Fara í innihald

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir (fædd 13. ágúst 1952)[1] er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Sigríður Dúna lauk B.Sc (Econ) prófi í mannfræði árið 1975 frá The London School of Economics and Political Science, MA prófi í mannfræði frá The University of Rochester, New York, árið 1980 og doktorsprófi í mannfræði frá sama skóla árið 1990. Hún lagði einnig stund á mannfræði við L´Univeristé de Paris VII veturinn 1976–1977.[2]

Sigríður Dúna hóf stundakennslu í mannfræði við Háskóla Íslands árið 1980 og sinnti henni með hléum fram til ársins 1990 er hún var fastráðin við skólann. Hún hefur verið prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands frá árinu 2000 og gegndi starfi varaforseta félagsvísindadeildar 2000–2005.[2]

Á árunum 1983 til 1987 var hún alþingismaður Reykvíkinga fyrir Kvennalista,[1] en hún er ein af stofnendum Kvennalistans og Kvennaframboðsins í Reykjavík.[3][4] Á árunum 2006–2011 fékk hún launalaust leyfi frá prófessorsstarfi sínu til að gegna starfi sendiherra í utanríkisþjónustu Íslands, fyrst í Suður-Afríku[5] og síðan í Noregi.[6]

Sigríður Dúna hefur gegnt margvíslegum öðrum trúnaðarstörfum og má þar nefna að hún sat í stjórnarskrárnefnd árin 1985–1992, í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar 1989–1993, var formaður kynningarnefndar Háskóla Íslands 1991–1993 og formaður stjórnar Mannfræðistofnunar Háskóla Íslands 1997–2001. Hún sat í úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs Íslands 1989–1991 og aftur 1996, í ritstjórn NORA, Nordic Journal of Women´s Studies 1991–1995, í sérfræðinganefnd norrænu ráðherranefndarinnar um félagsvísindalegar rannsóknir í umhverfismálum 1991–1998, í ráðgjafanefnd UNESCO um jafnréttismál 1994–1997,[1] í jafnréttisnefnd Þjóðkirkju Íslands 1997–1999[7] og í úthlutunarnefnd RANNÍS 1997–1999. Árið 1999 fór hún fyrir ráðstefnunni Konur og lýðræði sem haldin var af ríkisstjórn Íslands með þátttöku Norrænu ráðherranefndarinnar og ríkisstjórna Bandaríkjanna, Rússlands og Baltnesku landanna.[8] Hún sat í stjórn Stofnunar Leifs Eiríkssonar 2000–2005, í ritnefnd aldarsögu Háskóla Íslands 2005–2011,[9] í stjórn norrænu menningarstofnunarinnar á Álandseyjum 2015–2016 og í ráðgjafanefnd Alþingis um heiðurslaun listamanna 2015–2018. Árin 2012–2014 var hún verndari UN Women á Íslandi.[10]

Sigríður Dúna var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2000[11] fyrir störf sín að jafnréttismálum. Hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2001[12] fyrir ævisögu Bjargar C. Þorláksson og Fjöruverðlaunin árið 2006 fyrir ævisögu Ólafíu Jóhannsdóttur.[13][14]

Rannsóknir Sigríðar Dúnu beindust í fyrstu að frönskum strúktúralisma[15] en síðar fundu rannsóknir hennar sér stað innan femínískrar mannfræði og mannfræði stjórnmála. Doktorsritgerð hennar árið 1990[16] fjallar um sögu íslenskrar kvennahreyfinga frá 1870–1990 en þar beitir hún persónuhugtakinu til greiningar á efniviðnum. Fyrir utan ýmis viðfangsefni á þessum sviðum mannfræðinnar,[17] þar með talið ritun ævisagna tveggja gleymdra merkiskvenna, hafa rannsóknir Sigríðar Dúna meðal annars beinst að kenningum og aðferðum í mannfræði.[18] Sigríður Dúna er nú í hálfu starfi sem prófessor við Háskóla Íslands.

Einkalíf[breyta | breyta frumkóða]

Sigríður Dúna ólst upp í Reykjavík en foreldrar hennar eru Sigríður Júlíusdóttir, húsmóðir (f. 1930) og Kristmundur Jónsson, kaupmaður (f. 1929). Sigríður Dúna er gift Friðriki Sophussyni fyrrverandi ráðherra og eiga þau eina dóttur. Áður var Sigríður Dúna gift Hjálmari H. Ragnarssyni, tónskáldi, og eignuðust þau einn son.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 1,2 „Alþingi. (2015). Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Æviágrip“. Sótt 30. júní 2019.
 2. 2,0 2,1 „Sigríður Dúna Kristmundsóttir. Prófessor í mannfræði. Ferilskrá“. Sótt 30. júní 2019.
 3. Kvennalistinn. (e.d.) Stefnumótunarfundir Kvennaframboðsins. Sótt af: http://kvennalistinn.is/stefnumotun/
 4. Kvennalistinn. (e.d.). Sumarhópurinn. Sótt af: http://kvennalistinn.is/sumarhopurinn-1981/
 5. Mbl.is. (2005, 28. september). Sigríður Dúna sendiherra í Suður-Afríku. mbl.is. Sótt af: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1040645/
 6. Mbl.is. (2008, 12. mars). Ráðuneytið byrjað á löngum sendiherrakapli. mbl.is. Sótt af: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1199351/
 7. Yrsa Þórðardóttir. (1998, 6. júní). Jafnrétti kynjanna í kirkjunni. mbl.is. Sótt af: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/401953/
 8. Alþingi. (1999). Svar forsætisráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um ráðstefnuna Konur og lýðræði. Fylgiskjal II: Ráðstefnan Konur og lýðræði. Opið boðsbréf. Sótt af: https://www.althingi.is/altext/125/s/0135.html
 9. Guðmundur Hálfdanarson, Sigríður Matthíasdóttir og Magnús Guðmundsson. (2011). Í Gunnar Karlsson (ritstj.) Aldarsaga Háskóla Íslands 1911–2011. (Ritnefnd bls. 4). Reykjavík: Háskólaútgáfan. Sótt af: http://sjodir.hi.is/sites/sjodir.hi.is/files/aldarsaga_haskola_islands_1911-2011_bls_1-108.pdf
 10. UN Women. Íslensk landsnefnd. (e.d.). Verndarar. Sótt af: https://unwomen.is/verndarar/
 11. Forseti Íslands. Orðuhafaskrá. Sótt af: https://www.forseti.is/f%C3%A1lkaor%C3%B0an/orduhafaskra/
 12. mbl.is. (2002, 29. janúar). Íslensku bókmenntaverðlaunin 2001 afhent með viðhöfn. „Hið skrifaða orð er sterkasta efni heimsins“. Sótt af: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/649344/
 13. Reykjavík. Bómenntaborg UNESCO. (2007). Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna. Sótt af: https://bokmenntaborgin.is/bokmenntavefur/timaas-bokmenntanna/fjoruverdlaunin-bokmenntaverdlaun-kvenna Geymt 8 júní 2019 í Wayback Machine
 14. Fjöruverðlaunin. Bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi. (e.d.). Verðlaunahafar fyrri ára. Sótt af: http://fjoruverdlaunin.is/verdlaunahafar-fyrri-ara/
 15. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. (2012). Að skilja heiminn og sig og sjálfan sig í heiminum. Mannfræðingurinn Claude Lévi-Strauss". Skírnir, 186(vor): 125-145.
 16. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. (1990). Doing and becoming: Women‘s movement and women‘s personhood in Iceland 1870–1990. Doktorsritgerð. University of Rochester, New York.
 17. Sjá t.d. "Men and the Suffrage", Stjórnmál og stjórnsýsla. (2016) og "Gosvirkni í íslenskri kvennabaráttu". Tímarit Máls og menningar 2016.
 18. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir (2006). "Far from the Trobriands. Biography as Field". Í Coleman S. og P. Collins, Berg (eds.). Locating the Field. Place and context in Anthropology. Sjá: https://www.bloomsburycollections.com/book/locating-the-field-space-place-and-context-in-anthropology/ch8-far-from-the-trobriands-biography-as-field