Fara í innihald

Köln

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kolni)
Kölnar
Skjaldarmerki Kölnar
Staðsetning Kölnar
SambandslandNorðurrín-Vestfalía
Flatarmál
 • Samtals405,01 km2
Hæð yfir sjávarmáli
53 m
Mannfjöldi
 • Samtals11 milljón (2.018)
 • Þéttleiki2.553/km2
Vefsíðawww.stadt-koeln.de

Köln er stærsta borgin í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu með yfir 1,1 milljón íbúa (2018). Hún er jafnframt fjórða stærsta borg Þýskalands og ein af fjórum milljónaborgum í Þýskalandi. Hún er hluti af Rín-Ruhr-stórborgarsvæðinu.

Dómkirkjan í Köln er þriðja hæsta kirkja heims

Köln liggur við ána Rín nokkuð vestarlega í Þýskalandi og rétt fyrir sunnan Ruhr-héraðið. Hollensku landamærin eru 30 km til vesturs. Næstu stærri borgir eru Leverkusen til norðurs (10 km), Bonn til suðurs (25 km) og Aachen til vesturs (40 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]
Heilög Úrsúla drepin ásamt nokkrum öðrum meyjum

Skjaldarmerki Kölnar sýnir ellefu svarta dropa á hvítum grunni. Fyrir ofan eru þrjár gullnar kórónur á rauðum grunni. Droparnir tákna hina heilögu Ursulu sem fórst ásamt tíu öðrum meyjum sem voru drepnar af húnum þegar þær voru á heimleið úr pílagrímsferð til Rómar. Kórónurnar minna á að borgin var áður hluti af þýska ríkinu. Rauði og hvíti liturinn er tákn Hansasambandsins en Köln var stofnfélagi í því sambandi.

Borgin hét á tímum Rómverja Colōnia Claudia Āra Agrippīnēnsium sem var síðar stytt í Colōnia Agrippīna eða bara Colonia og loks á miðöldum í Cöln. Það var ekki fyrr en á síðustu öld að rithátturinn Köln (með k-i) varð ofan á. Á frönsku og ensku heitir borgin Cologne.[1]

Saga Kölnar

[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf og miðaldir

[breyta | breyta frumkóða]
Módel af gömlu Rómverjaborginni

Það voru Rómverjar sem stofnuðu borgina Köln og mun það hafa gerst árið 38 f.Kr. Rómverjar og germanski þjóðflokkurinn úbíar bjuggu þar saman í sátt og samlyndi. Borgin dafnaði vel, en hún var landamæraborg í nokkrar aldir. Árið 260 e.Kr. varð Köln að höfuðborg vesturhluta Rómaveldis, til 274. Konstantínus keisari leyfði gyðingum að setjast að í borginni í upphafi 4. aldar og er söfnuður þeirra í borginni elsti gyðingasöfnuður Þýskalands. Á svipuðum tíma var uppgangur kristninnar í Evrópu. Heimildir eru fyrir kristinni kirkju í Köln árið 355, en það væri elsta þekkta kirkja Þýskalands. Í tengslum við kristnu kirkjuna var heilög Úrsúla drepin af húnum, en tákn hennar er í skjaldarmerki borgarinnar enn í dag. Á sama ári réðust frankar á borgina, ræna hana og leggja hana undir sig. En Rómverjar náðu henni aftur á sitt vald. Frankar fluttu vestur og stofnsettu frankaríkið. Þeir hertóku borgina hins vegar á nýjan leik 454 og héldu henni eftir það. Nokkrir frankakonungar sátu gjarnan í Köln. Við Verdun-samningunum 843 var ríkinu skipt og lenti Köln þá í austurríkinu. 882 sigldu víkingar (normannar) upp Rínarfljót alla leið til Kölnar og rændu þeir hana. Frá og með þessum tíma jukust áhrif erkibiskupanna í borginni, en þeir urðu að kjörfurstum í þýska ríkinu. 1164 lét erkibiskupinn Rainald von Dassel flytja líkamsleifar vitringanna þriggja til Kölnar. Borgin verður þar með að mesta pílagrímsstað þýska ríkisins og eina af þremur merkustu pílagrímsstöðum Evrópu, ásamt Róm og Santiago de Compostela á Spáni.

Síðmiðaldir

[breyta | breyta frumkóða]
Köln 1531. Mynd eftir Anton Woensam.

Á 14. öld var Köln meðlimur í Hansasambandinu. 1367 var aðalfundur sambandsins haldinn í ráðhúsinu í Köln. Þar var myndað hernaðarbandalag gegn Valdimar IV Danakonungi. 1388 var gamli háskólinn í Köln stofnaður. Þetta var fjórði háskóli þýska ríkisins og næstelsti í núverandi Þýskalandi. Um þetta leyti var Köln stærsta borgin í ríkinu. Siðaskiptin urðu ekki í Köln. Lúterskir predikarar voru brenndir á báli 1529 og höfðu þeir ekki haft erindi sem erfiði. Hins vegar snerist erkibiskupinn Gebhard Truchsess von Waldburg til lútersku 1582 og var bannfærður fyrir vikið. Málið var tekið fljótt fyrir, því með lúterskum erkibiskupi Köln væru lútersku kjörfurstarnir í ríkinu þá í meirihluta. Slíkt varð að hindra með öllum ráðum. Köln hélst því kaþólsk og kom lítið sem ekkert við sögu í 30 ára stríðinu.

