Matarprjónar
Fínir japanskir „hashi“ matarprjónar að ofan auk einnota „waribashi“ prjóna fyrir neðan. Á waribashi prjónunm stendur „御割箸“ sem þýðir „owaribashi“ sem er afar kurteis útgáfa af orðinu „割箸“ sem aldrei er notuð í daglegu tali. | |
Kínverska | |
Pinyin | kuàizi eða kuài'er |
Wade-Giles | k'uai-tzu eða k'uai-erh |
Kínverska | 筷子 eða 筷兒 |
Japanska | |
Hepburn Romaji | 1. hashi (matarprjónar) 2. waribashi (waribashi matarprjónar) 3. owaribashi (owaribashi matarprjónar) |
Kanji | 1. 箸 2. 割り箸 eða 割箸 3. 御割箸 |
Hiragana | 1. はし 2. わりばし 3. おわりばし |
Kóreska | |
Latneskun | jeotgarak |
McCune-Reischauer | chŏtkarak |
Hangul | 젓가락 |
Víetnamska | |
quốc ngữ | đũa |
Matarprjónar eru pör af litlum aflöngum prjónum sem eru hefðbundin mataráhöld í Kína, Japan, Kóreu og Víetnam („matarprjónalöndunum fjórum“). Þeir eru alla jafnan úr bambus þar sem það er bragðlaust, ódýrt og algengt efni sem auðvelt er að kljúfa auk þess sem það er hitaþolið, en einnig er algengt að þeir séu úr viði, málmi, beini, hornum dýra, agati, jaði, postulíni, kóral og á vorum dögum úr plasti.
Aðalgerðir matarprjóna eru þrjár: Kínverskir prjónar, sem eru langir viðarprjónar með ávala enda; japanskir, sem eru stuttir viðarprjónar, einnig með ávala enda og kóreskir, sem eru stuttir málmprjónar með þverskorna enda, þó viðarútgáfur séu einnig notaðar.
Þar að auki skiptast allir prjónar í tvo flokka: einnota „waribashi“ prjóna og svo hefðbunda prjóna — eða þá sem ætlaðir eru til langvarandi notkunar.
Nafn
[breyta | breyta frumkóða]Nafn matarprjóna á mandarín, „kuàizi“ (筷子) eða „kuài'er“ (筷兒) þýðir „bambusáhöld til að borða hratt“. Þeir heita hins vegar „zhù“ (箸) í klassískri kínversku og er tákn þeirra þar mögulega hljóðtákn og gefur það til kynna að þeir séu hlutur gerður úr bambus.
Kínverska orðið „zhù“ barst svo til Japan og er þar borið fram „hashi“ í kunyomi framburði, en er nær rótinni með „zu“ í onyomi framburði. Kórea hins vegar notar sitt eigið orð jeotgarak (젓가락) og er það orð hvorki ættað úr japönsku né kínversku. Í víetnömsku er svo orðið „đũa“ notað.
Hönnun
[breyta | breyta frumkóða]Hönnun prjónanna er afar einföld, einfaldlega stutt, þunn prik með þverskurðarflatarmál minna en einn fersentimetri, lengd mismunandi. Annar endinn er svo aðeins þynnri en hinn og er það sá endi sem snýr að matnum. Notkun þeirra er list, sem getur tekið allnokkurn tíma að ná tökum á. Matreiðsla í Austur-Asíu, sem er það svæði sem þeir eru aðallega notaðir á, er sniðin að notkun þeirra. Kjöt, grænmeti, núðlur og annað í matnum er skorið niður, svo auðvelt sé að taka upp bitana með prjónunum og hrísgrjón eru elduð þannig að þau festist saman, ólíkt þeim hrísgrjónum, sem algeng eru annars staðar í heiminum, einmitt svo auðvelt sé að taka upp bita af þeim með prjónunum.
Hefðbundnir japanskir matarprjónar eru venjulega um 22 sentimetrar að lengd en einnota waribashi prjónar eru um tveimur sentimetrum styttri, kínverskir prjónar eru svo ögn lengri eða um 25cm.
