Vala Flosadóttir
Útlit
Vala Flosadóttir (f. Reykjavík 16. febrúar 1978) er íslensk frjálsíþróttakona og keppti í stangarstökki. Árið 2000 varð hún í þriðja sæti á Ólympíuleikunum í Sydney með stökki upp á 4,5 metra, sem jafnframt er persónulegt met.
Árið 1998 setti Vala tvívegis heimsmet í stangarstökki innanhúss og hún setti einnig fimm unglingaheimsmet á árunum 1995-1997. Hún varð Evrópumeistari í stangarstökki innanhúss 1996, en það var í fyrsta skipti sem keppt var í stangarstökki kvenna á stórmóti, og hafnaði í þriðja sæti á Evrópumeistaramótinu árið 1998. Hún vann Evrópumeistaramót 22 ára og yngri 1999 og varð önnur á evrópska unglingameistaramótinu 1997.
Vala hætti keppni árið 2004. Hún var tekin inn í heiðurshöll ÍSÍ árið 2012.