæfileika á sviði stærðfræði og tölfræði. Tölfræðina notaði hún til að greina og koma á framfæri ýmum staðreyndum varðandi dánartíðni og ýmsum þáttum varðandi faraldsfræði og þjónustu heilbrigðisstofnana. 1858 var hún fyrst kvenna til að fá aðild að Konunglega tölfræðifélaginu (Royal Statistical Socity). Hún var einnig frumkvöðull í sjónrænni framsetningu á upplýsingum, til dæmis notaði hún kökurit til að lýsa dánarorsökum breskra hermanna í Krímstríðinu.

Störf Florence og skrif höfðu mikil áhrif á hjúkrunarstarfið. Hún hóf hjúkrun til virðingar sem fræðigrein og breytti ímynd hjúkrunarkvenna. Hún kom á miklum umbótum í heilbrigðismálum og var frumkvöðull í markvissri skráningu hjúkrunar. Hún kom líka á miklum umbótum í hjúkrunarnámi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. 1,0 1,1 Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 240-241.
 2. Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 241.
 3. Lytton Strachey (1942) : 8-9.
 4. Lytton Strachey (1942) : 9-11.
 5. Lytton Strachey (1942) : 12-13.
 6. Lytton Strachey (1942) : 14-15.
 7. Lytton Strachey (1942) : 17.
 8. Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 243.
 9. Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 244.
 10. Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 244-245.
 11. Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 248-249.
 12. Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 249.
 13. Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 250.
 14. Christer Magnusson (2010) : 26-27
 15. Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 250.
 16. Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 250-251.
 17. Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 251-252.
 18. Kolbrún S. Ingólfsdóttir (2009) : 250-252.
 • Fyrirmynd greinarinnar var „Florence Nightingale“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. apríl 2010.
 • Christer Magnusson, 2010. „Bókarkynning – Florence var alls engin Florence“, Tímarit Hjúkrunarfræðinga 1: 1-86.
 • Kolbrún S. Ingólfsdóttir. 2009. Merkiskonur sögunnar. (Reykjavík: Veröld).
 • Strachey, Lytton. 1942. Florence Nightingale. (Reykjavík: Útgáfan lampinn).
 • Kristín Björnsdóttir (1. júní 2002). „Florence Nightingale“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 8–9.