Frakkar og prússar

[breyta | breyta frumkóða]

1669 tók Köln í síðasta sinn þátt í Hansadögum í Lübeck. Sambandið leystist upp eftir það. 1701 stofnaði Ítalinn Giovanni Battista Farina fyrstu ilmvatnsfyrirtæki heims. Hann bjó til og seldi Eau de Cologne, sem enn er þekkt vörumerki í dag. 1794 hertók franskur byltingarher borgina. Á næstu árum lögðu Frakkar niður háskólann og lokuðu ýmsum kirkjum og klaustrum. Einnig var erkibiskupsdæmið lagt niður. Íbúar Kölnar fengu franskt ríkisfang. Napoleon sjálfur sótti borgina heim í september 1804, skömmu eftir krýningu sína til keisara. Eftir tap Napoleons við Jena og Auerstedt 1814 yfirgáfu allir Frakkar borgina, sem við það verður þýsk á ný. Vínarfundurinn ákvað að gefa prússum borgina. Á prússneska tímanum var lokið við að reisa dómkirkjuna frægu. Borgin óx og dafnaði. 1850 fór íbúatalan yfir 100 þúsund. 1855 er fyrsta fasta brúin yfir Rín smíðuð síðan 953. Dómkirkjan var loks vígð 1880, 632 árum eftir fyrstu skóflustunguna. 1881 voru gömlu borgarmúrarnir rifnir til að skapa meira byggingapláss.

1914 töpuðu Þjóðverjar heimstyrjöldinni fyrri. 6. desember það ár hertóku Bretar borgina. Köln tilheyrði að vísu Weimar-lýðveldinu, en í borginni var farið eftir breskum lögum. 1924 var Hansaháhýsið reist í borginni en það var þá hæsta háhýsi Evrópu. Bretar hurfu úr borginni 1926. 4. janúar 1933 hittust Hitler og Franz von Papen ríkiskanslari í Köln til að ræða yfirtöku nasista á stjórn landsins. Köln varð fyrir gífurlegum loftásásum í heimstyrjöldinni síðari. Um 95% af miðborginni eyðilagðist. 6. mars hertóku Bandaríkjamenn borgina nær átakalaust, en áður höfðu nasistar sprengt brýrnar yfir Rín. Borgin var þá nær mannlaus. 1963 heimsækir John F. Kennedy Bandaríkjaforseti borgina.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]
Karnevalsstemning í Köln

Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er 1. FC Köln. Það hefur þrisvar orðið þýskur meistari, síðast 1978, og fjórum sinnum bikarmeistari, síðast 1983.

Maraþonhlaup fer fram í borginni árlega á haustin. Hlaupið var fyrst haldið 1997 og er í tengslum við það einnig hlaupið Maraþon á línuskautum.

Hjólreiðakeppnin Rund um Köln er íþróttaviðburður sem haldinn hefur verið frá 1908. Þar með er hjólreiðakeppnin sú næstelsta innanborgar í Þýskalandi (á eftir Rund um Berlin). Hjólað er í kringum og í gegnum borgina og er nær öll borgin hertekin af hjólreiðafólki í heilan dag meðan keppnin stendur yfir.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Karneval er stærsta hátíðin í borginni. Hér er um skrúð- og skrautgöngur að ræða og heimsækja um 2 milljónir manna þessa hátíð.
  • Cologne Pride er stærsta gleðiganga samkynhneigðra í Þýskalandi. Hún fer fram fyrstu helgi í júlí og dregur til sín um milljón gesti.

Köln viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Severinshliðið
  • Dómkirkjan í Köln er ein þekktasta dómkirkja Þýskalands. Hún er jafnframt næsthæsta kirkjan í Þýskalandi með 157 metra (á eftir dómkirkjunni í Ulm) og þriðja hæsta í heimi. 1880-1884 var kirkjan meira að segja hæsta bygging heims. Í kirkjunni eru líkamsleifar vitringanna þriggja. Í gegnum tíðina hafa frægir menn skilið eftir sig eiginhandaráritun á innri veggi kirkjunnar, til dæmis Jóhannes Páll páfi II., karlalandsliðið í knattspyrnu o.fl.. Kirkjan er mest sótti ferðamannastaður Þýskalands. Hún er á heimsminjaskrá UNESCO.
  • Postulakirkjan er ákaflega sérkennilega hönnuð kirkja í Köln. Hún var reist á 12. öld á stað þar sem áður hafði staðið kirkja og helguð postulunum. Á þeim tíma var kirkjan hins vegar fyrir utan borgarmúrana. Hún komst ekki ‚inn í‘ borgina fyrr en múrarnir voru víkkaðir á 13. öld. Kirkjan er þekkt fyrir seríu höggmynda af verndardýrlingum.
  • Pantaleonskirkjan er orðin mjög gömul kirkja. Hún var reist á 9. öld og kemur fyrst við skjöl 864. Það var Theophanu, eiginkona Ottos II keisara, sem lét reisa kirkjuna, en hún var frá Býsans. Auk þess var þar munkaklaustur. 1618 eru framkvæmdar miklar viðgerðir á kirkjunni í barokkstíl. 1757 hrundi annar turninn. Klaustrið var leyst upp á Napoleonstímanum og var þá kirkjan sjálf notuð sem hesthús. Í loftárásum seinna stríðsins skemmdist kirkjan töluvert. Í viðgerðum eftir það var reynt að endurvekja rómanska (upphaflega) stílinn og lauk viðgerðum 1963.
  • Severinstor er stórt hlið úr gamla borgarmúrnum, reist á 12. öld. Það snýr til suðurs og var suðurinngangur inn í borgina. 1235 heilsuðu hér borgarbúar Ísabellu prinsessu frá Englandi, en hún var þar á ferð til að giftast Friðriki II keisara. Eftir að borgarmúrarnir voru rifnir 1881, var sett náttúrusafn inn í hliðið, seinna heilsusafn. Í dag er hliðið opinber sorgarstaður Kölnarbúa. Rýmin inni er hægt að leigja fyrir viðburði.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 153.

Fyrirmynd greinarinnar var „Köln“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.