Ásgerður Asksdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ásgerður Asksdóttir var landnámsmaður í Rangárvallasýslu og nam land undir Eyjafjöllum.

Í Landnámabók segir að hún hafi verið dóttir Asks hins ómálga og verið gift Ófeigi, ágætum manni í Raumsdælafylki. Ófeigur varð ósáttur við Harald hárfagra. Þau hjónin bjuggust til Íslandsferðar en áður en þeim tókst að komast af stað komu menn Haraldar og tóku Ófeig af lífi. Ásgerður fór samt til Íslands með börn þeirra ásamt Þórólfi hálfbróður sínum, og nam land milli Seljalandsmúla og Markarfljóts, og Langanes allt (Merkurnes), en Þórólfur nam land fyrir vestan Markarfljót.

Ásgerður giftist aftur á Íslandi, Þorgeiri hörska Bárðarsyni sem keypt hafði land af Ásgeiri kneif og bjó í Holti. Synir þeirra voru Þorgrímur og Holta-Þórir, en börn Ásgerðar og Ófeigs voru Þorgerður, sem gift var Þorfinni (Þorfiði eða Fiði) Otkelssyni (Áskelssyni) landnámsmanni í Bárðardal, Þorgeir gollnir, sem var faðir Njáls á Bergþórshvoli, Þorsteinn flöskuskegg, Þorbjörn kyrri og Álof, sem gift var Þorbergi kornamúla, syni landnámsmannsins Þorkels kornamúla. Í Njálu segir að Ásgerður hafi verið móðir Njáls Þorgeirssonar en hún var föðuramma hans samkvæmt Landnámu.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

  • „Landnámabók. Af snerpu.is“.
  • „Njáls saga. Af snerpu.is“.