Kvenréttindi á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Þáttakendur í Kvennafrídeginum í Reykjavík árið 2005.

Kvenréttindi á Íslandi hafa verið breytileg í gegnum sögu landsins. Í dag er staða kvenna á Íslandi nokkuð góð samanborið við mörg önnur ríki. Konum á Íslandi eru tryggð lagaleg réttindi til jafns við karla. Hins vegar hallar á konur hvað varðar launamál og kynbundið ofbeldi gegn konum þrífst enn.

Íslendingar hafa verið framarlega í kvenfrelsisbaráttu í alþjóðlegu tilliti. Til marks um það var Ísland eitt af fyrstu löndunum til þess að veita konum kosningarétt til Alþingis árið 1915, kosning Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands árið 1980 var fyrsta skiptið sem kona var kosinn þjóðhöfðingi og ágætur árangur náðist hjá framboði Kvennalistans til Alþingiskosninganna 1983.

Kynjaskipting[breyta | breyta frumkóða]

Hið svonefnda nátttúrulega kynjahlutfall mannsins er um það bil 1 : 1 sem þýðir að að öðru óbreyttu er fjöldi karla og kvenna jafn. Árið 2015 voru karlar á Íslandi ívið fleiri en konur eða um 50,2% landsmanna. Þessi sama skipting endurspeglast ekki alls staðar í samfélaginu sem leiðir því að þeirri kenningu að kynjunum séu mótuð viss hlutverk. Þannig voru 75% frambjóðenda til fyrsta sætis fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2010 karlkyns. Hlutfall kvenna af kosnum fulltrúum var 40% og hafði aldrei verið hærra. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 hækkaði hlutfall kvenkyns sveitarstjóra úr 22% í 36%.[1]

Í frétt frá árinu 2003 kom fram að um 7% stjórnarmanna íslenskra fyrirtækja væru kvenkyns árið 2003 og að hlutfallið væri hærra í Mexíkó.[2] Árið 2011 var einungis 20% framkvæmdastjóra fyrirtækja kvenkyns.[3] Samkvæmt fræðigrein frá 2017 var hlut­fall kvenna í efsta stjórn­un­ar­stigi fyr­ir­tækja ein­ungis 21,9% árið 2015.[4] Í lok nóvember 2018 leiddi athugun í ljós að af hundrað stærstu fyrirtækjunum væru konur framkvæmdastjórar rúmlega 20% þeirra.[5] Í byrjun árs 2018 sýndi athugun Capacent að konur væru 11 prósent forstjóra en karlar 89 prósent, 27 prósent framkvæmdastjóra íslenskra fyrirtækja en karlar 73 prósent.[6] Í frétt frá febrúar 2019 kom fram að engin kona hefði verið ráðinn forstjóri fyrirtækis skráð í Kauphöll Íslands frá árinu 2011.[7][8][9] Til samanburðar voru 29% sveitarstjórnarmanna í Skotlandi kvenkyns snemma árið 2019 samanborið við 49% á Íslandi.[10][11] Í júní 2019 kom fram að af 10 nýlegum forstjóraráðningum á Íslandi hefði aðeins 1 kona verið ráðin.[12]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsti íslenski díseltogarinn var nefndur eftir Hallveigu Fróðadóttur.

Konur hafa búið á Íslandi að minnsta kosti frá landnámi. Samkvæmt Landnámabók er Hallveig Fróðadóttir fyrsta konan sem talið er að hafi búið á Íslandi. Samantekt Jóns Steffensens sýndi að 383 landnámsmenn og 54 landnámskonur eru nefndar í Landnámabók.[13] Meðal landnámskvenna má nefna Arndísi auðgu Steinólfsdóttur, Auði djúpúðgu, Ásgerði Asksdóttur, Geirríði, Ljótu, Steinunni gömlu, Þorbjörgu stöng, Þorgerði, Þórunni í Borgarfirði, Þórunni á Rangárvöllum, Þuríði spákonu og Þuríði sundafylli.

