Ástandið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bandarískir hermenn að æfingu með fallbyssu á Íslandi í júní 1943.

Ástandið er orð sem haft er um þau áhrif sem íslenskir karlmenn töldu að herseta Breta og Bandaríkjamanna á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni (1940–45) hefðu haft á íslenskt kvenfólk. Á meðan hæst stóð slagaði fjöldi erlenda hermanna á Íslandi hátt upp í fjölda íslenskra karlmanna. Þessir erlendu hermenn gerðu margir hverjir hosur sínar grænar fyrir íslenskum konum og er áætlað að þúsundir íslenskra kvenna hafi gifst hermönnum. Þessi samskipti íslenskra kvenna og erlendra setuliðsmanna féllu ekki alltaf vel í kramið og voru þær konur sem lögðu lag sitt við þá sakaðar um föðurlandssvik og vændi svo eitthvað sé nefnt.

Þegar Bretar hertóku Ísland flykktist fólk út á götu til að fylgjast með hermönnunum og tók þá fólk eftir að stelpurnar voru sérstaklega hugfangnar af þeim. Strax var farið að ræða um hvaða áhrif þetta gæti haft og hvatt var til þess að hafa lágmarks samskipti við setuliðið en það reyndist erfitt því margir Íslendingar voru komnir með vinnu hjá þeim. Skipuð var nefnd sem skilaði svartri skýrslu um málið, kom í ljós að vændi var orðið algengt. Stjórnvöld reyndu árangurslitlar aðferðir við að draga úr kynnum íslenskra stúlkna og setuliðsins en með tímanum minnkaði ástandsumræðan og vorið 1945 lauk stríðinu og setuliðið hélt heim á leið.

Koma hersins[breyta | breyta frumkóða]

Þann 10. maí 1940 komu til Reykjavíkur þrjú bresk herskip og lögðust að bryggju. Bresku hermennirnir gengu á land og í tilkynningu sem þeir gáfu út voru þeir komnir til að verja landið gegn innrás Þjóðverja og báðu um vinsamlegar móttökur. Fjöldi Reykjavíkurbúa fór niður að höfn til að fylgjast með þessum nýju gestum.[1] Í Alþýðublaðinu daginn eftir var birt grein um komu hersins og var talað við lögregluna sem var á staðnum til að tryggja að allt færi vel fram. Lítið var um mótmæli en þó var eitt sem hún var óhress með og það var hversu nærgöngular sumar íslensku stelpnanna voru við hermennina. Varaði blaðið við því og sagði að vegna þessa hefðu hermennirnir verið of frjálslegir gagnvart konunum og hvatti til þess að lögreglan fengi aukið vald til þess að bregðast við þessu.[2]

Umræða um ástandið[breyta | breyta frumkóða]

Það leið því ekki nema einn dagur þar til að umræðan um „ástandið“ var farin af stað. Fólk slúðraði sín á milli og blöðin birtu annað slagið fréttir þess efnis, flestir voru sammála um að þær konur sem væru í tygjum við setuliðið væru föðurlandssvikarar og gálur. Á þeim tímapunkti var ljóst að eitthvað þyrfti að gera í málinu og því bauð þáverandi forsætisráðherra, Hermann Jónasson öllum skólastjórum landsins til fundar við sig haustið 1940. Þar voru málin rædd og samið var „Ávarp til þjóðarinnar“ sem aðallega var beint til foreldra barna í skólum landsins. Þar var hvatt til gætni og varúðar í samskiptum við setuliðið, skemmtanir á vegum skólanemenda verði haldnar aðeins fyrir þá sjálfa og skorður verði settar á útivist barna í þéttbýli, sem sagt að hafa eins lítil samskipti við hermennina og hægt væri.[3]

Í október sama ár var annar fundur haldinn á vegum fjórtán æskulýðssamtaka í Reykjavík. Við lok fundar var samþykkt ályktun sem hljóðaði svo að öll starfsemi æskulýðsfélaganna hvort sem það væru íþróttaæfingar, dansleikir eða skátamót ættu að fara fram innan íslenskra vébanda og setuliðið fengi ekki aðgang að þeim. Hvatt var til hógværðar í samskiptum við setuliðið, en annars að hafa eins lítil samskipti við það og hægt væri.[4] En margir íslendingar voru þegar komnir með atvinnu hjá hernum, hvort sem það var að reisa herstöðvar, leggja vegi eða þvo af þeim þvott. Skemmtistaðir og veitingastaðir spruttu upp líkt og gorkúlur og sprúttsalar höfðu vart undan. Því var erfitt á þessum tímapunkti að fara að takmarka samskipti Íslendinga við þá.[5]

Skemmtanir setuliðsins[breyta | breyta frumkóða]

Setuliðið var þó duglegt að halda skemmtanir og matarboð og bauð stundum bæjarbúum sem oft þáðu boðið. Sitt sýndist hverjum um þetta en þegar setuliðið á Akureyri fékk ráðhús bæjarins lánað til að halda dansleik og bauð „vinum“ sínum þá tóku nokkrir menntaskólapiltar sér stöðu fyrir utan ráðhúsið og skráðu hjá sér þær stúlkur sem inn gengu. Listinn var svo birtur í Verkamanninum daginn eftir og innihélt hann nöfn 65 stúlkna. Þó voru ekki allir sáttir með menntaskólapiltana og skammaði skólameistari Menntaskólans á Akureyri þá og sagðist myndu taka hart á því ef að slíkt ætti sér stað aftur.[6] Næst þegar dansleikur á vegum setuliðsins var haldinn á Akureyri mættu aðeins 40 stúlkur þannig að segja má að uppátæki strákanna hafi árangur borið.[7] Þó voru allsstaðar skemmtistaðir, hótel og búllur þar sem hermenn og íslenskar stúlkur gátu hist og urðu þar margir íslenskir piltar afbrýðisamir sem stundum endaði með slagsmálum.[8]

