Austrómverska keisaradæmið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Býsans)
Jump to navigation Jump to search
Austrómverska keisaradæmið þegar það var stærst, árið 550.

Austrómverska keisaradæmið (oft einnig kallað Býsansríkið eða Miklagarðsríkið) var ríki sem varð til þegar Rómaveldi var varanlega skipt í tvennt, árið 395.[1] Hitt ríkið var kallað það vestrómverska.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Skipting Rómaveldis í austur og vestur átti rætur sínar að rekja til ársins 285 þegar Diocletianus og Maximianus skiptu með sér völdum. Ríkið var aftur sameinað undir einum keisara árið 324 þegar Konstantínus mikli stóð uppi sem sigurvegari í baráttu við Licinius. Árið 330 gerði Konstantínus Konstantínópel (sem áður hét Byzantion) að nýrri höfuðborg Rómaveldis og varð borgin síðan höfuðborg Austrómverska ríkisins. Eftir dag Konstantínusar var Rómaveldi ýmist stjórnað af einum, tveimur eða þremur keisurum í senn. Árið 394 tryggði Theodosius 1. stöðu sína sem keisari yfir öllu heimsveldinu en þegar hann lést árið 395 var ríkinu skipt í austur og vestur á milli sona hans Arcadiusar og Honoriusar. Þessi skipting Rómaveldis reyndist vera varanleg og var helmingunum tveimur stjórnað af mismunandi keisurum þangað til Vestrómverska keisaradæmið leið undir lok árið 476 og það austrómverska stóð eitt eftir.

Ríkið náði mestri útbreiðslu á valdatíma Justinianusar 1., sem var keisari á árunum 527 – 565, en hann stefndi að því að vinna á sitt vald öll þau landssvæði sem áður höfðu tilheyrt Rómaveldi. Þessi stefna Justinianusar tókst ekki en honum tókst þó, með hjálp Belisariusar, helsta hershöfðingja síns, að leggja undir sig bæði Norður-Afríku, af Vandölum, og Ítalíu, af Austgotum. Fljótlega eftir dauða Justinianusar fór ríkið þó að minnka aftur því árið 568 réðust Lombarðar inn í Ítalíu og hertóku stóran hluta skagans.

Á 7. öldinni misstu Austrómverjar öll sín landsvæði fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku í hendur Araba. Auk þess misstu þeir stór landssvæði á Balkanskaganum í hendur Búlgara.

Ríkið fór aftur að stækka undir stjórn Leo 3. (717 – 741), og á næstu öldum styrktist staða þess á Balkanskaganum og í Anatólíu. Ríkið náði nýjum hápunkti á tíma Basileiosar 2. (976 – 1025) og náði á þeim tíma frá suður-Ítalíu í vestri til Armeníu í austri.

Eitt stærsta áfallið sem dundi á Austrómverska keisaradæminu í sögu þess var þegar krossfarar fjórðu krossferðarinnar, sem voru á leið til Egyptalands, flæktust inn í deilur á milli Feneyinga og Austrómverja. Afleiðing þessa var sú að krossfararnir réðust inn í Austrómverska ríkið og hertóku Konstantínópel árið 1204. Krossfararnir stofnuðu þá ríki með höfuðborg í Konstantínópel sem kallað hefur verið Latneska keisaradæmið og stóð til ársins 1261. Þrjú önnur ríki urðu til á þeim svæðum sem áður tilheyrðu Austrómverska ríkinu. Stærst af þeim var Keisaradæmið í Níkeu sem árið 1261 náði aftur Konstantínópel á sitt vald og endurreisti þar með Austrómverska keisaradæmið.

Keisaradæmið stóð til allt fram til ársins 1453 (þó í nokkuð mikið smækkaðri mynd), þegar Tyrkir náðu loks Konstantínópel. Það var helsta vígi rétttrúnaðarkirkjunnar, enda patríarkinn í Konstantínópel opinberlega „fremstur meðal jafningja“ af leiðtogum kirkjunnar.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. stundum er miðað við stofnun Konstantínópel eða Miklagarðs árið 330 og stundum er miðað við árið 476 þegar vestrómverska ríkið féll og einungis austrómverska ríkið stóð eftir
  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.