Fara í innihald

Nzinga Mbandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ímynduð teikning af Nzingu frá árinu 1800.

Anna Nzinga (f. í kring um 158317. desember 1663), einnig þekkt sem Nzinga Mbandi eða Ana de Sousa Nzinga Mbande[1] var drottning („muchino a muhatu“) Ndongo- og Matamba-konungsríkjanna sem Mbundu-þjóðirnar byggðu í Angóla á 17. öld. Hún komst til valda sem erindreki eftir að henni tókst með háttvísi sinni að kveða niður milliríkjadeilur og endurheimta frá Portúgölum yfirráð yfir virkinu Ambaca. Sem systir konungsins Ngola Mbande var Nzinga þá þegar í kjörstöðu til að hafa áhrif á stjórnmálaákvarðanir, sérstaklega þegar konungurinn fól henni að birtast í sínu umboði við friðarumræður við nágrannaríkin. Eftir dauða bróður síns gerðist Nzinga ríkisstjóri fyrir son hans og erfingja, Kaza, og síðan drottning.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Nzinga fæddist í kring um árið 1583 þar sem nú er Angóla, þá portúgalskt áhrifasvæði, og var dóttir konungsins Kia Samba og Guenguela Cakombe. Faðir Nzingu réð yfir konungsríkjunum Ndongo og Matamba, þar sem Mbundu-þjóðirnar bjuggu. Samkvæmt gamalli hefð fékk konungsdóttirin nafnið Njinga vegna þess að hún fæddist með naflastrenginn vafinn um háls sér, en kujinga merkir að beygja eða vefjast á kimbundu-máli. Sagt var að slíkt væri forboði þess að barnið yrði stolt og yfirlátt. Þegar Nzinga lifði voru portúgölsk völd og áhrif á svæðinu að færast í aukana ásamt þrælaverslun yfir Atlanshafið.

Nzingu er fyrst minnst í rituðum heimildum sem erindreka bróður síns, konungsins Mbande, í friðarumræðum við portúgalska landstjórann João Correia de Sousa í Lúanda árið 1622.[2]

Markmið Mbande var að reka Portúgali burt úr virkinu Ambaca sem forveri de Sousa, Mendes de Vasconcelos, hafði byggt á landsvæði konungsins árið 1618. Einnig vildi hann endurheimta þegna sem Portúgalir höfðu hneppt í þrældóm og fá Portúgali til að hætta árásum Imbangala-málaliða á ríki sitt. Þegar fundurinn var haldinn kom Nzinga erindrekum Portúgala á óvart og voru þeir slegnir af sjálfsöryggi hennar. Sousa landstjóri náði aldrei yfirhöndinni í viðræðunum og féllst að endingu á sanngjarna friðarsáttmála þar sem Angólumenn fengu öllum sínum helstu kröfum framgengt. Eitt helsta hitamálið hafði verið hvort Ndongo-ríkið féllist á að gerast lén Portúgalskonungs.

Samtímateikning af fundi Nzingu við portúgalska landstjórann þar sem Nzinga situr á baki fylgikonu sinnar.

Sú fræga saga fer af friðarumræðunum að portúgalski landstjórinn hafi ætlað sér að auðmýkja Nzingu með því að koma aðeins fyrir sessum og púðum andspænis sér svo kvenhöfðinginn neyddist til þess að sitja á gólfinu. Til þess að sæta ekki slíka niðurlægingu lét Nzinga fylgdarkonu sína krjúpa niður á sessunum og settist á bak hennar svo hún gæti verið augliti til auglitis við Sousa.

Til þess að styrkja friðarsáttmálann tók Nzinga skírn og gerðist kaþólikki. Hún tók sér nafnið Dona Anna de Souse til heiðurs eiginkonu landstjórans, sem gerðist einnig guðmóðir hennar. Að endingu heiðruðu Portúgalir þó ekki sáttmálann við Ndongo og höfðu sig hvorki á brott úr virkinu né frelsuðu þeir þrælana sem þeir höfðu tekið. Vegna þessa viðsnúnings örvænti bróðir Nzingu, konungurinn, og framdi sjálfsmorð. Nzinga tók við völdum, fyrst sem ríkisstjóri í umboði sonar konungsins látna, og síðan sem drottning Andongo.

Portúgalir sigruðu Nzingu árið 1625 og neyddu hana til að flýja í austurátt. [3] Portúgalir settu systur Nzingu, Kifunji, á valdastól leppstjórnar þeirra. Nzingu tókst þó að safna liði og styrkja stöðu sína í Matamba m.a. með því að taka við flóttamönnum frá þrælaverslun Portúgala. Á fjórða áratugnum tókst Nzingu að taka völdin í Matamba þegar fyrri kvenhöfðingi þjóðarinnar, eða muhongo Matamba, lést.