Í Hauksbókarhluta Landnámu kemur fram að Haraldur hárfagri hafi gefið mismunandi fyrirmæli fyrir kynin um það hvernig þau mættu nema land. Karlar máttu nema það land sem þeir gætu ferðast yfir með eld á einum degi. Konur hins vegar máttu nema það land sem þær gátu ferðast yfir teymandi tveggja vetra „kvígu vorlangan dag sólsetra í millum, hálfstalið naut og haft vel.“[14] Þetta hefur væntanlega þýtt að konur þurftu að fara hægar.

Ein af þekktari konum úr sögu Íslands er Guðríður Þorbjarnardóttir sem ferðaðist mjög víða. Hún er talin hafa eignast barn fyrst evrópskra kvenna í Norður-Ameríku.

Ekki hefur verið fjallað jafn mikið um konur í íslenskum sögubókum og karla og endurspeglar það ef til vill minni áherslu sem lögð var á samfélagslegt hlutverk kvenna áður fyrr. Athugun á 11 námsbókum í Íslandssögu á grunnskólastigi leiddi í ljós að aðeins 12% nafngreindra einstaklinga væru konur en 93% höfunda bókanna voru karlkyns.[15]

Þjóðveldisöld[breyta | breyta frumkóða]

Íslensk kona í faldbúningi. Koparstunga frá 1835.

Á þjóðveldisöld ákvarðaði lagabálkurinn Grágás réttindi kvenna og karla. Samkvæmt Grágás var konum mismunað að ýmsu leiti; synir gengu fyrir þegar kom að því að erfa frá föður sínum. Konur fengu heimanfylgju en þó ekki að meira andvirði en synir fengju að erfðum nema með samþykki sonarins. Konur fengu arf sextán ára og urðu fjárráða tvítugar. Konur máttu ekki velja sjálfar maka heldur féll það í skaut föður, annars bróður og að lokum móður.

Í hjónabandi máttu konur ráða á heimilinu, „innan stokks”. Konur máttu ráðstafa fé heimilisins í umboði karlsins. Stæli maður frá konu sinni og hlypist á brott frá henni gat hún lögsótt hann en aðeins karlar gátu lagt fram lögsókn. Skilnaðir voru mjög fátíðir. Þeir þurftu leyfi biskups Íslands sem veitti hann aðeins ef í ljós komu náin ættfræðileg tengsl milli hjóna eða sérstakar aðstæður.

Legorðsbrot nefndust þau brot þegar kona og karl höfðu samræði utan hjónabands. Refsingin við legorðsbroti fór eftir félagslegri stöðu konunnar; ef hún var ógift eða göngukona hafði brotið engin áhrif nema af barn fæddist og þá bar föðurnum að borga framfærslu þess, öðrum kosti, ef konan var gift, þurfti hún að greiða sekt og hirtu karlkyns aðstandendur konunnar sektarféð. Nauðganir vörðuðu skóggang fyrir karlmenn.[16]

Með kristnirétti hinum nýja 1275 var bannað að gifta konur gegn vilja þeirra. Árið 1281 var Jónsbók lögfest. Þá fengu konur erfðarétt, þriðjung á móti bróður en sú skipting átti eftir að haldast óbreytt til ársins 1850. Ógiftar konur urðu nú fjárráða tvítugar en misstu þann rétt við giftingu. Konur máttu ekki gifta sig nema í samráði við foreldra, forráðamenn eða frændur.

Síðmiðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Fólksfjöldi á Íslandi á miðöldum hefur verið áætlaður á bilinu 40-80.000 manns og hafa konur verið um helmingur þess.[17] Meðal kvenna sem vöktu athygli á þessum tíma má nefna Guðríði Símonardóttur (Tyrkja-Guddu) sem var rænt árið 1627 í Tyrkjaráninu og komst aftur heim og kvæntist Hallgrími Péturssyni. Ragnheiður Jónsdóttir var mikilvirk hannyrðakona og var valin til þess að prýða íslenska 5000 krónu seðilinn. Þuríður formaður var þekkt á 19. öld fyrir formennsku sína á sjó og fyrir að koma upp um Kambsránið.