Ástandsnefndin[breyta | breyta frumkóða]

Þann 7. júlí 1941 kom bandaríski herinn til að leysa af breska setuliðið.[9] Það var á allra vörum að bandarísku hermennirnir væru snyrtilegri, myndarlegri og síðast en ekki síst áttu þeir meiri peninga og voru því meira áberandi í skemmtanalífinu og í verslunum heldur en þeir bresku.[10] En nú voru sögusagnir um vændi orðnar ansi háværar og skrifaði því Vilmundur Jónsson landlæknir, bréf til dómsmálaráðuneytisins. Þar stóð m.a. að lögreglan teldi að stúlkubörn á aldrinum 12-16 ára væru sum hver komin út í vændi.[11] Nú varð ríkisstjórnin að bregðast við og var ein hugmyndin að herstjórnin myndi flytja inn vændiskonur fyrir lið sitt, en það gerðist þó ekki. Þess í stað var skipuð nefnd.[12] Ástandsnefndin var hún kölluð og í henni sátu þrír karlmenn (þar á meðal Sigurbjörn Einarsson biskup). Eftir mánaðalanga vinnu skilaði hún af sér skýrslu um málið. Þar kom fram að lögreglan væri með lista yfir 500 konur á aldrinum 12-61 árs, sem hún teldi að hefðu mjög náin samskipti við setuliðið. Af þeim væru um 150 17 ára og yngri. Af þessum 500 konum væru að minnsta kosti 129 orðnar mæður og væri barnafjöldinn ekki minni en 255 börn. Í lok skýrslunnar var tekið fram að lögreglustjórinn teldi að þeir væru bara með niðurstöður um fimmtahluta kvenna í Reykjavík og því mætti margfalda þessar tölur með 5.[13] Þessi skýrsla mætti þónokkurri andstöðu, meðal annars var gagnrýnt að hún var nánast öll unnin upp úr gögnum úr skjalageymslu lögreglunnar, í nefndinni hafi setið þrír karlmenn en engin kona og að ekki var gerður greinarmunur á konum sem væru giftar eða trúlofaðar hermönnum og þeim sem stunduðu vændi.[14] Setuliðið var óhresst með skýrsluna og hóf sína eigin rannsókn á ástandinu og urðu niðurstöður þeirrar rannsóknar ekki nærri jafn sláandi og hjá ástandsnefndinni.[15]

Aðgerðir stjórnvalda[breyta | breyta frumkóða]

Hinn 9. desember 1941 undirritaði Sveinn Björnsson ríkisstjóri tvö frumvörp sem áttu að veita ríkinu aukið vald til að taka á ástandinu. Annað frumvarpið hljóðaði svo að skylda mætti landsmenn til að ganga með skilríki á sér frá 12 ára aldri og þeir væru skyldugir til að sýna lögreglu og dyravörðum skilríkin ef þess væri óskað.[16] Í hinu frumvarpinu var lagt fram að stofnaður skyldi unglingadómstóll sem myndi dæma í málum barna yngri en 18 ára sem sökuð væru til dæmis um lauslæti, drykkjuskap og slæpingshátt og væri þá hægt að senda þau í vist á hælum sem ríkisstjórnin ætlaði að koma á fót. Að lokum voru samþykkt ný lög sem tóku á málum þeirra sem leiddu ungmenni inn á glapstigu það er hórmangara, en þekkt var að nokkrir Íslendingar væru farnir að stunda þá iðju á þessum tíma og gat slíkt brot varðað allt að fjögurra ára fangelsi.[17] Ríkið kom á fót nokkrum hælum fyrir unglinga en það verkefni tókst illa og var þeim flestum lokað innan tveggja ára. Tilraunir stjórnvalda til að bæta vandann voru bæði marklitlar og ekki nógu vel ígrundaðar, þær aðferðir sem þau reyndu seinna meir báru lítinn árangur og gerðu lítið til að bæta ástandið.[18]

Kynni íslenskra stúlkna og hermanna leiddu stundum af sér þunganir. Þegar svo bar undir áttu stúlkurnar rétt á meðlögum frá hermönnunum. En oftar en ekki gátu hermennirnir komið sér undan þeirri ábyrgð og þurftu þá stúlkurnar að þiggja styrki frá hinu opinbera. En einnig kom fyrir að pör giftu sig og voru hermannabrúðkaup 332 talsins hér á landi.[19] Eftir því sem tíminn leið minnkaði umræðan um ástandið og að lokum tók stríðið enda. Í maí 1945 var tilkynnt um sigur bandamanna og þá fór setuliðið að halda heim.[20]

Samkvæmt Þór Whitehead voru njósnir lögreglunnar um allt að 1000 konur árið 1941 umfangsmestu persónunjósnir hér á landi.[21]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 27-28.
 2. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 40-41.
 3. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 47, 50-52.
 4. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 53.
 5. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 53.
 6. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 124-126.
 7. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 129.
 8. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 142.
 9. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 150.
 10. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 154.
 11. Gils Guðmundsson (1951): 173.
 12. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 165.
 13. Gils Guðmundsson (1951): 173.
 14. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 169.
 15. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 173.
 16. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 188.
 17. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 189.
 18. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 193.
 19. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989). 205.
 20. Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson (1989): 289, 292
 21. „Umfangsmestu njósnir sem fram hafa farið“. RÚV. 26. janúar 2014.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson. Ástandið (Tákn bókaútgáfa, 1989).
 • Gils Guðmundsson (ritstj.), Öldin okkar 1931-1950 (Reykjavík: Iðunn, 1951).

Tengill[breyta | breyta frumkóða]