Fara í innihald

Guðríður Þorbjarnardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðríður Þorbjarnardóttir (f. fyrir 1000 - d. ?) var íslenskur landkönnuður og talin ein víðförlasta kona heims sem uppi var kringum árið 980. Að því er sögur herma sigldi hún átta sinnum yfir úthöf og ferðaðist fótgangandi um þvera Evrópu.

Guðríður var fædd á Íslandi en sigldi til Grænlands og þaðan til Vínlands. Hún eignaðist þar barn, Snorra Þorfinnsson, og er talið að hún sé fyrsta konan af evrópskum uppruna sem fæddi barn í Ameríku. Guðríður fór að sögn einnig til Rómar.

Frásögn af Guðríði er í Eiríks sögu rauða, en einnig segir af henni í Grænlendinga sögu og ber þeim ekki alltaf vel saman. Guðríður var eftir því sem fyrrnefnda sagan segir dóttir Þorbjarnar, sonar Vífils, leysingja Auðar djúpúðgu, og Hallveigar Einarsdóttur konu hans, Sigmundssonar Ketilssonar landnámsmanns á Laugarbrekku.

Foreldrar Guðríðar bjuggu á Laugarbrekku og þar fæddist hún en þegar hún var ung að aldri flutti fjölskyldan til Grænlands og lenti í miklum hrakningum á leiðinni og dó helmingur förunauta þeirra. Þó komst Þorbjörn á endanum til Grænlands og gaf Eiríkur rauði honum land á Stokkanesi. Í Grænlendinga sögu segir aftur á móti ekkert um ættir Guðríðar en þar er sagt að Leifur heppni hafi bjargað hópi manna, þar á meðal henni og og Þóri austmanni, fyrsta manni hennar, úr skeri og flutt með sér til Brattahlíðar, þar sem Þórir veiktist og dó skömmu síðar.


Guðríður giftist svo Þorsteini Eiríkssyni, syni Eiríks rauða og bróður Leifs heppna. Þorsteinn dó úr farsótt á leiðinni til Vínlands. Þriðji maður Guðríðar var Þorfinnur karlsefni Þórðarson frá Glaumbæ í Skagafirði. Þau sigldu til Vínlands og voru 160 manns í leiðangri þeirra. Þau könnuðu landið og fóru sunnar en aðrir og komu á stað sem þau nefndu Hóp. Líkur eru á því að það hafi verið Manhattaneyja þar sem New York stendur núna.

Guðríður og Þorfinnur voru í þrjú ár í Ameríku. Á meðan þau dvöldu þar fæddi Guðríður soninn Snorra. Talið er að hann sé fæddur um 1004 og er fyrsti hvíti maðurinn fæddur þar svo að vitað sé. Þau gáfust þó upp á Ameríkudvölinni og fóru þaðan aftur til Grænlands og síðan fljótlega til Noregs. Þar voru þau þó aðeins einn vetur en héldu síðan til Íslands og settust að í Glaumbæ, föðurleifð Þorfinns. Þar eignuðust þau annan son, Þorbjörn eða Björn.

Snorri sonur þeirra tók við búi í Glaumbæ eftir lát föður síns. Þegar Guðríður var orðin ekkja fór hún í suðurgöngu, hugsanlega til Rómar. Þegar hún kom aftur hafði Snorri byggt fyrstu kirkjuna sem reist var í Glaumbæ. Í Grænlendinga sögu segir að Guðríður hafi verið einsetukona og nunna í Glaumbæ síðustu æviárin.

Þann 4. mars 2011 fór Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands til fundar við Benedikt páfa 16. í Vatíkaninu og færði honum afsteypu af styttu Ásmundar Sveinssonar af Guðríði og Snorra syni hennar.

  • Guðríður Þorbjarnardóttir : frá New York til Rómar? (2001). Inga Huld Hákonardóttir. Birtist í Kvennaslóðir s. 60-74.