Fara í innihald

Valdakynslóðir Alþýðulýðveldisins Kína

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Alþýðulýðveldisins Kína.

Þar sem frami bæði innan Kommúnistaflokks Kína og Kínverska hersins fer eftir starfsaldri, er hægt að greina mismunandi valdakynslóðir leiðtoga Alþýðuveldisins Kína sem hver eiga sitt tímabil og einkenni. Þessir forystuhópar hafa hver um sig kynnt viðbætur við hugmyndafræði fyrri kynslóða, sem í sumum tilvikum hefur breytt ríkjandi stefnu á landsvísu.

„Fyrsta kynslóð“

[breyta | breyta frumkóða]

„Fyrsta valdakynslóðin“ réð ríkjum frá 1949-1976. Það var Maó Zedong (áður ritað Mao Tse-tung) meginleiðtogi en með honum voru Zhou Enlai, Zhu De, Liu Shaoqi, Chen Yun, Peng Dehuai. Síðar komu Lin Biao og svokölluð „fjórmenningarklíka“ (hvorki Lin eða Gang talinn formlega vera hluti af þessari kynslóð vegna pólitískra fjandskapar við Menningarbyltinguna sem þau beittu sér mjög fyrir). Í „fyrstu kynslóð“ voru þeir sem stofnuðu Alþýðulýðveldið Kína eftir sigra kommúnista í borgarastríðinu í Kína. Það einkenndi þessa leiðtoga að þeir voru gjarnan bæði pólitískir og hernaðarlegir leiðtogar. Flestir voru menntaðir utan Kína. Annað sameiginlegt með þeim var þátttaka í „Göngunni miklu“, borgarastríðinu í Kína, og í öðru meginlandsstríðinu við Japan. Pólitísk hugmyndafræði „fyrstu kynslóðarinnar “ var byggð á marxisma og kennismíð Maó Zedong.

Deng Xiaoping var í forystu „annarrar valdakynslóðar“ sem leiddi efnahagslegar umbætur Kína.

„Önnur kynslóð“

[breyta | breyta frumkóða]

„Önnur valdakynslóðin“ réði ríkjum frá 1976-1992 undir stjórn Deng Xiaoping (áður ritað Teng Hsiao-Ping). Með honum voru Chen Yun, Hu Yaobang, Zhao Ziyang, Hua Guofeng, Ye Jianying, Song Ping. Allir þessir leiðtogar tóku þátt í byltingu kínverskra kommúnista, en léku að Deng Xiaoping undanskildum, fremur lítil hlutverk í þeim. Líkt og „fyrsta kynslóð“ voru margir menntaðir erlendis, sérstaklega í Frakklandi. Sú reynsla sem mótaði þá var svipuð fyrstu kynslóð. Flestir höfðu sumir einhverjum hlutverkum að gegna í Menningarbyltingunni, þó að jafnaði þeir sem héldu völdum eftir 1980 voru hreinsaðir af aðgerðum byltingarinnar. Þessi kynslóð beindi sjónum frá stéttabaráttu og uppbyggingu pólitískra hreyfinga til efnahagslegrar þróunar. Menningarbyltingunni og róttækum áherslum Mao Zedong var hafnað. Önnur kynslóð varð brautryðjandi efnahagslegra umbóta, opnunar og nútímavæðingar í Kína. Hundruð milljóna risu frá fátækt til bjargálna vegna markaðsvæðingar hagkerfisins. Hin ríkjandi hugmyndafræði var byggð á kennisetningum Deng Xiaoping.

„Þriðja kynslóð“

[breyta | breyta frumkóða]
Jiang Zemin leiddi „þriðju valdakynslóðina“ sem hélt áfram nútímavæðingu og jók frelsi í Kína.

Á árunum 1992 til 2003 réði þriðja valdakynslóðin undir forystu Jiang Zemin. Með honum voru Li Peng, Zhu Rongji, Qiao Shi og Li Ruihuan - Þessir leiðtogar eru fæddir fyrir byltinguna en voru menntaðir eftir hana og fyrir ágreining Kína við Sovétríkin. Flestir af þeim voru því menntaðir í Sovétríkjunum sem verkfræðingar og var ætlað að stjórna verksmiðjum í heimalandinu. Ólíkt forverum sínum voru pólitísk völd ekki á sömu hendi og hin hernaðarlegu. Reynsla þeirra mótast sameiginlega í síðara stríði við Japan og Kóreustríðið. Þessi kynslóð hélt áfram efnahagsframförum og nútímavæðingu í Kína en horfði fram ýmis alvarleg félagsleg málefni. Frelsi jókst í Kína. Ríkjandi pólitíska hugmyndafræði var byggð á kennisetningum Jiang Zemin.

„Fjórða kynslóð“

[breyta | breyta frumkóða]
Hu Jintao leiddi „fjórðu valdakyn-slóðina“ sem var við völd til ársins 2012. Hún studdi nútímavæðingu en hefur í seinni tíð aukið ríkisafskipti af hagkerfinu og þykir íhaldssöm á pólitískar umbætur.