Nútíminn[breyta | breyta frumkóða]

Bríet Bjarnhéðinsdóttir á yngri árum

Undir lok 19. aldar fór að bera á kröfum um aukin réttindi kvenna. Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður árið 1874 af Þóru Melsteð og eiginmanni hennar Páli Melsteð, með fjárstuðningi íslenskra og erlendra aðila. Skólinn var fyrsta menntastofnunin sem bauð konum upp á formlega menntun. Fleiri kvennaskólar voru stofnaðir næstu árin.

Byrjað var að skrifa í blöðin bæði af körlum og konum um þau réttindi kvenna að mega mennta sig.[18] Bríet Bjarnhéðinsdóttir birti greinarnar „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“ í tímaritinu Fjallkonan í tveimur hlutum, 5. júní og 22. júní 1885.[19] Þann 30. desember 1887 hélt Bríet „Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna“ í Góðtemplarahúsinu. Sá fyrirlestur kom stuttu síðar út á prenti með undirfyrirsögninni „Fyrsti fyrirlestur kvennmanns á Íslandi“.[20] Starfsemi góðgerðarfélaga fyrir tilstuðlan kvenna hófst með stofnun Thorvaldsensfélagsins árið 1875 og Hvítabandsins 1895. Árið 1894 var Hið íslenska kvenfélag stofnað og ári seinna hóf Bríet Bjarnhéðinsdóttir útgáfu Kvennablaðsins.

Árið 1850 fengu dætur jafnan erfðarétt á við syni og árið 1861 tóku gildi ný lög um myndugleika kvenna. Lögin veittu ógiftum konum 25 ára og eldri fjárræði en áður höfðu konur þurft að hafa sérstakan tilsjónarmann sem hafði eftirlit með fjárreiðum þeirra. Giftar konur voru ómyndugar. Eiginmenn höfðu einir ráðstöfunarrétt á eigum búsins. Fjárræði giftra kvenna var mjög til umræðu í blöðum og á Alþingi síðustu tvo áratugi 19. aldar en ný lög urðu ekki að veruleika fyrr en árið 1900. Með þeim fengu konur heimild til séreignar og ráðstöfunar eigin eigna og tekna. Eiginmaðurinn hafði þó eftir sem áður yfirráð yfir eigum búsins.[21]

Árið 1882 fengu ekkjur og ógiftar konur, 25 ára eða eldri, sem stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar, kosningarétt til sveitarstjórna og safnaðarnefnda. Vilhelmína Lever, verslunarkona á Akureyri kaus þó í sveitarstjórnarkosningunum á Akureyri árið 1863 og 1866 þar sem mænd úr dönsku reglugerðinni um kosningarétt var þýtt sem menn en ekki karlmenn og hún uppfyllti önnur skilyrði um fullmynduga menn („alle fuldmyndige Mænd“), sem ekki voru hjú, höfðu verið búfastir í bænum síðasta árið og borguðu a.m.k. 2 ríkisdali í bæjargjöld mættu kjósa.[22] Ekkjur og ógiftar konur, 25 ára eða eldri, sem stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar, fengu þó ekki kjörgengi fyrr en 1902. Árið 1908 fengu giftar konur í Reykjavík og Hafnarfirði í fyrsta sinn kosningarétt og kjörgengi. Hjú og vinnufólk fékk ekki kosningarétt og kjörgengi í bæjarstjórnarkosningum fyrr en á árunum 1917 – 1926, þegar samræmd löggjöf var sett um allt land.