Í bandalagi við Hollendinga[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1641 hertóku Hollendingar Lúanda frá Portúgölum í samstarfi við Kongóbúa. Nzinga sendi erindreka sína til þeirra og myndaði með þeim bandalag gegn Portúgölum, sem réðu enn landluktum hluta nýlendu þeirra með bækistöð í bænum Masangano. Nzinga vonaðist til þess að endurheimta lönd sín frá Portúgölum með hjálp Hollendinga og færði því höfuðborg sína til Kavanga í norðurhluta fyrrum landsvæða Ndongo. Árið 1644 sigraði hún her Portúgala við Ngoleme en tókst ekki að láta kné fylgja kviði. Árið 1646 bað Nzinga ósigur gegn Portúgölum við Kavanga og systir hennar var handsömuð ásamt skjalasafni hennar.

Nzinga fékk liðsauka frá Hollendingum og tókst með honum að hrekja burt portúgalskan her árið 1647 í orrustu við Kombi. Sat síðan her Nzingu um virki Portúgala í Ambaca, Muxima og höfuðborginni Masangani en tókst ekki að hrekja þá þaðan þar sem umsátursherinn bjó ekki yfir fallbyssum.

Þann 15. ágúst næsta ár tókst Portúgölum að endurheimta Lúanda. Nzinga neyddist til að semja um vopnahlé og hörfa til Matamba. Þaðan hélt hún áfram skæruhernaði gegn Portúgölum þar til hún var komin á sjötugsaldur.

Lokaár[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1657 var Nzinga lúin á baráttunni löngu gegn yfirráðum Portúgala og sendi þeim beiðni um nýjan friðarsáttmála. Í kjölfarið tók kaþólska kirkjan á ný við Nzingu og fól henni að boða kristni í konungsríki sínu. Eftir að átökunum við Portúgal lauk einbeitti Nzinga sér að því að endurbyggja ríki sitt, sem hafði liðið mikinn skort á áralöngum átökunum. Hún vildi ólm koma í veg fyrir að málaliðar úr röðum Imbangala-hópsins tækju við völdum eftir hennar dag og gætti þess að í sáttmálanum skuldbyndu Portúgalir sig til að halda ætt Nzingu á valdastól í Ndongo og Matamba.

Næstu ár einbeitti Nzinga sér að því að finna fyrrverandi þrælum ný heimili. Þrátt fyrir fjölmargar tilraunir til að steypa henni af stóli dó Nzinga friðsamlegum dauða, þá áttræð að aldri, þann 17. desember 1663 í Matamba. Án Nzingu braust út borgarastyrjöld í Matamba en Francisco Guterres Ngola Kanini gerðist að endingu konungur. Dauði Nzingu flýtti fyrir portúgalskri valdatöku í Suðvestur-Afríku, samhliða útþenslu portúgölsku þrælaverslunarinnar. Árið 1671 varð Nodongo hluti af portúgalska Angóla.

Orðspor[breyta | breyta frumkóða]

Stytta af Nzingu í Lúanda.

Í dag er Nzingu minnst í Angóla fyrir stjórnarhæfileika sína, glöggskyggni á milliríkjasamskipti og frækna hernaðarsigra. Stórgata í Lúanda er nefnd eftir henni og stytta af henni var reist á torgi þar í borg árið 2002 og afhjúpuð af José Eduardo dos Santos forseta í tilefni 27 ára sjálfstæðishátíðar Angóla. Algengt er að angólskar konur gifti sig við styttuna. Oft er líf hennar litið rómantískum augum og er hún táknmynd fyrir baráttu gegn nýlenduvæðingu.

Landsbanki Angóla gaf út myntir með andliti Nzingu árið 2015 til þess að minnast „hlutverks hennar í baráttunni fyrir sjálfsstjórn og menningu þjóðar hennar.“[4] Angólsk kvikmynd um líf hennar, Njinga, Rainha de Angola, kom út árið 2013.[5]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Williams, Hettie V. (2010). „Queen Nzinga (Njinga Mbande)“. Í Alexander, Leslie M.; Rucker, Walter C. (ritstjórar). Encyclopedia of African American History. 1. árgangur. Santa Barbara, California: ABC-CLIO. bls. 82.
  2. „Black History Heroes: Queen Ana de Sousa Nzinga Mbande of Ndongo (Angola)“. Sótt 7. desember 2014.
  3. Reid, Richard J. (2012). Warfare in African History. New York: Cambridge University Press. bls. 71.
  4. „Angola to Launch New Kwanza Coins in 2015“. Mena Report. 26. desember 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. september 2016. Sótt 26. júní 2016 – gegnum HighBeam Research.
  5. „Njinga, Queen of Angola (Njinga, Rainha de Angola) UK Premiere“. Royal African Society's Annual Film Festival. 6. nóvember 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 12 ágúst 2016. Sótt 23. júní 2016.