Dómkirkjan í Ulm
Dómkirkjan í Ulm er kirkja sem borgarbúar í Ulm reistu að eigin frumkvæði. Hún er ekki eiginleg dómkirkja þó hún gangi undir því nafni, enda aldrei verið biskupsstóll. Turn kirkjunnar er 161 metra á hæð sem gerir Dómkirkjuna í Ulm að hæstu kirkju í heimi. Hún er helsta kennileiti borgarinnar.
Saga dómkirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Forsaga
[breyta | breyta frumkóða]Fram á 14. öld stóð kirkja borgarinnar utan borgarmúranna, u.þ.b. 1. km frá borginni. Kirkjusókn var því erfið og oft var kirkjan óaðgengileg, ekki síst á stríðstímum. Kirkja sú var jafnframt tákngervingur fyrir það vald sem kaþólska kirkjan hafði á borgarbúum. Því kom fram sú ósk að fá að reisa nýja kirkju innan borgarmúranna. Borgarbúar ákváðu að fjármagna byggingu hennar sjálfir, en íbúar Ulm voru tæplega 10 þús á þessum tíma. Engu að síður tók borgarstjórn þátt í viðleitni borgarbúa og áætlanir voru gerðar um að smíða ‚mjög háa‘ kirkju.
Fyrra byggingaskeið
[breyta | breyta frumkóða]Borgarstjórinn sjálfur lagði grunnstein kirkjunnar 30. júní 1377. Framkvæmdir hófust strax á eftir. Nokkrum sinnum var skipt um byggingameistara, þar sem þeim entist ekki aldur til ljúka verkinu. Árið 1405 var fyrsta skipið fokhellt og fór þá fyrsta vígslan fram. Þakið var þá bara einfalt bráðabirgðaþak. Eftir það voru messur haldar í kirkjunni en á virkum dögum var framkvæmdum haldið áfram. Árið 1492 komu fyrstu skemmdir fram. Þakið var of þungt fyrir hið háa skip. Því þurfti að rífa niður hliðarskipin og lækka þau. Þrátt fyrir það er hallinn á einum veggnum enn 27 cm í dag. Árið 1531 fóru siðaskiptin formlega fram í Ulm. Þá æddi múgur manna inn í kirkjuna, sem og aðrar kirkjur, og eyðilagði helgimyndir og önnur listaverk. Í dómkirkjunni sjálfri voru ein 60 öltöru eyðilögð, ásamt viðeigandi altaristöflum. Aðeins örfáum var hægt að bjarga. Árið 1543 stöðvuðust allar framkvæmdir. Þar kom til innri órói, ófriður út á við og auðvitað fjárskortur. Kirkjuturninn var þá 100 metra hár og var þá þegar meðal hæstu kirkjuturna heims. Ekkert var gert í 300 ár en á þeim tíma geysuðu nokkrar þungbærar styrjaldir.
Seinna byggingaskeið
[breyta | breyta frumkóða]Með iðnbyltingunni jókst velmegun borgarinnar á ný. Árið 1844 var ákveðið að framkvæmdum við kirkjuna skyldi haldið áfram. Byrjað var að gera úttekt á múrum og burðarvirki. Þegar það reyndist í lagi var smíðinni framhaldið. Kórturnarnir voru hækkaðir í 86 metra hæð, en aðalturninn var hækkaður í 161 metra. Hann fór þar með fjóra metra fram yfir dómkirkjuna í Köln, sem var og er 157 metra há (og í dag þriðja hæsta kirkja heims). Framkvæmdum var lokið 1890 og fóru 29. júní fram mikil hátíðarhöld þar sem 320 manna kór söng.
