Fara í innihald

Hið íslenska kvenfélag

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hið íslenska kvenfélag var stofnað í kjölfar mikils kvennafundar sem haldinn var í Góðtemplarahúsinu í Vonarstræti í Reykjavík 26. janúar 1894 og var fyrsta félagið á Íslandi sem hafði kvenréttindi á stefnuskrá sinni.

Félagið lagði áherslu á að auka réttindi kvenna og auka áhuga þeirra á að gæta fengina réttinda og hagnýta sér þau. Ennfremur lagði félagið áherslu á að efla menningu kvenna með samtökum og félagsskap. Efling menntunar íslenskra kvenna var einnig ofarlega á baugi í starfi félagsins. Félagið lagði áherslu á að tryggja þeim aðgang að menntastofnunum og var stofnun háskóla á Íslandi eitt af þeim baráttumálum sem félagið lagði áherslu á, en segja má að synjun konungs um stofnun háskóla á Íslandi hafi verið kveikjan að stofnun félagsins.[1]

Meðal fyrstu verkefna félagsins var að safna undirskriftum kvenna með áskorun til Alþingis þess efnis að veita konum aukin pólitísk réttindi. Alls rituðu rúmlega 2000 konur nöfn sín á listann. Árið 1908 stóð félagið ásamt Kvenréttindafélagi Íslands að annarri undirskriftarsöfnun til Alþingis þar sem skorað var á þingmenn að veita konum kosningarétt og söfnuðust rúmlega 11.000 undirskriftir. Fjöldi undirskriftanna gefur til kynna að baráttumál félagsins höfðu breiða skírskotun meðal kvenna úr ólíkum áttum.[2]

Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir var ein þeira kvenna sem hafði forgöngu um stofnun félagsins. Þorbjörg var gjaldkeri félagsins í fyrstu stjórn þess og formaður frá 1897 og til dauðadags. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu auk Þorbjargar þær Sigþrúður Friðriksdóttir formaður, Ólafía Jóhannsdóttir og Jarþrúður Jónsdóttir.

Ársrit félagsins kom út um fjögurra ára skeið en þar var fjallað um kvenréttindamál og auk þess héldu félagskonur fyrirlestra um slík mál.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Kristín Ástgeirsdóttir, „Kvenréttindi og líknarmál í einni sæng“, Morgunblaðið, 12. mars 1994 (skoðað 31. maí 2019)
  2. Auður Styrkársdóttir, „Hvaða konur voru öflugar snemma í kvennabaráttunni aðrar en Bríet Bjarnhéðinsdóttir?“, Vísindavefurinn (skoðað 31. maí 2019)