Fjallkonan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Fyrsta teikningin af fjallkonunni eftir Johann Baptist Zwecker úr Icelandic Legends frá 1866. Þessi mynd var teiknuð eftir fyrirsögn Eiríks Magnússonar bókavarðar í Cambridge en hann lýsir táknum hennar svo í bréfi til Jóns Sigurðssonar: "Konumyndin á að tákna Ísland, því hefur hún ískórónu á höfði, sem eldar gjósa upp úr. Á öxl hennar er hrafninn, Íslands einkennilegasti fugl, Óðins forni vin og skáldanna eftirlætisgoð, fréttafugl mikill og margkunnugur. Yfir sjónum flögrar már, en yfir brimsævi tíma og sögu berast rúnakefli að landi eða upp í fang konunni, og hefur hún þegar náð einu þeirra. Þetta átti svo sem að vera symbolum (tákn) bókmenntalandsins og sögulandsins okkar. Yfir er nótt og stirndur himinn og máninn uppi. Á bak við eru fjöll, tunglroðin á eggjunum."

Fjallkonan er tákn eða kvengervingur Íslands. Kona kom fyrst fram sem kvengervingur landsins í kvæði Eggerts Ólafssonar, Ofsjónir 1752, en Fjallkonan var fyrst nefnd í kvæði Bjarna Thorarensen, Eldgamla Ísafold, og hefur verið algengt tákn í íslenskum skáldskap síðan. Elsta prentaða mynd af Fjallkonunni birtist í enskri þýðingu íslenskra þjóðsagna, Icelandic Legends (1864-1866), og þekkt er mynd Benedikts Sveinbjarnarsonar Gröndal á minningarspjaldi um þjóðhátíðina 1874. Kona í gervi Fjallkonunnar kom fyrst fram á íslendingadeginum í Winnipeg í Kanada 1924 og eftir lýðveldisstofnun á Íslandi 1944 hefur kona í skautbúningi jafnan flutt fjallkonuljóð við hátíðahöld 17. júní.

Samnefnt tímarit var gefið út, fyrst hálfsmánaðarlega og síðar vikulega, í Reykjavík frá 1884 til 1911.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu