Fara í innihald

Stóra bomban

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Stóra bomba)

Stóra bomban er heiti á atburði sem átti sér stað árið 1930 og varðaði aðallega Jónas Jónsson frá Hriflu og Helga Tómasson, yfirlækni á Kleppi.

Jónas Jónsson frá Hriflu var dómsmálaráðherra á þessum tíma og hafði bakað sér töluverðar óvinsældir meðal lækna. Hápunkti þessara óvinsælda var án efa náð þegar Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, lýsti því yfir að hann teldi Jónas bera merki um geðveiki og ætti hann því að láta af embætti dómsmálaráðherra tafarlaust. Oft er þetta mál kallað geðveikismálið en Jónas nefndi þennan atburð stóru bombuna og hefur það nafn fest við það.

Aðdragandi Stóru bombunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Jónas Jónsson frá Hriflu

[breyta | breyta frumkóða]

Jónas var fæddur á Hriflu í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1885. Jörðin var talin ein sú rýrasta í sveitinni en á móti kom að hún var í alfaraleið og var því mjög gestkvæmt. Hann stundaði nám við Möðruvallaskóla og er sagt að þar hafi forystuhæfileikar hans komið fyrir alvöru í ljós. Árið 1905 sótti hann um inngöngu í Latínuskólann í Reykjavík (nú Menntaskólann í Reykjavík), en hann hafði átt í miklum bréfasamskiptum við skólapilta í Framtíðinni, málfundafélagi skólans. Skemmst er frá því að segja að Steingrímur Thorsteinsson, rektor, hafnaði umsókn hans. Jónas safnaði þá styrkjum til náms við lýðháskólann í Askov í Danmörku og hélt síðan til Englands og lærði í Ruskin College í Oxford. Sá skóli var rekinn af bresku samvinnuhreyfingunni og verkalýðshreyfingunni og má segja að hann sé fyrsti verkamannaháskólinn í heimi. Jónas hafði frá barnsaldri verið mikill áhugamaður um ensku og taldi sig því slá tvær flugur í einu höggi með því að fara þangað; hann lærði ensku og kynntist nýjum straumum. Við komuna heim til Íslands árið 1909 snerist hann gegn nýríkum Íslendingum. Stuttu eftir komuna hóf hann afskipti af stjórnmálum og varð landskjörinn þingmaður árið 1922 og dómsmálaráðherra 1927. Hann hafði þó verið viðloðandi stjórnmál mun lengur og er hann talinn hafa verið sá sem ruddi nýrri flokkaskipan braut í landinu og þannig riðlað gömlum valdahlutföllum í landinu. Þá tók hann sem dómsmálaráðherra margar óvinsælar ákvarðanir og spunnust af miklar deilur. Ber þar helst að nefna læknadeiluna, fimmtardómsfrumvarpið og Íslandsbankamálið.

Læknadeilan

[breyta | breyta frumkóða]

Læknadeilan fólst aðallega í skipan lækna en teygði sig einnig inn í starfsmannamál á Vífilsstöðum. Á þessum tíma skipaði dómsmálaráðherra lækna í stöður en það var viðtekin venja að embættisnefnd lækna fengi í raun að ráða. Jónas var aftur á móti ósammála þessari venju og sérstaklega þótti honum sárt þegar nefndin ætlaði að láta hann skipa svarinn óvin Framsóknarflokksins. Jónas greip þá það ráð að láta ráðuneytisstjórann sækja um fyrir hönd bróður síns og veitti honum síðan embættið. Síðan kom í ljós að þessi læknir vildi ekki flytja til Keflavíkur, þar sem hann hafði verið skipaður í embætti. Eftir nokkrar fortölur fékk Jónas hann til að þiggja embættið sem varð til þess að Morgunblaðið og Læknafélagið tóku að segja sögur af því hvernig Jónas hefði mútað lækninum til að taka við embættinu og var hann síðan rekinn úr Læknafélaginu. Þá gerði Jónas ýmislegt læknum til miska; hann ávítti nokkra fyrir fjáraustur en sérstaklega skal minnst á það þegar hann afnam fríðindi Þórðar Sveinssonar á Kleppi. Það er því ljóst að Jónas var óvinsæll á meðal lækna. Í viðleitni til að bæta úr málinu skipaði Jónas rannsóknardómara til að kanna afskipti lækna af veitingu læknisembætta og hófst rannsóknin um svipað leyti og stóra bomban kom fram.

Fimmtardómsfrumvarpið

[breyta | breyta frumkóða]

Í framhaldi af læknarannsókninni þótti augljóst að það stefndi allt í að læknamálið færi fyrir Hæstarétt og þar þóttist Jónas vita að honum yrði dæmt í óhag. Hann setti því fram frumvarp um Hæstarétt sem miðaði aðallega að því að nafninu skyldi breytt í fimmtardóm, nýir dómarar skyldu koma inn og sitjandi dómarar hefðu ekkert að segja um nýja dómara. Sökum almennrar óánægju varð þó ekkert úr fimmtardómsfrumvarpinu.

Íslandsbankamálið

[breyta | breyta frumkóða]

Þriðja atriðið sem gjarnan er talið undanfari stóru bombu er Íslandsbankamálið sem rétt eins og hin tvö málin náðu hámarki sínu í byrjun árs 1930. Það mál snerist um það að ríkið greip ekki inn í gjaldþrot Íslandsbanka og litu margir á þetta sem aðför að sjávarútveginum.

Sögusagnir um Jónas

[breyta | breyta frumkóða]

Líkt og um marga stjórnmálaskörunga fóru hinar ótrúlegustu sögur af stað um Jónas. Margir töldu hann geðveikan og líkti t.d. Jóhann Jósefsson, þingmaður Íhaldsflokksins, honum við Nero og Caligula á þinginu 1929. Þá ýjaði Ólafur Thors að því að hann væri á eiturlyfjum og fylgdi Morgunblaðið þeim aðdróttunum eftir með grein sem nefndist Eiturmeðulin, í hverri talað var um hegðun hans á stjórnmálafundi í Skagafirði. Þá gerði sama blað stórmál úr framkomu Jónasar þegar bíll hans lenti í árekstri í Ártúnsbrekkunni og hamraði á því við hvert tækifæri að Jónas væri ofstopamaður haldinn ofsóknaræði.

Þann 19. febrúar 1930 lá Jónas frá Hriflu veikur heima hjá sér í Sambandshúsinu. Þá kemur til hans Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, sem Jónas hafði sjálfur skipað í embætti ári fyrr. Fljótlega fóru að ganga miklar sögur í Reykjavík sem og á landinu öllu um fund þeirra Helga. Athygli vekur að það var Jónas sem gerði það opinbert með stórri grein í Tímanum, málgagni Framsóknarflokksins, hinn 26. febrúar. Greinin er rituð sem opið bréf til Helga Tómassonar og rekur Jónas þar málavexti. Verkið er án efa það langfrægasta sem Jónas skrifaði. Fyrirsögn greinarinnar var einfaldlega Stóra bomban og af þessari fyrirsögn dregur málið nafn sitt. Þar vísar Jónas til ummæla Sigurðar Magnússonar, pólitísks andstæðings síns, um að brátt myndi stóra bomban falla á Alþingi sem granda myndi landsstjórninni í pólitískum skilningi. Greinin er helst til löng og er hún skrifuð á sérlega yfirvegaðan hátt. Jónas byrjar á að lýsa yfir undrun á að Helgi, við hvern hann ætti ekkert sökótt, dæmdi hann geðveikan án þess að nokkur hefði beðið hann um það og án þess að hafa rannsakað Jónas. Þá fer hann að tala um rógsmál íhaldsmanna gegn sér og telur Helga Tómasson vera hluta af rægingarherferð þeirra. Greinin átti stóran þátt í því að snúa almenningsálitinu upp á móti Helga Tómassyni og fylgismönnum hans. Áhugavert er að skoða lýsingu Jónasar á fundi hans við Helga, sem Helgi fyrir sitt leyti sagði mjög einhliða og ranga í meginatriðum.

Ekki eruð þér fyrr sestur en þér segið að þér komið frá forsætisráðherra og hafið verið að reyna að hindra að framkvæmt yrði eitthvert reginhneyksli. Þér bætið við að ýmsar sögur gangi um mig í bænum, sem séu kenndar yður, en þér segist treysta mér til að trúa ekki slíkum áburði. Þér sátuð dálitla stund, undarlega nervös og flöktandi. Erindi kom aldrei neitt, en eitt sinn létuð þér í ljós að yður fyndist ýmislegt abnormalt við framkomu mína. Ég spurði spaugandi hvort þér kæmuð til að bjóða mér á Klepp. Þér svöruðuð því ekki, en af óljósu fálmi yðar þóttist ég vita um bombuna og segi að ef þér sendið eitthvert skjal út af þessu tagi þá myndi það vera historískt plagg. Þér þögðuð við, en virtust vera að tæpa á því að ég léti undan læknunum um veitingu embætta. Ég benti yður á að ekki væri læknislegt að koma í heimsókn á þessum tíma dags. Um læknana væri ekkert nýtt að segja. Nokkrir þeirra hefðu gert uppreisn móti lögum landsins. Stjórnin hefði gert sínar ráðstafanir. Þar væru engar millileiðir. Sá sterkari mundi sigra að lokum. [...] Konan mín fylgdi yður til dyra. Á ganginum var ljós og fólk þar á ferli. Skrifstofa mín er næsta herbergi við stofu þá, er ég lá í, og þunnt skilrúm á milli. Þar var dimmt. Þér genguð þar inn og konan mín á eftir inn fyrir þröskuldinn. Þér kveiktuð ekki á rafljósinu þótt þér hlytuð að vita að kveikja mátti við dyrnar, en þær voru opnar fram á ganginn. Er konan mín var komin inn fyrir þröskuldinn grípið þér þétt með báðum höndum um handleggi hennar og segið dauðaþungum og alvarlegum rómi: Vitið þér, að maðurinn yðar er geðveikur?

Helgi svaraði fyrir sig tveimur dögum síðar í Morgunblaðinu, sem að margra áliti var málpípa íhaldsmanna. Þar þvertekur hann fyrir það að nokkrar pólitískar hvatir liggi að baki gjörðum hans og bendir á að hann sé ekki sá fyrsti sem viðri slíkar skoðanir á dómsmálaráðherranum. Þannig hafi Jónas Kristjánsson, læknir og alþingismaður, sagt 1927 á Alþingi

Þótt háttvirtur 1. landsk. (J.J.) hafi lagt mig í einelti og ofsótt, sem vottanlegt er, þá veit jeg, að honum gengur ekki einungis illgirni til, ... heldur er það hans andlegi sjúkleiki, sem því veldur, eftir því sem jeg hefi komist næst um sálarástand hans. Hann er ekki andlega heilbrigður, og því get ég fyrirgefið honum.
 
— Tilsvar Helga í Morgunblaðinu.

Þá vísar Helgi til samtala við marga lækna, sem hann nafngreinir þó ekki, og segir þá alla sammála sér. Hann vísar á bug kröfu Jónasar frá Hriflu um að hann rökstyðji álit sitt með þeim rökum að almenningur sé ekki dómbær aðili í “sjerfræðilegum efnum sálsýkisfræðinnar” en hann sé aftur á móti tilbúinn til að leggja fram gögn fyrir nefnd erlendra sérfræðinga er alþingi fengi til að rannsaka heilbrigði ráðherra.

Seinna sama árs skrifaði Helgi síðan sína útgáfu af fundi þeirra Jónasar. Aðalmunurinn á henni og frásögn Jónasar er sá að samkvæmt þeirri fyrrnefndu samsinnti kona Jónasar sjúkdómsgreiningu læknisins og bað um ráð fyrir eiginmann sinn.

Jafnvel þótt Helgi neitaði því að málið væri pólitískt kom fljótt í ljós að afstaða manna til málsins fór nær algjörlega eftir stjórnmálaskoðun viðkomandi.

