Fara í innihald

Rannveig Þorsteinsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rannveig Þorsteinsdóttir (fædd á Sléttu í Mjóafirði 6. júlí 1904, dáin 18. janúar 1987) var íslensk stjórnmálakona og lögfræðingur. Rannveig sat á þingi frá 1949-1953 og var fyrsta konan sem kjörin var á þing fyrir Framsóknarflokkinn og jafnframt fyrsta konan sem hlaut leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti Íslands árið 1959.

Rannveig lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1924, stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1946 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1949.

Á árunum 1925-1936 starfaði Rannveig sem afgreiðslumaður Tímans. Hún var stundakennari við Samvinnuskólann 1926–1933, bréfritari við Tóbakseinkasöluna 1934–1946, rak málflutningsskrifstofu í Reykjavík 1949–1974 og var dómari í verðlagsdómi Reykjavíkur 1950–1974.

Rannveig gegndi auk þess ýmsum trúnaðarstörfum. Hún sat í stjórn Kvenfélagasambands Ísland og var formaður um nokkura ára skeið. Formaður Félags íslenskra háskólakvenna og Kvenstúdentafélags Íslands. Hún sat í útvarpsráði, var varafulltrúi á þingi Evrópuráðsins og átti sæti í yfirskattanefnd Reykjavíkur.