20. öld[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsti valtarinn sem kom til landsins var nefndur „Bríet Knútsdóttir” í höfuðið á Bríeti Bjarnhéðinsdóttur bæjarfulltrúa og Knud Zimsen borgarsjtóra. Hér er hann staddur í Pósthússtræti haustið 1917.

Í byrjun 20. aldar varð konum á Íslandi nokkuð ágengt í réttindabaráttu sinni. Kvenréttindafélag Íslands var stofnað árið 1907 í heima hjá Bríeti í Reykjavík og var hún formaður þess næstu 20 árin. Kvennaframboðið til bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík 1908 gekk mjög vel. Framboðið fékk flest atkvæði af öllum listum sem í framboði voru, 345 eða 21,8% greiddra atkvæða og fjóra fulltrúa af þeim 15 sem um var kosið. Sá listi sem næstur var að atkvæðatölu fékk 235 atkvæði. Því tóku Katrín Magnússon, formaður Hins íslenska kvenfélags, Þórunn Jónassen, formaður Thorvaldsensfélagsins, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands og Guðrún Björnsdóttir, félagi í Kvenréttindafélagi Íslands, sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur það ár.

Lög um menntun kvenna og rétt til embætta var samþykkt á Alþingi árið 1911 þá fengu konur fullan rétt til menntunar og embætta. Þann 19. júní 1915 undirritaði Danakonungur nýja stjórnarskrá sem veitti konum kosningarétt og 7. júlí fögnuðu konur kosningaréttinum sínum með hátíðarfundi á Austurvelli. Sama dag stofnuðu þær Landspítalasjóð Íslands. Fyrsta konan sem bauð sig fram til Alþingis var Bríet Bjarnhéðinsdóttir árið 1916 en hún náði ekki kjöri. Árið 1922 buðu konur fram sérstakan kvennalista og var Ingibjörg H. Bjarnason skólastýra Kvennaskólans kosin fyrst kvenna til þings. Árið 1930 var Guðrún Lárusdóttir kosin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn og árið 1946 var Katrín Thoroddsen læknir kosin á þing fyrir Sósíalistaflokkinn.

„Það er óþolandi, ef nokkrar siðlausar stúlkur verða til þess að gefa hermönnunum ranga hugmynd um íslenzkar konur.” sagði í Alþýðublaðinu degi eftir að breskir hermenn hernámu Ísland.

Tímabil seinni heimstyrjaldarinnar einkenndist af örum breytingum og í raun nútímavæðingu Íslands, Bretavinnan bauðst íslensku vinnuafli og árin 1941-2 var atvinnuleysið orðið ekkert. Tók fljótlega að bera á togstreitu milli hermannanna og íslenskra karlmanna, í umfjöllunum fékk þetta málefni heitið Ástandið. Degi eftir að Bretar hernámu Ísland birtist málsgrein í Alþýðublaðinu þar sem varað var við siðleysi, breskir hermenn sóttu í að fá þvott þveginn hjá íslenskum húsmæðrum og þóttu slík samskipti einnig óviðeigandi. Ári seinna tóku Bandaríkjamenn við af Bretum. Í bréfi Vilmundar Jónssonar landlæknir, bréf til dómsmálaráðuneytisins sagði að lögreglan teldi að stúlkubörn á aldrinum 12-16 ára væru farin að stunda vændi. Í kjölfarið var stofnuð nefnd til þess að rannsaka málið, hún var kölluð Ástandsnefndin og var skipuð þremur karlmönnum. Í skýrslu nefndarinnar kom fram að lögreglan væri með lista yfir 500 konur á aldrinum 12-61 árs, sem hún teldi að hefðu mjög náin samskipti við setuliðið. Af þeim væru um 150 17 ára og yngri. Af þessum 500 konum væru að minnsta kosti 129 orðnar mæður og væri barnafjöldinn ekki minni en 255 börn. Kynni íslenskra stúlkna og hermanna leiddu stundum af sér þunganir. Þegar svo bar undir áttu stúlkurnar rétt á meðlögum frá hermönnunum. En oftar en ekki gátu hermennirnir komið sér undan þeirri ábyrgð og þurftu þá stúlkurnar að þiggja styrki frá hinu opinbera. En einnig kom fyrir að pör giftu sig og voru hermannabrúðkaup 332 talsins hér á landi.