Loftárásir
[breyta | breyta frumkóða]Þann 17. desember 1944 varð Ulm fyrir gríðarlegum loftárásum bandamanna. Áður höfðu miðaldagluggarnir í kórnum verið teknir úr kirkjunni og varðveittir annars staðar. Aðeins þeir sem settir voru upp í framkvæmdum á 19. öld voru skildir eftir. Það var kraftaverki líkast að kirkjan skuli hafa sloppið við sprengjuregnið, því nær allar byggingar í kring voru eyðilagðar. Reyndar sprakk ein sprengja á kórnum. Hún olli þó litlum skaða en enn í dag koma fram litlar sprungur í veggjum kórsins. Hins vegar eyðilögðust allir gluggar vegna höggbylgna sprenginganna fyrir utan. Eftir stríð voru miðaldagluggarnir aftur settir í.
Listaverk
[breyta | breyta frumkóða]Mörg listaverk eru í kirkjunni, þrátt fyrir að múgurinn hafi eyðilagt mörg listaverk frá miðöldum í upphafi siðaskiptanna.
Gluggar
[breyta | breyta frumkóða]Elstu gluggar kirkjunnar eru í kórnum. Þeir eru 15 metrar háir og eru allir með litað gler og haldið saman með blýstrimlum. Gluggarnir voru smíðaðir á hinum og þessum verkstæðum. Elsti glugginn er frá 1385 og er gerður úr mýmörgum smærri myndum. Þær sýna atriði úr ævi Maríu mey, Jósefs og Önnu (móður Jóhannesar skírara). Glugginn er ómetanlegt listaverk og samanstendur úr nokkur hundruð litlum rúðum. Aðrir gluggar kórsins eru í svipuðum stíl og eru svipaðir gamlir. Þó er einn glugginn nokkuð eldri. Hann er frá 1480 en svo virðist sem hann hafi komið í stað eldri glugga. Allir þessir gluggar voru teknir niður og varðveittir á öruggum stað meðan heimstyrjöldin síðari geysaði. Enda fór svo að allir bráðabirgðagluggar kirkjunnar eyðilögðust í loftárásum 1944. Miðaldagluggarnir voru settir upp á ný eftir stríð og prýða kirkjuna enn í dag.
Kórbekkir
[breyta | breyta frumkóða]Kórbekkurinn í kirkjunni er langur bekkur, eða röð af bekkjum, í kórnum. Kórbekkur þessi í gotneskum stíl er sá þekktasti og einn fegursti í Þýskalandi. Hann var smíðaður 1469-1474 og er 18 metra langur. Bekkirnirnir eru tveir, gegnt hver öðrum við veggi kórsins. Milli sæta á öðrum bekknum eru styttur af þekktum einstaklingum í sögunni og má þar nefna Pýþagóras, Cíceró, Ptólemajos, Virgil og marga fleiri. Á hinum bekknum eru þekktar konur úr sögunni, þar af að minnsta kosti sjö með heitið Sibylla.
Altaristafla
[breyta | breyta frumkóða]Gamla altaristaflan frá miðöldum eyðilagðist af múgnum í siðaskiptunum 1531. Ekki var búin til ný altaristafla sérstaklega, heldur var minni altaristafla sótt annars staðar frá og sett upp í kirkjunni. Hér er um útstæða höggmyndaseríu að ræða, sem gefur myndinni allri mikla dýpt. Hún var hins vegar stækkuð með tveimur hreyfanlegum vængmyndum frá 1521, þannið að hægt væri að loka töflunni. Fyrir neðan var svo mynd af síðustu kvöldmáltíðinni bætt við, en sú mynd er frá svipuðum tíma. Því er stíll myndanna ekki sá sami, þar sem myndirnar eru eftir þrjá mismunandi listamenn. Engu að síður er altaristaflan hin fegursta.
Annað markvert
[breyta | breyta frumkóða]Í turninum eru 13 bjöllur. Þær voru ekki rafvæddar fyrr en 1953 og þangað til varð kirkjuþjónn, oftar en ekki unglingur, að knýja þær með handafli. Sú stærsta þeirra er 4,9 tonn. Sú elsta er frá síðari hluta 14. aldar og er 900 kg.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Ulmer Münster“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.