Klaustur
Klaustur er félagsskapur munka eða nunna sem lifa að miklu leyti aflokuð frá samfélaginu og helga sig leit að eigin fullkomnun og eða þjónustu við Guð og lifa eftir sameiginlegum reglum. Að nokkrum búddistaklaustrum undanteknum einkennist allt klausturlíf af afneitun kynlífs. Oftast eru klaustur karla og kvenna aðskilin þó undantekningar séu til. Hugtakið klaustur er einnig notað yfir húsakynni klausturreglnanna. Klaustur eru snar þáttur í búddisma og stórum hluta kristni, sérlega kaþólsku og rétttrúnaðarkirknanna. Hins vegar er klausturlíf óþekkt í íslam og gyðingdómi.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Orðið klaustur er komið úr latneska orðinu claustrum sem þýðir lás, lokað rými, læst herbergi. Claustrum kemur af claudo, loka, læsa, inniloka.
Kristin klaustur
[breyta | breyta frumkóða]Uppruna klausturstarfs í kristni er að finna í hefð einsetumanna í gyðingdómi. Er Jóhannes skírari oft nefndur sem fyrirmynd kristinna einsetumanna. Í upphafi kristni leituðu margir heittrúaðir eftir einangrun til að geta helgað sig Guði og einnig til að leita undan ofsóknum. Upp úr aldamótunum 300 tóku kristnir einsetumenn í Egyptalandi að safnast saman og hefst þar með klausturhefðin. Það var Egyptinn Pakhomios sem um árið 320 skapaði hugmyndina um sameiginlegt trúarlíf þar sem einstaklingarnir lifðu saman og játuðust undir sameiginlegar reglr undir stjórn ábóta í munkaklaustrum og abbadísa í nunnuklaustrum. Klausturreglur Pakhomios voru þrjár og eru enn undirstaða alls kristins klausturlífs: Fátækt, hlýðni og skírlífi.
Basilius hinn mikli skrifaði um 370 í Regulae nýjar reglur fyrir klausturlíf. Höfuðþættir eru áhersla á jafnvægi líkamlegs starfs og bænar, undirgefni einstaklingsins undir heildina, og möguleika starfs út á við eins og rekstur sjúkrahúsa og gistihúsa. Vegna reglna Basiliusar er hann talinn vera faðir klausturlífs rétttrúnaðarkirkjunnar og eru þær enn grundvöllur þess.
Í vesturkirkjunni urðu klaustrin þekkt ekki síst í gegnum verk Ágústínusar (354 til 430)sem skapaði fyrstu vestrænu klausturregluna, Ágústínusarregluna.
Það var þó Benedikt frá Núrsíu (480 - 547) sem hafði mest áhrif á þróun klausturlífs í Vestur-Evrópu með Benediktsreglunni. Starf klausturbúa var tvíþætt samkvæmt Benedikt, að biðja og iðja (ora et labora).
Þriðja megin klausturhreyfingin, sem kennd er við Cistercium, varð til um 1090. Meginþættir í starfi reglunnar er jafnvægi milli Opus Dei (Verk Guðs, það er guðþjónustur og bænir), Lectio Divina (Heilagur lestur, það er Biblíulestur og lestur annarra trúarrita) og Labor manuum (Störf handanna, það er líkamleg vinna).
Í kaþólskum sið störfuðu mörg klaustur á Íslandi.