Árið 1949 voru Kristín L. Sigurðardóttir og Rannveig Þorsteinsdóttir kosnar á þing og var það í fyrsta sinn sem tvær konur sátu á Alþingi. Hulda Dóra Jakobsdóttir varð fyrst íslenskra kvenna til þess að verða bæjarstjóri en hún var bæjarstjóri Kópavogs frá 1957-62. Auður Auðuns gegndi embætti borgarstjóra Reykjavíkur frá 1959 til 1960 og var fyrst kvenna til þess. Hún var einnig fyrst kvenna til þess að verða ráðherra þegar hún sat sem dóms- og kirkjumálaráðherra 1970-71.

Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kvenna kjörin forseti í lýðræðislegum kosningum árið 1980. Hér er hún á mynd sem var tekin 1985.

Rauðsokkahreyfingin var íslensk grasrótarhreyfing, stofnuð 4. október 1970, sem barðist fyrir auknum kvenréttindum með fundum og ályktunum. Á hinu alþjóðlega Kvennaári, 1975, voru fjölmargar ráðstefnur og fundir haldnir um stöðu og kjör kvenna. Þessi vinna náði hápunkti á Kvennafrídeginum 24. október en þá lögðu konur niður vinnu og fjölmenntu í miðborg Reykjavíkur - um þrjátíu þúsund manns fylltu Lækjartorg og nærliggjandi svæði. Árið 1976 voru fyrst sett lög um jafnrétti kvenna og karla.[23] Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kvenna kjörin forseti í lýðræðislegum kosningum árið 1980. Kvennalistinn bauð fram til Alþingis í þremur kjördæmum vorið 1983. Listinn hlaut 5,5% atkvæða og þrjár konur voru kjörnar á þing fyrir Kvennalistann, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Halldórsdóttir.

Árið 1999 var Félag kvenna í atvinnulífinu stofnað af um 300 konum. Árið 2000 vann Vala Flosadóttir til bronsverðlauna í frjálsum íþróttum á Sumarólympíuleikunum. Hún varð fyrst íslenskra kvenna til að vinna Ólympíuverðlaun og var kosin Íþróttamaður ársins sama ár.

21. öld[breyta | breyta frumkóða]

Femínistafélag Íslands var stofnað árið 2003. Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra árið 2009, fyrst íslenskra kvenna í ríkisstjórn sem var skipuð jafnmörgum konum og körlum.

Fyrsta druslugangan var haldin í Reykjavík sumarið 2011 og hefur hún verið haldin árlega eftir það. Markmið göngunnar „er að uppræta þá fordóma sem endurspeglast í áherslu á klæðaburð og ástand brotaþola í umræðu um kynferðisofbeldi“.[24] Vorið 2015 barst hin svokallaða #freethenipple hreyfing til Íslands. Markmið hennar var að vinna gegn þeirri samfélagslegu ímynd að geirvörtur kvenna séu kynferðisleg tákn.[25]

Hin svonefnda metoo-bylting hófst í kjölfar ásakana á hendur bandaríska kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein undir lok árs 2017 en þá steig fjöldi kvenna fram á samfélagsmiðlum og greindi frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegu áreitni eða kynferðislegu ofbeldi. Mikið fór fyrir umræðu um stöðu kynjanna í kjölfarið[26][27] og í könnunum tæpu ári seinna sagðist meirihluti vera þeirrar skoðunar að umræðan hefði verið til góða.[28]