Athyglisvert er þó að skoða ritstjórnargrein í Morgunblaðinu þar sem blaðið hélt því fram að Helgi væri ekki atbeini sjálfstæðismanna heldur framsóknarmanna, sem hefðu ætlað að losa sig við Jónas. Stuttu seinna birtu þingmenn Sjálfstæðisflokksins yfirlýsingu þar sem þeir sóru af sér öll tengsl við hið svokallaða geðveikismál.

Fjölmargar aðrar greinar birtust í blöðum landsins; 1. mars skrifuðu 28 læknar í Reykjavík undir traustsyfirlýsingu til Helga Tómassonar og þá birtu þingmenn Sjálfstæðisflokksins yfirlýsingu þar sem þeir harðneituðu því að hafa eitthvað að gera með álit Helga. Aftur á móti sögðust þeir skilja gerðir hans.

Eftirmál stóru bombunnar stóðu árum saman. Til viðmiðunar um umfang málsins telur Jón Helgason í bók sinni Stóra bomban að einungis þrjú mál hafi valdið jafnmiklu pólitísku “fárviðri,” nefninlega símamálið á dögum Hannesar Hafsteins, viðureignin útaf uppkastinu 1908 og lætin í kringum Björn Jónsson 1909.

Útlend athygli

[breyta | breyta frumkóða]

Mál þetta vakti ekki einungis athygli á Íslandi heldur einnig á Norðurlöndum. Í Danmörku höfðu sum blaðanna flutt fréttir af því að á Íslandi væri geðveikur dómsmálaráðherra og þótti það pínlegt fyrir stjórnvöld á Íslandi, sér í lagi sökum alþingishátíðarinnar sem stóð fyrir dyrum. Því er auðvelt að skilja ásetning stjórnvalda að kæfa þetta mál sem áburð illgjarnra íhaldsmanna og sárra lækna. Það tókst einstaklega vel og í kjölfarið söfnuðu stuðningsmenn Jónasar 3.089 undirskriftum honum til stuðnings auk þess sem ýmsir málsmetandi menn, til dæmis Halldór Laxness, lýstu yfir stuðningi við hann. Sú mikla samúðarbylgja sem reis upp með honum varð til þess að styrkja Jónas í ráðherraembætti og má segja að atlagan að Jónasi hafi komið íhaldsmönnum verulega í koll enda tvöfaldaði Jónas fylgi flokks síns í næstu kosningum.

Helga Tómassyni vikið úr starfi

[breyta | breyta frumkóða]

Helga Tómassyni var vikið úr starfi yfirlæknis á Kleppi 30. apríl og var hann einnig látinn hætta ýmsum öðrum trúnaðarstörfum, t.d. þátttöku í starfræksluundirbúningi Landspítalans. Að sögn Tímans fór Helgi með látum og er sagt að hann hafi boðið hverjum sjúklingi sem vildi að fara. Fyrirsögn Morgunblaðsins daginn eftir var „Bomba nr. tvö. Dómsmálaráðherrann fremur það níðingsverk gegn sjúklingum á Kleppi að reka dr. Helga Tómasson fyrirvaralaust í gær“ og fylgir fyrirsögninni grein um grátandi sjúklinga. Brottvikningu Helga fylgdu síðan ásakanir um að Helgi hefði haft vísvitandi á brott með sér sjúkradagbækur, lyfjaskrá og fleira til að gera hinum nýja lækni sem örðugast um vik. Helgi neitaði að láta gögnin af hendi nema með dómsúrskurði og á endanum fékkst sá úrskurður.

Mörg önnur málaferli spruttu upp af stóru bombunni og vann t.a.m. Helgi Tómasson mál gegn ríkissjóði vegna ólögmætrar brottvikningar frá Kleppi.

Aðrar afleiðingar

[breyta | breyta frumkóða]

Aðrar afleiðingar geðveikismálsins voru þær að Jónas treysti læknastéttinni afar illa eftir þetta. Þannig hætti hann að auglýsa lausar stöður en skipaði þess í stað valda menn þegar þær losnuðu.

  • Jón Helgason (1981). Stóra bomban. Örn og Örlygur.
  • Guðjón Friðriksson (1992). Dómsmálaráðherrann: saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Bókaforlagið Iðunn.