Saga matarprjóna
[breyta | breyta frumkóða]Prjónarnir eru taldir hafa verið þróaðir fyrir um það bil 3000-5000 árum í Kína (nákvæmara ártal en það þekkist ekki). Þeir höfðu svo þegar komið var fram á 4. öld dreifst frá Kína á það svæði sem í dag er Japan, Kórea og Víetnam. Á 10. öld var farið að búa til matarprjóna í tveimur hlutum í stað eins hluta með samanliggjandi svæði á toppnum, sem þurfti svo að brjóta við notkun, prjónar í gamla stílnum eru þó enn gerðir og þá sérstaklega notaðir sem einnota. Líklega má rekja uppruna þeirra til þess að brjóta greinar af trjám til að borða með og enn fremur þess að mikil hungursneyð og fólksfækkun varð um 4. öld f.Kr., sem neyddi fólk til að spara orku. Var matur þá skorinn í litla búta til að hægt væri að elda hann hraðar og með minni eldivið.
Talið er að kínverski heimspekingurinn Konfúsíus sem uppi var á 6–5. öld f.Kr. hafi haft umtalsverð áhrif á aukna notkun mataprjóna. Hann ráðlagði fólki að nota ekki hnífa við matarborðið þar sem þeir myndu minna það á sláturhúsið og væru þar með og ofbeldisfullir til að hægt væri að nota þá þar.
Verkfæri sem minna á matarprjóna hafa auk þess verið grafin upp við fornleifagröft í Megiddo í Ísrael og voru þeir í eigu innrásarhers Skiþíumanna, sem réðst inn í Kanaan á tíma Móses og Jósúa. Uppgötvun þessi sýnir, hve mikil vöruskipti milli miðausturlanda og Austurlanda fjær voru á þessum tíma. Matarprjónar voru einnig algengir heimilismunir Uyghúrmanna á Mongólsku sléttunum á 5.–7. öld.
Í Japan voru matarprjónar upprunalega álitinn verðmætur varningur, sem var eingöngu notaður í trúarlegum athöfnum. Japanir voru svo fyrstir til að lakka prjónana á 16. öld. Við það urðu þeir örlítið sleipari en mun endingarbetri. Japanir fundu einnig upp einnota matarprjóna sem þeir kalla „waribashi“ árið 1878.
Notkunarleiðbeiningar
[breyta | breyta frumkóða]Haldið er á prjónunum milli þumalfingurs og hinna fingra hægri handar. Þeir eru svo notaðir sem tengur til að taka upp mat sem borinn er á borð, niðurskorinn til að gera það auðveldara. Þeir eru þá einnig notaðir sem áhöld til að sópa hrísgrjónum eða smáum matarögnum inn í munninn úr skálum. Athuga skal hins vegar að flóknar siðareglur ríkja um notkun þeirra og að þær eru mismunandi eftir löndum.
Langalgengast er að haldið sé á prjónunum í hægri hönd, jafnvel af örvhentum. Ástæðan fyrir þessu er sú, að í Austur-Asíu sem og í múslimalöndum er það vinstri höndin „óhreina höndin“ sem notuð er á salerninu, þar sem sú hægri er notuð til að matast með. Nú á dögum hefur hins vegar verið slakað á þessum óskrifuðu reglum samfélagsins og er þar með hægt að nota matarprjónana með báðum höndum án þess að vera álitinn dóni.
- Haltu öðrum prjóninum í lófanum og láttu enda hans liggja við rót þumalfingurs.
- Notaðu baugfingur til að halda við neðri hluta hans.
- Haltu prjóninum með þumlinum og ýttu honum upp með baugfingri, og ættir þú nú að halda honum stöðugum og kyrrum í hendi þér.
- Notaðu framenda þumalfingurs, vísifingurs og löngutangar til að halda á hinum prjóninum eins og haldið er á penna.
- Láttu enda prjónanna mætast.
- Hreyfðu prjónana upp og niður, þeir ættu með æfingu að virka sem töng.
- Meðan verið er að æfa sig í notkun prjónanna er gott að byrja á að halda á þeim um miðju og færa sig svo aftur þegar meira vald fæst yfir þeim eins og sést á myndinni.
Almennar siðareglur
[breyta | breyta frumkóða]- Matarprjónarir ættu aldrei að snerta munninn og er það einnig álitinn dónaskapur að sjúga enda þeirra.
- Ef það eru skeiðar eða matarprjónar fyrir alla á borðinu skaltu nota hana og þá til að ná í mat á diskinn þinn áður en þú byrjar að nota skeiðina og prjónana þína.
- Eftir að þú hefur tekið upp mat með prjónunum er hann þinn og þú skalt ekki setja hann aftur á diskinn.
- Það gætu verið góðir siðir að taka up besta matinn og gefa gestunum þínum. Gerðu þetta samt með varúð, því að sumt fólk gæti verið á einhvers konar sérstökum matarkúr og að velja mat fyrir gestina þína gæti verið eitthvað sem þeim er ekki að skapi. Auk þess gæti það verið góð hugmynd af hreinlætisástæðum að nota ekki prjónana til að gera þetta, ef þú ætlar hins vegar að nota þá, snúðu þeim þá við og notaðu hinn endann.
- Geymdu aldrei prjónana með því að stinga þeim ofan í hrísgrjónaskál með framendann niður. Þetta minnir á gjafir til forfeðranna og er álitin argasta óvirðing.
Kínverskar siðareglur
[breyta | breyta frumkóða]- Maturinn er venjulega búinn til á þann hátt að hver biti er skorinn niður eftir því með hverju á að borða hann, ef eitthvað er of lítið til að borða það með matarprjónum þýðir það að það eigi ekki að gera það.
- Halda skal á hrísgrjónaskálinni við munninn og skófla hrísgrjónum inn með matarprjónum. (Ath. að siðareglur kínverja stangast í þessum efnum algerlega á við siðareglur Japana, líklega vegna þess að japönsk hrísgrjón límast saman og geta þar með verið tekin upp í kögglum.) Ef hrísgrjónin eru borin fram á diski (þau eru oftast borin fram í skál) eins og algengt er á vesturlöndum skulu þau borðast með gaffli eða skeið. Sérstaklega vegna þess að það tekur alllangan tíma að taka þau upp eitt og eitt.
- Stingdu aldrei prjónunum ofan í hrísgrjónaskál þar sem sá verknaður er hluti af hefðbundinni jarðarfararathöfn.
Japanskar siðareglur
[breyta | breyta frumkóða]Almennt skal nota matarprjóna til þess að borða og ekki til neins annars, það að benda eða tákna eitthvað með þeim, tromma með þeim eða kalla á athygli er dónaskapur.
- Ekki grafa eftir mat, byrjaðu að borða efst og veldu það sem þú vilt borða áður en þú tekur það upp (ekki pota í það áður en þú velur í leit að einhverju innihaldi).
- Aldrei að stinga í mat með matarprjónum til þess að taka hann upp. Það er þó leyfilegt að stinga í mat til að rífa hann í smærri bita.
- Aldrei stinga matarprjónum ofan í hrísgrjónaskál (eða neitt annað, en sérstaklega ekki hrísgrjón, þar sem sá verknaður er hluti af jarðarfararathöfn).
- Hvíldu prjónana á þar til gerðum prjónahöldurum eða á börmum einnar skálanna þegar þeir eru ekki í notkun.
- Ekki færa diska með prjónunum.
- Ekki sleikja, sjúga eða bíta í þá.
- Ekki missa mat af þeim.
- Aldrei snerta mat í matardiski, sem er ekki bara fyrir þig, með aflanga enda prjónanna, af hreinlætisástæðum. Snúðu þeim við og notaðu hinn endann til að færa matinn yfir á þinn disk og borðaðu hann síðan, aldrei nota breiðu endana til að borða beint.
- Aldrei nota matarprjóna til að færa eitthvað á disk annars eða í skál hans (sjá Japönsk jarðarför).
Kóreskar siðareglur
[breyta | breyta frumkóða]- Það er ljóst að hið litla (og stundum sleipa) ágripssvæði málmprjóna Kóreumanna gerir það mun erfiðara að borða hratt með þeim heldur en ef það væri stærra. Kóreumenn borða þar súpu og hrísgrjón með skeið — ólíkt flestum íbúum Asíulanda — þar sem prjónar voru áður notaðir, og nota þeir prjónana fyrir alla aðra rétti.
Víetnamskar siðareglur
[breyta | breyta frumkóða]- Hrísgrjónaskálin er færð að munninum og hrísgrjónum skóflað inn í munninn með prjónunum líkt og í Kína.
- Víetnömsk hrísgrjón festast vel saman ólíkt þeim kínversku og því er einnig hægt að taka þau upp af diskinum með prjónunum.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Chopsticks“ á „The history of eating utensils Geymt 17 apríl 1999 í Wayback Machine“, 1. september 2004.
- „Chopsticks History, Chopstick history Geymt 3 ágúst 2004 í Wayback Machine“, 4. september 2004.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Zen and the Art of Learning to Use Chopsticks“ eftir Ginny McWong (á ensku).
- „Chopsticks“ á about.com Geymt 3 ágúst 2004 í Wayback Machine (á ensku).
- „History of Chopsticks“ Geymt 15 ágúst 2004 í Wayback Machine (á ensku).
- „Everything on chopsticks“ Geymt 25 október 2004 í Wayback Machine (á ensku).