Frá 2003 til 2013 leiddi Hu Jintao hóp manna sem teljast til „fjórðu valdakynslóðar“. Með honum voru leiðtogar á borð við Wu Bangguo, Wen Jiabao, Jia Qinglin, Zeng Qinghong og Wu Yi. Þessi hópur er einnig þekktur sem „lýðveldiskynslóðin“ eða „Hu-Wen stjórnin“. Hópurinn komst til valda á 16 flokksþingi Kommúnistaflokksins og stjórnaði allt fram til 18. þingsins sem haldið var árið 2012. Þessi kynslóð leiðtoga voru fulltrúar nýrrar stjórnsýslu með áherslu á minna miðstýrðu pólitísku skipulagi. Flestir eru þessir menn verkfræðingar sem urðu fyrir áhrifum af Menningarbyltingunni. Ólíkt forverum sínum hafa þeir varið mjög litlum tíma erlendis. Ríkjandi pólitísk hugmyndafræði þessa tímabils er kennismíð Hu Jintao um „Þróunarhugtak vísindanna“ sem felst í leit að „samfélagi jafnvægis og friðsamlegs vaxtar“ innanlands og friðsamlegum þróun á alþjóðavettvangi.

„Fimmta kynslóð“ (núverandi)

[breyta | breyta frumkóða]
Xi Jinping núverandi forseti Kína er leiðtogi „fimmtu“ valdakynslóðar Kína. Hún verður að mestu menntuð í bestu háskólum landsins.

„Fimmta kynslóðin“ komst til valda á 18. flokksþinginu sem haldið var árið 2012. Þá sagði Hu Jintao af sér sem flokksformaður og sem forseti ári síðar. Leiðtogi hinnar nýju valdakynslóðar er Xi Jinping núverandi forseti og formaður hinnar valdamiklu Hernaðarnefndar flokksins. Hann er fyrrverandi aðalritari flokksins í Sjanghæ og Zhejiang. Li Keqiang tók við af Wen Jiabao sem forsætisráðherra þann 13. mars 2013. Meðal annarra valdsmanna fimmtu kynslóðarinnar eru Li Yuanchao sem var varaforseti til ársins 2018, Bo Xilai sem var flokksformaður í Chongqing, Wang Qishan núverandi varaforseti, Wang Yang formaður ráðgjafarráðstefnu kínversku þjóðarinnar, Zhang Gaoli, Liu Yandong og Ma Kai, fyrrverandi varaforsætisráðherrar, og Zhang Qingli varaformaður ráðgjafarráðstefnu kínversku þjóðarinnar. Í fimmtu kynslóð, eru færri verkfræðingar en fleiri menntaðir í stjórnun og fjármálum, ásamt athafnamönnum. Flestir hafa þeir verið menntaðir í bestu háskólum Kína. Þessi kynslóð á rætur að rekja til Æskulýðshreyfingar Kommúnista sem Hu Jintao fyrrverandi forseti stýrði.

„Sjötta kynslóðin“?

[breyta | breyta frumkóða]

Ef valdaskipti í Kína hefðu haldið áfram að byggjast á starfsaldursframa innan Kommúnistaflokks Kína og kínverska hersins hefði „sjötta valdakynslóðin“ tekið við á 20. flokksþinginu sem var árið 2022. Búist var við því að sá hópur yrði fæddur um 1960 og að þessi kynslóð myndi horfa fram á verulegar pólitískar umbætur eftir stöðugan hagvöxt. Augu manna beindust um hríð að Hu Chunhua (fæddur 1963), fyrrum varaforsætisráðherra landsins, og að Sun Zhengcai (fæddur 1963), fyrrum flokksformanni í Jilin. Sun féll hins vegar í ónáð hjá flokknum og var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir mútuþægni árið 2018.[1]

Á flokksþingi kínverska kommúnistaflokksins árið 2017 var hins vegar enginn arftaki útnefndur til að taka við völdum af Xi Jinping eftir fimm ár líkt og venjan hafði verið.[2] Því er ófyrirséð hvenær ný kynslóð mun taka við völdum. Árið 2018 breytti kínverski kommúnistaflokkurinn stjórnarskrá alþýðulýðveldisins svo forsetanum yrði ekki lengur meinað að sitja lengur en í tíu ár.[3] Xi var formlega kjörinn til þriðja kjörtímabils sem aðalritari og forseti á flokksþingi Kommúnistaflokksins í október 2022.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Lífstíðarfangelsi fyrir spillingu“. RÚV. 8. maí 2018. Sótt 13. september 2019.
  2. „Enginn augljós arftaki Xi Jinping“. RÚV. 24. október 2017. Sótt 10. janúar 2018.
  3. „Kommúnistaflokkurinn leggur línurnar fyrir lengri valdatíð Xi Jinping“. RÚV. 25. febrúar 2018. Sótt 6. mars 2018.
  4. „Þriðja kjörtímabilið tryggt – algjör yfirráð“. mbl.is. 23. október 2022. Sótt 29. október 2022.