Haustið 2018 komst Orka náttúrunnar sem er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur þar sem framkvæmdastjóra þess var vikið úr starfi vegna ósæmilegrar hegðunar gagnvart starfsfólki.[29] Um svipað leyti var einnig fjallað um kynferðislega áreitni af hálfu skemmtikraftsins Björns Braga Arnarssonar, hann sagði sig frá þáttastjórn Gettu betur í kjölfarið.[30][31] Í lok nóvember 2018 fluttu tveir íslenskir fjölmiðlar, Stundin og DV fréttir byggðar á upptökum af samtölum sex þingmanna; Bergþórs Ólasonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur úr Miðflokknum og Ólafs Ísleifssonar og Karls Gauta Hjaltasonar úr Flokk fólksins.[32] Í samtölunum komu fram sjónarmið sem sögð voru einkennast af kvenfyrirlitningu og heyrðust kröfur um að þingmennirnir þyrftu að segja af sér.[33]

Umræða skapaðist á margvíslegum vettvöngum um stöðu kvenna. Sérstaklega var fjallað um svonefndar tvígreindar konur í íslenska heilbrigðiskerfinu og berskjaldaða stöðu þeirra.[34][35] [36] Dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar, Aldís Schram, kom fram í fjölmiðlum í byrjun árs 2019, í annað sinn eftir að hafa borið föður sinni þungum sökum um kynferðislegt ofbeldi, og í þetta sinn stigu fleiri konur fram og lýstu óviðeigandi háttsemi eða áreiti af hans hálfu.[37] [38] Atli Rafn Sigurðarson sem hafði verið sagt upp hjá Borgarleikhúsinu vegna kynferðislegrar áreitni af hans hálfu stefndi Borgarleikhúsinu.[39] Loks sagði Sigrún Helga Lund upp stöðu sinni sem prófessor við Háskóla Íslands vegna meintrar kynferðislegrar áreitni í starfi. [40]

Lög og alþjóðasáttmálar[breyta | breyta frumkóða]

Lagaleg staða íslenskra kvenna er ákvörðuð annars vegar af íslenskum lögum settum af Alþingi, og er íslenska stjórnarskráin þar veigamest, og hins vegar af alþjóðlegum samningum sem Ísland hefur gerst aðili að.

Í 65. gr íslensku stjórnarskrárinnar segir að „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.”. Sérstaklega er áréttað í 2.mgr. að „Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.” Lög um menntun kvenna og rétt til embætta var samþykkt á Alþingi árið 1911 þá fengu konur fullan rétt til menntunar og embætta. Árið 1976 voru sett lög um jafnrétti karla og kvenna.[23] Í gildi eru lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Meðal fleiri laga sem tryggja eiga jafnrétti kynjanna eru ákvæði í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, bann við nektarsýningum í lögum um veitingastaði, gistihald og skemmtanahald, kynjakvóti í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga af tiltekinni stærð og að lokum er í lögum um opinber fjárlög grein um að gerð skuli kynjuð fjárlög til hliðsjónar.[41]

Árið 1977 gerðist Íslandi aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um ríkisborgararétt giftra kvenna en þannig var að áður fyrr misstu konur ríkisborgararétt sinn við að giftast erlendum manni.[42] Ingibjörg H. Bjarnason tók þetta mál upp hér á Íslandi og fékk það samþykkt að íslenskar konur héldu sínum ríkisborgararétti þó þær giftust erlendum mönnum.[43] Ísland er aðili að Samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum (CEDAW) frá árinu 1985[44] og Mannréttindasáttmála Evrópu (ECHR).

Tilvitnanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Fleiri konur stýra sveitarfélögum en áður
 2. Hallar á konur í viðskiptalífinu, Morgunblaðið 19. júní 2003
 3. „Tölulegar upplýsingar : hlutföll og fjöldi karla og kvenna á ýmsum sviðum samfélags“ (PDF). Jafnréttisstofa. 2013.
 4. ...hvað segið þið strákar? Upplifun kvenmillistjórnenda af stöðu sinni, möguleikum og hindrunum í starfi, grein í Tímarit um viðskipti og efnahagsmál eftir Unni Dóru Einarsdóttur, Erlu S. Kristjánsdóttur, Þóru H. Christiansen
 5. Segir Ísland kannski skást í jafnréttismálum en ekki best
 6. Konur aðeins 11% forstjóra
 7. „Karlpeningurinn heldur fastast í glerþakið”
 8. Karlar halda þéttingsfast um veskið í íslensku efnahagslífi
 9. Þar sem peningar og völd eru er konum ekki hleypt að[óvirkur tengill]
 10. Was feminism just a myth? Edinburgh starting to feel like it – Susan Dalgety
 11. Konur og karlar á Íslandi 2019
 12. Aðeins ein kona ráðin í tíu ný­leg­um for­stjór­aráðning­um
 13. Vísindavefurinn:Er hægt með rannsóknum á Y-litningum Íslendinga að finna út hve landnámsmenn voru margir?
 14. Jafnræði og samræmi í sönnunarkröfum Hæstaréttar í þjóðlendumálum[óvirkur tengill]
 15. RÚV (2. september 2011). „Kvenmannslausar sögubækur“. Sótt 2. september 2011.
 16. Erla Huld Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir (1998). Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna. Kvennasögusafn Íslands. bls. 136-138.
 17. „Sögulegur fólksfjöldi á Íslandi – Ný nálgun með tilliti til burðargetu lands“ (PDF). 2007.
 18. „Heimspeki úr glatkistunni: Konur og kvenréttindi 1876-1885 : Umræða 19. aldar skoðuð út frá fimm greinum í Skírni og Fjallkonunni“. 2013.
 19. Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna; 1. grein í Fjallkonunni (5. júní 1885) Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna; 2. grein í Fjallkonunni (22. júní 1885)
 20. Fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna
 21. „Heimastjórn í 100 ár: kvenréttindi“.
 22. „Frumkvöðlar : Fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórnar á Íslandi var Maddama Vilhelmína Lever“.
 23. 23,0 23,1 Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008
 24. „Drusluganga í Reykjavík“.
 25. „Geirvartan frelsuð“.
 26. Konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi í nánum samböndum eða innan fjölskyldu stíga fram
 27. Helmingur manndrápa á Íslandi tengist heimilisofbeldi
 28. Stuðningsmenn Miðflokksins neikvæðastir í garð #MeToo, Vísir.is 13. ágúst 2018
 29. „Bjarni rekinn frá ON eftir "óviðeigandi hegðun““.
 30. Björn Bragi segir sig frá Gettu betur
 31. Björn Bragi biðst afsökunar á hegðun sinni
 32. Yfirlit frétta á Vísi.is
 33. Yfirlýsing frá Kvenréttindafélagi Íslands, 30. nóvember 2018
 34. Þörf á heim­ili fyr­ir tvígreind­ar kon­ur
 35. Útburðir samtímans
 36. Setja 200 milljónir í úrræði fyrir fólk með tvígreindan vanda
 37. Bók um Jón Baldvin slegið á frest
 38. Mátti ekki nota bréfsefni sendiráðs né titil[óvirkur tengill]
 39. Atli Rafn krefst 13 milljóna frá Borgarleikhúsinu
 40. Segir upp prófessorsstöðu við HÍ í kjölfar meintrar áreitni yfirmanns
 41. Lög um jafnrétti kynja, samantekt á vef Jafnréttisstofu
 42. Vefur SÞ um sáttmálann
 43. Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 30 ára, eftir Kristínu Ástgeirsdóttur
 44. Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Kvennaslóðir : rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi. Kvennasögusafn Íslands, 2001.
 • Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna í ritstjórn Erlu Huldu Halldórsdóttur og Guðrúnar Dísar Jónatansdóttur á vefnum Bækur.is

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist
Wikibækur eru með efni sem tengist